SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. desember 2023

METSÖLUHÖFUNDI HAFNAÐ

Minningaskrínið eftir Kathryn Hughes var kosið besta, þýdda skáldverkið af starfsfólki íslenskra bókaverslana í ár. Verkið nýtur einnig fádæma vinsælda rétt eins og hinar tvær sögur hennar sem hafa komið út í þýðingu Ingunnar Snædal. Fyrsta bókin, og frumraun Kathryn, er Bréfið sem kom út árið 2021 og árið eftir rataði Leyndarmálið í bókabúðir. Leið Kathryn að vinsældunum var þó býsna löng og nokkuð grýtt.

Kathryn fæddist árið 1961 í Altrincham, nálægt Manchester á Englandi. Eftir að hafa alið upp tvö börn og starfað sem einkaritari í um þrjátíu ár settist hún við skriftir. Það gekk þó býsna brösuglega fyrir Kathryn að finna útgefanda fyrir sitt fyrsta verk.

Kathryn hefur sagt frá því að hún hafi fengið hugmyndina að sögunni Bréfið árið 2007 en þar sem hún hafi verið í fullri vinnu utan heimilis auk þess að ala upp tvö börn hafi henni orðið lítið úr verki á þeim tíma. Árið 2012 tókst Kathryn þó loks að klára söguna og hafi mömmu hennar litist vel á. Hún sendi því handritið til útgefenda og þurfti ekki að bíða lengi eftir svari því fljótlega barst henni höfnunarbréf og svo annað og enn fleiri þar til þau fylltu tylftina. Hún ákvað því árinu síðar að gefa söguna út sjálf. Henni fannst hún vera búin að vinna of lengi að henni til að hún lægi síðan aðeins ofan í skúffu.

Rafræn útgáfa var orðin nokkuð vinsæll útgáfuvettvangur og sló Kathryn til þrátt fyrir að hana óaði við því að í Kindle versluninni einni voru yfir tvær milljónir bóka. Hún velti fyrir sér hvernig fólk gæti yfirleitt fundið bók hennar. Hún var ekki með aðgang að einhverri auglýsingamaskínu eða einhverju viðlíka til að koma sér á framfæri. Hún var að vísu með Twitter en þar átti hún fjóra fylgjendur sem allir voru fjölskyldumeðlimir. Vinir hennar voru þó duglegir að birta jákvæða dóma sem og fáeinir bókabloggarar sem fengu aðgang að fríu eintaki. Þetta hafði áhrif því tíu mánuðum síðar var Kathryn búin að selja nokkur hundruð eintök. Hún bauð einnig bókina fría í fáeina daga og höluðu þá um 10.000 manns henni niður. Bókadómar þeirra og athugasemdir skiluðu sér til annarra og fór þá sagan að klífa upp metsölustigann allt þar til hún trónaði í efsta sætinu.

Þessar miklu vinsældir Bréfsins fóru ekki fram hjá Mari Evans hjá Headline Publishing Group sem fékk einn ritstjóra sinna til að lesa bókina. Sá varð stórhrifinn og í kjölfarið bauðst útgáfufyrirtækið til þess að gefa söguna út á bókarformi. Nú er svo komið að sagan hefur verið þýdd á 25 tungumál og selst hafa milljón eintök.  

 

Myndin af Kathryn er fengin af vefsíðunni Nona.

Tengt efni