DALALÍF, MÓÐURLÍF, eftir Sigurrós Erlingsdóttur
Guðrún Árnadóttir frá Lundi (1887-1975) varð metsöluhöfundur strax með fyrstu bók sinni, Æsku og ástum, fyrsta bindi Dalalífs (1946). Eftir það biðu lesendur í ofvæni eftir hverri bók hennar. Lesendur Guðrúnar eru sennilega færri en fyrr en hún á sér enn aðdáendur eins og útlán bókasafna vitna um. Guðrún var 59 ára þegar Æska og ástir kom út og hafði þá skrifað fyrir sjálfa sig í um tvo áratugi.
Dalalíf er raunsæissaga í fimm bindum sem komu út árin 1946-1951. Sagan sem segir frá lífi þriggja ættliða gerist í íslenskri sveit frá þv 1860 til 1920. Helstu persónur sögunnar búa á tveimur bæjum í sveitinni, Nautaflötum og Hvammi. Á Nautaflötum býr Lísibet ásamt Jakobi eiginmanni sínum og syninum Jóni. Þar býr einnig Anna, fósturdóttir hjónanna á Nautaflötum og seinna tengdadóttir. Í Hvammi býr Björn og Þóra dóttir hans. Líf og starf mæðra er einkar mikilvægur þáttur í sögunni og verður fjallað um það hér.
Sögusvið Dalalífs er kynnt í byrjun sögunnar. Sagt er frá helstu bæjum og duga ekki færri en þrjú lýsingarorð í efsta stigi um höfuðbólið Nautaflatir sem er „stærsta, fallegasta og bezta jörðin í sveitinni.” (5). Lesendur fá svo skýrari mynd af dalnum með gesti sem kemur í sveitina strax í fyrsta kafla sögunnar. Gesturinn, Helgi, er prestur sem er að forvitnast um staðinn og húsbóndann í því skyni að gifta dóttur sína þangað. Hann gengur upp í fjallið og horfir yfir sveitina. Það sem hann upplifir er búsæld, gróska og kyrrð. Ekkert heyrist í fjallinu nema stöku blíð dýrahljóð, náttúran er allsráðandi. Helgi ber þetta saman við eigin heimkynni þar sem sjófuglar garga. Honum líst bersýnilega vel á dalinn því að stuttu síðar flyst dóttir hans, Lísibet, þangað. Fyrsta morgun hennar í sveitinni fer hún einnig upp í fjallið og Jakob leiðir hana stoltur um og sýnir „henni jörðina sína og dalinn” (18). Dalurinn skiptir jafnmiklu máli og ættaróðalið.
Nafngiftir undirstrika hlutverkaskiptingu í dalnum. Á Nautaflötum búa valdhafar sveitarinnar sem alltaf hafa verið karlar. Nafnið Nautaflatir vísar í senn til karlmennskunnar og frelsisins: flatir eru greiðfærar og „rúmgóðar”; naut eru tákn karllegra krafta og náttúru. Á Nautaflötum býr Jón sem ríður óbeislaður um Hrútadal. Næsti bær við Nautaflatir er Hvammur. Nafnið Hvammur vísar til skjóls og grósku og í Hvammi býr hin skapmikla og ástheita Þóra. Þangað venur Jón komur sínar og þar njóta Jón og Þóra sinna fyrstu ástafunda.
Í grein um Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur gerir Helga Kress grein fyrir nokkrum hugtökum táknfræðingsins og sálgreinandans Juliu Kristevu. Þar á meðal eru hugtökin symbíósa og kóra. Helga segir að hjá Kristevu tákni symbíósan frumbernskuna og samlífið við móðurina. Þeim tíma fylgi óheftar tilfinningar „gleði, leikur, hamingja, snerting og hlýja móðurlíkamans (og móðurlífsins)”.[1] Samkvæmt Kristevu safnast reynsla þessa tímabils fyrir í kóru. Kóran tilheyri symbíósunni, tímabilinu áður en reglur og form eru orðin til í lífi manna, og hafi hvorki stöðu né tákn en nungis hrynjandi hljóms og hreyfingar. Við það að tileinka sér tungumálið og reglur samfélagsins bæli menn það sem geymt er í kórunni.
