UM ÆVI OG VERK VIRGINIU WOOLF
Eftirfarandi grein birtist sem eftirmáli íslenskri þýðingu að sjálfsævisögulegu verki Virginiu Woolf, Útlínum liðins tíma, sem kom út hjá Unu-útgáfuhúsi 2022.
Virginía Woolf skrifaði aldrei sjálfsævisögu sína en Útlínur liðins tíma er það verk hennar sem kemst einna næst þeirri skilgreiningu. Woolf hafði mikinn áhuga á æviskrifum, var ötull lesandi slíkra verka og velti fyrir sér eðli þeirra og aðferðum. Hvernig er mögulegt að gera ævi og persónuleika manneskju skil í ævisögu? spurði hún og svarið var einfalt: Það er ekki hægt – ekki fremur en að binda saman granít og regnboga. Í grein sem hún birti árið 1927 með titlinum „Nýja ævisagan“ („The New Biography“) líkir hún ævisagnaritun við það að gera tilraun til að binda saman granít og regnboga. Ef markmið ævisögu er að miðla sannri mynd af persónuleika, skrifar hún, má líkja sannleikanum við granítið sem er fast fyrir og stöðugt en persónuleikanum við litríkan regnbogann sem ómögulegt er að festa hönd á.1 En þrátt fyrir að ekki sé hægt að ná taki á regnboganum er sú ævisaga einskis virði sem ekki reynir að láta litbrigði hans auðga lýsingarnar á þeim ‚sannindum‘ sem sagt er frá í textanum, skrifar hún jafnframt. Það er ekki nóg að byggja ævisögu einstaklings á sögulegum ‚staðreyndum‘ (granítinu), það þarf einnig að gefa gaum innra lífi einstaklingsins, vonum hans og þrám, þeim ósýnilegu þráðum sem persónuleiki hans er ofinn úr (regnboganum).
Æviskrif Virginíu Woolf
Þótt Virginía Woolf sé þekktust fyrir sínar merku skáldsögur, sem eru brautryðjandaverk í módernískum bókmenntum á Vesturlöndum,2 þá skrifaði hún svo sannarlega fleira en skáldskap. Eftir hana liggja ríflega fimm hundruð greinar og ritgerðir um bókmenntir, rithöfunda og stöðu kvenna, sú lengsta og þekktasta er Sérherbergi (A Room of One‘s Own, 1929).3 Hún skrifaði einnig nokkrar smásögur,4 eitt leikrit og dagbókarskrif hennar og bréf hafa komið út í mörgum bindum. Þá eru ónefndar ævisögur, en eina slíka skrifaði hún um raunverulega persónu og tvær aðrar bækur þar sem hún leikur sér að ævisagnaforminu. Woolf hafnaði ákveðið þeirri gömlu aðferð sem felst í því að rekja sögu einstaklings frá „afreki til afreks, frá vegsemd til vegsemdar, frá embætti til embættis,“ eins og segir í skáldsögu hennar Orlandó (1928). Orlandó er öðrum þræði útúrsnúningur á ævisagnaforminu því þar er sögð saga einstaklings sem lifir í meira en þrjár aldir og skiptir um kyn í miðri frásögn og ævisagnaritarinn sem er að reyna að ná utan um líf persónunnar á í mesta basli með að átta sig staðreyndum.
Árið 1933 sendi Woolf frá sér aðra bók sem einnig hafði undirtitilinn ævisaga og þar er ekki minni leikur á ferðinni því Flush. A Biography er ævisaga cocker-spaníel hunds sem var í eigu bresku skáldkonunnar Elísabetar Barrett Browning (1806-1861). Í raun er þar um stórmerkilegt verk að ræða; í því er borgarlífi lýst á gagnrýninn hátt í gegnum augu hunds, auk þess sem Woolf gerir áhugaverða tilraun með vitundarflæði ómennskrar veru og brýtur niður mörk á milli dýrs og manns. Og vitaskuld varpar frásögnin ljósi á ævi og skáldskap Elísabetar Barrett Browning, sem var eitt merkasta skáld Breta á fyrri hluta nítjándu aldar, þótt aldrei sé látið að því liggja að um ævisögu hennar sé að ræða.
