SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Kristín Geirsdóttir

Sigríður Kristín Geirsdóttir var fædd 19. ágúst 1908 og uppalin í Hringveri á Tjörnesi í Þingeyjarsýslu, þar sem hún bjó alla sína löngu ævi, í allnokkurri einangrun og takmörkuðum samskiptum við umheiminn lengst af.

Kristín naut mjög lítillar skólamenntunar, formleg skólaganga hennar telur aðeins nokkra mánuði. Hún fékk fyrst hefðbundna fræðslu í sveit sinni eins og hún tíðkaðist þá. Sextán ára gömul var hún á unglingaskóla á Tjörnesi í tæpar fjórar vikur. Þá var hún hálfan vetur á Unglingaskólanum á Húsavík og hálfan vetur á Laugaskóla. 

Kristín stundaði hins vegar viðamikla sjálfsmenntun með lestri bóka og er óhætt að tala um hana sem hámenntað að því leyti. Hún er ein af því merka alþýðufræðafólki sem Ísland hefur alið.

Þegar Kristín var sjö ára gömul lést faðir hennar úr lungnabólgu en móðir hennar hélt áfram búskap á Hringaveri og Kristín bjó þar alla sína ævi, við mikla fátækt framan af, ásamt systur sinni, Fanneyju, sem var fjórum árum yngri (15. október 1912-10. apríl 2002).

Kristín var alla tíð mjög bókelsk og las bæði skáldskap og fræði, alltaf þegar tími gafst. Hún fékkst einnig við skriftir, bæði á sviði skáldskapar og fræða og birti ljóð, smásögur og fræðigreinar í tímaritum og blöðum. 

Í grein sem Páll H. Jónsson skrifaði í Tímann árið 1980 segir um Kristínu: „Hún er nokkuð þekkt fyrir ljóðagerð i heimabyggð sinni, annars er hún svo hljóðlát og lítt áberandi, að það er með naumindum að menn vita að hún er til." 

Sérlega athygli vöktu þrjár greinar sem Kristín skrifaði í Skírni, gagngert til að andmæla viðhorfum fræðimanna um uppruna og eðli Íslendingasagna. Í greinum Kristínar kemur glöggt fram hversu miklu máli íslenskar fornbókmenntir skiptu í sjálfsmynd þjóðarinnar og Kristín hikar ekki við að andmæla menntuðum háskólamönnum, með sterkum rökum og léttri hæðni í bland. Í ofan nefndri grein skrifar Páll H. Jónsson:

 

Aðaláhugamál hennar eru bókmenntir og þó einkum íslenskar fornbókmenntir. Nú hefur hún hvatt sér hljóðs um það efni með þeim árangri, að fregnir herma að meðal fræðimanna veki þessi ritgerð Kristinar undrun og áhuga. Hér er að greininni vikið til þess að fjöldi sjálfmenntaðs fólks, sem áhuga hefur á sama efni og Kristin, viti á þessari ritgerð nokkur skil. „Fáein alþýðleg orð” fjalla um þær kenningar fræðimanna sem hin síðari ár hefur einkum verið á loft haldið um íslenskar fornbókmenntir og um íslensk örnefni. Í þeim efnum er Kristin mjög á annarri skoðun en flestir fræðimenn eða að minnsta kosti i miklum vafa um kenningar þeirra. Greinin er frábærlega vel gerð að málfari, stíl og rökfestu. Hún er fræðilega unnin og af mikilli vandvirkni og byggð á sjálfstæðum rannsóknum. Höfundur gengur hreint til verks og beint framan að þeim mörgu vísindamönnum sem hún vikur máli sinu til. Hún er skorinorð og hispurslaus er hún setur fram skoðanir sinar og spyr margs og ætlast til skýlausra svara, en um leið kurteis og yfirlætislaus. Vafalaust verða vísindamenn ekki i vandræðum með að gera athugasemdir við ýmsar ályktanir og kenningar hennar. En hver sá er les ritgerðina og hefur áhuga á efni hennar, hlýtur einnig að bíða með eftirvæntingu hverju þeir svara spurningum höfundarins.

 

Árið 1981 var Kristínu úthlutaður styrkur úr Menningarsjóði Kaupfélags Þingeyinga til að halda áfram fræðistörfum sínum og skrifum, hafði fyrsta Skírnisgrein hennar frá 1979 vakið það mikla athygli að ástæða þótti til að styrkja hana til frekari skrifa um þetta efni.

Kristín Geirsdóttir giftist ekki og var barnlaus, hún lést 16. maí árið 2005 en enga minningargrein er um hana að finna, líklega vegna þess að hún átti enga afkomendur og var háöldruð þegar hún lést. Kristín ætti þó að eiga sér sess í íslenskri sögu, þó ekki væri nema fyrir hinar merku fræðigreinar sem hún birti í Skírni.

 

Heimildir:

Útvarpsviðtal Jónasar Jónassonar við Kristínu og systur hennar, Fanneyju, sem flutt var í ríkisútvarpinu 1983 í þættinum  „Kvöldgestir.“ Endurflutt árið  2015 í þættinum „Sumar raddir“ Ríkisútvarpið, rás 1, 27. júní og 3. júlí og má hlýða á hér.

Páll H. Jónsson, greinin „Fáein alþýðleg orð" birt  í Tímanum, 16. september 1980, bls. 7.


Ritaskrá

  • 2023  Ljóð (í Árbók Þingeyinga, 2022)
  • 2002  Smárinn (ljóð í Djúpar rætur : hugverk þingeyskra kvenna)
  • 1995  Hvað er sannleikur? (grein í Skírni, hausthefti)
  • 1990  Hugleiðing um fornsögur (grein í Skírni, vorhefti)
  • 1987  Jónas Hallgrímsson (grein í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti)
  • 1984  Þeistareykir (grein í Árbók Þingeyinga)
  • 1984  Lestrarfélagið (grein í Árbók Þingeyinga)
  • 1983  Klæðin rauð (smásaga í Íslenskar smásögur, 3. bindi)
  • 1979  Fáein alþýðleg orð (grein í Skírni
  • 1951  Nokkur orð um bóklestur (Hlín, 1. tbl.:105-109)
  • 1941  Frú Málfríður (grein í Rétti, 1. tbl.: 32-44)
  • 1936  Uppboðsdagur (smásaga í Rauðir pennar, 2. tbl., bls. 127-135)

Tengt efni