Tungumálið er hluti af reglum samfélagsins eða lögmáli föðurins.[2] Þegar menn tileinka sér það eru þeir um leið að skilja sig frá móðurinni, frá symbíósunni. Andstætt lögmáli föðurins stillir Kristeva upp hugtakinu líkami móðurinnar sem er tákn frumbernskunnar, þess skeiðs ævinnar sem einkennist af „öryggi, hlýju, og „symbíósu””.[3] Lögmál föðurins bælir frumhvatir og tilfinningar manna, lokar kórunni. En þótt maðurinn hafi samþykkt samfélagssáttmálann þráir hann ástina, segir Kristeva. Í ástinni leitar hann að samlífinu við móðurina.
Sögusvið Dalalífs er skýrt afmarkaður heimur sem veitir öryggi og skjól. Það birtist í orðalagi eins og „dalurinn okkar”, „heima í dalnum” og með því að lögð er áhersla á veðurblíðu dalsins. Öryggi dalsins birtist meðal annars í því „að áin hefur aldrei tekið mannslíf.” (1810) Það reyna óttaslegnar konurnar að hafa í huga þegar þær bíða Jóns sem er stöðugt á ferð um dalinn þvers og kruss yfir ána. Anna finnur heldur enga „náðarvök” í ánni þegar hún ætlar að drekkja sér (2000-2001).
Anna Friðriksdóttir kemur fyrst í Hrútadal þegar hún er átta ára. Fyrsta tilfinning hennar fyrir dalnum er að þar sé hún örugg því í dalnum stríði henni enginn. Hún flyst stuttu síðar að Nautaflötum og kann afar vel við sig. Þó kemur að því að innilokunin og öryggi dalsins verður óbærilegt. Anna fer að heiman og hugsar sér „að sjá ofurlítið meira af heiminum en þennan litla blett, sem hún hafi setið á yfir þrjátíu ár.” (1671)
Anna hefur ekki dvalið lengi fjarri heimabyggðinni þegar söknuðurinn nær tökum á henni og hún tárast yfir að „sjá ekki sinn kæra dal og hnjúkafjöllin bláu. Hér eftir yrði það hennar hlutskipti að sofna grátandi og vakna vonlaus, ef hún kæmist ekki heim.” (1700) Þegar líður að því að hún þurfi að flytja enn fjær dalnum getur hún hvorki matast né sofið. Hún unir sér hvergi nema „heima í dalnum” (1706). Utan dalsins er Anna ráðalaus eins og barn. Þegar hún kemur aftur heim finnst henni hvergi fegurra. Það besta við að koma heim er „að hátta ofan í mjúka rúmið inni í funheitu hjónahúsinu” (1757).
Helga Kress bendir á það í áðurnefndri grein að í Tímaþjófnum sé rúmið tákn móðurlífsins og ferðalög Öldu séu „fyrst og fremst á milli rúma.”[4] Helga bendir einnig á að Alda lítur á gröfina sem öruggan samastað.
Það sem „heima” táknar í huga Önnu er öryggi dalsins, hlýja hjónahússins og mýkt rúmsins. Þegar hún er komin ofan í rúm er hún loks alkomin heim. Fyrir Önnu er rúmið eins konar leg, móðurlíf, og dalurinn móðir. Hún lifir í þannig í symbíósu alla tíð. Samkvæmt kenningum Kristevu er forsenda eðlilegs þroska manna að þeir skiljist frá móðurinni, þroskist frá frumbernskunni, og tileinki sér reglur samfélagsins.[5] Það gerir Anna aldrei að fullu. Hún nær ekki að skiljast frá líkama móðurinnar, móðurlífinu, og er alltaf hálfgert barn. Hún nær ekki fullum þroska og annað slagið brýst út hjá henni geðveiki. Hlátur Önnu er dæmi um hvernig hið óhefta, kóran, brýst fram. Anna hlær þegar vinnumaðurinn Þórður flytur henni alvarlegar fréttir. Einnig hlær hún að Jóni þegar hún kemst að framhjáhaldi hans. Körlum þykir hlátur Önnu ýmist óviðeigandi eða óviðkunnanlegur. Þeim stendur ógn af honum því hann er merki um frumstæðar og óheftar tilfinningar.
Skjólið sem dalurinn veitir kemur ekki síst fram í frásögnum af kirkjugarðinum. Kirkjugarðurinn er sá staður sem Önnu líður nærri jafn vel á og í rúminu sínu. Þegar Anna er utan dyra eftir að hún er orðin fullorðin er hún oftast í kirkjugarðinum. Þar á hún ástvini, bæði (fóstur)foreldra og börn.