Eina eiginlega ævisagan sem Virginía Woolf skrifaði er ævisaga listmálarans og listgagnrýnandans Rogers Fry sem kom út árið 1940. Fry, sem var vinur Virginíu og meðlimur í Bloomsbury-hópnum, hafði sjálfur stungið upp á því hálfvegis í gríni að hún myndi láta reyna á kenningar sínar um ævisagnaritun með því að skrifa ævisögu hans.5 Þar vísaði hann til fjölda greina og ritdóma sem hún skrifað um ævisagnaritun, meðal annars greinarinnar sem nefnd var hér að ofan. Woolf réðst í verkið eftir ótímabært andlát Rogers Fry6 og þegar hún hafði lokið bókinni skrifaði hún í dagbók sína að hún teldi að sér hefði tekist að „fanga mikið af þessum litríka manni í [sitt] flókna fiðrildanet“.7 Því voru margir sammála og bókin hlaut góða dóma.8 En Woolf dró ekki dul á að henni fannst mjög erfitt að skrifa þessa ævisögu, hún þurfti oft að taka sér hlé frá verkinu og það var í slíkum hléum að hún byrjaði að skrifa niður endurminningar sínar sem síðar voru gefnar út undir titlinum Útlínur liðins tíma.
Uppreisn gegn formi – og föður
Líklega er áhugi Virginíu Woolf á æviskrifum að einhverju leyti tilkominn vegna þess að slík skrif voru aðalstarf föður hennar öll hennar bernskuár. Sir Leslie Stephen (1837-1904) var upphafsmaður og fyrsti ritstjóri breska safnritsins Dictionary of National Biography sem hefur að geyma æviágrip mörg þúsund enskra rithöfunda og listamanna. Vinnan við þetta safnrit hófst sama ár og Virginía fæddist, 1882, og fyrstu bindin voru gefin út í stafrófsröð eftir nöfnum höfunda, fjórum sinnum á ári á tímabilinu 1885-1900. Þrátt fyrir gríðarlegan fjölda æviágripa fjallaði ekkert þeirra um samtímamenn. Sjálfur skrifaði Leslie Stephen 378 æviágrip í safnið og óhætt er að segja að form þeirra hafi fyrst og fremst verið fólgið í að rekja sögu einstaklings frá „afreki til afreks, frá vegsemd til vegsemdar, frá embætti til embættis“. Ádeilu Woolf á þessa aðferð – og starf föðurins – má einnig sjá í kostulegri lýsingu á herra Ramsay í skáldsögunni Út í vitann þar sem hann er að reyna „að komast að skynsamlegri niðurstöðu í því vandamáli sem nú átti hug hans allan“ og fólst í því að sigra stafrófið „í réttri röð, alla bókstafina tuttugu og sex að tölu“ – en hann er fastur við bókstafinn Q.9 Eins og fram kemur í Útlínum liðins tíma var faðir Virginíu íhaldsmaður fram í fingurgóma, sannur fulltrúi síns kyns á Viktoríutímanum og eins og Virginía lýsir svo hreinskilnislega voru tilfinningar hennar í hans garð mjög tvíbentar. Reyndar eru mikil og sterk tengsl á milli þessa tveggja bóka, minningarritsins Útlínum liðins tíma og skáldsögunnar Út í vitann, eins og lesendur beggja bóka munu sjá. Ramsay-hjónin eiga sér greinilegar fyrirmyndir í Stephen-hjónunum enda segir Virginía Woolf að við það að skrifa skáldsöguna hafi hún losnað undan fagri minninga um foreldra sína sem höfðu heltekið hana fram á fimmtugsaldur.
