ÞAÐ HÁLFA ER MEIRA EN ÞAÐ HEILA: KAREN BLIXEN
Karen Blixen leit á sig sem sögukonu framar öllu öðru - að hún tilheyrði þeirri stétt kvenna sem væri nær því útdauð á okkar dögum en hefði verið til alls staðar í veröldinni fyrr á tímum. Hún vísaði til sögukvenna sem settust niður meðal fólks og hófu upp raust sína í lifandi frásögn af einum eða öðrum veruleika sem hrifu þær. Skrifaður texti er fyrir augað, segir Karen Blixen, en munnlegur flutningur er fyrir eyrað og í honum liggja rætur allra mikilla bókmennta. Biblían, Hómerskviður, Norrænar fornbókmenntir og 1001 nótt eiga rætur sínar að rekja til hinnar munnlegu frásagnarhefðar sem, að mati Karenar Blixen, er æðri hinni skriflegu hefð. Þar er hún á sama máli og gríski heimspekingurinn Plató sem í einni samræðu Sókratesar ræðir mun á munnlegum flutningi og hinu skrifaða orði. Skrifað orð er aðeins eftirlíking hins talaða orðs (sem sjálft er þegar eftirlíking af einhverju sem býr í hugskoti) segir Plató og einmitt vegna þessarar náttúru hins skrifaða, að vera eftirlíking af eftirlíkingu, getur það ekki nálgast þann sannleika sem hið talaða orð leitast við að tjá.
En þrátt fyrir að Karen Blixen tæki munnlegan söguflutning þannig fram yfir hinn skrifaða texta er það engu að síður staðreynd að (sem betur fer) að verk hennar lifa sem skrifaður texti á mörgum bókum. Þessi mótsögn er þess heldur furðulegri þegar þess er gætt að hún lét sér ekki nægja að skrifa bækur sínar á einu tungumáli heldur skrifaði hún þær næstum allar bæði á ensku og dönsku. Sögur hennar, ritgerðir og bréf eru gersemar sem við getum notið enn í dag og um ókomnar stundir. En Karen Blixen hefur sjálf haldið því fram að hún hafi aldrei ætlað sér að gerast rithöfundur. „Ég kæri mig ekki um að breytast í prentað mál“, segir hún á einum stað. En það voru örlögin sem gripu í taumana og höguðu því þannig að hún átti í raun engra annarra kosta völ.
Árið 1931 urðu þáttaskil í lífi Karenar Blixen. Þetta er árið sem jörðin hennar í Afríku er seld á uppboði eftir margra ára fjárhagserfiðleika; þetta er árið sem vinur hennar Denys Finch Hatton deyr í flugslysi; þetta er árið sem hún neyðist til að flytja aftur heim til Danmerkur, gjaldþrota bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi: líf hennar hefur beðið skipbrot. Hún er 46 ára gömul, fráskilin, barnlaus, ómenntuð og fjárvana, tilneydd til að flytjast heim til móður sinnar á Rungstedlund. Karen Blixen lýsir örvæntingu sinni og vonbrigðum á þessum tíma í bréfum til Tómasar, bróður síns. En þrátt fyrir allt mótlætið lætur hún ekki bugast. Hana grunar að á bak við miskunnarlausar glettur örlaganna leynist þrátt fyrir allt tilgangur, eitthvert mynstur eða mynd sem mun koma til að skýrast seinna þótt erfitt væri að greina hana í miðju svartnætti óhamingjunnar.