Á heimleið eftir brotthlaup sitt, þegar tilhlökkunin að koma heim er Önnu efst í huga, er kirkjugarðurinn meðal þess sem hún hugsar um. En hún á ekki athvarf í kirkjugarðinum ef hún skilur við Jón og flytur úr dalnum. Því gerir Jón henni skýra grein fyrir. Hann stikar út legstæði fyrir sig í Nautaflatagrafreitnum og íhugar að taka frá pláss fyrir vin sinn Þórð við hlið sína en ekki Önnu. Jón hræðir Önnu með því að hóta henni útlegð úr kirkjugarðinum: Hvað yrði um hana ef hún ætti ekki öruggan samastað í gröfinni?[6] Í frásögnum af kirkjugarðinum birtist gröfin sem mikilvægt athvarf.
Móðerni
Í hinum skjólsæla dal Dalalífs lifa og starfa konur ævilangt og fara fæstar nokkurn tíma burt. Þær giftast og ala börn sín í dalnum. Konurnar þrá að verða mæður og móðurhlutverkinu sinna þær af mikilli gleði. En hvað felst í því að verða móðir?
Í greininni „Stabat Mater” fjallar Julia Kristeva um móðerni og birtingarmynd þess í hinum kristna heimi. Kristeva segir að móðernið yfirgnæfi alla aðra eiginleika kvenna. Hún fjallar um Maríudýrkun, rekur breyttar áherslur hennar gegnum aldirnar og bendir á hið þríeina hlutverk Maríu sem móður, eiginkonu og dóttur sonarins. Kristeva segir að konur hafi samsamað sig móðurímynd Maríu vegna þess að hún hafi veitt lausn á vanda kvenna við mótun sjálfsímyndar þeirra.[7] Með hnignun trúarlífs standi konur uppi án viðunandi móðurímyndar.
Kristeva segir að í Maríudýrkun sé lögð áhersla á að María dýrki soninn og ást hennar á honum sé heitari allri annarri ást. Kristeva vitnar í miðaldasálminn „Stabat Mater” sem fjallar um móðurina Maríu mey.[8] Hún telur sálminn sýna vel hvað móðerni feli í sér. Í honum þjáist og gleðjist móðirin með barni sínu, hún sé alltaf til taks, ástrík, auðmjúk og lotningarfull. Sálmurinn sýni einnig hvernig móðirin miðli barninu af ást sinni. Sonurinn ákalli móður sína sem hina sönnu uppsprettu ástarinnar. Og um leið og móðirin sé uppspretta ástarinnar sé hún einnig uppspretta skáldskaparins og eilífs lífs. Sálminn og fleiri listaverk frá miðöldum tekur Kristeva sem dæmi um þá hugmynd kristinnar menningar að í samanburði við ást sem bindi móður við son sinn verði öll önnur mannleg tengsl hismi og hjóm. Þannig sé samband mæðgina upphafið í menningunni.
Í greininni „Playing and Motherhood; or How to Get the Most Out of the Avant-Garde” fjallar Susan Rubin Suleiman einnig um móðerni og skilgreiningar á því. Suleiman segir að móðirin geti ekki staðið utan laga föðurins og hún ali því börn sín upp samkvæmt þeim. Hún bendir á að mæður komi sjaldan fyrir í verkum framúrstefnuskáldkvenna.[9] Hún telur það sýna uppreisn skáldkvennanna gegn því sem móðerni standi fyrir í vestrænni menningu. Komi mæður fram í verkum kvennanna séu þær verðugir fulltrúar feðraveldisins. Dætur sem vilja veita nýjum viðhorfum brautargengi geti ekki haft mæður sínar sem fyrirmynd, hvorki í bókmenntum né veruleika.[10]
Í Dalalífi koma margar mæður fram á sjónarsviðið. Sú fremsta þeirra er Lísibet, prestsdóttir að vestan, sem flyst að Nautaflötum og er fagnað af dalbúum. Lísibet er stjórnsöm, sterk og ástríðufull. Fyrr en varir ríkir hún „sæl og einvöld yfir sveitinni” (23).