Í Útlínum liðins tíma dregur Virginíu Woolf, eins og titillinn gefur til kynna, upp útlínur af bernskuminningum sínum með áherslu á foreldrana og systkinin og sumardvöl fjölskyldunnar í St Ives í Cornwall sem myndar skýra andstæðu við líf þeirra í Lundúnum restina af árinu. Foreldrar Woolf tóku Talland House í St Ives á leigu rétt áður en Virginía fæddist og þar dvaldi fjölskyldan á hverju sumri allt frá því að hún var á fyrsta ári. Í minningum hennar er þessi staður sæluríki bernskunnar; þarna gátu systkinin leikið sér frjáls við sjávarsíðuna í sól og blíðu og notið hamingjuríks fjölskyldulífs. Þeim sælusumrum lauk þegar móðir Virginíu lést árið 1895 þegar hún var þrettán ára gömul. Eftir það sneri fjölskyldan aldrei aftur til St Ives og við tók tímabil svartnættis og sorgar sem lauk í raun ekki fyrr en við andlát föður hennar árið 1904. Þá gátu yngri systkinin loksins um frjálst höfuð strokið og umbyltu lífi sínu. Þau köstuðu fyrir róða hinum íhaldssama hugsunarhætti Viktoríutímans, fluttust í Bloomsbury-hverfið í Lundúnum og tileinkuðu sér frjálslyndi í hugsunarhætti jafnt sem lifnaðarháttum. Umskiptin í þeim lifnaðarháttum sem Virginía Woolf ólst upp við og þeim sem hún, systkini hennar og vinir tileinkuðu sér síðar voru í raun byltingarkennd enda skrifar hún í Útlínum liðins tíma að áreksturinn á milli þeirra systra, hennar og Vanessu, og föður þeirra hafi orsakast af því að eina kynslóð hafi í raun vantað á milli þeirra, til að milda áreksturinn:
En úr þeirri fjarlægð sem tíminn hefur skapað fæ ég núna séð það sem mér var áður hulið – gjána á milli okkar sem aldursmunurinn myndaði. Tvær kynslóðir tókust á í setustofunni á Hyde Park Gate. Kynslóð Viktoríu og kynslóð Játvarðar. Við vorum ekki börnin hans, við vorum barnabörnin hans. Það hefði átt að vera kynslóð á milli okkar til að milda áreksturinn. […] á meðan við horfðum til framtíðar vorum við fullkomlega á valdi fortíðar. Að eðlisfari vorum við báðar landkönnuðir og byltingarmenn en við lifðum undir oki samfélags sem var fimmtíu árum á eftir okkur.
Foreldrar og systkini
Virginía var þriðja barn foreldra sinna. Eldri systkini hennar voru Vanessa (1879-1961) og Thoby (1880-1906) og ári eftir að hún fæddist eignaðist hún bróðurinn Adrian (1883-1948). Foreldrar Virginíu höfðu bæði verið gift áður og átti Virginía því einnig fjögur eldri hálfsystkini. Leslie átti fyrir dótturina Láru (1870-1945) og Júlía átti þrjú börn af fyrra hjónabandi, Georg (1868-1934), Stellu (1869-1897) og Gerald Duckworth (1870-1937). Foreldrar Virginíu tilheyrðu efri millistétt, voru í góðum efnum og vel menntuð. Faðir hennar var menntamaður af gamla skólanum og var hlynntur ströngum aga og fastmótuðum hefðum í lifnaðarháttum. Hann krafðist mikils af fjölskyldu sinni og var ósveigjanlegur í skoðunum. Virginía lýsir honum af mikilli næmni, sér bæði kosti hans og galla og er undir áhrifum frá kenningum Freuds þegar hún greinir flókið samband þeirra, en verk Freuds voru gefin út hjá bókaútgáfunni Hogarth Press sem Virginía og eiginmaður hennar, Leonard Woolf, stofnuðu árið 1917. Leslie Stephen var sannur fulltrúi feðraveldis Viktoríutímans sem í augum yngstu dætranna var ekki bara kæfandi í íhaldssemi sinni og harðneskjulegum kröfum heldur einnig hjákátlegt í úreltum siðvenjum sínum. Lýsingar Virginíu á teboðum og dansleikjum þar sem ungar stúlkur eru ‚kynntar til leiks‘ eru bæði fyndnar og háðskar.