Í Afríku hafði Karen Blixen fundið nýtt líf. Þar var hún hamingjusöm og heil, líkt og faðir hennar hafði áður verið meðal indíána í Ameríku. Þegar hann fluttist aftur til Danmerkur og hóf þátttöku í borgaralegu lífi dönsku yfirstéttarinnar bar söknuðurinn eftir hinu frjálsa lífi í skauti náttúrunnar hann ofurliði og hann fyrirfór sér þegar Karen Blixen var 10 ára gömul. Í ævisögu Karenar Blixen eftir Parmeniu Miguel segir um þetta:
Óhjákvæmilega varð henni hugsað til föður síns gangandi um gólf í bókaherberginu sínu og spyrjandi sjálfan sig hvernig unnt væri að viðhalda tilveru sem enga stoð átti sér í raunveruleikanum. Hvað hún skildi hann föður sinn nú!„Quant a moi“ hugsaði hún með beiskju. „Hér er ég komin heim ein mín liðs og misheppnuð manneskja. Eins og glötuð dóttir. Þó er ekki slátrað alikálfi mér til fagnaðar heldur mætir mér lítt dulin meðaumkun allra sem á heimili okkar koma.” (Karen Blixen. Ævisaga, bls. 95)
Hvernig er unnt að viðhalda tilveru sem enga stoð á sér í raunveruleikanum? Þessa áleitnu spurningu glímdu þau feðgin Vilhelm Dinesen og Karenar Blixen bæði við þegar þau voru komin yfir miðjan aldur. Hvernig lifir maður af þegar líf manns er ekki lengur heilt? Vilhelm Dinesen fann aldrei svarið við spurningunni, en dóttir hans Karen Blixen fann hins vegar farveg fyrir angist sína og leið til að gera líf sitt innihaldsríkt aftur. Líf hennar varð kannski aldrei aftur „heilt“ í þeim skilningi sem það var í Afríku. En í sögum sínum tókst henni að skapa sér veröld sem var stór og mikil; hún hóf sig yfir hversdagleikann svo að segja, fann leið til að tjá þá hugsun sem er einn af rauðu þráðunum í höfundarverki hennar: að það hálfa gæti verið meira en það heila.
Fræðikonan Héléne Cixous hefur bent á að sá sem hefur misst allt, fjölskyldu sína, ástvini og föðurland, eigi sér aðeins athvarf í tungumálinu. Þetta má vel heimfæra upp á Karen Blixen því þegar hún fluttist tilneydd frá Afríku leið henni sem útlaga (þótt í eigin föðurlandi væri). Eins og fram er komið leit hún ekki á líf sitt í Danmörku sem heilt eða fullnægjandi á nokkurn hátt. Það var ekki fyrr en henni hugkvæmdist að leita athvarfs í tungumálinu, í skriftunum að hún fann aftur tilveru sem hún gat sætt sig við. Og í fyrstunni hugðist hún leita athvarfs í öðru tungumáli en móðurmálinu og hóf að skrifa sögur á ensku. Í fyrrnefndri ævisögu hennar segir:
Hún fann sér ekki aðeins athvarf í öðru tungumáli en móðurmáli sínu heldur jafnframt annarri öld. Hún hafði ætíð verið fjandsamleg nýjum stefnum. Hún hafði virt þær að vettugi sem nemandi í málaralist í París og áhugi móður hennar á umbótum og kvenréttindum vakti jafnan leiða hjá henni. Þá sjaldan að þau Denys höfðu lent í orðasennu var það út af nútímatónlist eða nýtísku málaralist. Hrifning hennar af að fljúga yfir Afríku í flugvélinni hans var frávik frá ríkjandi afstöðu hennar til véltækni nútímans. Og það var einkennandi fyrir hana að allt til æviloka tók hún hesta fram yfir bíla. Í vissum skilningi var hún algerlega framandi á vettvangi samtíðarinnar. Hún hafði búið við einangrun í Afríku mestan hluta stríðsáranna og á árunum sem þar fóru á eftir þegar Evrópa var að færast í nýtískuham.Hugur Taniu leitaði til nítjándi aldarinnar, aldar föður hennar. Sorgir hans og svíðandi reynslan í hernaði höfðu bjargað honum frá daufri tilfinningaseminni sem var arfleið samtíðar hans, leifar frá rómantíska tímabilinu með tárvotum pílviði, fíngerðum fjólum, konum í sífelldu öngviti, karlmönnum á töfravaldi dansmeyja, sólsetri og væmnum smáljóðum. Tania lét einnig lönd og leið hin fánýtu sjónarmið þessara tíma en dró fram hið einfalda, skipti á tilfinningaseminni og tilfinningunni ásamt því “sem dýpst var og hreinast í hinni sönnu rómantík - að umskapa hversdagleikann og sveipa raunveruleikann dýrðarhjúpi.
