SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 5. ágúst 2025

ÞURÍÐUR FORMAÐUR OG ÞEFURINN AF KARLMANNAMÆTTI

Kona á buxum. Nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns eftir Auði Styrkárdóttur  kom út fyrir jólin í fyrra, árið 2024. Þetta er söguleg skáldsaga sem segir af Þuríði formanni en hana þekkja mörg enda hefur saga hennar áður ratað á bók og er hennar getið víða í heimildum.

Þuríður Einarsdóttir (1777 – 13. nóvember 1863) ólst upp á hjáleigubýli mitt á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Hún var strax farin að róa á bátum 11 ára gömul með föður sínum og reyndist hún mjög fiskin. Þuríður varð síðar formaður á vorbát hjá séra Jakobi Árnasyni og var þar í nokkur ár þar til hún gerðist einnig formaður á vetrarbát, sem var öllu erfiðara. Hún missti þó aldrei mannskap og var mjög farsæl. Þuríður skar sig nokkuð úr, einkum fyrir að klæðast karlmannafötum en einnig fyrir að vera mjög fylgin sér, lúta engu valdi og hika ekki við að fara í mál við menn af minnsta tilefni.

 

Sjókonur og sjómenn

Þórunn Magnúsdóttir sagnfræðingur og bandaríski mannfræðingurinn Margaret Willson, og höfundur bókarinnar Seawomen of Iceland, hafa bent á að Þuríður var hreint ekki eina konan til að stunda sjómennsku á þessum tíma. Það þótti nefnilega ekkert tiltökumál að konur stunduðu sjóinn á 18. og 19. öld. Þórunn komst að raun um að þær voru allt að þriðjungur þeirra sem það gerðu. Margaret telur ástæðuna vera að þar sem þjóðin var svo fámenn þurftu konur að ganga í öll störf. Þær fengu jafnan hrós og voru lofsamaðar fyrir. Eftir miðja 19. öld fara hins vegar viðhorfin að breytast og kynjahlutverkin að verða ósveigjanlegri; konum var þá nær eingöngu ætlaður staður innstokks að sinna kvenlegum skyldum (Guðsteinn Bjarnason, 2019). Ætla má að þessi viðhorfsbreyting haldist í hendur við skýringu höfundar um að vélvæðing bátanna hafi dregið úr sjómennsku kvenna (Samstöðin, 2024).

Þuríðar er jafnan minnst sem formanns og hefur sá titill hangið við nafn hennar líkt og hvert annað viðurnefni. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt enda eru mörg dæmi um önnur starfsheiti sem enda á -maður, t.d. sjómaður, stýrimaður og kaupmaður. Við eigum því að venjast að orðið maður sé látið gegna hlutleysishlutverki en margt fólk tengir þó orðið maður fremur við karlmann en konu og hefur lengi gert. Dæmi um slíka augljósa aðgreiningu má t.d. finna í orðunum vinnumaður og vinnukona, sem voru mjög algeng starfsheiti á þessum tíma.  

Í sögunni heldur auðvitað Þuríður sínu viðurnefni en fróðlegt er að sjá að öðru leyti það orðaval Auðar sem snýr að þessum karlaheimi sem sjómennska tengist jafnan traustum böndum. Oftast notar hún orðin  skipverjar og bátsverjar en einnig koma fyrir orðin fiskari, sæfari og fiskifólk. Þá eru einnig notuð orðin fiskimaður og fiskikarl en þar er auglóslega fjallað um karlmann.* 

Mörgum þótti það hneyksli þegar orðinu fiskimaður var skipt út fyrir orðið fiskari í íslenskri löggjöf árið 2023. Eiríkur Rögnvaldsson (2023) benti þó á að fiskari væri það starfsheiti sem jafnan var notað um miðja 19. öld og finna mætti ýmis dæmi um það allt aftur á 16. öld. Hins vegar væri elsta dæmið um orðið sjómaður ekki eldra en frá 1830 og á þeim tíma hafi orðið sjófólk verið í nokkurri notkun.  

 

Ærhorn og undirbrækur

Í sögunni er Þuríði fylgt eftir og er því sjónarhornið hennar. Því er lýst á trúverðugan hátt hvernig það var að vera kona á þessum tíma og hvernig Þuríður leysti t.d. að geta migið í saltan sjó með ærhorni. Fleiri konur fara síðan að dæmi hennar og finnst það nokkuð ótrúleg upplifun, líkt og gefur að skilja, að pissa standandi. Segir sagan að það hríslaðist um þær óstjórnleg, skrítin kennd sem var „mikil og breið um sig. Karlakarleg. Þær stóðu gleiðar og kýttu herðar og rumdu neðan úr barka. Svona var þá að míga standandi!“ (bls. 111).

