SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. febrúar 2024

ÞÆR ÞRIFUST Í MYRKRI, VIÐ BARÁTTU OG BAKS

Þórhildur Sveinsdóttir (1909-1990) sendi frá sér tvær ljóðabækur, sú fyrri Í gær og í dag kom út árið 1968 og seinni bókin, Sól rann í hlíð, árið 1982.

Lítið fer fyrir umfjöllun um bækurnar en þó stakk Sigríður nokkur Björnsdóttir niður penna þegar ljóðabókin Í gær og í dag kom út og fjallaði stuttlega um hana í Morgunblaðinu þann 22. september árið 1968. Sigríði finnst ljóðin notalega hlý og fáguð og er einna hrifnust af ættjarðarkvæðum hennar. Þá tínir hún til nokkur önnur sem eiga það öll sammerkt að geyma samúð skáldkonunnar með ,,öllu og öllum sem misgengizt hafa og útundan orðið á leiksviði lífsins." Þar á meðal er kvæðið um Krækilöpp.

Krækilöpp reynist vera draugur. Sagan segir að það hafi sést til stelpu í kofa úti á túni á Litlu-Leifsstöðum. Stúlkan var tökubarn sem farið var mjög illa með. Hún átti að hafa hengt sig í þessum kofa og síðan gengið aftur. Einu sinni taldi faðir Þórhildar sig hafa séð þarna halta stelpu og var krepptur á henni annar fóturinn. Að minnsta kosti skynjuðu skepnurnar eitthvað því það gekk oft illa að setja hesta þarna inn. Hér má hlýða á stutta frásögn Þórhildar af Krækilöpp.

Ekki er mikil fyrirferðin á Krækilöpp i þjóðsögunum, hún virðist hvorki koma við sögu hjá Jóni Árnasyni né Ólafi Davíðssyni. Þá er hún ekki heldur nefnd í safni Þórbergs Þórðarsónar og Sigurðar Nordal eða Grímu hinni nýju. Hins vegar lifnar hún við hjá Birgittu Halldórsdóttur, í samnefndri smásögu sem birtist í Húnavöku 1. maí árið 1996. Mögulega hefur Birgitta sótt að einhverju drauginn í ljóð Þórhildar en í meðförum Birgittu er draugsi orðinn að kerlingu. Hún hafði þó einnig hengt sig í kofa en sá var löngu ónýtur og í stað hans komið hesthús. Þá hafði þessi gamli draugur fært sig um set og hélt hann sig í hesthúsinu. Sagt var að Krækilöpp ,,héngi í loftinu og geiflaði sig og glennti þegar dimmt væri orðið og léti kerlingin á allan hátt ófriðlega. 

Ljóð Þórhildar um Krækilöpp byggir á fyrrgreindri frásögn sem hún hefur frá föður sínum og er öllu átakanlegri, en frásögn Birgittu, þar sem um barn er að ræða, Þá er Krækilöpp berlega fulltrúi fjölda stúlkna og kvenna sem hafa lifað öldum saman ,,við amstur og þrotlaust bags." líkt og segir í öðru erindi kvæðisins:

 

Krækilöpp

Ein hálfgleymd saga á hugann knýr
og hjartanu er ekki rótt,
hún vefst fyrir mér, hin válega sögn,
ég vakti í alla nótt,
því einmitt það, sem við óskum að gleyma,
að okkur lengst fær sótt.
 
Þær koma út úr rökkrinu, ein og ein,
án ártals og mánaðardags,
svo hafa þær lifað, öld eftir öld,
við amstur og þrotlaust bags.
Þær þrifust í myrkri, við baráttu og baks
og buðu til samkomulags.
 
En heimska og öfund sér hösluðu völl,
og hjátrú í öndvegi gekk - 
og illvirki þróuðust einmitt þar
með óvininn fremstan á bekk.
Og fávís almúginn öllu trúði,
en aulinn í snörunni hékk.
 
Ég les mér oft til um liðna tíð,
mig laðar hin aldna sögn
og ýmislegt er þar athyglisvert,
þótt alltof víða sé þögn,
og sitthvað er hægt milli línanna að lesa,
þá leiftra hin dulþrungnu mögn.
 
Í kofadyrunum Krækilöpp stendur
og kreppir sinn vinstri fót,
hún skælir sig alla, það skrjáfar í tötrum,
og skýst inn í myrkrið fljót,
þessi örsmáa vera, úr ógnarveröld,
svo afskræmislega ljót.
 
Það hótuðu allir þá heljar-snót
og hvernig hún gretti sig þó.
Hestarnir frýsuðu og hlupu brott,
þeir hræddust það kofa-hró,
því Krækilöpp var þarna sífellt á sveimi
síðan um haustið hún dó.
 
Þeir sögðu' hana eins og sjö vetra barn,
þeir sögðu að hún gréti um nótt.
Það vissi á neyð, og norðanátt,
það nötraði, og engum var rótt.
Þeir formæltu ágengni vondra vætta
og völdu þeim orðbragð ljótt.
 
Hver hefur gert svo á hluta þinn
að heljar þú valdir stig?
Áttir þú kannske enga móður,
voru allir sem smáðu þig?
Ég spyr án afláts, en enginn svarar,
óttinn heltekur mig.
 
Þráði hún lífið þrátt fyrir allt?
En þannig er æskan gjörð.
Og þessvegna er hún alltaf á sveimi
útlæg frá guðsbarna hjörð,
dæmd til að flækjast um aldur og ævi
ein, og hrakin á jörð.
 
Þeir grófu' hana eflaust án yfirsöngs,
og alls ekki í vígðum reit,
en kvöldið sama, það sótti að presti
og svip á skjánum leit.
Hann fékk sér einn gráan, svo fór hann í rúmið,
það var fátt, sem á karlinn beit.
 
Hann vaknað fölur í morgunmund,
því margt hafði' hann dreymt þá nótt.
Í kirkjuna gekk hann og krossaði sig,
en hvarf þaðan aftur hljótt.
Í morgunandagt og messuvínstár
svo margskonar huggun er sótt.
 
Ég kenni í brjósti um þig, Krækilöpp
og kvölin þín heltekur mig.
Í hljóði sendi ég heita bæn 
að himinninn náði þig.
Ó, biðjið þið með mér, mæður og dætur
að myrkranna flýi hún stig.
 
Því meinvættið stærsta er myrkrið í sál
er mennirnir hlúa að,
þeir eiga sér drauga um andvökunótt
og angistin vitnar um það.
Ó bjóð þú ljósinu í bæinn þinn
og búðu því samastað.
 
(bls. 39-43)

 

Tengt efni