Þeim sem aðhylltust módernisma í bókmenntum fundust sögur Karenar Blixen furðuleg tímaskekkja í bókmenntasögunni. Fyrsta sagnasafnið hennar, Sjö furðusögur, komu út árið 1934. Eins og titillinn bendir á er bókin samsett af sjö löngum sögum sem minna framar öðru á furðusagnahefð átjándu og nítjándu aldar, hina gotnesku smásögu þar sem undarlegri atburðir geta gerst og gerast. Sögusvið allra sagnanna er nítjánda öldin, á yfirborðinu virkar hugmyndaheimur sagnanna fornfálegur í augum nútímalesanda, sérstaklega þegar litið er til kynhlutverka svo og hugmyndum um heiður og riddaramennsku. En þegar kafað er dýpra í textann má sjá mynstur og hugmyndir sem eru algildar á öllum tímum þótt þær séu færðar aftur í tímann í frásögninni.
Allar þessar sögur höfðu þróast munnlega hjá Karen Blixen, það er að segja hún hafði flutt þær munnlega fyrir vini sína í Afríku. Það var ekki fyrr en á síðari hluta þriðja áratugarins að hún byrjaði að færa þær í letur, á þeim árum sem einkenndust af erfiðleikum og einmanaleika og voru síðustu ár hennar í Afríku.
Ekki tókst Karen Blixen að bjarga búi sínu í Afríku með skriftunum. En síðar átti hún eftir að bjarga eigin sálarheill með þeim. Hún lærði það af lífinu, og fékk það staðfest hjá ekki ómerkari manni en Shakespeare að þjáningin hefur merkingu og listsköpun er leið sem fara má til að skilja þjáninguna, lifa hana af og færa hana í æðra veldi. Sorgin skilst og fær merkingu ef hún er færð í form harmleiksins. Eða eins og hún orðaði það sjálf í blaðaviðtali: „Alla þjáningu er hægt að bera ef maður býr til úr henni sögu.“ Það er eitthvað á þessa leið sem ég held að við verðum að skilja Karen Blixen þegar hún segist hafa selt Lúsífer sálu sína gegn því að allt sem hún hefur upplifað umbreytist í sögur. Og í þessu ljósi séð, má segja að fyrir Karen Blixen hafi það verið skemmtun að segja sögur en lífsnauðsyn að skrifa, eða að gerast rithöfundur.
Ein sagan í Sjö furðusögum heitir „Skáldið“. Þar segir frá gömlum ekkjumanni sem elskar skáldskap og nærir með sér draum um að vera skáld. En þar sem hann ber gott skynbragð á listina gerir hann sér manna best grein fyrir því að hann hefur ekki þá hæfileika til að bera sem gerir mann að góðu skáldi. Hann kemst síðan í kynni við ungan mann sem býr yfir þeim hæfileikum sem hann skortir. Og hann ákveður að taka þennan unga mann að sér og sjá til þess að hann verði mikið skáld. Gamli maðurinn setur sig að mörgu leyti í stöðu guðs, þegar hann fer leynt og ljóst að ráðskast með líf unga mannsins, í þeim tilgangi að fá ósk sína uppfyllta. Ung og fögur kona kemur til sögu og verða mennirnir báðir ástfangnir af henni, í stað þess að láta hinn eðlilega gang ástarinnar og náttúrunnar njóta sín afræður sá gamli að eiga ungu konuna sjálfur. Þjóðfélagsstaða hans er sterkari en unga mannsins og því getur hann fengið konuna til að játast sér. Ástarsorg, telur hann, mun bara koma stórskáldinu tilvonandi til góða, hún mun gæða ljóð hans meiri dýpt en ella, það hefur sagan margsannað.