Þuríður verður sér einnig út um nærbrók, með klofbót, „sem tekur við blóði og varnar inngöngu“ (110). Þessar brækur þykja konunum hið mesta þarfaþing enda gera þær mönnum erfiðara fyrir að koma vilja sínum fram við þær. Það var nefnilega ekki til siðs að kvenfólk gengi í undirbrókum og án þeirra „fýkur og næðir undir pilsin og karlmönnum reynist létt að lyfta þeim“ (bls. 111).

Víða er fjallað um þá ógn sem stafar af karlmönnunum. Vinnustúlkur voru jafnan varnarlausar og kvenfólk var helst ekki eitt á ferð. Það var líka fátt sem konur gátu gert ef á þær var ráðist. Því þóttu það undarleg tíðindi þegar Þuríður hafði afskipti af heimilisofbeldi og hvatti konu, „með klæðin í henglum og sprungna vör“ (bls. 278) að kæra eiginmanninn. Þessu áttu menn ekki að venjast. Þá eru hugleiðingar séra Jakobs einnig til marks um algjört skilningsleysi en honum finnst skrýtið hversu illa gangi að fá stúlkur sem verða fyrir nauðgun að láta eitthvað uppi um framferðið: „Var þeim kannski skemmtan að öllu saman?“ (bls. 283).

 

Þefurinn af karlmannamætti

Karlmenn áttu auðvitað undirbrók. Því er vandlega lýst þegar faðir Þuríðar klæðir sig í nærhaldið sem er „þétt og stökkt af svita og þvagi og heldur vel gegn vindi og kulda. Þvegið mánaðarlega“ (bls. 29). Það er ágætt að hafa þessa lýsingu í huga þegar lesin er kostuleg frásögnin af því þegar sýslumaður sendir eftir Þuríði til að yfirheyra hana um Kambsránið. Til að sýna vald sitt „færði [hann] lærin vel í sundur svo klofið blasti við konunni. Sendi þangað sinn þef“ (bls. 248). Honum bregður þó við þegar hvorki þefurinn né stellingin hafa áhrif á Þuríði, því hann á því að venjast að fólk skynji vald hans og ókyrrist „andspænis þessum útbreidda faðmi, eins og sýslumaður kýs að kalla sitt klof á slíkum stundum.“ Þá grípur hann „um hreðjar sér og hagræddi. Tók ekki augun af konunni á meðan“ (bls. 248).

Þessi hegðun sýslumanns hefur þó lítil áhrif á Þuríði, nema honum sýnist hann sjá brosvipru í munnviki hennar og hann veltir fyrir sér hvort í hana vanti vitið. Það er ekki fyrr en hann færir sig framar á stólinn og hallar sér fram „svo þefurinn af karlmannamætti og myndugleika feykist að konunni“ (bls 250) og fullyrðir að Þuríður þurfi leyfi til að ganga í karlmannafatnaði sem henni bregður og hann nær á henni tangarhaldii.

 

Hún Þormóður

Hún Þormóður er heiti 11. kafla. Þar er skemmtilega snúið upp á tungumálið og helst það í hendur við kyngervisnúninginn á Þuríði. Dregin er upp mynd af því þegar ein af sögupersónunum sér aftan á sagnamanneskju, í móbrúnum lafafrakka og síðbuxum með hatt á höfði, sem síðan reynist vera Þuríður/Þormóður í karlmannabúningi og minna þessi umskipti Þuríðar óneitanlega á Orlando (1928) eftir Virginíu Woolf þar sem samnefnd sögupersóna skiptir um kyn í miðri sögu.

Skömmu eftir þessa nýju birtingarmynd Þuríðar kemur býsna berorð og óhugnanleg lýsing á nauðgun ungrar stelpu. Þuríður sér Gvend í Gljákoti renna augum til 15 ára gamallar stúlku, með hönd í klofi og brímu í augum. Hann eltir stúlkuna og Þuríður áttar sig og fer eftir þeim. Þá hefur hann samt náð að beygja stúlkuna yfir mjöltunnu og svipta upp pilsunum. Hann heldur fyrir munn hennar með annarri hendi en hin heldur um „blábólginn og bísperrtan lim“ (bls. 276). Þetta tekur mjög fljótt af því hann nær að koma fram vilja sínum áður en Þuríður kemst í að rífa hann frá stúlkunni.

Öllum er ljóst hvað gekk á. Þessi nauðgun er auðvitað ekkert einsdæmi, líkt og fram kemur í orðum hennar: „Eitt hefur þó ekki breyst, segir Þormóður beisklega og snýr sér að mannskapnum. Og það er ónáttúra ykkar karlmannafólksins“ (277) það er kannski ekki nema von að Þuríður kjósi að draga úr kvenleika sínum. 