En það er einnig önnur og bjartari hlið persónuleika föðurins og hlutverki hans í lífi Virginíu Woolf. Faðir hennar lifði og hrærðist í heimi bókmennta og sögu og var mikilvirkur fræðimaður og rithöfundur. Hann var ritstjóri bókmenntatímaritsins Cornhill Magazine á árunum 1871-1882 og komst þá í kynni við fremstu rithöfunda samtímans sem voru tíðir gestir á heimili þeirra. Meðal ritverka hans voru Saga enskrar hugsunar á 18. öld og bækur um rithöfunda á borð Alexander Pópe, Jonathan Swift, Samúel Johnson, Georg Eliot og Thomas Hobbes. Virginía ólst því upp í heimi þar sem flest snerist um bækur og ritstörf og sá heimur var konum ekki lokaður þótt ekki fengju þær að sækja sér formlega menntun í skólum, líkt og bræður þeirra. Faðir Virginíu opnaði bókasafn sitt fyrir henni og hún mátti lesa hvað sem hana lysti, engar bækur voru bannaðar. Hann bæði gladdist og undraðist yfir áhuga hennar og elju við lesturinn og heimanámið og hvatti hana fyrstur manna til að skrifa.
Líkt og gildir um föðurinn helgar Virginía Júlíu móður sinni stóran hluta minningabrotanna. Hún lýsir á áhrifaríkan hátt því áfalli sem ótímabært andlát hennar hafði í för með sér. Móðurmissirinn var upphafið að röð áfalla sem hún varð fyrir næstu árin og áttu mikinn þátt í geðrænum vandamálum sem hún glímdi við alla ævi. Við andlát Júlíu lenti byrði fjölskyldulífsins á herðum dætra hennar, fyrst þeirri elstu, Stellu, en hennar naut ekki lengi við því hún lést aðeins tveimur árum á eftir móður sinni. Andlát Stellu var jafnvel enn meira áfall en lát Júlíu, hún var nýgift, barnshafandi og hamingjusöm og dauði hennar var óskiljanlegur harmleikur.
Lýsing Virginíu Woolf á móður sinni er ekki síður áhrifarík en lýsing hennar á föðurnum. Hún skrifar: „Fram á fimmtugsaldur […] var ég heltekin af nærveru móður minnar. Ég gat heyrt rödd hennar, séð hana, ímyndað mér hvað hún segði eða gerði þegar ég gekk í mín daglegu verk. Hún hafði þessa ósýnilegu nærveru sem þegar allt kemur til alls leikur svo stórt hlutverk í lífi hvers og eins.“ Júlía Prinsep Stephen (1847-1895) var líkt og síðari eiginmaður hennar að mörgu leyti sannur fulltrúi Viktoríutímans. Hún hafði ákveðnar skoðanir á hlutverki kvenna sem hún taldi ekki síður mikilvægt en hlutverk karla, en á öðru sviði. Hún var til að mynda andsnúin þeim kvenréttindum sem bresku súffragetturnar börðust fyrir og skrifaði undir mótmælaskjal gegn þeim, eins og Virginía minnist á, „trú þeirri skoðun sinni að konur ættu nóg með sitt eigið heimilishald án kosningaréttar“. Júlía taldi að konur ættu fyrst og fremst að helga sig heimilinu og gerði strangar kröfur til elstu dóttur sinnar, Stellu, í því sambandi. Júlía var orðlögð fyrir fegurð og til er fjöldi málverka af henni eftir þekkta breska listmálara. Þegar hún varð ung ekkja með þrjú börn sneri hún sér að hjúkrunar- og mannúðarstörfum sem hún sinnti ötullega alla ævi. Þegar hún lést aðeins 49 ára að aldri, sjö barna móðir, var talið að hún hefði ofgert sér með vinnu, innan og utan heimilis.
Eins og áður sagði var móðurmissirinn gríðarlegt áfall fyrir Virginíu. Hún hefur lýst æskuárum sínum sem einstaklega hamingjusömum og líflegum tíma með sífelldum gestakomum og gleðistundum. Og miðpunktur alls var móðirin. Þegar hún dó voru gleðidagarnir á enda. Faðir Virginíu var niðurbrotinn eftir dauða Júlíu, hann var orðinn gamall og hjálparvana og heimtaði að börnin tæku fullan þátt í sorg sem hann taldi vera fyrst og fremst sína. Hann gerði þeim að ganga í sorgarklæðum og bannaði alla leiki og léttúð. Þessar ósanngjörnu kröfur föðurins lögðust eins þungt á börnin og móðurmissirinn og gerðu líf þeirra óbærilegt á köflum.
