MÓÐIR, KONA, MEYJA: MATTHÍAS JOCHUMSSON OG KONURNAR eftir Helgu Kress
(Greinin birtist fyrst í Skírni, vorhefti 2007)
hin milda snót, sem Goethe kvað.1
I
Eitt af því fyrsta sem ritað var opinberlega um skáldskap íslenskra kvenna er ítarlegur ritdómur Matthíasar Jochumssonar í 1. tölublaði 1. ár gangs Lýðs árið 1888 um tvær þá nýútkomnar bækur, Nokkur smákvæði eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum og söguna Kaupstaðarferðir eftir Ingibjörgu Skaptadóttur. Ritdómurinn sem er á forsíðu blaðsins byrjar svo:
Þegar skáldkonan frú Torfhildur Holm lét sín fyrst getið, var það nýmæli í vorri þjóðmenningarsögu, að íslenzkar konur semdu rit eða bækur. Í vetur héldu 2 ísl. stúlkur opinbera fyrirlestra um menntunarefni, og nú liggja fyrir framan oss 2 rit, annað kveðlingar en hitt skáldsaga, sitt eptir hvern kvennhöfund. Þetta er því eftirtektaverðara, sem kvennfólki voru er enn þá lítill menntstyrkur veittur og fæstar, ef nokkrar, þessara höfunda hafa nokkurrar skólakennslu notið.2
Á vissan hátt markar þessi ritdómur tímamót í sögu íslenskra kvennabókmennta, þó ekki væri nema fyrir það, að með honum eru þessar bókmenntir gerðar sýnilegar og teknar alvarlega. Í honum staðsetur Matthías skáldskap kvennanna gagnvart ríkjandi bókmennta-hefð karla og tengir réttilega vaknandi kvenréttindabaráttu sem á þessum tíma fólst fyrst og fremst í kröfu um menntun. Hann hrósar þeim fyrir tungumálið sem sé oft betra en hjá lærðum mönnum: „Maður mætti hugsa: einhver munur hlýtur þó að sjást á þessari kvenna-íslenzku og hinni hálærðu!“ En því hafnar hann og vottar þessum „tveimur stúlkum í sameiningu fulla viðurkenningu fyrir þeirra fagra, lipra og furðanlega hreina mál“. Í kvæðum Ólafar, segir hann, má sjá „töluverða kveðskapargáfu“ og „marka þau eins og fyrir nýju spori í bókfræði vorri hvað bókfræði kvenna snertir“. Að kveðskaparlist standa öll kvæðin „hér um bil jafnfætis kveðlingum vorra ‚lærðu‘ skálda“. Þrátt fyrir úrdráttarorð eins og „töluverður“, „hér um bil“, og „furðanlega“ má í þessum ritdómi sjá einlægan áhuga Matthíasar á skáldskap kvenna og stuðning hans við kvenréttindabaráttuna. Þessu fylgir hann einnig eftir í síðari tölublöðum Lýðs eða svo lengi sem það blað kom út. Þannig vekur hann t.a.m. athygli á Torfhildi Hólm með svohljóðandi frétt um komu hennar til landsins í blaðinu 28. ágúst 1889:
Frú Torfhildur Holm, skáldsagnahöfundurinn, er aptur kominn til landsins og dvelur um stund að Höskuldsstöðum hjá systur sinni. Hún hefir enn samið allmikla skáldsögu, sem byrjað er að prenta. Óskandi væri að alþýða vor vildi keppast við að sýna þessari gáfuðu konu, og fyrsta íslenzka rithöfundi hennar kyns, allan sóma og velvild — meðan hún lifir. Margir menn og konur fá fulla viðurkenning, en heldur seint. Margir af vorum andans mönnum hafa orðið að lifa sem beiningamenn.3
Þá birtir hann ítarlegan og vel rökstuddan ritdóm um skáldsögu hennar Eldingu í blaðinu 14. apríl 1890 þar sem hann bendir á að hún hafi fyrst Íslendinga orðið til þess að nota „vorn mikla sagnafjársjóð fyrir yrkisefni“, haft „hetjuþor“ til að „rjúfa þennan sagnahaug“ og „framleiða þaðan skáldsögusmíði, sem, þó eigi sé fullkomið,“ muni lengi geyma nafn hennar og „bera vott um mikið kvennþrek, háa sál og heitar tilfinningar“.4 En þetta eru jafnframt þeir eiginleikar sem Matthías metur mest í fari kvenna.
Tuttugu árum síðar verður Matthías fyrstur til að fjalla um fyrstu ljóðabók Huldu, Kvæði, með ritdómi í Norðra 23. september 1909 — og á það bendir hann sjálfur, svo ákafur er hann að koma fram sem talsmaður kvennabókmennta. Hann segir: „Það er ófalsað ljóðasmíði, sem skáldmærin Hulda býður hér bræðrum sínum og systrum. Og því flýti eg mér að verða fyrstur til, sem einn hinna elztu ljóðvina landsins, að senda henni hlýja heillaósk og þakklæti fyrir gjöfina!“ Hann leggur áherslu á hvað hún er ung, þótt hún hafi ekki beinlínis verið það, 28 ára, þegar bókin kom út, og hrósar henni fyrir að vera „barnsleg og einföld, aldrei sjúk (dekadent)“, eins og ætla mætti að hann telji karlskáldin. „‚Dogmatíska‘ tungu kann hún ekki“, en kveður með „næmleik kvenhörpunnar, sem ómar í heimahögum sínum og fjarri skarkala lífsins“. Svo innblásinn er hann af ljóðum Huldu að ritdómurinn leysist upp í hans eigin ljóð um skáldkonuna og endar svo:
Því lifðu lengi — lengi,
þú ljúfa Huldubarn!
og stráðu ljóða-liljum
á lífsins vetrarhjarn!5
Matthías var þó ekki fyrstur til að uppgötva Huldu. Nokkur kvæði eftir hana höfðu áður birst í tímaritum undir sama dulnefni sem virðist eitt og út af fyrir sig hafa orkað tælandi á karlskáldin og leyst hrifningu þeirra úr læðingi. Þannig skrifaði Þorsteinn Erlingsson langa grein um fyrstu kvæði hennar undir nafninu „Huldupistill“ og birti í Þjóðviljanum 15. júní 1905. Þar kallar hann skáldkonuna „litla söngvarann“, „litla skáld“ og „sterka barn“ sem þýtur um smáu leynin sín eins og fiðrildi eða huldustúlka: „Og svo kallaði hún sig Huldu.“6 Hrifnastur er hann af þulum hennar sem verða honum tilefni til að yrkja sjálfur þulu og hana um skáldkonuna. Þulan, „Í vísnabók Huldu“, birtist á forsíðu Þjóðviljans 9. september 1905 og hefst svo:
Lítil snót með hörgult hár
hefur ljós á enni;
ef jeg væri álfur smár
yndi jeg mér hjá henni.
Enginn liti ljúfar á
litla huldusveina;
gott er að eiga geisla þá,
gaman væri að reyna.
Þá ritaði Þorsteinn heilsíðugrein um ljóðabók Huldu í Fjallkonuna 29. júní 1910 þar sem hann ver „veslings litla huldubarnið“ fyrir neikvæðum ritdómum. Hann sniðgengur alveg jákvæðan ritdóm Matthíasar en segist vel skilja að „ritdómendurnir í Kirkjublaðinu og Eimreiðinni eigi erfitt með að skilja huldustúlkur“.8
Íslenskar skáldkonur leita mjög til Matthíasar með kvæði sín, eins og m.a. má sjá af bréfum þeirra til hans, en hann skrifaðist alla tíð mjög á við konur, og þá einkum skáldkonur. Ein þeirra er Halla Eyjólfsdóttir á Laugabóli, en af bréfi Matthíasar til hennar frá 30. maí 1918 kemur fram að hún hefur sent honum handrit að kvæðabók og spurt hann hvort hann álíti kvæðin þess verð að koma á prent. Hann mælir eindregið með því ef hún fái einhvern til að aðstoða sig við að búa handritið úr garði. Sjálfur treysti hann sér ekki til þess vegna elli og sjóndepru. „Svo spyrjið þér hvort ég álíti yður vel hagorða. Jeg svara: jeg álít yður skáld, gott skáld. Framan af syrpunni fundust mér ljóð yðar fremur vera laglegur kveðskapur en skáldskapur. En þegar í miðja bókina kom, voruð þér orðin eitthvert helzta kvenskáld á Íslandi.“ Þrátt fyrir takmarkaða menntun sem hún hljóti að hafa fengið í æsku hafi hún „undarlega vel fylgt því bezta í tíðinni, og þó varðveitt trú og siðgæði, sem stórskáldin sum oft gera lítil skil“.9 Í bréfi til hennar frá 24. júlí 1918 lýsir hann því sem honum finnst frumlegt við ljóðin hennar, en það er „fín og djúp samúðar tilfinning — ekki einungis gagnvart börnum og ástvinum, heldur húsdýrum og kvikindum,“ og sé hún þar „ein um hituna af öllum skáldsystrum“ sínum hér á landi.10
Bók Höllu, Ljóðmæli, kom út árið 1919 og í ódagsettu bréfi til hennar frá því ári segist Matthías hafa lesið upp og látið lesa „allar blessuðu heimilisvísurnar“ hennar „sem gerðu mikla lukku hjá áheyrendunum, sem voru konur og valdar mæður“. Þá eigi barnaljóðin hennar „langt líf fyrir hönd um þrátt fyrir þeirra blessuðu einfeldni (naïveté)“. Þau eru „sigur- og sólarljóð saklausrar móðurástar“ og hafa „ódauðlegt eðli“.11 Í ritdómi um bókina í Lögréttu 13. ágúst 1919 heldur hann áfram að heimilisgera kvæði hennar sem hann er augljóslega ekki jafnhrifinn af og ljóðum Huldu. „Húsfreyjan á Laugabóli gerir engar háar kröfur sem skáld,“ segir hann og „tekur sjaldan til ‚háu tónanna‘.“12 Ljóðmæli hennar „bjóða engan stórfeldan eða frumlegan skáldskap ljóðamarkaði vorum, en hún kveður alþýðuljóðmæli fyrir alþýðu, þótt hún líka bjóði hærri tóna“. Háu tónarnir eru „þar sem konan, móðirin og húsfreyjan kveður um hið inra og hjartfólgnasta í heimilislífinu, einkum alt sem tekur til barnanna“. Hún kveður „með djúpri samúð um hvert kvikindi á eða nálægt heimilinu“, og að lokum segir hann að „stökur um sampíning góðrar húsmóður við svanga mús“ geti gert sig að betri manni en „sjúkar stunur til sjöstjörnunnar“.13 Hér er skáldkonan fyrst og fremst kona, móðir, húsfreyja með það hlutverk að vera mannbætandi. En þetta sjónarmið, að konur bæti mannlífið, og þá einkum karla sem beri að fylgja þeim, gengur eins og rauður þráður um skáldskap Matthíasar.