En gamall vinur hans varar hann við og bendir honum gætilega á að hann sé hugsanlega að sækjast eftir of miklu. Ábending hans kemur í framhaldi af kvæði sem skáldið unga hafi ort. Kvæðið fjallar um dreng sem lagst hefur til svefns í skóginum og verið brottnuminn af álfum. Álfarnir leggja ást á drenginn og reyna að gera honum allt til geðs. Þeir brjóta sífellt heilann um nýja og nýja skemmtun honum til handa. En í álfheimi þekkist ekki svefn. Þannig að í hvert sinn sem drengurinn ætlar að reyna að hvíla sig og sofna halda álfarnir að hann sé að deyja og linna ekki látunum fyrr en þeir hafa vakið hann á ný. Hin óhjákvæmilegu endalok verða þau að drengurinn deyr af svefnleysi. Þetta kvæði verður vininum tilefni til að vara söguhetjuna við:
Ágústus hrósaði fegurð kvæðisins og taldi að hið unga skáld hefði fundið töfrandi orð til að lýsa fegurð álfa-drottningarinnar. Þessi ungi maður, hugsaði hann, hefur til að bera mikla næmni fyrir hinni frumstæðu ástarþörf, og vel þurfti að gæta að því að hún skaðaði ekki haganleik ljóða hans.„Gættu þín“, sagði hann brosandi og beindi orðum sínum til vinar síns, „á töfrum álfheimsins. Við dauðlegir menn metum vissulega gildi ánægjunnar eftir því hversu fátíð hún er. Sögðu ekki vitrir menn okkur: Að sá er heimskur sem veit ekki að það hálfa er meira en það heila? Þar sem ánægjan ein ríkir, er hætt við að við þreytumst, eða jafnvel, samkvæmt unga skáldinu, deyjum.“
Sannleikur þessara orða á eftir að renna upp fyrir hinum gamla ekkjumanni sem seildist of langt í leit sinni að hamingjunni.
Í sagnasafninu Síðustu sögum sem kom fyrst út árið 1957 er saga sem heitir „Fyrsta saga kardínálans“. Þar segir af kardínála einum sem er annar tvíburabræðranna Dionysosar og Athanasíusar sem voru synir íðilfagurrar prinsessu sem ekki þekkti þá í sundur þegar þeir fæddust svo hún batt bláan silkiborða um háls Dionysosar til aðgreiningar. Faðir þeirra ákvað nafnið á Athanasíusi og ráðstafaði honum kirkjunni, en móðirin nefndi hinn Dionysos og helgaði hann listum. Saman áttu þeir bræður að mynda heild sem þjónaði því sem best og fegurst er í mannlífinu. Síðan gerðist sá sorgaratburður að annar tvíburanna fórst í eldsvoða. En hvor þeirra lifði var óljóst; blái silkiborðinn hafði brunnið upp til agna. Talið var að Athanasíus hefði lifað (nafnið þýðir jú hinn ódauðlegi), en sjálfur velkist hann í vafa þegar hann fullorðnast: hann ber ör á hálsi sem gæti allt eins verið brunasár eftir silkiborða. Spurningunni „hver er ég“ er því ekki auðsvarað þegar kardínálinn á í hlut.
„Hver eruð þér?“ spurði svartklædda konan. Salvíati kardínáli leit upp, mætti augum hennar og brosti.„Hver er ég?“ endurtók hann hægt upp eftir henni. „Vitið þér, frú mín, að þér eruð fyrsta skriftabarn mitt, sem lagt hefur þessa spurningu fyrir mig. Hið fyrsta í þeirra hópi, að ég hygg, sem nokkru sinni hefur látið sér detta það í hug, að ég kynni að líta á sjálfan mig sem sjálfstæðan einstakling, óháðan embættinu. Þessi spurning yðar kemur mér á óvart og setur mig í nokkurn vanda.“Hún stóð teinrétt frammi fyrir honum, án þess að hvarfla augunum af andliti hans og dró eins og ósjálfrátt langa hanskana á hendur sér.„Margir hafa allt fram á þennan dag leitað mín í raunum sínum“, sagði kardínálinn, „í von um hjálpræði og leiðbeiningar. Sumir komu í ofboði, í djúpri angist og nauð“.„Eins og ég“, varð henni að orði.„Já, í angist og nauð“, sagði hann líkt og við sjálfan sig, „sem þó var aldrei dýpri en samúð mín. Og þessar sömu ógæfusömu manneskjur hafa margoft sett mig í þungan vanda með spurningum sínum. Ég hef verið spurður um tímann og eilífðina um kennisetningar kirkjunnar, um ást og dauða, eins og það væri þetta, sem olli óró þeirra og áhyggjum - ef til vill hafa þær sjálfar trúað því að svo væri. Frú mín, þessar margháttuðu spurningar hafa ekki verið annað en jafnmörg tilbrigði eins einasta neyðaróps úr innstu fylgsnum sálarinnar: „Hver er ég?“ Hafi mér tekist að finna svör við þeirri spurningu, leysa fyrir þá þessa gátu, þá fundu þeir aftur sálarfrið”.(Síðustu sögur, bls. 9, ísl. þýð. Arnheiður Sigurðardóttir)