Geðræn vandamál
Það var á þessum erfiðu unglingsárum sem Virginía Woolf fékk fyrsta taugaáfallið. Ýmsir fræðimenn og ævisagnaritarar hennar vilja tengja áfallið við dauða móður hennar og þær breytingar á lifnaðarháttum fjölskyldunnar sem fylgdu í kjölfarið. Aðrir vilja tengja áfallið við kynþroskaskeiðið og hræðslu Virginíu við kynlíf sem lesa má út úr dagbókum hennar og minningum. Ævisagnaritarinn Phyllis Rose bendir á að sennilegt sé að kynlíf og dauði hafi ómeðvitað tengst í huga Virginíu, bæði vegna þess orðróms að móðir hennar hafi dáið fyrir aldur fram af ofþreytu, búin að fæða sjö börn, en einnig vegna þess hversu brátt dauða Stellu bar að eftir brúðkaupið. Þá bendir Phyllis Rose einnig á að sú kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hendi hálfbróður síns Georgs – og hún lýsir í Útlínum liðins tíma – hafi einnig stuðlað að erfiðleikum Virginíu á þessu sviði, en hún tjáði sig sjálf hreinskilnisleg um þessi vandamál.10
Í kjölfar andláts Stellu tók við mjög erfitt tímabil í lífi yngri systranna þar sem faðir þeirra gerði til þeirra óbærilegar kröfur. Virginía skrifar: „það var á þessum sjö árum sem liðu á milli andláts Stellu 1897 og andláts hans 1904 að við Nessa vorum algerlega ofurseldar hans furðulega persónuleika svo hvergi var skjól að finna.“ Nú var það Vanessa sem þurfti að takast á við kenjar og harðstjórn föður síns og henni reyndist það erfiðara en Stellu því hún hafði ekki eins eftirgefanlega lund og Stella. Faðir þeirra dó í febrúar 1904 eftir langvinn veikindi. Sama ár seldu systkinin húsið sem þau höfðu alist upp í alla ævi, High Park Gate 22, í Suður-Kensington í Lundúnum, og keyptu nýtt, stórt og bjart hús í Bloomsbury-hverfinu.
Nýtt líf í Bloomsbury
Þótt ytri aðstæður virtust nú brosa við Virginíu gekk hún aftur í gegnum tímabil sálrænna erfiðleika sem lögðust þungt á hana. Hún þjáðist af sektarkennd gagnvart föður sínum og fékk annað taugaáfall stuttu eftir dauða hans. Hún glímdi við þessa erfiðleika í þrjá mánuði og voru einkennin meðal annars þau að hún svelti sig og gerði í fyrsta skipti tilraun til að svifta sig lífi. Virginía dvaldi að mestu leyti á heimili vinkonu sinnar Víolet Dickinson meðan hún átti í veikindunum. Víolet Dickinson var auðug einhleyp kona sem var þekkt fyrir hjartagæsku sína og hjálpsemi og sinnti hún meðal annars konum með geðrænan vanda sem höfðu verið dæmdar til fangelsisvistar. Þrátt fyrir að Víolet væri mikið eldri (f. 1865) en Virginía höfðu þær bundist vinaböndum og skrifuðust á og jafnvel átt í ástarsambandi, að mati ýmissa ævisagnaritara Woolf. Þegar hún hafði náð sér um haustið 1904 flutti Virginía á nýja heimili þeirra systkina á Gordon Square 47 í listamannahverfinu Bloomsbury. Þar bjuggu systurnar ásamt bræðrum sínum Thoby og Adrian og líf þeirra tók stakkaskiptum. Öllum gömlum hefðum var kastað fyrir róða, engar fastmótaðar reglur ríktu á heimilinu. Systurnar breyttu jafnvel um klæðaburð á róttækan hátt. Þær gátu sinnt sínum hjartans málum; Vanessa myndlistinni og Virginía ritlistinni. Í gegnum Thoby kynntust þær ungum mennta- og listamönnum og til varð Bloomsbury-hópurinn sem hittist reglulega á heimili systkinanna og ræddi um bókmenntir og listir.