II
Í ljóðinu „Kvennaslagur“ sem Matthías tileinkaði Hinu íslenska kvenfélagi og sungið var á samkomu þess 25. ágúst 1894 hvetur hann karla í heilagt stríð fyrir málstað kvenna og lýkur því á hetjulegri bardagamynd:
Vér komum, fylgjum, móðir, kona, meyja!
Upp merkið hátt, því góðar dísir eggja!
Fram, fram, og vegum hart til handa beggja!
Í helgu stríði er gott að lifa og deyja!14
Hér aftur komin sú þríeina kona sem Matthías ákallar í „Minni kvenna“, en kvæðið orti hann í tilefni þjóðhátíðarinnar 1874, á því ári sem hann átti í hvað mestu sálarstríði, og það út af konu. Í eftirmála við fyrstu útgáfu Ljóðmæla sinna frá 1884 biður Matthías menn að gæta þess í dómum sínum að þau séu „mestmegnis tækifæriskvæði“, ort á svo tæpum tíma að „hvorki andi né form fær sig eins fullkomlega og frjálslega sýnt, sem endranær, er menn yrkja“. Þannig hafi „þjóðhátíðar-minni“ hans öll orðið til „á einum degi, nema eitt (minni kvenna)“.15 En hann var ekki einungis lengur að yrkja það en önnur kvæði, heldur orti hann ekkert á eftir því í langan tíma. „Ég hef ekki sett saman bögu síðan í vetur ég kvað ‚Minni kvenna‘,“16 segir hann í bréfi til Jóns Bjarnasonar, dagsettu í ágúst 1875. Í sama bréfi segist hann nú vera kvongaður í þriðja og síðasta sinn.
„Minni kvenna“ er sex erindi, það fyrsta og síðasta samhljóða, og þannig fer kvæðið í hring, byrjar þar sem það endar, og endar þar sem það byrjar, í eilífri endurtekningu:17
Fóstur landsins Freyja,
fagra Vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár;
þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár!18
Kvæðið er kvenlegt tilbrigði við „Lofsöng“ sem Matthías orti af sama tilefni — og síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Í báðum ljóðunum koma fyrir landsins þúsund ár, ákallið, tárið og tilbeiðslan.19 Í þjóðsöngnum er það landsins guð sem er tilbeðinn í margendurteknu ákalli:
Ó, Guð vors lands! ó, lands vors Guð,
vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!20
Í „Minni kvenna“ beinist tilbeiðslan að konunni með hliðstæðu orðalagi og sömu upphrópun:
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
„Móðir, kona, meyja“ er því ekki, eins og ætla mætti, lýsing á hinu þríeina og samfélagslega hlutverki konunnar, heldur „Das Ewig Weibliche“ eins og segir hjá Goethe og Matthías vitnar hvað eftir annað til, bæði í bréfum og ljóðum. Þessi frægu lokaorð ljóðleiksins Fausts II um aðdráttarafl hins eilífa kvenleika: „Das Ewig Weibliche / zieht uns hinan,“21 eru þar sungin af himnakór og koma í beinu framhaldi af ákalli jarðnesks karlmanns til þriggja kvenna, sem þó er ein: „Jungfrau, Mutter, Königin.“22 Þetta er litanía, sú sama og í „Minni kvenna“ nema „Königin“,þ.e. drottning, þýska textans er með hljóðlíkingu orðin að „konu“ í þeim íslenska.23 Hún er engu að síður „mannsins króna“ og svo himnesk að „allir englar þjóna / undir merkjum þín“. Móðirin er hin „himinblíða ást“ og meyjan, „mannsins lotning“, ljær „lífsins ljúfu hörpu […] guðamál“, sverðinu sigur og „sætleik bana-skál“.24 Hún er ung, eins og skáldkonan Hulda, skáldskapargyðja og skáldkona í senn, æskan í hinum eilífa kvenleika sem þrá (karl)skáldsins beinist að. Svo eilíf er hin þríeina kona að hún spannar alla tíma og öll trúarbrögð, himnesk jafnt sem heiðin. Þannig er „Minni kvenna“, sem Matthías var svo lengi að yrkja, ekki aðeins tilbrigði við þjóðsönginn, heldur einnig texta Goethes.
III
Hinn eilífa kvenleika tengir Matthías mjög við skáldskap og birtist hann honum því oft í skáldkonum sem hann sóttist eftir að skrifast á við . En skáldkonurnar eiga helst að vera ungar, fagrar, menntaðar, fjarlægar og frjálsar — eitthvað í líkingu við „nýju konuna“ sem var að ryðja sér til rúms í Evrópu við lok 19. aldar — ekki gamlar sveitakonur eins og Halla á Laugabóli (f. 1866) sem var komin á sextugsaldur þegar þau Matthías kynntust eða Ólöf frá Hlöðum (f. 1857) sem „aldrei var ung“ eftir því sem hún sjálf segir.25 Báðar eru þær þó áratugum yngri en Matthías sem fæddur er árið 1835. Í löngum „Kvennabrag“ sem hann yrkir fyrir afmælishátíð kvenfélagsins Framtíðarinnar á Akureyri 21. júní 1914 leggur hann áherslu á hvað hann sem yrkir er orðinn gamall: „Stirðnar orð á öldungs tungu; / aldinn halur líkist draugi.“ Konurnar sem hann ávarpar eru hins vegar ungar, og þeim velur hann skáldleg heiti eins og drósir, snótir, svannar eða yngismeyjar:
Konan — því hún eldist aldrei —
er það tákn, er seint má skýrast.26
Þetta táknlega samband kvenleika, skáldskapar, æsku, fegurðar, menntunar og kvenfrelsis má meðal annars sjá í ljóði sem Matthías sendi vestur-íslensku skáldkonunni Fríðu Sharpe árið 1892 og hann birti síðar að henni látinni í kvennablaðinu Framsókn. Í bréfi til annars ritstjórans, Jarþrúðar Jónsdóttur, dagsettu 29. janúar 1900, fer hann þess á leit að hún birti ljóðið um leið og hann útskýrir tilurð þess og lýsir skáldkounni, kvenhugsjón sinni:
Jeg sendi henni einu sinni fáeinar stökur. Ef jeg finn afskrift af þeim, vil jeg biðja ykkur Ólavíu að lofa þeim að sjást í Framsókn. Þá hafði jeg ekki séð hana, og svermaði þó fyrir henni, síðan við fórum að skrifast á. En meira eftir að ég sá hana í Chicago. Hún var merkilega gáfuð, snotur og interessant, a fascinating, artistic, emancipated, charming little woman, sem hafði einmitt það sem Goethe kallaði das ewig weibliche sem zieht uns hinan. Nú, það fer alt alt alt!27
Kvæðið birtist í Framsókn í maí árið 1900 ásamt eftirmælum Matthíasar um skáldkonuna þar sem hann lýsir henni sem menntaðri heimskonu:
Hún var fríð sýnum og einkar snotur, lipur og glaðleg og gædd fyrirtaks gáfum. Hafði hún og hlotið flesta þá skólamenntun, sem heldri manna dætur fá í stórborgum. Hún var skáldkona og prýðisvel ritfær (á ensku) og sendi opt ritgerðir og dóma um bækur í blöð og tímarit. Hún var söngfróð og málaði (stundum með mikilli snilld) og enga íslenzka konu hefi eg þekkt fjölmenntaðri eða færari að umgangast hinn svokallaða fagra og stóra heim (le beau monde) hvort sem tala þurfti ensku, frönsku, ítölsku eða þýzku. Hún lagði mikla elsku á sína gömlu ættjörð og einkum sögu hennar og kvæði. Það var og hún, sem ein (að því eg veit til) hélt bókmenntum vorum á lofti og ritaði um þær í amerísk blöð, og gerði það með miklum listasmekk.
