SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir11. september 2025

Ó FJÖTRARNIR HRUNDIR, SEM ÁR EFTIR ÁR...

Stundum er vert að minnast þeirra kvenna sem ruddu á einhvern hátt braut fyrir okkur hinar. Hér er ég að tala um kúgun og höft kvenna sem viðgengist hefur um allan heim allt frá örófi alda til dagsins í dag. Það er líka staðreynd að við erum bara svo stutt á veg komin í frelsisbaráttunni um réttindin að undrun sætir.

Kolbrún S. Ingólfsdóttir ritað bókina ,,Þær ruddu brautina" og gaf út árið 2015. Sama ár og kvenréttindaárið varð 100 ára. Kolbrún segir svo í formála bókarinnar:

 

Mannkynssagan fjallar venjulega ekki um konur. Saga þeirra þótti ekki það áhugaverð enda flokkaði heimspekingurinn Aristóteles konur og börn með þrælum og síðan hafa konur verið eftirbátar karla þegar kemur að jafnrétti og mennréttindum. Ennfremur segir: Saga kvenréttindakvenna og barátta þeirra fyrir kosningarétti er afar áhugaverð. Staður kvenna var lengi vel inni á heimilum og máttu þær til að mynda yfirleitt ekki taka til máls á mannamótum. ...En barátta kvenna fyrir kosningarétti var bæði löng og ströng og margir karlar töldu að konur gætu ekki skilið stjórnmál því heilar þeirra gætu ekki meðtekið umræðuna og stjórnmálavafstur hefði slæm áhrif á barneignir kvenna... Þá segir að ,,sjálfsögð mannréttindi kvenna, eins og kosningarréttur fengust ekki fyrr en eftir áratuga baráttu. Kvennréttindakonur létu þó aldrei deigan síga og börðust árum saman, oft í óþökk kynsystra sinna. En réttlætiskennd kvennanna var ekki þokað.

 

En það voru ekki bara íslenskar stjórnmálakonur sem lögðu sitt af mörkum til baráttunnar. Íslenskar ljóðakonur áttu sinn þátt í því að fjalla um þann veruleika sem konur bjuggu við. Ein af þessum konum var Björg C. Þorláksson. Björg  var kvenréttindakona, rithöfundur og fræðimaður. Björg var einnig hugsjónakona og  gaf út ljóðabókina Ljóðmæli árið 1934.

 

Hér er fallegt ljóð sem hún orti, henni er ofarlega í huga sú vinna sem hún vann með manni sínum til fjölda ára að orðabók þeirri sem kennd er við Sigfús Blöndal.

 

ORÐABÓKINNI MIKLU LOKIÐ, EFTIR 20 ÁRA STARF.
 
Ó, fjötrarnir hrundir, sem ár eftir ár
í álögum sálu mína bundu!
Og læstu í huga mér frostnótta fár,
sem felldi hrím á unga gróðrarlundu.
 
Ó, þrautirnar unnar, sem Skapanorn mér skóp,
er skráfesti' hún urðarrúnir mínar!
þó orðabókin þegi um anda míns óp,
um aldir þögul ber hún minjar sínar.
 
Und ösku varfalinn minn fjörneisti klár
og felhellu, er andans glóðir svæfði.
Og tíminn og gleymskan að verki voru um ár.—
— Ég vissi ei lengur, hvort frelsið mér hæfði.
 
En andi minn fellir nú álöguhjúp. —
Og andræn glóð um hug og sálu streymir.
Sem vorblær úr dái æ vekur moldarhjúp,
svo vaknar neisti, er biðlíf sálar geymir.
Sem vorsól úr hrími fær vakið daggtár nótt,
svo vermir hug og frjóvgar neisti hulinn.
— Hann lífglóðum örþyrstum anda vekur þrótt,
unz aftur lifnar gróður sálar dulinn.
– Björg C. Þorlákson: Ljóðmæli. Reykjavík, 1934, bls. 48.

Tengt efni