Þegar mennirnir hafa jafnað sig á orðum Þuríðar er henni brigslað um að vera sjálf ein af þeim, karlmaður. Hún bregst mjög illa við því hvað sem nafni og klæðnaði líði sé hún kona. Í dag væri Þuríður e.t.v. kölluð strákastelpa (e. tomboy). Margaret Willson vill þó draga úr þessari ímynd og segir samtímamenn Þuríðar fullyrða að þessi eina mynd sem til er af henni (og sjá má hér til hliðar) sé ekkert lík henni, heldur endurspegli hún karlhverfan hugsunarhátt teiknarans um að kona sem er skipstjóri og klæðist buxum hljóti að hafa verið mjög karlmannleg í útliti (Guðsteinn Bjarnason, 2019).  

 

Kynusli

Í sögunni er aðeins komið inn á það sem kalla mætti kynusla. Tíndar eru til ýmsar persónur sem skáru sig úr, líkt og Þuríður. Til dæmis er nefnd Þóra sterka sem var hreppstjórafrú. Þau hjón voru barnlaus en hann átti þeim mun fleiri börn með vinnukonunum. Þar sem Þóra lét háttalag eiginmannsins sig litlu skipta og gat auk þess fellt hraustustu menn með hælkrók gekk sú saga að hún væri í raun karlmaður. Í þessari umfjöllun um fjölbreytileika mannskepnunnar er einnig minnt á hvernig dylgjað var um kyn Þorgils í Flóamannasögu sem skar af sér geirvörtuna og setti ungabarn á brjóstið.  

Auk þess að vera mjög karlmannleg í sögunni virðist kynhneigð Þuríðar vera  nokkuð fljótandi. Hún er þrígift en þegar hún er orðin ein laðast hún að annarri konu og eiga þær náin kynni. Auður hefur bent á að það hafi trúlega verið meira um kynusla en við gerum okkur grein fyrir og margt gerst á baðstofuloftunum sem ekkert var talað um (Samstöðin, 2024).  

 

Sumt enn kunnuglegt!

Í sögu Auðar af Þuríði formanni er margt undir. Hér segir af tíma í sögu fámennrar þjóðar sem einkennist af mikilli fátækt og náttúruhamförum. Dregin er upp mynd af hlutskipti fólks, einkum kvenfólksins, sem tilheyrir lægstu stéttinni og verður því verst úti. Þá er komið inn á sitthvað sem sjaldnast ratar í gamlar sögubækur en hefur auðvitað alltaf verið til staðar, alla tíð, líkt og svonefndur kynusli.        

Þetta kvenlega sjónarhorn er afar áhugavert, lýsingar eru berorðar og fátt fegrað. Þetta er sömuleiðis oft átakanleg lesning því sjálfsagt er farið nærri lagi um margt þó svo að sagan sé að mestu skáldskapur. Þá er sumt óþarflega kunnuglegt enn í dag, því miður!

----------

* Líklega hafa einhver orð farið fram hjá mér því ég velti orðanotkuninni ekki fyrir mér fyrr en að loknum lestri og hafði því ekkert skrifað hjá mér. Mér fannst ég hafa séð orðið sjófólk en fann það ekki aftur þegar ég vildi staðfesta það. Þá varð ég hvergi vör við að notað væri orðið sjómaður, eða sjómenn.     

 

Heimildir

Eiríkur Rögnvaldsson. (2023, 4. janúar). Fiskari eða sjómaður? https://uni.hi.is/eirikur/2023/01/04/fiskari-eda-sjomadur/
Guðsteinn Bjarnason. (2019, 20. júní). Konurnar sem hurfu. Viðskiptablaðið Fiskifréttir. https://fiskifrettir.vb.is/konurnar-sem-hurfu/
Samstöðin. (2024, 20. ágúst, brot 2024-2025). Auður Styrkársdóttir fjallar um Þuríði formann. Rauða borðið. https://www.youtube.com/watch?v=e20O4GX_RfE

 

Myndir

Ferlir. (E.d.). Grindavíkurskipið. https://ferlir.is/grindavikurskipid/
Guðsteinn Bjarnason. (2019, 20. júní). Konurnar sem hurfu. Viðskiptablaðið Fiskifréttir. https://fiskifrettir.vb.is/konurnar-sem-hurfu/
Wikipedia. (2025, 7. júní). Foreman Thuridur. https://en.wikipedia.org/wiki/Foreman_Thuridur 

 

Tengt efni