Lísibet verður brátt eins konar móðir dalabúa sem voru:
... allir þess fullvissir, að hún væri alveg einstök kona, því í hennar fari væri enginn galli. Hún tók fátæk börn heim til sín, þegar þröngt var í búi hjá foreldrunum, og hafði þau hjá sér, þangað til ástæðurnar fóru eitthvað að skána. Þá skilaði hún þeim aftur vel útlítandi. Hún áminnti mæðurnar um að leggja vöndinn til hliðar og láta ekki börnin hafa nein kynni af honum, slíkt væri skammarlegt athæfi. (22-23)
Hér dregur sagan upp mynd af konu sem er ólík öllum öðrum konum sem búið hafa í dalnum. Hún flytur ýmsa nýja siði í sveitina og sýnir göfuglyndi og gott fordæmi. Lögð er áhersla á það þegar Jakob kvænist Lísibet hve heimanmundur hennar er rýr. Fyrri húsfreyjur höfðu lagt heilmikið til búsins. Þegar svo Lísibet er sest í húsfreyjusætið á stórbýlinu gefur hún ríkulegar gjafir. Það leiðir þó ekki til þess að bú hennar minnki heldur vex það í réttu hlutfalli við gjafir hennar. Auðurinn vex í kringum hana þótt hún ausi af honum og hún hefur bæði völd og áhrif.
Myndin af Lísibet minnir á móðurmyndina sem Helene Cixous dregur upp í verkum sínum.[11] Cixous sýnir hina góðu móður; almáttug og örlát deilir móðirin út ást, næringu og gnægð. Móðirin er fulltrúi gjafmildi og hún gefur án endurgjalds.[12] Samkvæmt Cixous fær móðirin umbun þótt hún ætlist ekki til þess. Þannig er það líka í Dalalífi, móðirin Lísibet gefur af sjálfri sér og fær margfalt til baka í formi ástar, aðdáunar og auðs. Hún ríkir yfir dalnum sem ástrík og umhyggjusöm móðir og ríki hennar, dalurinn, veitir íbúum sínum vörn og skjól.
Lísibet er þannig móðir án þess að hafa fætt barn sjálf. Í þessum hluta frásagnarinnar er Lísibet sýnd með augum dalabúa sem eru fullvissir um að hún þrái að verða móðir. Og frásögnin snýst líka um það að gera Lísibetu að móður. Enda þótt Lísibet sé um sex ár í barnlausu hjónabandi er ekkert sagt frá þeim tíma. Árin sex líða milli kaflaskila. Ekki er staldrað við fyrr en til að undirbúa þungun Lísibetar.
Eftir að Lísibet er orðin móðir sjálf er hún enn tilkomumeiri en fyrr. Hún er á allan hátt einstök. Mikilleiki hennar þaggar niður allar sögusagnir sem hafa komist á kreik um að hún hafi verið manni sínum ótrú. Hreinleiki Lísibetar er líka undirstrikaður þegar hún heldur syninum undir skírn:
Hún var með háan skautafald og snjóhvíta blæju. Aldrei hafði hana borið eins hátt yfir fjöldann og þennan dag. Slík kona gat ekki hafa gert sig seka í skírlífisbroti. (28-29)
Þegar hún er orðin móðir er þroski hennar og virðing fullkomnað.
Stórlát móðir
Dalalíf fjallar að stórum hluta um mæður og fram kemur að konur njóti móðurhlutverksins. Þó er lítið fjallað um samband mæðra og dætra nema um sé að ræða fósturmæður og dætur.
Lísibet á móður en hún kemur lítið við sögu. Hún birtist án móður í Dalalífi og þar sem móðir Jakobs eiginmanns hennar er dáin eignast Lísibet ekki heldur tengdamóður.
Samband mæðgna birtist óbeint í Dalalífi í sambandi dætra við staðgengil móðurinnar. Það er flókið og einkennist af togstreitu og baráttu um völd. Móðirin vill stjórna dætrunum og temja þær til hlýðni við lögmál föðurins. Sú mynd sem Guðrún dregur upp af Lísibetu sem móður stúlkna er þannig í samræmi við þá mynd sem Suleiman bendir á í áðurnefndri grein sinni að sé ríkjandi í sögum skáldkvenna.[13]
Samband tengdamæðra og -dætra í Dalalífi hefur mikið að segja. Vera má að sá áhugi fyrir tengdamæðgum sem birtist í Dalalífi (og verkum fleiri íslenskra skáldkvenna) eigi rætur að rekja til þess að samband tengdamæðgna sé mikilvægt fyrir ríkjandi menningu. Feðraveldinu verður ekki viðhaldið nema mæður eignist syni og þeir eiginkonur sem ali þeim syni!