Þá segist hann eiga bæði bréf frá hennar hendi og ritgerðir, allt á ensku, og væri „sumt af því meir en þess vert að það kæmi á prent á íslenzku“.28 Stökurnar, sem hann kallar svo, eru átta, og hefjast á svipmynd af henni sem ljóshærðu barni „með augu blá og yndisþokka / mín ættlands dóttir hrein og sönn!“ Síðan hverfast þær í einskonar samtal þar sem skáldið bregst við bréfi skáldkonunnar til sín og talar við hana:
Ei kyssir sól og sunnanandi
á sumarmorgni kalda grund
svo yndislega upplífgandi
sem orð þín, svanni, mína lund.
Og aldrei fósturfold þín teigar,
er fyrsti morgungeislinn skín,
eins glatt og lystugt ljóssins veigar —
og línur þínar sálin mín.
Úr skrifuðum orðum hennar sprettur kvæði hans, upplifun hins eilífa kvenleika sem yngir, bætir og lífgar, æðri allri líkamlegri ást:
Eg syng ei hér um Sjafnarfuna,
en satt er enn, eg reyni það,
um eilífð hrífur mannsins muna
hin milda snót, sem Goethe kvað .29
Bréfið frá Hólmfríði Sharpe sem Matthías bregst þannig við með kvæði er ekki að finna í bréfasafni hans. Aftur á móti eru þar fjögur bréf frá henni skrifuð síðar, þ.e. á árunum 1893 og 1894, fyrir og eftir heimsókn Matthíasar til Chicago.30 Af bréfi dagsettu 10. apríl 1894 má sjá að Matthías hefur beðið um ákveðna mynd af henni sem hún vill ekki senda þar sem hún líti ekki nógu vel út á henni eftir veikindi, en lofar að láta taka aðra mynd af sér bráðlega og senda honum. Með bréfinu sendir hún honum hins vegar „the one little verse“ sem hún hafði ort í minningu lítillar bróðurdóttur svo að hann geti „to some extent measured the difference between you and me in the poetic line“. Hún vísar í erfiljóð sem hann hefur sent henni og ber það síðan saman við sitt: „Yours is like a brilliant centifolia, and mine is like the humble wayside flower too obscure to notice, but both are written on similar occasions.“ Ljóð hans er blómstrandi snilld, en hennar auðmjúkt blóm úti í vegkanti sem enginn tekur eftir.
IV
Í bréfi til skáldkonunnar Ólafar frá Hlöðum, dagsettu á Akureyri 25. september 1913, segir Matthías henni frá því að hann sé að hugsa um að láta prenta úrval úr ljóðum sínum og einnig ferðarollu um „túrinn“ sinn vestur, en hann hafði þá um vorið ferðast um vesturland, m.a. Breiðafjörð. Verður þetta honum tilefni til eftirfarandi athugasemdar þar sem hann bregst við orðum Ólafar að því er virðist úr samtali þeirra: Þér segið ég dugi aldrei ef ég nefni ástalífið! Hér er þá nýtt vottorð um það mótsetta úr brag um Breiðafjarðarlífið :
„Hulda mær! á sumarværu sundi
sólargeislum straukstu burt mín tár — .
Hulda mær, í ljúfum draumalundi
liljukrans þú festir mér um brár.Hversu var ég feginn þínum fundi,
feigð er hafði boðið reiður sjár,
og ætíð fyrr en Hrannarhaddur dundi,
hrundi um mig þitt gullna hár.“31
Þetta erindi er úr lengra kvæði sem Matthías nefndi „Til Breiðfirðinga“ og hann birti sama ár í Ferð um fornar stöðvar 1913,32 og í Söguköflum af sjálfum mér.33 Það sprettur af endurminningu um stúlku sem Matthías hreifst af 17 ára piltur í Flatey og hann segir frá á öðrum stað í Söguköflum:
Ég hafði heldur en ekki hug á stúlku, þótt enginn vissi, og sízt hún sjálf. Sú ástríða byrjaði, þegar ég fyrst leit hana augum 1852. […] Þessi stúlka þótti öðrum fremur ófríð en fríð, en svo sýnist mér ekki. Hún var grannvaxin, fölleit og með glóbjart hár og þótti mér einhver ódáinsþokki hrynja með því hári um háls hennar, bak og brjóst.34
Frásögnina fleygar hann með frásögn af annarri stúlku sem hann hafði séð áður á bæ þar sem hann gisti og orðið frá sér numinn eins og hann „brynni allur af einhverjum nýjum yfirheimslegum eldi“. Þessa stúlku sér hann síðan aftur einu sinni eða tvisvar. Hann spyr hana ekki að heiti og mælir aldrei orð við hana „og kulnaði svo út sá“. Í Flatey beið hans svo aftur „vafurloginn“:
Hann settist í blóðið og varð að ástríðu. Og þótt sá áhugi yrði hilling ein og draumur, varðveitti hann mig í margri freistni og innrætti mér óbeit á léttúðugu kvennasýsli; meira að segja, þessi draumur gerði alt fagurt fegra úti og inni, svo að þegar ég var á ferð með félögum mínum og þeir röbbuðu saman eða stríddu hver öðrum með allskonar lausung og hégóma, horfði ég í leiðslu á gullskýin eða silfurblikandi sundin og hið fjöruga sumarlíf eyjanna og undi við minn ástardraum.35
Svo sterk er endurminningin um þennan ástardraum sem bjargar honum frá „léttúðugu kvennasýsli“ að hún er einnig til í ljóði, næsta erindi við ákallið til hinnar huldu meyjar:
Gjálíf sprund og gáskafullir sveinar
gleði nóga fundu í sínum hóp;
hirtu lítt um óð né ástir hreinar,
ertu mig og sumir nefndu glóp.
Þá var ég með hugann hinu megin,
himinsólin þar sem gylti brún;
engin þraut var það að mæla veginn,
þar sem bak við dvaldi hún.36
Sú hulda mær sem Matthías ákallar í ljóðinu og sem huggar og festir um hann liljukransinn er skáldskapargyðjan sjálf. Um leið er hún „Das Ewig-Weibliche“ og „die ferne Geliebte“, eða ástkonan í fjarlægð, sem síðar tákngerist í þeirri breiðfirsku konu sem Matthías þráði en ekki fékk. En það var Jarþrúður Jónsdóttir sem um tíma var ritstjóri kvennablaðsins Framsóknar og hann sendi til birtingar stökurnar um hinn eilífa kvenleika. Svo mjög er hún hin hulda mær að Matthías nefnir hana hvergi í sjálfsævisögu sinni.37 Samskipti þeirra voru þó ekki með öllu orðlaus, en áttu sér stað í bréfum.
V
Jarþrúður Jónsdóttir fæddist árið 1851 og var því sextán árum yngri en Matthías. Hún var af ríkum og frægum breiðfirskum ættum, dóttir Jóhönnu Bogadóttur Benediktssonar á Staðarfelli og Jóns Péturssonar háyfirdómara, bróður Péturs biskups Péturssonar. Hún var mjög menntuð kona á þeirra tíma mælikvarða og mikil kvenréttindakona. Hún hafði verið í útlöndum, kunni tungumál og las og þýddi erlendar bókmenntir, auk þess að vera skáldkona sjálf og því upplögð til að sjá í hillingum og göfga. Eins og frænka hennar, Þóra Pétursdóttir, giftist hún seint, og mun yngri manni, Hannesi Þorsteinssyni (1860–1935), ritstjóra, þjóðskjalaverði og alþingismanni, árið 1889.38 Áður var hún um níu ára skeið trúlofuð skáldinu Þorsteini Erlingssyni og var það á almannavitorði þótt leynt færi.39 Jarþrúður vann mjög að ritstörfum, einkum þýðingum, prófarkalestri og ritstjórn, en orti einnig kvæði sem hún birti í blöðum og tímaritum, m.a. Framsókn og Dvöl sem Torfhildur Hólm gaf út á árunum1901–1917. Þær Jarþrúður voru gamlar vinkonur og áttu í bréfaskiptum á árum Torfhildar vestanhafs. Skemmtilegt er bréf hennar til Jarþrúðar, dagsett í Selkirk, 8. febrúar 1885, þar sem fram koma skoðanir þeirra beggja á giftingum:
Jeg fór yfir síðasta brjefið þitt með sjerstakri ánægju — einkum þar sem þú ert að eggja mig á að giptast, og skoðar það atriði með svoddan makalausri skinsemi þar sem þú segir að jeg geti orðið lukkuleg þó jeg gipti mig ekki af brennandi ást, það er dagsanna — en samt held jeg að ekkert sje svo indælt eins og að sameinast þeim sem maður virðir og elskar, það má vera sá hæðsti unaður þessa heims — jeg er 40 ára gömul alt eins „particular“ í þeim efnum og þegar jeg var 20, og þess vegna er mjer óhætt að segja, er jeg ógipt þann dag í dag og verð líklega til grafar minnar. Það yrði auðvitað higgnara fyrir mig og rólegra líka að giptast góðum og efnuðum manni en slíkir liggja ekki á hraðbergi — og þeir sem til eru, eru þá einhverjum annmörkum hlaðnir eins og við öll erum, og mart gæti það komið fyrir að þó mjer auðnaðist þetta og maðurinn væri vel við efni að jeg yrði litlu ríkari eptir en áður. […] en sleppum nú þessu mjer viðvíkjandi og minnumst heldur á þig, jeg er hrædd um að þú fylgir ekki þessari góðu reglu sjálf annars værir þú ekki ógipt þann dag í dag, illu er þá brugðið, ef þú getur ekki gipt þig ef þú vilt.40
Jarþrúður tók við ritstjórn Framsóknar, blaðs íslenskra kvenna, í ársbyrjun 1899 og ritstýrði því ásamt Ólafíu Jóhannsdóttur í þrjú ár. Blaðið flutti mikið af skáldskap, bæði frumortum og þýddum, en einnig greinar um hannyrðir og húsráð, menningu, menntun og kvenfrelsi, oftast samdar eða þýddar af ritstjórunum. Í nóvemberhefti ársins 1901 birtust á forsíðu fyrstu ljóð Huldu ásamt kynningu á henni, undirritaðri „J“. það mátti ekki tæpara standa því að mánuði síðar hætti blaðið að koma út. Yfirskriftin er „þrjú smákvæði“ og ljóðin eru „þar uni eg bezt”, „Sunnanblær“ og „Kvöldkyrrð “, alls ekki svo smá. Í kynningunni leggur Jarþrúður áherslu á að skáldið sé kona í samfélagi sem karlar ráða og segir:
Framsókn vottar hinni óþekktu Huldu þakkir viðvíkjandi ljóðmælum þessum. Þegar þess er gætt, hversu sáralitla fagurfræðislega menntun menn eiga kost á að öðlast hér á landi, og að konur fara venjulega á mis við þetta litla hrafl, mér liggur við að segja þessa litlu fagurfræðismola, sem einstöku karlmenn geta með mikilli fyrirhöfn veitt sér, þá getur manni ekki annað fundizt, en að kvæðið „Kvöldkyrrð“ sé ort af meiri list, en búizt verður við af ungri sveitastúlku.
