SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. febrúar 2025

KRISTÍN GEIRSDÓTTIR: ÍSLENDINGASÖGUR OG ÍSLENSK ALÞÝÐA

 

Það kann að vera erfitt fyrir fólk sem fæddist eftir að íslenska bændasamfélagið með kvöldvökulestri leið undir lok að skilja hversu sterkan þátt Íslendingasögurnar áttu í tilveru þeirra sem ólust upp við lestur þeirra og þá sannfæringu að þau væru að fræðast um forfeður sína og sögu þegar hlýtt var á lesturinn. Í raun var ráðist bæði að sjálfsmynd og söguskilningi þjóðarinnar með hinum nýju kenningum [um að sögurnar væru skáldskapur] eins og kemur í ljós þegar rýnt er í deilur sagnfestumanna og bókfestumanna – og þó kannski enn fremur þegar framlag sjálfsmenntaðs alþýðufólks er tekið með í reikninginn.

Á árunum 1979, 1990 og 1995 birtust í Skírni þrjár merkar greinar eftir Kristínu Geirsdóttur (1908-2005) sem gefa mjög góða mynd af viðhorfi alþýðufólks til þessara mála.

Kristín er fædd og uppalin í Hringveri á Tjörnesi í Þingeyjarsýslu, þar sem hún bjó alla sína löngu ævi, í allnokkurri einangrun og takmörkuðum samskiptum við umheiminn. Hún naut mjög lítillar skólamenntunar, formleg skólaganga hennar telur aðeins nokkra mánuði. En hún var sólgin í fróðleik, las alla tíð mikið og byrjaði snemma „að grúska“. Af greinum Kristínar má merkja að hún hefur fylgst allvel með fræðilegri umræðu um Íslendingasögur og önnur fornrit, þótt hún geri lítið úr þekkingu sinni og afsaki sig ítrekað fyrir að hún „vogi [sér] að leggja hér orð að“ (Skírnir 1979:12).

 

Fyrsta grein Kristínar ber titilinn „Fáein alþýðleg orð“ og þar andmælir hún þeim fræðimönnum sem draga í efa sannleiksgildi Íslendingasagna og halda því fram að íslensk fornrit hafi ekkert með „sögulegan veruleika“ að gera. Hún byrjar greinina á því að biðjast afsökunar á því hún „skyldi láta [sér] detta í hug að skrifa hana, hvað þá reyna að koma henni á framfæri“ því „svo grimmilega [finni hún] til vangetu [sinnar] að gera hana svo úr garði sem [hún] hefði viljað og hæft hefði efni hennar“. Hún lýkur greininni á svipuðum nótum, en nefnir einu gildu afsökunina sem hún hefur: „ást [sína] á íslenskum fornbókmenntum“. Þrátt fyrir þessar afsakanir vílar Kristín ekki fyrir sér að gagnrýna harðlega kenningar fræðimanna og er bæði rökföst og launhæðin á köflum. Kristín beinir spjótum sínum sérstaklega að kenningum dr. Sveinbjörns Rafnssonar um Landnámu en Sveinbjörn varði doktorsritgerð sína um það rit við háskólann í Lundi árið 1974. Í ritgerðinni dregur hann mjög í efa heimildagildi Landnámu og annarra íslenskra fornrita. Kristín gagnrýnir sérstaklega þá skoðun Sveinbjarnar að ekki megi „trúa um of á ritaðar heimildir“ og að „við þurfum að taka alla elstu sögu okkar til endurskoðunar og mölva allt saman niður og byggja upp aftur“. Í framhaldinu spyr hún athyglisverðra spurninga:

 

Hafi það verið mesta veila íslenskrar sagnfræði að trúa um of á ritaðar heimildir, hvar er þá að finna heimildir sem óhætt sé að trúa? Og geta nútímamenn alltaf verið vissir um hvað séu staðleysur og hvað fái staðist í hinum fornu ritum, jafnvel þó lesið sé með augun opin? Og ef það er rétt að taka þurfi alla elstu sögu okkar til endurskoðunar og mölva allt saman niður, hvernig er þá hægt að byggja upp aftur? Er hægt að búast við sannari fornsögu, byggðri að miklu leyti á hugdettum þeirra manna, sem uppi eru á tuttugustu öld? (Skírnir, 1979: 5-6)