Í Dalalífi eru ungar stúlkur mátaðar við tengdadótturhlutverk og flestar verða þær tengdadætur. Þegar kona nokkur, móðir sona á giftingaraldri, sér Þóru í fyrsta sinn hugsar hún: „Hver vissi nema þetta væri tengdadótturefni. Hún var óneitanlega gerðarleg, en svipurinn stór og viðmótið ekki vel hlýlegt.” (223) Sagan sýnir að fyrir ungum stúlkum liggur ekkert annað en hjónaband og þar með verða þær flestar tengdadætur. Þegar dalabúar fara að hugsa til kvonfangs fyrir Jón líta menn fyrst og fremst til heldri stúlkna dalsins. Þóra er álitin gott konuefni fyrir Jón því „hún er myndarstúlka og feikna búkonuefni” (70). Aftur á móti þykir Anna of „roluleg”. Hún er hvorki nógu gömul né dugleg (70).
Skoðun Jóns á eiginkonu er mótuð út frá móður hans. Hann segir:
Kaldlynd, tilfinningalaus kona á ekkert erindi að Nautaflötum. Hún myndi sóma sér illa við hlið móður minnar. Það er bezt, að hún velji sjálf tengdadóttur sína ... (67)
Hér er áherslan á tengdamæðgurnar. Vilji móðurinnar er vilji Jóns.
Móðir fullorðins sonar
Í Dalalífi þrá konurnar ást og hjónaband. Þegar í hjónabandið er komið verða börnin fljótt það mikilverðasta í lífi þeirra, sér í lagi fyrsta barnið. Það vekur athygli hversu margar konur í Dalalífi eignast syni sem fyrsta eða eina barn og hve samband þeirra við synina er náið.
Eftir að Lísibet eignast soninn Jón snýst líf hennar einungis um hann. Sonurinn verður þrætuepli milli hjónanna Jakobs og Lísibetar. Afstaða þeirra til uppeldis hans undirstrikar hve miklar andstæður þau eru. Jakob er fulltrúi feðraveldis og íhalds en Lísibet fulltrúi frelsis og ástríðna. Kynferði hennar og ástleysi eiginmannsins veldur því að hún getur ekki notið drauma sinna en hún getur séð þá rætast í syninum. Jón er fæddur hetja. Frá upphafi er hann öðrum börnum fremri og kjörinn til forystu á öllum sviðum. Hann er jafnframt góður við minni máttar og hugsunarsamur við gamalmenni. En hann gerir líka allt sem hann langar til og fær ávallt samþykki móður sinnar. Jakobi þykir sem Lísibet muni skemma drenginn með eftirlæti og gera hann „ófyrirleitinn sjálfbirging” (39). Hann reynir að vinna gegn því með því að halda að honum guðsorði. Jakob vill að Jón fylgi lögmáli föðurins.
Lísibet lítur upp til Helga föður síns og óskar þess að sonur hennar líkist honum og henni verður að ósk sinni. Hún heldur því þó aldrei að Jóni að hann verði prestur eins og pabbi hennar. En hestamaður, kvennamaður og drykkjumaður á hann að verða. Lísibet vill að sonurinn skemmti sér, drekki og dufli. Hann á að fá allt það besta sem körlum býðst án þess þó að fylgja lögmáli föðurins út í æsar.
Lísibet dáist að því hve hugrakkur og uppátækjasamur Jón er. Þegar Jón sundríður dalsána, barn að aldri, stendur hún við gluggann og horfir á. Þegar hann er hólpinn tekur hún á móti honum með hrósi og aðdáun. Hún minnir á Beru móður Egils þegar hún kvað Egil vera víkingsefni er hann hafði í fyrsta sinn vegið mann.[14] Hún bregst við af ofsa ef einhver gerir á hlut sonar hennar. Þegar smalapiltur á Nautaflötum leyfir sér að tugta Jón til slær hún hann og skammar. Jakob reynir að breiða yfir ofríki Lísibetar með því að færa smalanum trippi. Reyndar er réttara að tala um greiðslu, Jakob er í raun að borga smalanum fyrir kinnhestinn sem Lísibet veitti honum. Hann á það sameiginlegt með karlhetjum Íslendingasagna að greiða bætur ef eiginkonur brjóta í bága við hegðunarreglur samfélagsins. Jakob er ekki gjafmildur, honum er annarra um að halda í eignir sínar en gefa þær. Jón er hins vegar stórtækur í gjöfum eins og móðir hans og hún kann vel að meta það. Þegar Jón segist ætla að gefa fjölskyldunni í Seli bestu kúna úr fjósinu blöskrar Jakobi hugmyndin en Lísibet þykir hún stórmannleg. Hún veitir syninum fullt frelsi jafnt til leikja og gjafa. Það frelsi og þær ástríður sem Lísibet verður að bæla sjálf getur hún séð rætast í Jóni.
