SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn17. júní 2024

TVÆR ÞJÓÐHÁTÍÐAR-ÖRSÖGUR

eftir Önnu Láru Möller

 

FJALLKONAN

Leið áfram glæsileg gyðja. Henni hlotnaðist sá heiður að bera hinn skrautlega fjallkonubúning og hún gerði það með reisn. Hún steig á pall, stóð hnarreist og röddinni beitti af mikilli list. Fjallkonan ljóðið flutti sem var mikið ættjarðar skjall. Sköruleg í íslenskum skrautbúning með tilheyrandi skarti, stokkabelti úr silfri og brjóstnælu í stíl. Með búningnum fagra efldi hún þjóðernis- og fegurðarvitund hinna íslensku þegna. Bæir og borgin skreytt með fánum og blómum. Hvarvetna blöðrur, kandís og rjómaís. Skátar stóðu heiðursvörð og lúðrasveitin lúðrana þandi og kætti hátíðargesti. Tákngervingur Íslands tignarleg fjallkonan fagra að lokum mælti:

„Góðu gestir, Ísland á sér alltaf von og nú syngjum við saman: „Hæ, hó, jibbí, jei og jibbí, jei, það er kominn 17. júní.““ 

 

 

TUNGAN

Tungan er ljóðræn, tungan er fögur; tungan geymir fornsögur. Tungan er gullinstrengir sem óma yfir landið gjörvallt og bergmál sem hljómar um allt. Yfir dýrðarinnar dali, byggðir og þorp. Tungan er hvöss og tungan er stormur og getur verið eins og höggormur. Tungan er skaðræðis gripur og grimm, en er líka kóngsdóttirin Dimmalimm. Tungan er viðkvæm en voldug, hún er glíma og er lúmsk eins og gríma. Tungan er fjörug og keik þegar hún bregður á leik. Tungan er logn og líka Leppalúði. Tungan er lævís og tungan er ljót, hún svífur yfir hæstu fjöll og dýpstu fljót. Tungan er Mjallhvít og dvergarnir sjö. Tungan þruglar og þrasar, hún er djörf og endalaust hún masar. Tungan er í gulli og geimsteina skrúði. Tungan er sterk og himneskt málverk. Tungan flytur regnboga og hlýju yfir dali og fjöll. Tungan á heima í glóandi höll: „Íslensk er tunga þín skýr eins og gull.“1 

 

1 Úr ljóðinu Ísland er land þitt eftir Margréti Jónsdóttur (1893-1971).

 

Tengt efni