 

Kristín andmælir einnig þeirri kenningu að sögurnar endurspegli fyrst og fremst samtíma ritanna/höfundanna og að persónur þeirra hafi að fyrirmynd samtímamenn höfundanna. En það er ekki deilan um heimildagildi fornrita sem áhugaverðust er þegar grein Kristínar er lesin heldur sú mynd sem þar er dregin upp af viðhorfi íslensks alþýðufólks til fornbókmennta. „En þessar bækur hafa verið mér ákaflega kærar, svo langt sem eg man til“, skrifar hún, og „það er líka ýmislegt varðandi þessi efni, sem eg á örðugt með að skilja, vegna þess að það vill ógjarna samrýmast minni alþýðlegu skynsemi“ (6). Hér talar hún áreiðanlega fyrir munn margra og eins nokkru síðar þegar hún segir:

 

Í annan stað er mér mjög í fersku minni hvernig eg heyrði um sögurnar talað á uppvaxtarárum mínum. Eg segi ekki að þeim hafi verið trúað alveg skilyrðislaust, að minnast kosti man eg að það sem einu nafni var kallað „hjátrú“ og víða kemur fyrir, sem kunnugt er, var yfirleitt ekki tekið alvarlega og fremur litið á það sem ýkjur eða ímyndun. Fleira munu margir hafa talið eitthvað ýkt. – Eigi að síður var fyrst og fremst litið á þetta sem sannar sögur, sem gengið hefðu mann fram af manni, uns þær voru festar á bókfellið. – Það var rætt um persónurnar eins og kunnugt fólk, orðaskipti þeirra og viðbrögð, þær voru ásakaðar og afsakaðar, dæmdar og dáðar – og harmaðar (Skírnir, 1979: 7)



Þessi lýsing Kristínar kemur heim og saman við lýsingu Þórbergs Þórðarsonar, í Fjórðu bók Suðursveitarbálksins, á lestri Íslendingasagna á kvöldvökunum á Hala og Þórbergur ítrekar einnig að heimilisfólkið hafi talið um sannar sögur að ræða: „Fólkið var svo frómt í sér, að því kom ekki til hugar, að höfundar væru að ljúga upp sögum, sem voru sagðar eins og þær væru sannsögulegar“ (Í Suðursveit, 1979: 405).  Kristín tínir til margs konar rök fyrir máli sínu, til að mynda nefnir hún að „sú samfellda heildarmynd, sem [Íslendingasögurnar] gefa af mönnum og atburðum þess tímabils, sem venja er að kalla söguöld“ hafi styrkt sig einna mest „í þeirri trú að Íslendingasögurnar væru að miklu leyti byggðar á sannsögulegu efni“ („Fáein alþýðleg orð":16). Þá nefnir hún að „furðuleg [sé] öll sú þekking, sem virðist hafa verið til staðar um fólkið sem landið byggði á þessum tíma. Lesandinn getur orðið kunnugur í hverju héraði, nærfellt í hverri sveit“ („Fáein alþýðleg orð": 16). Sama skoðun kemur fram í bernskuminningum Steinþórs, bróður Þórbergs, sem segir að faðir sinn hafi verið „kunnur víða um landið, bæði af ferðum sínum um Austfirði, en þó sérstaklega af Íslendingasögunum. Hann hafði lesið þær kannski ár eftir ár, mundi héraðaskipti og ýmsa bæi o.s.frv. Þess vegna var þetta allt nokkuð ljóst fyrir honum, þegar gesti bar að og hann fór að spyrja“ ( Nú – nú, bókin sem aldrei var skrifuð, 1970:7).