„Vindurinn þorir varla að anda,
kyrrðin byrgir við barm sinn allt.“
Þetta er bæði meyjarlegt og móðurlegt og jafnframt fagurlega að orði komizt.41
Það var því Jarþrúður Jónsdóttir sem með sínu sjónarhorni uppgötvaði Huldu, móðurina, meyjuna, og skrifaði um hana fyrst, langt á undan þeim Þorsteini Erlingssyni og Matthíasi Jochumssyni.
VI
Bréf Matthíasar til Jarþrúðar sem varðveist hafa eru alls 38, öll hingað til óbirt.42 Það fyrsta er skrifað 27. júní 1874, skömmu eftir að Matthías kemur úr langri utanlandsferð, m.a. til Skotlands þar sem hann samdi textann við þjóðsönginn.43 Þegar hér er komið sögu er Matthías 38 ára. Hann hefur misst tvær eiginkonur en hefur í janúar þetta ár eignast barn með bóndadóttur á Kjalarnesi, Guðrúnu Runólfsdóttur, sem síðar varð konan hans. Bréf Matthíasar til Jarþrúðar er bónorðsbréf. Það hefst svo:
Ástúðlega fröken!
Eg neyðist til að skrifa yður nokkur orð. Ef þér reiðist mér, trúi eg samt veglyndi yðar til þess að láta engan lifandi mann finna né lesa hvað eg skrifa. Tilfinningar yðar þekki eg ekki, en eg veit að þér hafið háa og hreina sál, og því dirfist eg og hefi dirfst að hætta á stórræði yðar vegna. Fyrir löngu hafið þér gjört stór áhrif á mig, en í stríði mínu og einhverri blindni og hugleysi — eg veit ekki hvað þá var í vegi — áræddi eg ekki að líta til yðar. Jeg hélt að eg ætti endilega að fara heim (í hitteðfyrra) á Kjalarnes til að deyja.44
Síðan játar hann á sig freistingar sem hann hafi þar fallið fyrir „í siðferðislegu tilliti“, hann hafi reynt að finna ró þar sem hann fann enga ró, og hafi það verið honum sjálfum að kenna.
En eg hafði leiðst of langt — vansinn og vandræðin, sem mér voru makleg, voru komin, og þá komuð þér með óstöðvandi afli í huga minn, og eg reif mig lausan með stórri áreynslu og krafti. Jeg hafði altaf sagt stúlkunni eins og mér bjó í brjósti, og aldrei logið að henni og margsagði henni fyrir, að hún skyldi búast við að missa mig með einhverju móti. Þegar jeg sigldi var beitt þykkju við mig, sem von var, en eg hafði ekki brjóst á að brjóta um þvert; eg geri það svo varlega sem eg get, og hef ekkert sagt því enn — nema að eg vildi ekki binda mig. En hvernig gat [eg] haft vonir þegar svona var komið? Þetta dirfist eg varla að segja yðr, því eg er svo hræddur um að þér fyrst reiðist og misskiljið mig svo. Nei! Þér eru svo göfug og góð: Þér hafið í laumi ýmist undrast eða aumkað mitt stríð og baráttu. Þér hafið vona eg tekið eftir í haust að mér var ekki smátt í huga. En, eg blygðast mín, því eg er sekr og hef látið aðra líða fyrir mig. En eg get ekki annað (en skrifað), því meðan eg lifi er eg í vandræð um útaf tilfinningum mínum. Eg fæ svo sjaldan og þori svo sjaldan að sjá yðr. Ó, reiðist þér ekki? — Sendið mér tóma lakkaða convolútu ef þér reiðist.
Bréfið er augljóslega skrifað í mikilli geðshræringu, og Matthías veður úr einu í annað. Í miðju bréfi segist hann hafa séð hana í gær: „ — þér genguð upp til frú Melsteð. Þér lituð til mín, en hafið kannske haft hugann langt frá mér. Þá er að taka því, en eg má til að koma þessum miða.“ Þannig verður augnatillit hennar, og það að sjá hana á götu, til efni bréfsins. „Eg veit ekki hvað eg gjöri,“ segir hann svo, „lífsins hlutföll eru mér fjarska myrk, — en þessi sterki straumur ber mig — og eg hlýði.“ Þótt hann hafi „lent í vansa“ sé sál hans „ekki enn mikið spilt og berst allt til dauðans fyrir hið fagra og góða“. Bréfið er fullt af þankastrikum, spurningum og skáldlegum upphrópunum þar sem Matthías ásakar sjálfan sig og höfðar til samúðar hennar og miskunnar:
Ó, að eg væri orðinn meiri og betri! Ó, mér blöskrar þetta líf og mín eigin sál með alla hennar óþreyju og stríð og mótsagnir! Ó, að eitthvert hjarta elskað i mig og skildi mig og léti mig elska sig með trú og krafti — og það góða og fagra í gegnum sig! — Hvað er eg að skrifa? — því var jeg ekki löngu búinn að skrifa — ef jeg átti og mátti gjöra það? Ástúðlega, fagra, göfuga stúlka! fyrirgefið mér! […] Nú veit jeg ekki hvernig jeg á að koma bréfinu.
Um leið tekur hann hvað eftir annað fram að hann þori ekki að skrifa nema það allra minnsta af því sem honum er innanbrjósts og enginn megi vita að hann skrifi þetta. Á einum stað bætir hann svo við athyglisverðri setningu:
Sem stendr þori eg ekkert meira að skrifa. Í útlöndum þora stundum gáfumenn að skrifa gáfustúlkum til — stundum aðeins af skáldlegri sympaþí en stundum vegna helgari tilfinninga um leið, og láta bréfin vera nóg.
Með þessu ber Matthías sig saman við útlenda gáfumenn með skáldlegar sympaþíur og bæði réttlætir með því bréf sitt gagnvart Jarþrúði og fær því hlutverk. Samband hans við „gáfustúlku“ varðar skáldímynd hans, það sem upp á hana vantaði, og hann lætur „bréfin vera nóg“.
