SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Halla Eyjólfsdóttir

Vestfirska skáldkonan Halla Eyjólfsdóttir hét fullu nafni Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir og fæddist hún að Múla við Gilsfjörð 11. ágúst 1866.

Halla ólst upp í stórum hópi systkina við þröngan efnahag. Tvítug réði hún sig að Laugabóli við Ísafjörð í Ísafjarðardjúpi og fáeinum árum síðar giftist hún syni hjónanna þar, Þórði Jónssyni frá Laugabóli. Þau eignuðust 14 börn en misstu þrjú þeirra úr barnaveiki 1904. Þórður var formaður á eigin skipi og sótti sjóinn af kappi. Það kom því í hlut Höllu að hafa umsjón með öllum störfum á bænum, jafnt utan- sem innandyra. Skáldskapurinn átti þó ætíð hug hennar allan þrátt fyrir að hún gæti aðeins sinnt honum í hjáverkum.

Halla andaðist árið 1937 og lifði það að sjá fyrstu ljóðbók sína koma út, Ljóðmæli, en seinni ljóðabók hennar, Kvæði, kom út þremur árum eftir andlát hennar. 2008 var síðan gefin út bókin Svanurinn inn syngur. Ljóð og líf skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttur í ritstjórn Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur.

Sigvaldi Kaldalóns tónskáld var heimilisvinur fjölskyldunnar á Laugabóli og samdi hann lög við tvö ljóða Höllu sem má nálgast hér: Svanurinn minn syngur og Ég lít í anda liðna tíð. Ljóð Höllu urðu landsþekkt með sönglögum Sigvalda.

Frekari upplýsingar um Höllu má finna í nýjasta ljóðasafninu, Svanurinn minn syngur og einnig í eftirmála ljóðabókar hennar Kvæði, sem og umfjöllun Hlyns Þórs Magnússonar á Reykhólavefnum, sjá Halla Eyjólfsdóttir frá Gilsfjarðarmúla - Halla á Laugabóli.

Sjá einnig greinina Mig langar að fljúga og fljúga svo hátt, eftir Gunnhildi Sif Oddsdóttur hér á Skáld.is

Myndin er fengin af síðu Mbl.is, sjá hér


Ritaskrá

  • 2008  Svanurinn minn syngur. Ljóð og líf skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttur
  • 1940  Kvæði
  • 1919  Ljóðmæli