Sagan leggur áherslu á að Lísibet sé blind fyrir göllum sonarins og elski hann skilyrðislaust. Hún ávítar hann aldrei en hylmir yfir ef hann gerir eitthvað sem gæti misboðið samfélaginu. Það kemur skýrast fram í tengslum við ástarsambönd Jóns. Lísibet aðhefst ekkert þótt Jón dragi Þóru á tálar. Sonurinn og ánægja hans er fyrir öllu. Á banasænginni iðrast Lísibet þó hvernig hún kom fram við Þóru og segir við hana:
Ég hef ekki alltaf komið fram við þig, eins og ég hefði átt að gera. Kannske skilur þú mig betur, þegar þú ert orðin móðir fullorðins sonar. En þú mátt trúa því að mér leið ekki alltaf vel, og nú iðrar mig þess, að ég aðvaraði þig ekki í tíma. (547)
Lísibet iðrast ekki áþekkrar framkomu sinnar við aðrar stúlkur. Hún er líka ánægð með soninn og grætur ekki hvernig hún ól hann upp. Henni þykir einungis leitt að stúlka sem er henni jafn nákomin og Þóra þurfi að þola sorg Jóns vegna.
Þegar Lísibet segir þetta við Þóru er Björn sonur hennar tveggja ára og á ást hennar alla. Eftir fæðingu Björns var Sigurður eiginmaður hennar utanveltu. Hann hugsar:
Hann þóttist fljótlega sjá það, að sú litla hlýja, sem hann hefði átt í hug og hjarta konunnar, væri nú orðin eign þessa nýfædda karlmanns, sem kominn var á heimilið. Hún gat alltaf verið að kyssa hann og gera gælur við hann. (462-463)
Þóra sér svo fyrir sér drenginn sinn eldast og vonar að hann verði mikill hestamaður. Hún hugsar: „Þá yrði mamma hreykin af sínum dreng og horfði á eftir honum meðan hún gæti.” (633)
Þegar Björn er kominn í skóla ætlast Þóra til þess að honum gangi best af piltunum í sveitinni. Hún vonar að frammistaða sonarins stækki hana í augum sveitunganna. En þegar til kemur verður hann lægri en piltarnir af nágrannabæjunum. Þóra reiddist honum mjög fyrir að niðurlægja sig þannig. Hin báglega einkunn Björns olli því að Þóra laut í lægra valdi fyrir öðrum konum sveitarinnar. Þannig er frami sonarins sem og ófarir eru um leið frami og ófarir móðurinnar.
Eftir að Anna eignast son á hún litla ást og athygli eftir handa Jóni. Hún nýtur þess að leggja barnið á brjóst og dútlar við barnafötin. Þegar sonurinn eldist snýst allt um hann og Jón kvartar við Önnu:
Ég er orðinn einskis virði í þínum augum. Þú lifir eingöngu fyrir Jakob. Hann á alla þína ást og umhyggju. Ég hef nærri verið afbrýðisamur í sumar, ... (1824)
Dalalíf sýnir mæður sem leggja kapp á að sonum þeirra vegni sem best. Þær vilja að þeir menntist og forframist á þann hátt að eftir þeim verði tekið í sveitinni. Mæðurnar yngjast upp þegar synirnir eru orðnir ungir karlmenn og þær fara með þeim á allar skemmtanir.
Orð Lísibetar við Þóru um að hún skilji hana kannski þegar sonur hennar verði fullorðinn eru athyglisverð. Konurnar breytast við það að verða mæður. Móðurhlutverkið veitir konum tækifæri til að veita ástríðum sínum frelsi. Móðurástin einkum ást móður á syni er tilfinning sem ríkjandi menning viðurkennir. Hún er jafnframt tákn hinna æðstu tilfinningatengsla í kristnu samfélagi. Móðurástina þurfa konur ekki að bæla heldur er þeim frjálst að sýna hana hvar og hvenær sem er. Soninn þurfa þær heldur ekki að bæla.