Svipaðra réttlætinga vegna barneignarinnar gætir einnig í Söguköflum þar sem Matthías gefur meira að segja í skyn að Guðrún hafi sumarið 1872 tælt sig hugsjúkan og eirðarlausan með því að senda sér „ber í skjólu og fáeinar línur með “. Hann hafi því gert sér ferð „fram á dal“, þar sem hún var í seli, til að hitta hana, yfirkominn af „ástríðum og ofsa“ eftir að hafa nýlega þýtt Manfreð eftir Byron. Fundi þeirra lýsir hann með skáldlegum skrauthvörfum: „Sól skein í hlæjanda heiði og dalurinn í Esjunni hinn hýrasti. Var ég þá stund í algleymi.“45 Þessi frásögn er aðeins í 2. útgáfu Sögukaflanna og hefur verið sleppt í þeirri fyrri sem er mjög ritskoðuð hvað þessi mál varðar. Í báðum útgáfum er því sleppt sem Matthías orðar svo í handriti: „Einnig snerti eg hana án þess að heita henni trygðum óbeðinn.“46 Matthías leggur mikla áherslu á að hann hafi ekki svikið Guðrúnu í tryggðum, hún hafi alla tíð vitað að hverju hún gengi. Án þess að tengja það væntanlegri barneign sem þá var orðin ljós segir Matthías að sumarið 1873 hafi óþreyja hans og lífsleiði vaxið svo að hann fann að hann yrði að fara af landi brott, helst alfarinn. Í því sambandi segist hann vilja geta þess að „ung, bráðgáfuð, stórættuð stúlka í Reykjavík“ hafi „töfrað“ sig svo að „í hálfgerðri brjálsemi“ hafi hann hugsað sér að sigla „og síðan leita ráðahags við hana sem „‚töfraði‘“ hann, „enda átti hún arf allmikinn“. Þetta hafi þó aldrei orðið annað en „hugarslangur“ enda hafi upp á teninginn að sú sem varð hans þriðja kona „fór ekki einsömul“. Segist hann hafa tekið því með stillingu, en sagt henni að áður en þau „ættust“ yrði hann að leita sér heilsubótar og fara aftur utan. „Hún tók því þunglega.“47 Við þetta bætir hann í handriti: „þegar leið að haustinu var ég loks, eftir mikið stríð, fullráðinn í að breyta hag mínum, því að mér fanst líf mitt og vit vera í veði, þótt ég að mestu gæti dulið það.“48 Þessu er sleppt í báðum útgáfum.
Svar Jarþrúðar við bréfi Matthíasar hefur augljóslega verið að senda honum „tóma lakkaða convolútu“ og Matthías lýsir líðan sinni þjóðhátíðarsumarið 1874 þar sem hann situr á tali við vin sinn Rosenberg:
Það var eitt kvöld, er við Rosenberg sátum saman, að hann sagði: „Ég hræðist útlit þitt, þú ert fölur og fár, og ert þó hraustur maður. Þú býrð yfir ástríðu; gættu þín og farðu varlega.“ Ég svaraði engu, enda sagði ég engum manni, eftir að ástvinur minn, Gunnar Gunnarsson (d. 1873), dó, frá leyndarmálum mínum eins og þau voru. En satt sagði hinn vitri Rosenberg, að enn það sumar leið mér illa sakir innri ástríða, og þær voru ef til vill það eina, sem af mér var óbreytt eftir. Og samt lét ég á sem minstu bera út á við og tók nokkurn veginn eðlilega þátt í öllu, sem þá gekk á.49
Stríðið segir hann hafa verið um það hvort hann ætti að kvongast barnsmóður sinni „sem þá var orðin föðurlaus“.50 Ýmislegt mælir með og annað á móti, en í lokin kemur hin raunverulega ástæða eins og aukaatriði:
Þess utan kvaldi mig og ofsótti ástarþrá eftir annarri stúlku, er mér fannst skilja mig og hvað í mér bjó, sem mig dreymdi um að ekki væru smámunir; ástríða, ofmetnaður, stórhugur og ofsafengin sjálfræðislöngun gerði mig nálega ringlaðan og ráðalausan. Hvað átti ég að gera?51
Í þessu hugarástandi yrkir hann þjóðhátíðar-minnin, „öll minnin, 6 eða 7“, og „flest“ sama daginn.52 Hann getur þess ekki hér sem hann segir í bréfinu til Jóns Bjarnasonar, og áður er vitnað til, að hann hafi verið lengur með „Minni kvenna“ en hin minnin. Síðan segir hann að töluvert hafi af sér bráð er leið á sumarið. Hann gerir sér grein fyrir vonlausri ást sinni og sumarið 1875 kvænist hann Guðrúnu Runólfsdóttur, barnsmóður sinni, en hún var jafngömul Jarþrúði, fædd 1851. Entist hjónaband þeirra svo lengi sem Matthías lifði og eignuðust þau Guðrún fjölda barna. Jarþrúður var hins vegar barnlaus í sínu hjónabandi. Um eiginkonu sína er Matthías fámáll í sjálfsævisögu sinni og útskýrir það:
Höfum við því búið saman nál. fjörutíu ár, er ég skrifa þetta. Finst mér nú, að ekki sé vert að ég fjölyrði um sambúð okkar, því að um einkamál er vandi að rita og mér eflaust ofvaxið . Er það skoðun mín, að með henni hafi ég hlotið þá konu, sem mér og börn um okkar — alls ellefu — varð fyrir beztu. Eru og nógir aðrir til um hana að rita, einkum um það, hve framúrskarandi móðir hún hefur verið .53
Jarþrúður er andstæðan, hún er meyjan, menntakonan, kvenréttindakonan og skáldkonan. Í öllum bréfunum til hennar þérar hann hana, og heldur þannig fagurfræðilegri fjarlægð . Heimilisskáldinu Höllu á Laugabóli býður hann hins vegar dús og þúar hana í bréfunum.54
VII
Það liðu tíu ár frá bónorðsbréfinu þar til bréfaskipti þeirra Matthíasar hefjast og virðist hún hafa átt frumkvæði að þeim. Næsta bréf til Jarþrúðar sem varðveist hefur skrifar Matthías frá Odda 12. apríl 1884. Þar ávarpar hann hana „Heiðraða fröken!“ og svarar erindi sem hún hefur borið honum frá vinkonu sinni Torfhildi Hólm og ekki er alveg ljóst hvað er.55 En Torfhildur er þarna orðinn tengiliður og segist Matthías ætla að senda henni þær upplýsingar sem hún biður um: „ef það skyldi interessera hana, þá á hún það skilið ; hún hefir anda og hjarta, sem jeg sympathisera með, og hún er hinn fyrsti rithöfundur af ísl. konum sem með fullum rétti á það nafn.“ Í framhaldi af því biður hann guð að hjálpa „okkar kvennamenntan, já, jeg hefði nærri því sagt: allri okkar menntun“. Í bréfunum til Jarþrúðar minnist hann hvað eftir annað á elli sína og ber sig saman við hana sem yngir hann upp með æsku sinni, andríki og menntun. Í þessu bréfi kemur hún til hans í hugsýn, samnefnari margra kvenna:
Þið andríku, ungu Reykjavíkur-dömur, komið í ljóssins engilslíki hingað til barnakarlsins í Odda og yngið hann upp innan um þessi fjöll, sem eru þær einu „stærðir“ sem hann hefir að tala við hér um andlega og eilífa hluti — farið með hann upp á eitt „ofurhátt fjall“ sem hér er og heitir Hekla, og sýnið honum, það sama og sá gamli bauð að sýna Messíasi, en náttúrlegra í betri meiningu, þ.e. ekki til að „freista hans“, heldur til að yngja hann upp, til að sýna honum ekki veraldleg ríki og dýrð, heldur Guðs dýrð .
Síðan líða aftur tíu ár, en þá hefur Jarþrúður skrifað honum og beðið um stuðning hans við það baráttumál kvenna að koma á stofn háskóla á landinu. Í bréfi, dagsettu á Akureyri, 12. maí 1894, bendir Matthías henni á að þetta sé hvorki kvennamál né skáldamál, heldur málþing manna, vina þeirra kvenna í Reykjavík, sem séu daufir og vanti brýnsluna. „Það er líka — satt að segja — miklu fremur Ideen, samtökin, það faktum að svo margar menntaðar konur eru með og koma fram í brodd fylkingar, sem vakti og vekur minn hug og hjarta, og — svo hef jeg — eins og þér mín góða frú að orði komist — svo er jeg, lengi góður við kvennfólkið‘.“ Hann nefnir einnig kvæði sem hún í sínu bréfi hefur minnt hann á: „Jæa, í kvæðinu vildi jeg nú samt sýnt hafa, hvort jeg skil eða ekki skil hugsjónir, mæðra, kvenna, meyja‘ minnar samtíðar.“ Það kemur ekki fram hvaða kvæði þetta er, en kann að vera „Kvennaslagur“ sem Matthías tileinkaði Hinu íslenska kvenfélagi eins og áður er vikið að, en Jarþrúður var einn af stofnendum félagsins og í stjórn þess.56 Matthías átti eftir að yrkja mikið af kvenréttindaljóðum og verður æ róttækari eftir því sem aldurinn færist yfir. Í „Fullrétti kvenna“, með undirtitlinum „Fyrir minni kvenna 9. sept. 1915“, eru m.a. þessi skeleggu erindi sem hann eins og oftar beinir til karla:
Hvað segir þér, karlar, er kveðið svo að,
að konum gefið þér? Vitið þér — hvað:
ég veit enga ambátt um veraldargeim,
sem var ekki borin með réttindum þeim.
Þeim réttarins lögum að ráða sér sjálf,
og ráða til fulls og að vera ekki hálf!
Hvað þoldir þú, píndist þú, móðurætt mín?