Dauði annars tvíburans klýfur þá heild sem þeir áttu saman að mynda. Sá sem eftir lifir upplifir sig sem hálfan mann að mörgu leyti. En þó má einnig í þessari sögu finna hugmyndina um að það hálfa sé meira en það heila. Það skapast af þeirri óvissu sem hinn eftirlifandi tvíburi lifir í um sitt eigið sjálf. Auk þess að vera prestur, hefur Anathasíus tileinkað sér þann hluta heildarinnar sem hinum tvíburanum var ætlað, hlutverk listamannsins:
Hann sat um stund þögull, en mælti síðan eins og við sjálfan sig: „Þótt Rómverjinn Pontíus, sem hafnaði iðruninni svo staðfastlega, hafi ef til vill þannig fyrirgert heiðri sínum sem dómari og maður, hafa orð hans: „Quod scripsi, scripsi“, gert hann ódauðlegan.Og maðurinn, sem við höfum hér rætt um“, bætti hann við eftir að hafa þagað um stund, „er í leik og baráttu þessa heims bogi skaparans sjálfs, -“„- og örin sem þýtur af streng hans“, greip hún fram í, „hittir ætíð í hjartastað.“„Snjall orðaleikur, frú mín“, sagði kardínálinn brosandi. „En sjálfur viðhafði ég þetta orð í annarri merkingu, ég átti ekki við vopn, heldur veikbyggt, lítilfjörlegt tæki, hljómvana í eðli sínu, sem öðlast þó í höndum meistarans styrk og hljómmagn voldugs strengjahljóðfæris og er því í senn skapari og tæki.Segið mér, frú mín“, mælti hann að lokum, „hver er þessi maður?“„Það er listamaðurinn“, svaraði hún hægt.„Þér hafið rétt að mæla“, sagði hann. „Það er listamaðurinn. Og hver ennfremur?“„Presturinn“, sagði konan.(Síðustu sögur, bls. 29, ísl. þýðing Arnheiður Sigurðardóttir.)
Söguna „Óskrifað blað“ er einnig að finna í Síðustu sögum. Þetta er líklega stysta saga Karenar Blixen, en í henni er að finna flestar þær grunnhugmyndir sem allar sögur hennar snúast um. Hún fjallar um hina munnlegu frásagnarlist, um listina að segja sögu þannig að hún endurómi í huga hlustandans og haldi jafnvel áfram þar þegar sögukonan er þögnuð. „Ef menn eru trúir, óbifanlega trúir sögunni, mun þögnin að lokum tala“, kennir hin gamla sögukona og hún heldur áfram: „Þar sem engin saga er og hefur aldrei verið, þar er þögnin ekkert annað en tómleiki, - en þegar sögukona, sem var sögunni trú allt til dauðans, hefur sagt sitt síðasta orð, heyrum við rödd þagnarinnar.“
Þessi hugmynd um hina máttugu rödd þagnarinnar er síðan nánar útfærð í frásögn sögukonunnar gömlu þegar hún segir sögu af brúðarlökum Portúgalskra prinsessa, sem voru hengd upp til sýnis eftir brúðkaupsnóttina. Blóðið í lökunum, sem átti að sanna að brúðirnar hafi verið hreinar meyjar á brúðkaupsnóttinni, þornar og myndar alls kyns munstur og myndir sem þeir sem skoða geta lesið í og túlkað. En það eru ekki hinar fjölskrúðugu kynjamyndir sem blóð prinsessanna ungu skilur eftir sig á léreftunum sem heilla þá sem koma til að skoða, heldur er það einmitt léreftsbúturinn sem er auður, skjannahvítur og óblettaður sem vekur mesta eftirtekt. Þeir sem standa frammi fyrir alhvítu lakinu, auðu síðunni, standa frammi fyrir ráðgátu og verða sjálfir að spinna upp sögunar: var brúðurinn ekki hrein mey á brúðkaupsnóttunni? Var brúðguminn getulaus? Eða hvað...? Í þessari sögu má einnig sjá staðfesta að hið hálfa sé meira en það heila. Það er einmitt það sem vantar, það sem er fjarverandi, sem fyllir hið auða blað. Og möguleikarnir til túlkunar eru óþrjótandi.