 

Athyglisverður hluti greinar Kristínar fjallar um það hvernig sögur geta varðveist í margar kynslóðir hjá fjölskyldum en þar bregst hún við þeim orðum Sveinbjarnar að þeir atburðir, sem fornritin greini frá, eigi „ekkert skylt við sögulegan veruleika“ þar sem „[m]örg hundruð ár [séu] á milli ritunartíma heimildanna og atburða þeirra sem þær greina frá að hafa orðið“ („Fáein alþýðleg orð": 32). Þessu hafnar Kristín og rekur dæmi úr eigin reynslu af sögum sem hún  heyrði í æsku af forföður sínum, Jóni Jónssyni (1795-1847) frá Mýri í Bárðardal, sem hún er fimmti maður frá. Og reyndar heyrði hún „einnig getið föður hans, Jóns Halldórssonar, sem bjó á Mýri á undan honum í þrjátíu ár, eða frá því átján árum fyrir Móðuharðindi“ („Fáein alþýðleg orð": 33).

 

Nefna má að Kristínu barst liðsauki þegar fræðimaðurinn Jónas Kristjánsson birti greinina „Sannfræði fornsagnanna“ í Skírni árið 1987 þar sem hann rekur helstu kenningar um aldur og sannleiksgildi íslenskra fornrita. Jónas telur sig í hóp þeirra „niðurbrotsmanna“ sem Kristín gagnrýnir en eigi að síður fer hann bil beggja, finnst fráleitt að hafna alfarið sannleiksgildi Íslendingasagna og rekur í greininni dæmi um það hvernig sögulegur fróðleikur geti varðveist og flust á milli kynslóða í að minnsta kosti 120 ár. Niðurstaða hans um Íslendingasögur er að þær dragi „upp fegraða, en heilsteypta mynd af löngu liðinni öld. Smáatriði í frásögnum og lýsingum eru ósöguleg, en meginviðburðir, til dæmis víg aðalgarpa, eru sannar, og einnig að miklu leyti ættartölur eða mannfræði. Þannig flytja sögurnar mikinn sannleika frá 10. og 11. öld.“ Jónas telur að grein Kristínar sé „frábærlega skýr og vel rituð“ og að Kristín færi „með mikilli hógværð skynsamlegar röksemdir gegn boðskap niðurbrotsmanna.“ Mér virðist sýnt að Jónas og Kristín séu sammála í grundvallar­atriðum um sannleiksgildi Íslendingasagna, en hún skrifar meðal annars: „Eg trúi ekki öðru en að sögur eins og t.d. Egla og Laxdæla séu fyrst og fremst byggðar á sterkum ættarsögnum, sem þekktar hafa verið og sagðar af mörgum kynslóðum, þó að vísu séu þær allmjög færðar í stílinn.“


Hér hefur verið vísað í fyrstu grein Kristínar Geirsdóttur af þremur, en í þeim tveimur síðari, „Hugleiðing um fornsögur“ og „Hvað er sannleikur?“, heldur hún ótrauð áfram að andmæla kenningum fræðimanna um íslensk fornrit og sérstaklega þeirri skoðun að hér sé fyrst og fremst um skáldskap að ræða, að miklu leyti byggðan á rittengslum við evrópsk miðaldarit. Hún andmælir meðal annars kenningum fræðimanna á borð við Hermann Pálsson og Þórhall Vilmundarson – og Halldór Laxness fær einnig beitta gagnrýni frá henni. Kristín gagnrýnir  harðlega örnefnakenningu Þórhalls Vilmundarssonar í fyrstu grein sinni og þó sérstaklega í þeirri þriðju og síðustu. Miðjugreinin er að stórum hluta gagnrýni á grein Hermanns Pálssonar „Bækur æxlast af bókum“ (Skírnir, vor 1988: 35-50). Um skrif Laxness um fornbókmenntir segir hún: „Ritgerðir þessar glitra allar og glansa af hugmyndaflugi skáldsins og stílleikni, en varla trúi eg öðru en að i sumum atriðum megi þær heita nokkuð fjarstæðukenndar“ („Fáein alþýðleg orð“: 22).