Ó, mannheimur, karlheimur, blygðastu þín!57
Bréf Matthíasar til Jarþrúðar eru mjög persónuleg, hann skrifar mikið um bæði skáldskap sinn og annarra, og víkur hvað eftir annað að því hvað honum sé nauðsynlegt að skrifast á við konur. Bréfaskiptin við þær tengir hann ævinlega einhvers konar ást. Í bréfi frá 14. okt. 1899 segir hann: „Jeg er gamall kvenna-korrespondent og sem bréfvini elska jeg the fair sex í rauðan dauðann.“ Í ódagsettu bréfi sem gæti verið frá í mars 1900 telur hann upp nokkrar erlendar konur sem hann skrifast á við, og „svo á eg tvær korrespond. drósir í Stokkhólmi og þrjár á Engl. eða fjórar eða fimm — eftir því 1. hvað heitt við elskumst og 2. hvað oft við áskrifumst“. Þessi „korrespondans“ segir hann að sé sér „í koníaksstað“ í ellinni. „Psychologiskt og litterært skoðað eru bréf, já öll umgengni við mentað — því ekki ómentað? — kvenfólk miklu meira interessant en alt ‚Mandfolksvæsen‘.“ Í bréfi frá 29. nóvember 1900 ávarpar hann Jarþrúði með „Ágæta frú!“ og segir að það séu „stór extra hlunnindi“ fyrir sig „að fá við og við línu frá andríkri snót“. Í sama bréfi kemur fram að honum líkar ekki alls kostar við íslensk karlskáld, nema þá Benedikt Gröndal sem hann lýsir sem mesta gáfna- og listamanninum sem Ísland hefur borið : „Og samt er hann Zigeuner og Gögler, draslari og dilettant! En — alt hið lakara, auðnulausa, prinsiplausa, vitlausa, ætti ekki að innfæra í G. reikning, heldur lands og þjóðar.“
Oft má sjá að Matthías bíður eftir bréfum frá Jarþrúði með óþreyju. „Ó, hvað yðar blessuðu línur glöddu mig,“ segir hann í ódagsettu bréfi frá 1896. Í sama bréfi þakkar hann henni fyrir að hafa þakkað sér fyrir erfiljóð sem hann orti eftir föður hennar. Segist hann oft hafa samið snjallara „en af betra hug og fúsara hjarta hef jeg eptir engan heldri mann gjört erfiljóð en eptir yðar elskulega föður — því guðsbarni gleymi jeg aldrei — bara hann hefði orðið babbi minn!“58
Matthías bæði skrifar og þýðir fyrir kvennablaðið Framsókn sem hann hefur mikið dálæti á og persónugerir sem konu. Þann 22. febrúar 1901 kvittar hann fyrir bréf og „tvær forláta Framsóknir“ sem séu „óðum að sækja fram og festa favör — að m.k. hjá mér. Þær síðustu færa tvö lagleg kvæði, sem eru mér því fremur ‚interessant‘ sem jeg divinera hvaðan þau eru kynjuð!“59
Jeg vil partout að kvennfólk þessa lands færi að vera „með“ í litteræru starfi þjóðarinnar — annars hættir aldrei hráinn og hákarlastappan, sem enn þá brútaliserar fólkið, sérstaklega ungdóminn. Smekkur og siðsemi hjá oss (í litteratúrnum) stendur skammarlega. Það batnar aldrei fyr en menntunin fær betri rót — rót í menntaðra kvennfólki, batnar aldrei fyr en kv.fólkið fær meira að segja, meiri menning, frelsi og álit í mannfélaginu. Mitt ideal er að konur (þ.e. þær bestu og skemtilegustu) ritdæmi og agi allar ungar „spírur“, einkum listamanna og skáldanna — skáldanna umfram alt.
Í sama bréfi segist hann hafa fengið „með póstinum mjög flatterandi bréf frá systur minnar dánu systur í Appolló Miss Barmby (höf. ‚Gísla Súrssonar‘) og bókina nýprentaða, og — það sem mér kom best — mynd Barmbýar.“
Beatrice Helen Barmby (1869–1898) var bresk skáldkona sem skrifaðist á við Matthías um skeið, eða þar til hún lést 29 ára að aldri. Aðeins eitt bréf frá henni hefur varðveist í bréfasafni Matthíasar, dagsett 11. febrúar 1898, og fjallar það mest um þýðingu hans á leikritinu Gísli Súrsson sem hún hafði sent honum í handriti og telur að muni batna við þýðingu hans.60 Leikritið kom út á ensku að henni látinni, árið 1900, og í íslenskri þýðingu Matthíasar tveimur árum síðar með formála um skáldkonuna, þar sem hann m.a. ræðir um myndina af henni:
Eftir mynd hennar að dæma, (eg sá hana aldrei) er hún að sjá, sem hefði hún verið á fermingaraldri, en þá var hún hálfþrítug. En andans fegurð og tign ljómar henni af brún og brá, og ekki síður blíða og barnslegt sakleysi. Skyldi engan gruna, að þar sæi hann andlitsmynd stúlku, er þá var nýbúin að semja „Gísla Súrsson“.61
Á undan formálanum er minningarljóð um Barmby sem sýnir að sjálft nafn hennar Beatrice hefur hrifið Matthías. Í upphafi ákallar hann skáldkonuna: „Ó, Beatrice, Sigrún Suðurlanda / Er Dante stærði ódauðlegum óði.“ Síðan dregst hann að nafninu eins og Goethe að hinum eilífa kvenleika: „Þitt yndis-nafn mér sýnist leiðarstjarna.“6
Í bréfi til Jarþrúðar, dagsettu 18. mars 1901, er Matthías að þýða kvæði sem hún hefur sent honum eftir breskt karlskáld. Honum finnst erfitt að þýða kvæðið sem sé óvanalegt með hraðri og óreglulegri hrynjandi: „Og svo gefið þér mér svo dangerously mikið undir fótinn! að senda mér Skyrtusönginn! Jeg sat við hann í mestallan gærdag, og það gjöri jeg sjaldan þegar jeg snara smákveðlingum. Skyrtusönginn er mjög erfitt að þýða. það er ort vilt og af logandi passion […].“ Síðan segist hann hlakka til að sjá kvæðið í Framsókn „sem sjálf er Framsókn og framför!“63
Í þessu bréfi minnist hann aftur á bresku skáldkonuna Beatrice Barmby og myndina sem systir hennar sendi og Matthías virðir fyrir sér:
Hún hefur verið hálfvegis barn (jeg sá hana aldrei) að útliti, en haft ljóm. augu. Nú er „Gísli Súrsson“ hennar kominn út, og hef jeg séð leiknum hrósað — framyfir Ibsens Hermenn og Kóngsefni, og hann á það. Þar með fylgja mörg önnur ljóð út af forníslensku efni, sem mjög sýna sama, að höf. hefur verið gení! — þar misti jeg minn langfínasta korrespondent, erlendis, að segja.
Bréfinu lýkur hann með því að minna Jarþrúði á að hún hefur lofað honum löngu bréfi: „Gleymið nú ekki ‚langa bréfinu‘ — annars — — — ! Yður er óhætt að eiga undir minni discretion, enginn les mín bréf, nema jeg leyfi.“
Ef hlé verður á bréfum frá Jarþrúði líður Matthíasi illa, það er eins og þau haldi honum uppi. Í bréfi til eiginmanns hennar, Hannesar Þorsteinssonar, dagsettu 1. des. 1901, biður hann fyrir „kæra heilsan frú þinni“ með þakklæti fyrir Framsókn, og síðan: „Seg henni jeg fari í kör ef jeg fæ ekki fyrirheitna bréf, sem átti að vera sona — — — — — — — langt!“ Þann 29. janúar 1902 þakkar hann henni fyrir bréf „þó stutt væri“ og minnir hana enn á „langa bréfið “.
Í bréfi, dagsettu 19. mars 1902, er hann farið að lengja eftir Framsókn sem þá er hætt að koma út og setur kvíða sinn fram í spurn:
Jeg hef lengi ekki séð my bonny little love, „Framsókn“? Jeg fór upp í safnið okkar um daginn og fletti henni allri spjaldanna á milli: jeg fann ýmislegt stórfallegt — einkum í ljóðum, en — by whom? . . .
Þótt Matthías skrifi svo persónulega gerir hann ráð fyrir að maður Jarþrúðar lesi bréfin, en biður hana um leið að brenna þau. Bréfinu lýkur hann með því að biðja hana að fyrirgefa sér „masið — maður gleymir mæðunnar moðreyk á meðan“. Síðan segist hann vona og vita „að þér stingið mínum miðum í ofninn þegar þið sjálf hafið lesið þá“.
Í bréfunum víkur Matthías hvað eftir annað að elli sinni og að Jarþrúður sé orðin leið á þeim. Í bréfi frá 8. nóvember 1902 segir hann: „Ef yður leiðist hvað lengi ég er til, þá munið eftir að ég er 67 ára á næstu Marteinsmessu, 11. þm. Svo lengi gaspra ég varla úr þessu í veröldinni.“ Og hann spyr í beinu framhaldi: „ — Er „Framsókn“ farin (á undan mér) til feðra sinna? Ég hef ekki séð hennar auglit síðan snemma í sumar.“ Þetta leiðir huga hans að skáldskap og hann talar við Jarþrúði í bréfinu:
Ó að kvæðin mín skuli vera tómar grafskriftir og tækifærisrugl — auk moðreyksins mikla af þýðingum eftir — engu meiri andans menn — suma hverja — en Matti í Móum, Odda, Akureyri (og í Uppsölum austan undir Fjósakonunum), var — eða gat verið ! Alt er mér til sk . . . . . og skapraunar: lífið, skáldskapurinn og — ekki gleyma ósköpunum: Riddarakrossinum með stórum staf! Guð fyrirgefi föður vorum, sem steig „land vort á“! „Er karlsk — — orðinn elli-ærr?“ spyrjið þér. Netop, min Dejlige, for det bliver man gjerne naar man er et (mislykket) Stykke Geni.
