SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Sif Sigmarsdóttir

Sif Sigmarsdóttir er fædd í Reykjavík 30. nóvember árið 1978.

Sif lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1998 og BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Sif hélt í kjölfarið til Bretlands til framhaldsnáms og útskrifaðist með MA í barnabókmenntum frá University of Reading árið 2003.

Silf starfar sem rithöfundur og sjálfstætt starfandi blaðamaður í Lundúnum.

Fyrsta skáldsaga Sifjar, unglingabókin Ég er ekki dramadrottning, kom út árið 2006. Hún hlaut góða dóma gagnrýnenda og varð söluhæsta íslenska unglingabók ársins. Bókin Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu kom út árið 2007 og varð hún einnig mest selda íslenska unglingabók þess árs.

Þriðja bók Sifjar, Freyju saga – Múrinn, fantasía fyrir unglinga byggð á norrænni goðafræði, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013. Síðara bindi Freyju sögu, Djásn, kom út um jólin 2014.

Haustið 2017 kom út í Bretlandi fyrsta skáldsaga Sifjar sem skrifuð er á ensku á vegum eins stærsta útgefanda heims, Hodder. Bókin ber heitið I am Traitor og er vísindaskáldsaga fyrir unglinga.

Árið 2007 stofnaði Sif bókaklúbbinn Handtöskuseríuna, ritröð þýddra skáldsagna eftir konur. Á vegum seríunnar komu út í fyrsta sinn á íslensku höfundar á borð við Audrey Niffenegger, Monica Ali, Karen Joy Fowler, Candace Bushnell og Anna Gavalda. Klúbburinn óx hratt og keypti Forlagið útgáfuna síðla árs 2010.

Sif hefur starfarð sem pistlahöfundur um árabil m.a. hjá Fréttablaðinu, RÚV og Morgunblaðinu.


Ritaskrá

  • 2021  Banvæn snjókorn
  • 2019  The sharp edge of a snowflake
  • 2019  Ég er svikari (Halla Sverrisdóttir þýddi)
  • 2018  Sjúklega súra sagan (ásamt Halldóri Baldurssyni)
  • 2018  Íslandssagan - Súra sagan (ásamt Halldóri Baldurssyni) 
  • 2017  I am Traitor
  • 2014  Djásn: Freyju saga 2
  • 2013  Múrinn: Freyju saga
  • 2007  Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu
  • 2006  Ég er ekki dramadrottning

 

Tilnefningar

  • 2013  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Múrinn - Freyju sögu

 

Þýðingar

Þýðingar á verkum Sifjar:

  • 2017  Moi Edda, reine des faux plans (Ingveldur St. Ivanez þýddi á frönsku)

 

Þýðingar Sifjar:

  • 2013  Lauren Olivier: Órar
  • 2005  Katherine Langrish: Tröllafell