 

Á einum stað skrifar Kristín: „Margt ótrúlegt getur komið fyrir, og líklega verður það að teljast ótrúlegt að áttræð alþýðukona skuli reyna að gera athugasemdir við skrif lærðra og viðurkenndra fræðimanna. – En hin síðari ár hefur stefna margra fræðimanna varðandi íslensku fornritin verið mér mikið harmsefni“ (Hugleiðing um fornsögur“: 38). Og nokkru síðar: „[...] þá hef ég margoft verið furðu slegin vegna þess hversu margar hugmyndir og kenningar sagnfræðinga eru fjarstæðukenndar og að því er virðist byggðar á ýmiskonar hugarflugi“ (Hugleiðing um fornsögur“: 46).


Það er ómögulega annað hægt en dáðst að því að sjálfsmenntuð og háöldruð alþýðukona skuli verja svo miklu af tíma sínum og orku í að andmæla fræðimönnum og verja hið alþýðlega viðhorf til íslenskra fornrita. En það sýnir glöggt hversu mikilvægur þessi bókmenntaarfur var henni. Í lok síðustu greinar sinnar segir Kristín: „Eg þykist vita að sum þessara rita muni vera færð í skáldlegan búning, en samt er eg viss um að þeir, sem þetta skráðu voru, eftir því, sem staðið getur í mannlegu valdi, færir um að meta og virða hinn ósegjanlega dýrmæta en vandfundna sannleika.“ („Hvað er sannleikur“: 422). Þess má geta að í seinni tíð hafa allmargir fræðimenn horfið frá eindreginni trú á bókfestukenninguna og jafnvel er talað um „nýja sagnfestu“ í því sambandi.


Í greinum sínum gerir Kristín Geirsdóttir vandlega grein fyrir alþýðlegum sjónarmiðum til Íslendingasagna sem eru dæmigerð fyrir viðhorf sem lifðu góðu lífi langt fram eftir tuttugustu öld meðal íslensks alþýðufólks, eða á meðan íslensk alþýða átti náið samband við þessar bókmenntir. Kristín lýsir þessum viðhorfum á mun ítarlegri hátt en Þórbergur gerir í Fjórðu bók Suðursveitarbálksins, en víst er að hann ólst upp við sömu hugmyndir og hún lýsir. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar spáð er í hvers konar áhrifum Þórbergur verður fyrir þegar hann sest á skólabekk í Háskóla Íslands og byrjar að hlýða á fyrirlestra Björns M. Ólsens. Hér má líka vitna í bréf Þórbergs til Kristins E. Andréssonar sem birt var aftan við fjórðu útgáfu Bréfs til Láru árið 1950 og sýnir sama viðhorf og fram kemur í greinum Kristínar Geirsdóttur:



Íslendingasögur falla í gildi. Þær eru líka orðnar að lygasögum, á fínna máli skáldsögum. Gunnar, Héðinn og Njáll, þessir miklu fulltrúar göfginnar, hreystinnar og vizkunnar, sem hafa verið okkar andlegu vitar í þúsund ár, þeir kváðu þá aldrei hafa verið til. Hverjir eiga nú að vera okkar leiðarljós í myrkrum komandi tíma? Ekki getum við stýrt fleyi lífsins eftir upplognum körlum, sem hvergi hafa verið til annars staðar en í hausum lygasöguhöfunda. Slíkir gervimenn hafa aldrei lifað og barizt í Hvítuvetrum íslenzkrar náttúru. Milli okkar og þeirra eru engin lífræn tengsl. (Þórbergur Þórðarson, „Bréf til Kristins“, Bréf til Láru, 4. útg. 1950, bls. 213.)

 

Textinn hér að ofan er hluti af fimmta kafla í bókinni Ég skapa - þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar eftir Soffíu Auði Birgisdóttur (2015). Í þeim kafla er meðal annars gert grein fyrir þeim bókmenntalega jarðvegi sem Þórbergur er sprottinn úr og rætt sérstaklega um þau viðhorf sem hann ólst upp við gagnvart Íslendingasögum. Sömu viðhorf enduróma í hinum merkilegu skrifum Kristínar Geirsdóttur, sem gerir mun ítarlegar grein fyrir þeim en Þórbergur. Hér eru heimildatilvísanir einfaldaðar.

Tengt efni