Matthíasi finnst allt gott sem Jarþrúður skrifar. „En hvað bréf yðar var notalegt, fínt og fallegt — delightful, charming, fascinating,“ skrifar hann í bréfi frá 20. febrúar 1903 og segist geyma það „eins og ormur gull eða afturganga sitt ormaból“ og unna „engum það að lesa eða heyra“. Þann 13. mars 1903 skrifar hann:
Ó, hvað bréfin yðar síðustu voru yndisleg! ég þarf lítið meira til þess að verða stund og stund ungur. Auk alls annars: Das ewig weibliche — — Guð láti mig sofna á undan mín um æsku-illu sjónum!
Hann þakkar fyrir hennar „altof fögru orð “ um sig og sitt „lífsstríð “ og ekki síður fyrir að segja honum frá hennar, og bætir við í svigasetningu: „(Ég tími ekki að brenna það bréf, heldur ber það á mér, fyrst um sinn).“ Þann 17. október 1905 hefur hann beðið lengi eftir bréfi og skrifar:
Ég býst við að þér hafið einhvern ýmugust á mér, því ég fæ ekki framar eitt einasta orð eða miða frá hendi ykkar hjóna […]. Nú, ekki verður við öllu séð, en samt sakna ég bréfa yðar, og rétt í þessu las ég mjög yndælt lítið bréf frá yður frá 26. jan. 1904 (það hefur legið í veski hjá mér — á lárberjum sínum).
Hann ber bréf hennar inni á sér eins og helgan dóm og hann bæði les gömlu bréfin og blaðar í gamalli Framsókn sér til hughreystingar. Smám saman fækkar bréfum, þau verða strjálli og þróast í að verða bréf til þeirra beggja, Jarþrúðar og Hannesar, sem Matthías þekkir vel og hann þúar. Í bréfi sem Matthías stílar til Jarþrúðar á Sumardaginn fyrsta árið 1913 segist hann eiga til með að þakka henni með fáum línum „yðar ágæta nýárs-bréf, þó það líklega þreyti yður; — má vera það verði ekki oftar“. Enn og aftur hrósar hann bréfi hennar sem hann sér sem fyrirmynd annarra bréfa:
En hvað bréf yðar var fagurt — of fagurt að sýna það öðrum, sem og ekki er minn vani. Þér skrifið — kannske eina frúin á Íslandi — alveg em anciper að og eins og verður að heimta af framtíðarkvenfólki, þ.e. eins einarðlega og opinskátt eins og karlmanna „séníin“ hafa gert síðan Rousseau byrjaði (auðvitað verður það ekki til einka-einka mála, sem Guð fær varla að vita).
Í bréfi frá 16. janúar 1915 sem Matthías stílar til hjónanna beggja segist hann þó skulda „frúnni fleiri línur en þér Hannes í þetta sinn, því hún sæmdi mig með fleiri fögrum og smekklegum línum en þú, og svo das ewig weibliche, sem zieht uns hinan“. Síðasta bréf Matthíasar til Jarþrúðar er dagsett 15. mars 1915. Í því kvartar hann undan sjónleysi og hann skrifi heldur engum, „og ekki Hannesi, sem þó er orðinn mitt annað uppáhald, sem einn af þessum ramísl. fræðimönnum“ sem segja „oss satt og ekkert nema satt“. En, segir hann:
Das ewig weibliche! Og þess vegna met ég frúna framar en bóndann; þó in casu nokkuð þessvegna, að frú Jara litla, hin ljúfa og blíða á í hlut. Í Champagne síungrar endurminningar drekk ég líka hennar minni og unnustans! Enginn karlmaður, sem ekki er fæddur „rót“, gleymir æskunnar og ástanna Charme. […] Og Guði sé lof, hvað mér hafa treinst þeir töfrarnir! „Gud, lad mig aldrig, aldrig tabe dem!“ kvað Baggesen.
Í þessu síðasta bréfi til Jarþrúðar kemur lífsskoðun Matthíasar fram í hnotskurn. Hans „annað uppáhald“ er karlinn, fræðimaðurinn, sem segir „satt og ekkert annað en satt“. Konan, sem hann metur meir og hann tengir ævinlega skáldskap, er hugsjónin, „das ewig weibliche“, sem yngir, frelsar og fegrar, markið sem stefnt er að, hægt er að nálgast en verður aldrei náð.
2 Matthías Jochumsson 1888:1.
4 Matthías Jochumsson 1890:26.
6 Þorsteinn Erlingsson 1905a:98.
8 Þorsteinn Erlingsson 1910:93–94.
9 Matthías Jochumsson 1935:750.
11 Matthías Jochumsson 1935:753.
12 Hér er Matthías augljóslega að vísa til orða Jóns Ólafssonar sem í ritdómi um Ljóðmæli hans frá 1884 segist sjá tilhneigingu prestsins „til að tala óljóst í háum tónum og dularfullum orðum“. Jón Ólafsson 1884:151.
13 Matthías Jochumsson 1919:4.
15 Matthías Jochumsson 1884:403.
16 Matthías Jochumsson 1935:254.
17 Slík tímaskynjun hringrásar, endurtekningar og eilífðar er talin einkenna tíma kvenna andstætt línu rétt um og karlleg um tíma samfélagsins með áföngum, upphafi og endalokum. Sbr. Kristeva 1979.
19 Mynd mál þjóðsöngsins: „Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár / sem tilbiður Guð sinn og deyr,“ minnir á orð heimssöngvarans Garðars Hólm í Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness um hinn hreina tón sem gefur ekki vald yfir himni og jörð, heldur „eitt tár gagnvart sköpun heimsins“. Halldór Laxness 1957:267. Í „Minni kvenna“ tilheyra tárin konum, og þau eru gullin eins og tár Freyju. Sbr. Edda Snorra Sturlusonar 1907:55.
20 Matthías Jochumsson 1936:1.
21 Þessi lokaorð Fásts II þýðir Yngvi Jóhannesson snilldarlega: „Eilífur kallar / kvenleikinn oss.“ Goethe 1972:253.
22 Goethe 1963:364.
24 Þessi vísuorð um meyjuna þótti Jóni Ólafssyni í áðurnefndum ritdómi svo „fögr og snilldarleg“, þótt honum líkaði ekki að öðru leyti við ljóðið, að hann gat ekki hugsað sér þau fallegri. Jón Ólafsson 1884:152.
25 Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum 1945:61.
27 Bréf til Jarþrúðar Jónsdóttur frá Matthíasi Jochumssyni. Matthías vitnar reyndar ekki alveg rétt í orð Goethes því að hann skrifar „zieht uns an“ í stað „zieht uns hinan“. Þetta er nokkuð bagaleg villa þar sem „anziehen“ merkir að klæða sig. Ég hef því leyft mér að leið rétta þetta hér og víðar þar sem þess var þörf.
míns, gefið út í Reykjavík 1897. Þetta hefur af einhverjum ástæðum farið framhjá Matthíasi.
29 Þýðingunni á orðum Goethes breytti hann síðar í „um eilífð dregur mannsins muna“, og í stað „eg reyni það“ kemur staðfestingin „ég votta það“. Matthías Jochumsson 1936:165.
32 Matthías Jochumsson 1913:51–52. Erindinu hefur hann breytt til batnaðar, ávarpið „Hulda mær“ kemur fyrir þrisvar og í stað þess að hún komi á fund hans í veruleikanum, kemur hún til hans í draumi: „Hulda mær! þú brostir mér í blundi, / böl og stríð er vöktu harma sár.“
33 Matthías Jochumsson 1922:422; einnig 1936:128.
34 Matthías Jochumsson 1922:106. Stúlkan var Valborg, dóttir Sveinbjarnar Egilssonar skálds og systir Benedikts skálds Gröndals, og því ótvírætt af skáldakyni.
36 Matthías Jochumsson 1922:422; einnig 1936:422.
37 Jarþrúður er heldur ekki nefnd í nýrri ævisögu Matthíasar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir, að öðru leyti en því sem Matthías ýjar sjálfur að í Söguköflum. Sjá einnig ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar þar sem hann segir að það hafi verið löngum vitað í fjölskyldu Jarþrúðar Jónsdóttur að Matthías hafi beðið hennar og að enn séu til 38 bréf til hennar frá Matthíasi. Páll Baldvin Baldvinsson 2006:26.
47 Matthías Jochumsson 1959:219–220.
48 Matthías Jochumsson. Sögukaflar I. Lbs 2803, 4to:9–10.
50 Þórunn Valdimarsdóttir tímasetur þessar hugleiðingar Matthíasar við flótta hans af landi brott haustið 1873 og dregur af því þá ályktun að Matthías fari ekki með rétt mál varðandi föðurleysi Guðrúnar, en faðir hennar dó ekki fyrr en í janúar 1874. Þórunn Erlu Valdimarsdóttir 2006:263–264. En Matthías er hér ekki að segja frá haustinu 1873 heldur sumrinu 1874 og þá er faðir Guðrúnar látinn. Matthías fer því rétt með.