Áhugavert er að lesa lýsingar Virginíu á þessum tíma í dagbókum og bréfum. Hún virðist hafa staðið nokkuð fyrir utan hópinn, fyrst og fremst vegna þess hversu óframfærin hún var en einnig vegna þess að hún upplifði sig utangarðs sökum þess að hún hafði aldrei notið skólagöngu. Flestir hinna ungu manna sem voru uppistaðan í Bloomsbury-hópnum voru nemendur í Cambridge. Ekki virðist hún þó hafa fundið fyrir minnimáttarkennd að ráði, því hún lýsir samræðum ungu mannanna oft á tíðum á háðskan hátt og gefur í skyn að því menntaðri sem þeir voru þess ófrjórri hafi hugsun þeirra verið.
Árið 1906 reið enn eitt áfallið yfir; Thoby lést aðeins 26 ára að aldri úr taugaveiki, líklega vegna matareitrunar sem hann fékk á ferðalagi þeirra systkina í Grikklandi. Í kjölfar þess féllst Vanessa á bónorð listgagnrýnandans Clive Bell sem var einn meðlima Bloomsbury-hópsins og þau giftust árið 1907. Hjónaband þeirra var alla tíð ‚opið‘ og mjög frjálslegt og bæði áttu aðra elskendur. Vanessa eignaðist tvo syni með eiginmanni sínum og eina dóttur með elskhuga sínum, listmálaranum Duncan Grant (1885-1978) sem var tvíkynhneigður. Á tímabili bjuggu þau öll saman, ásamt ástmanni Duncans og ástkonu Clives en hjónaband hans og Vanessu var þá að mestu lokið þótt þau skildu aldrei formlega og héldu vinskap alla ævi. Vanessa og Duncan Grant voru mjög náin, bjuggu saman í meira en fjóra áratugi, eða allt til að hún dó árið 1961. Þau voru einnig nánir samstarfsmenn í listinni. Virginía og Adrian fluttu í nýtt hús, Fitzroy Square 29, þegar Vanessa og Clive giftu sig. Næstu árin hélt Bloomsbury-hópurinn áfram að hittast á hinu nýja heimili Virginíu og Adrians en hún fékk ekki eins mikla ánægju út úr samkomunum og áður. Hún saknaði sárlega félagsskapar systur sinnar.
Á þessum árum hóf Virginía Woolf starfsferil sinn sem bókmenntagagnrýnandi og blaðamaður. Hún skrifaði gagnrýni í Times Literary Supplement sem hún átti eftir að skrifa í um áraraðir. Einnig var hún byrjuð að skrifa sína fyrstu skáldsögu sem hún var með í smíðum í sjö ár. Virginía skrifaði tíu uppköst af þeirri sögu áður en hún var ánægð og lýsir það vel þeim kröfum sem hún gerði til sjálfrar sín á sviði skáldskaparins. Að síðari verkum sínum skrifaði hún yfirleitt þrjú uppköst áður en hún lét þau frá sér fara.
Hjónaband
Einn af forsprökkum Bloomsbury-hópsins var rithöfundurinn Lytton Strachey (1880-1932). Eins og fleiri í hópnum var hann hommi en engu að síður bað hann Virginíu að giftast sér árið 1909. Reyndar dró hann bónorð sitt til baka næsta dag því honum var ljóst hvílík mistök það myndu vera að ganga svo þvert gegn eðli sínu. Virginía tók þessu öllu mjög kurteislega og leysti Strachey undan heiti sínu með þeim orðum að hún elskaði hann hvort sem er ekki. Hún virðist þó hafa borið til hans einhverjar tilfinningar því hún hafnaði öðrum biðlum á þeim forsendum að Strachey væri eini maðurinn sem hún gæti hugsað sér að giftast. Hún leit mjög upp til hans sem mennta- og listamanns og félagsskapur hans örvaði hana til dáða. Líklega hefur hún séð fyrir sér möguleika á hjónabandi þar sem sameiginlegt áhugamál og iðkun þess væri í fyrirrúmi og annars konar samlíf væri aukaatriði.
