SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. janúar 2026

RITSAFN GUÐFINNU ÞORSTEINSDÓTTUR

Guðfinna Þorsteinsdóttir (1891-1972) ljóðskáld, sem notaði skáldanafnið Erla, var komin á fimmtugsaldur þegar fyrsta bók hennar kom út (Hélublóm, 1937) enda haft nóg að gera við að ala upp sín níu börn og sinna starfi húsfreyju á stóru sveitaheimili. Tvær ljóðabækur til viðbótar áttu eftir að koma út meðan hún lifði en hún lét eftir sig mikið af ljóðum og lausavísum, sem og þýðingum og ýmsu lausu máli. Meðal stórvirkja hennar er frábær þýðing hennar á De fortabte spillemænd eftir William Heinesen, sem hún kallaði Slag vindhörpunnar (1956) - og sækir þann titil til efnis bókarinnar.

Árið 2013 stóð Félag ljóðaunnenda á Austurlandi að því metnaðarfulla verkefni að gefa út ritsafn Guðfinnu með bæði birtu og áður óbirtu efni, ljóðum og lausu máli. Ritsafnið er í fimm bindum í öskju og vönduðu bandi. Ritstjóri safnsins er Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir íslenskufræðingur.

Í fyrsta bindi er stuttur inngangur eftir ritstjóra þar sem skáldkonan er kynnt stuttlega en í fimmta bindinu er bætt um betur því þar fjallar Anna Þorbjörg um líf Guðfinnu, ætt hennar og uppvöxt, sem og skáldskap hennar á 450 blaðsíðum. Þetta er glæsilegt og eigulegt ritsafn, sem við mælum með fyrir alla ljóðaunnendur, sem og þá sem vilja kynna sér kjör skáldkvenna fyrr á tímum.

 

 

 

 

Tengt efni