51 Matthías Jochumsson 1959:240. Hér er vitnað í þessa útgáfu en ekki þá fyrri þar sem síðari hluta frásagnarinar er þar sleppt. Í eiginhandarriti Matthíasar stendur „ástarþrá“ þar sem útgáfan prentar „þrá“. Orðið er hér haft eins og það er í handritinu. Matthías Jochumsson, Sögukaflar III, Lbs 2803, 4to:27.
52 Matthías Jochumsson 1922:258.
54 Matthías Jochumsson 1935:751.
55 Ekki er vitað til að bréf Jarþrúðar til Matthíasar hafi varðveist og hefur hann líklega brennt þeim, en til þess benda ýmis ummæli í bréfum hans. Þá er augljóst að einhver bréf Matthíasar til hennar hafa glatast.
59 Það er ekki gott að sjá hvaða kvæði þetta eru, en annað er mjög sennilega „Aldarkveðja“ sem birtist í desemberheftinu 1900 og er í efnisyfirliti merkt fangamarkinu J.J. það er mjög hefðbundið og fullt af þakklæti sem segja má að hafi einkennt skáldskap kvenna á þessum tíma. Hún ávarpar hér öldina sem móður og eins og hefðin segir eru börn hennar karlkyns: „Já, synirn ir þínir bezt sýndu oss það, / er samtíðin lærði að meta, / og gufu og rafmagn þeir réttu oss að / og ritin, er dáið ei geta.“ Jarþrúður Jónsdóttir 1901:47. Þjóðfélagsgagnrýnin náði því ekki til hennar eigin skáldskapar þótt hún komi skýrt fram í bæði greinum og sögum sem hún birti í blaðinu.
rather than lose by translation.“
61 Matthías Jochumsson 1902:III.
62 Matthías Jochumsson 1902:I; einnig 1936:904. Um Beatrice Helen Barmby og áhuga hennar á Íslandi og íslenskum fornbókmenntum, sjá Wawn 2000:359–361; einnig formála Powells að ensku útgáfu leikritsins. Powell 1900:ix–xix. Að Beatrice látinni skrifaðist Matthías á við systur hennar, Mabel, í mörg ár, og hafa bréf hennar varðveist í bréfasafni hans.
Óprentaðar heimildir
Bréf til Hannesar Þorsteinssonar frá Matthíasi Jochumssyni. Lbs 4035, 4to.
Bréf til Jarþrúðar Jónsdóttur frá Matthíasi Jochums syni. Lbs án safnmarks.
Bréf til Jarþrúðar Jónsdóttur frá Torfhildi Hólm. Lbs án safnmarks.
Bréf til Jarþrúðar Jónsdóttur frá Þorsteini Erlingssyni. Lbs án safnmarks.
Bréf til Matthíasar Jochumssonar frá Fríðu Sharpe. Lbs 2808, 4to.
Bréf til Matthíasar Jochumssonar frá Beatrice Barmby. Lbs 2808, 4to.
Bréf til Matthíasar Jochumssonar frá Mabel Barmby. Lbs 2808, 4to.
Bréf til Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum frá Matthíasi Jochumssyni. Lbs án safnmarks.
Matthías Jochumsson. Sögukaflar I–III. Lbs 2803, 4to.
Prentaðar heimildir
Barmby, Beatrice Helen. 1900. Gísli Súrsson. A Drama: Ballads and poems of the Old Norse days and some translations. Oxford: Archibald Constabel and Co.
Barmby, Beatrice Helen. 1902. Gísli Súrsson. Matthías Jochumsson þýddi. Akureyri: Prentsmiðja Odds Björnssonar.
Björg Einarsdóttir. 1986. Skáldið í hópnum: Jarþrúður Jónsdóttir 1851–1924. Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II. Reykjavík: Bókrún.
Bjarni Benediktsson. 1958. Þorsteinn Erlingsson. Reykjavík: Mál og menning.
Edda Snorra Sturlusonar.1907. Ritstj. Finnur Jónsson. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson.
Goethe, Johann Wolfgang von. 1963. Goethes Faust. Ritstj. Erich Trunz. Hamburg: Christian Wegner Verlag.
Goethe, Johann Wolfgang von. 1972. Fást. Yngvi Jóhannesson þýddi. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
Halldór Laxness. 1957. Brekkukotsannáll. Reykjavík: Helgafell.
Hulda. 1901. Þrjú smákvæði. Framsókn: Blað íslenzkra kvenna. VII. ár. 11. tbl.
Hulda. 1909. Kvæði. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson.
Jarþrúður Jónsdóttir. 1901. Þrjú smákvæði. Framsókn: Blað íslenzkra kvenna. VII. ár. 11. tbl.
Jón Ólafsson. 1884. Bókmentir. Þjóðólfur, 6. okt.
Kristeva, Julia. 1986. Women’s time. The Kristeva reader. Ritstj. Toril Moi. Oxford: Basil Blackwell.
Matthías Jochumsson. 1884. Eptirmáli. Ljóðmæli. Reykjavík: Kristján Ó. Þorgrímsson.
Matthías Jochumsson. 1888. Ný rit. Lýður, 19. sept.
Matthías Jochumsson. 1889. Frú Torfhildur Holm. Lýður, 28. ágúst.
Matthías Jochumsson. 1890. Bókafregn. Lýður, 14. apríl.
Matthías Jochumsson. 1893. Chicagó-för mín 1893. Akureyri: Prentsmiðja Björns Jónssonar.
Matthías Jochumsson. 1894. Kvennaslagur. Þjóðólfur, 31. ágúst.
Matthías Jochumsson. 1896. Jón Pétursson háyfirdómari. Þjóðólfur, 17. júlí.
Matthías Jochumsson. 1900. Fríða Sharpe. Framsókn: Blað íslenzkra kvenna. VI. ár. 5. tbl.
Matthías Jochumsson. 1901. Skyrtuljóð. Framsókn: Blað íslenzkra kvenna. VII. ár. 4. tbl.
Matthías Jochumsson. 1902. Til lesenda „Gísla Súrssonar“. Sjá Barmby 1902.
Matthías Jochumsson. 1909. Nýjar bækur. Norðri, 23. sept.
Matthías Jochumsson. 1913. Ferð um fornar stöðvar 1913. Reykjavík: Jóh. Jóhannesson.
Matthías Jochumsson. 1919. Ný ljóðabók. Lögrjetta, 13. ágúst.
Matthías Jochumsson. 1922. Sögukaflar af sjálfum mér. Ritstj. Steingrímur Matthíasson. Akureyri: Þorsteinn Gíslason.
Matthías Jochumsson. 1935. Bréf Matthíasar Jochumssonar. Akureyri: Bókadeild Menningarsjóðs.
Matthías Jochumsson. 1936. Ljóðmæli. 3. heildarútgáfa, mikið aukin. Ritstj. Magnús Matthíasson. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Matthías Jochumsson. 1959. Sögukaflar af sjálfum mér. 2. útgáfa. Ritstj. Árni Kristjánsson. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum. 1945. Til hinna ófæddu. Ólöf frá Hlöðum: Ritsafn. Ritstj. Jón Auðuns. Reykjavík: Helgafell.
Páll Baldvin Baldvinsson. 2006. „. . . eg vil vinna til gagns og ágætis með gáfum mínum.“ Fréttablaðið, 22. okt.
Powell, York. 1900. Preface. Sjá Barmby 1900.
Sharpe, Hólmfríður. 1897. Sálin hans Jóns míns. Reykjavík: Sigfús Eymundsson.
Schwerte, Hans. 1990. Der weibliche Schluss von Goethes „Faust“. Sprachkunst. Beiträge zur Literaturwissenschaft, 1.
Steingrímur Matthíasson. 1935. Forspjall. Sjá Matthías Jochumsson, Bréf Matthíasar Jochumssonar.
Wawn, Andrew. 2000. Vikings and Victorians: Inventing the old north in nineteenth century Britain. Cambridge: D.S. Brewer.
Woolf, Virginia. 1983. Sérherbergi. Helga Kress þýddi. Reykjavík: Svart á hvítu.
Þorsteinn Erlingsson. 1905a. Huldupistill. Þjóðviljinn, 15. júníÞorsteinnErlingsson. 1905b. Í vísna bók Huldu. Þjóðviljinn, 9. sept.
Þorsteinn Erlingsson. 1910. Kvæði Huldu. Fjallkonan, 29. júní.
Þorsteinn Erlingsson. 1918. Þyrnar. 3. útgáfa. Reykjavík: Bókaverslun Ársæls Árnasonar.
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir. 2006. Upp á Sigurhæðir: Saga Matthíasar Jochumssonar. Reykjavík: JPV útgáfa.
Þessi grein er að hluta til byggð á fyrirlestri sem ég hélt á „Matthíasar stefnu“ á vegum Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi í Þjóðarbókhlöðunni 11. nóvember 2006. Ég vil þakka starfsfólki Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, og þá ekki síst þjóðdeildar og handritadeildar, fyrir greiðvikni og góðar ábendingar. Sérstakar þakkir fær Sjöfn Kristjánsdóttir á handritadeild fyrir ómetanlega aðstoð við efnisleit og öflun heimilda.