Reyndar varð sú raunin þremur árum síðar þegar hún tók bónorði Leonards Woolf (1880-1969) að hjónaband þeirra mun hafa verið byggt á slíkum grundvelli fyrst og fremst. Áður en þau giftust, 10. ágúst 1912, viðurkenndi Virginía fyrir Leonard að hún bæri engar kynferðislegar tilfinningar til hans og þegar þau komu úr brúðkaupsferð sinni leituðu þau ráða hjá Vanessu vegna ‚kynkulda‘ hennar. Líklegasta skýringin á áhugaleysi hennar á kynlífi í hjónabandinu kann einfaldlega vera sú að hugur hennar hneigðist fremur til kvenna. Hún átti í ástarsamböndum við konur, það þekktasta var við rithöfundinn Vitu Sackville-Vest sem hún kynntist mörgum árum síðar og byggir aðalpersónu skáldsögunnar Orlandó að miklu leyti á. Hvað sem því líður er almennt talið að hjónaband Virginíu og Leonards Woolf hafi verið gott og hamingjuríkt. Mikil gagnkvæm virðing ríkti á milli þeirra og ritstörf var aðaláhugamál þeirra beggja. Leonard hvatti Virginíu mjög til að skrifa, hann taldi hana snilling á sviði skáldsagnagerðar og reyndist henni betri en enginn þegar sálrænir erfiðleikar steðjuðu að.
Hjónaband Virginíu og Leonards Woolf stóð í tæp þrjátíu ár, allt til að hún batt enda á líf sitt 28. mars 1941. Þau ár voru að mörgu leyti góð. Skáldgáfa hennar blómstraði. En það voru einnig erfiðleikar. Erfiðleikar út af sálrænum veikindum Virginíu og barnleysinu sem þjáði hana. Einnig fylgdu erfiðleikar í kjölfar þess að Virginía varð ástfangin af Vitu Sackville-Vest og horfðist í augu við það að konur höfðu alltaf höfðað meira til hennar en karlmenn og að þær gátu vakið upp ástríður hennar. Leonard Woolf stóð alltaf sem klettur við hlið Virginíu í veikindum hennar. Hann hjúkraði henni og þegar Virginía treysti sér ekki til að takast á við geðsjúkdóm sinn lengur og batt enda á líf sitt skrifaði hún honum sínar síðustu línur: „Allt hefur yfirgefið mig nema fullvissan um góðmennsku þína. Ég get ekki haldið áfram að eyðileggja líf þitt. Ég held að engar tvær manneskjur hafi verið hamingjusamari en við tvö.“
Uppskerutími
Þriðji áratugur tuttugustu aldarinnar er frjóasta tímabilið í ritstörfum Virginíu Woolf. Þá komu út þær skáldsögur hennar sem þóttu mestum tíðindum sæta, Jacob´s Room (1922), Mrs. Dalloway (1925), Út í vitann (1927), Orlandó. Ævisaga (1928) og Sérherbergi (1929). Tvær skáldsögur höfðu komið út áður, The Voyage Out (1915) og Night and Day (1919) og á fjórða áratugnum gaf hún síðan út tvær stórar skáldsögur: The Waves (1931) og The Years (1937). Síðasta skáldsaga hennar Between the Acts kom út á dánarári hennar 1941. Margar fleiri bækur komu út eftir hana, ævisögur, greinasöfn og ritgerðir. Eftir andlátið voru dagbækur Virginíu Woolf gefnar út í fimm bindum og bréf hennar í sex bindum, auk minningabrotanna sem birtust fyrst í bókinni Moments of Being (1976).
Mikilvægasta framlag Virginíu Woolf til bókmennta er annars vegar talinn vera sá þáttur sem hún átti í að endurnýja skáldsagnaformið með aðferðum vitundarstreymis (stream of consciousness) sem ásamt djúpu sálrænu innsæi og meistaralegum ljóðrænum stíl skipar henni í framvarðasveit módernískra skáldsagnahöfunda á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hins vegar eru skrif hennar um konur og bókmenntir gríðarlega mikilvæg og mynda grunn að þeim rannsóknum á bókmenntum kvenna sem fóru á flug á seinni hluta tuttugustu aldar. Þannig spanna áhrif hennar alla síðustu öld og sér ekki fyrir endann á þeim. Ótal bækur hafa verið skrifaðar um Virginíu Woolf og verk hennar, sem og fjölmargar ævisögur – og ekkert lát er á rannsóknum á ævi hennar og skrifum.