Í Jörð í Afríku segir:
Stolt er vitundin um það markmið sem guð hafði í huga, þegar hann skapaði oss, og trúin á það. Stoltum manni líður ekki úr minni sú hugsun, að það sé takmark hans að fullnægja því. Hann sækist ekki eftir þeirri hamingju eða vellíðan, sem ekki samræmist markmiði guðs varðandi hann. Sigur hans er sigur drottins ætlunar, og hann er ástfanginn í örlögum sínum. Svo sem góður borgari finnur hamingjuna í uppfyllingu skyldunnar við samfélagið, þannig finnur stoltur maður hamingjuna í fullkomnun örlaga sinna.Menn án stolts gera sér ekki grein fyrir, að guð hafi haft nokkurt áform í huga, er hann skapaði þá, og stundum geta þeir komið öðrum til að efast um, að nokkurt áform hafi í raun og veru verið samfara þeirri sköpun. Þessir menn verða að treysta á skilning annarra á því, hvað sé upp og niður, og þeir verða að taka hamingju og sjálfsveru sína á gengi dagsins. Af góðum og gildum ástæðum skjálfa þeir af ótta við örlög sína og reyna að flýja undan þeim, hvernær sem þeir geta.” (Jörð í Afríku, ísl. þýð. Gísli Ásmundsson, bls. 231-232.)
Þessi tilvitnun undirstrikar enn að menn verða að sættast við örlög sín hver sem þau kunna að vera. Í því liggur hin sanna hamingja. Maðurinn verður að sætta sig við þær breytingar og þau áföll sem örlögin ætla honum. Þetta er einnig viðfangsefni sögunnar „Dreymendurnir“ í Sjö furðusögum. Þar segir sögumaðurinn Mira Jama:
Ég hef lengi leitast við að skilja guð. Nú erum við orðnir vinir. Ef maður á að geta elskað guð verður maður að elska breytinguna og maður verður að hafa mætur á gamninu því að þetta tvennt er hin sanna hjartanshneigð hans. . . Hinn raunverulegi munur á guði og mönnum, hugsaði hann með sér var sá að guð þoldi ekki kyrrstöðu. Vart hefur hann skapað árstíð eða dagsstund fyrr en hann óskaði einhvers sem er allt öðru vísi og svo sópar hann öllu burt. Ekki er maður fyrr fulltíða en lögmál náttúrunnar hrindir manni út í hjúskap, píslarvætti eða elli. Og mennirnir halda fast við óbreytt ástand. Alla ævi leitast þeir við að stöðva augnablikið og reka sig á force majeure. Kænska þeirra felst í einni saman viðleitninni til þess umfram allt að grípa eitt sérstakt augnablik, einn hugblæ, eitt ljósblik, augnabliksfegurð einnar konu eða eins blóms og gera ævarandi. Það er alrangt, hugsaði hann, að ímynda sér paradís sem eitthvað óumbreytanlegt sæluástand. Þvert á móti mun hún að líkindum og samkvæmt anda guðs reynast á sífellum hvörfum, hringiða breytinga. En þegar þar að kæmi gæti maður hafa sameinast guði og hafa fengið mætur á breytingunum.( Ísl. þýð. Arnheiður Sigurðardóttir úr Karen Blixen ævisaga, bls. 144)
Í þessum orðum og öðrum tilvitnunum í texta Karenar Blixen hér að framan, sjáum við hvernig Karen Blixen notaði skriftir sínar til að ná sjálf sátt við þau örlög sem henni voru sköpuð og fylltu hana vonleysi á miðjum aldri. Í gegnum sögur sínar fann hún aftur lífi sínu tilgang, þó það væri ekki lengur heilt, eins og lífið í Afríku.