SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir20. október 2024

Á AÐ RITSKOÐA BÆKUR?

Samfélagið á Rás 1 fjallaði í vikunni um ritskoðun barnabóka sem er umdeild en útbreidd. Þar kemur m.a. fram að fjöldi foreldra ritskoðar bækur sem lesnar eru fyrir börnin, einkum börn á leikskólaaldri. Um ræðir bækur á borð við Einar Áskel, Emil í Kattholti, Bóbó Bangsa, Lárubækurnar, Línu langsokk, Dimmalimm, Öskubusku, Bangsímon, Erilborg og Ævintýrið um risastóra Peru.
 
Einnig eru dæmi um að foreldrar óski eftir að bækur séu teknar úr umferð. Dröfn Vilhjálmsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur, segist ekki höll undir ritskoðun og hefur aðeins eitt skipti tekið bækur úr umferð en það var að beiðni höfundar. Þetta voru Gæsahúðarbækur fyrir eldri eftir Helga Jónsson en mikil umræða var um þær fyrir fáeinum árum. Dröfn tekur þó fram að það vanti fleiri bækur og því séu margar í umferð sem hvorki börnum né foreldrum hugnist.  
 
Sif Sigmarsdóttir, rit- og pistlahöfundur, skrifaði pistil í fyrra um ritskoðunargleði og þöggunartilburði. Þar segir hún meðal annars frá vinkonu sinni sem kenndi sögu eftir Margréti Atwood í bókmenntaáfanga við háskóla á Englandi og uppskar kvörtun frá nemanda sem þótti efni sögunnar óviðeigandi því það væri átakanlegt. Ennfremur segir Sif að ratað hafi í fréttir að Greenwich-háskólinn í London hafi bætt svonefndri inntaksviðvörun (e. trigger warning) á bókina Northanger Abbey eftir Jane Austin, þar sem varað var við „kynbundnum staðalímyndum“ og „óheilbrigðum samböndum“, og að slíkar inntaksviðvaranir fyndust nú víða í heimsþekktum bókmenntunum. 
 
Í fyrra rataði einnig í fréttir að útgáfan Puffin hafi tilkynnt um breytingar á orðalagi í barnabókum Roalds Dahl en hann er hvað þekkt­ast­ur fyr­ir barna­bæk­urn­ar Matt­hildi og Kalla og sæl­gæt­is­gerðina. Það sýnist sitt hverjum, t.d. segir Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emiritus í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, það ófyrirgefanlegt að ritskoða bækur yfirhöfuð en Margrét Tryggvadóttir, barnabókahöfundur, bendir á að það megi vissulega kalla þess­ar breyt­ing­ar rit­skoðun en það megi einnig líta á þær sem end­ur­rit­un fyr­ir nýja les­end­ur.
 
Auðvitað væri best að komast alfarið hjá því að vera að hræra í höfundavörðum texta. Hins vegar er vart hægt að þýða texta yfir á annað tungumál ef hvergi má hrófla við honum. Í því ljósi er ef til vill ekkert óeðlilegt að það séu gerðar einhverjar breytingar til að höfða til nýs markhóps- eða hvað?