Hughrif og tilvistaraugnablik
Þegar Virginía Woolf byrjar að lýsa minningum sínum í Útlínum liðins tíma segist hún hefjast handa „án þess að dvelja um of við vangaveltur um aðferð“ og bætir við: „hún kemur hvort eð er áreiðanlega af sjálfu sér“. Hún byrjar á því að rifja upp fyrstu minningar sínar og dvelur fyrst og fremst við skynjanir sem kalla fram sterkar tilfinningar sem eru tengdar litum og hljóðum fremur en orðum. „Væri ég málari,“ heldur hún áfram, „myndi ég mála þessar fyrstu skynjanir mínar í fölgulu, silfruðu og grænu. […] Ég myndi gera mynd sem væri hnöttótt, hálfgagnsæ. […] Allt yrði dregið stórum og óskýrum dráttum og það sem sæist myndi einnig heyrast […] Hljóð og form virðast eiga jafnan þátt í þessum hughrifum.“ Síðasta orðið – hughrif – er lykilorð í Útlínum liðins tíma. Fremur en að lýsa línulegri röð atburða vindur texta Woolf fram á þeim hughrifum sem hún kallar fram úr bernsku sinni og hún leggur áherslu á að slík hughrif er hægt að endurupplifa með því að rifja þau upp. Hún líkir reynslunni jafnvel við líkamlegt afturhvarf í tíma, minningin getur „virkað raunverulegri en nútíðin“ og framkallað slíka sæluvímu að tími og rúm þurrkast út; „það er næstum því óhugsandi að ég sé hér“.
Annað lykilhugtak í þessum minningabrotum Virginíu Woolf tengist vandamáli sem hún hefur „staðið ráðþrota gagnvart“ við skáldsagnaskrif sín, það sem hún kallar „tilvistarleysi“. Sérhver dagur býr yfir meira tilvistarleysi en tilvist og það er mikill vandi að miðla báðum þessum veruháttum í skáldskap, skrifar Woolf, þótt ýmsum snjöllum höfundum takist það – og hún nefnir Jane Austen, Trollope, Thackeray, Dickens og Tolstoy. Í minningabrotum sínum leggur Woolf áherslu á tilvistaraugnablik (moments of being) fremur en það tilvistarleysi sem einkennir mestan part ævinnar. Það eru þessi sterku tilvistaraugnablik sem skapa hughrifin sem búa innra með okkur alla ævi því þau hafa áhrif á persónuleika okkar og líkama. Woolf ályktar að hæfileiki hennar til að taka við slíkum hughrifum sé það sem geri hana að rithöfundi því í hennar tilviki fylgi alltaf löngun til að útskýra hughrifin. Og hún skilgreinir þetta sem þá heimspeki sem liggur að baki skrifa hennar: „Ef til vill er þetta mesta fullnægja sem ég þekki. Það er sæluvíman sem ég upplifi þegar ég virðist vera að uppgötva í gegnum skrifin hvað heyrir saman, hvernig lýsa á atviki, hvernig á að ná utan um persónulýsingu. Með þessu nálgast ég það sem ég gæti kallað heimspeki.“ Það er í gegnum slík tilvistaraugnablik sem skilningurinn á lífinu sjálfu kemur, að á bak við tilvistarleysið sjálft leynist mynstur sem opinberast okkur í hinum einstöku augnablikum tilvistarinnar:
Og þessi skilningur hefur áhrif á mig á hverjum degi. Ég kafa ofan í þetta núna með því að verja morgninum við skriftir þegar ég gæti verið á göngu, rekið búð eða lært eitthvað sem kæmi að gagni ef stríð skylli á. Ég tel að með því að skrifa sé ég að fást við eitthvað sem er nauðsynlegra en nokkuð annað.
Virginía skrifar þessar endurminningar sínar á tímabilinu 18. apríl 1939 til 15. nóvember 1940 en nokkrum mánuðum síðar var hún öll og náði því aldrei sjálf að ljúka þeim eða gera bók úr þeim. Vélrit hennar sem síðar var gefið út í bókinni Moments of Being ásamt fleiri minningabrotum er þó furðu heildstætt, þótt það endi nokkuð bratt, og gefur afar góða mynd af bernskuárum hennar og eykur skilning á mörgum verka hennar.