Dalalíf eftir Guðrúnu Árnadóttur frá Lundi sýnir hvernig konur finna farveg fyrir allar sínar heitu og ástríðufullu tilfinningar í móðurástinni. Tilfinningarnar birtast fyrst í umhyggju og gælum við synina sem ungbörn. Þegar synirnir verða fullorðnir fá niðurbældar ástríður einnig útrás. Þá taka mæðurnar þátt í lífi sona sinna af heilum hug. Þær fara með þeim í útreiðartúra og á böll og dansa við þá. Þær njóta þess einnig að horfa á þá dansa og ríða út og á þann hátt fá þær ástarþrá sinni fullnægt.
[1] Helga Kress: „Dæmd til að hrekjast”, bls. 57.
[2] Um lögmál föðurins og kenningar Juliu Kristevu um kóru og symbíósu má einnig lesa í bók Toril Moi, Sexual/Textual Politics, einkum bls. 161-167.
[3] Helga Kress: „Dæmd til að hrekjast”, bls. 58.
[4] Sama, bls. 70, sjá einnig nmgr. 14 bls. 91.
[5] Sjá Toril Moi, Sexual/Textual Politics. bls. 11. Sjá einnig Helgu Kress: „Dæmd til að hrekjast.” bls. 58.
[6] Helga Kress bendir á að Tímaþjófurinn sýni konu sem líti á gröfina sem öruggt athvarf. „Dæmd til að hrekjast.” bls.70.
[7] Júlía Kristeva: „Stabat Mater” bls. 180. Kristeva talar um feminíska paranoju (ofsóknarkennd) og kemur fram með tilgátu um hvernig móðurímynd meyjarinnar vinnur úr henni.
[8] „Stabat Mater” eftir Jacopone da Todi (1228-1306) hafa nokkur íslensk skáld þýtt, þeirra á meðal Matthías Jochumson, sjá Ljóðmæli II, Ísafold, 1958, bls. 290-291.
[9] Suleiman notar hugtakið avant-garde sem þýtt hefur verið sem framúrstefna. Framúrstefna er notuð yfir þær bókmenntategundir sem á hverjum tíma ganga lengst í endurskoðun á formi og stíl (sjá Hugtök og heiti í bókmenntafræði, 1983). Suleiman á bæði við skáldkonur úr röðum súrrealista og póstmódernista þegar hún talar um framúrstefnuhöfunda í grein sinni. Hins vegar segir hún að Kristeva telji að allir framúrstefnuhöfundar séu karlar. Sjá Suleiman, Susan Robin: „Playing and Motherhood; or How to Get the Most out of the Avant-Garde”.
[10] Susan Peck MacDonald talar um fjarveru mæðra sem hefð í skáldskap kvenna. Hún bendir á hve móðirin er oft fjarverandi eða máttlítil í skáldsögum kvenna á nítjándu öld. Hún segir að fjarvera mæðranna í skáldskap kvenna sé forsenda fyrir þroska kvenhetjanna. Dóttirin verði að öðlast fjarlægt frá móðurinni svo hún verði sterkur sjálfstæður einstaklingur en ekki of lík móður sinni. Þannig geti dótturinni, kvenhetjunni tekist að skapa sjálfa sig og „fulfill her inheritance from her mother.” Sjá Susan Peck MacDonald: „Jane Austen and the Tradition of the Absent Mother”
[11] Sjá Toril Moi, Sexual/Textual Politics, einkum kaflann „Ecriture féminine 2)”. Sjá einnig Cixous: „Coming to Writing”
[12] Cixous skilgreinir ríki gjafa sem eins konar samfélag kvenna. Ríki eignarréttarins tilheyri aftur á móti samfélagi karla. Sjá Toril Moi, Sexual/Textual Politics., kaflann „The gift and the proper”.
[13] Susan Rubin Suleiman: „Playing and Motherhood; or How to Get the Most out of the Avant-Garde.”
[14] Egils saga, 40. kafli. Hugtök og heiti í bókmenntafræði, 1983). Suleiman á bæði við skáldkonur úr röðum súrrealista og póstmódernista þegar hún talar um framúrstefnuhöfunda í grein sinni. Hins vegar segir hún að Kristeva telji að allir framúrstefnuhöfundar séu karlar. Sjá Suleiman, Susan Robin: „Playing and Motherhood; or How to Get the Most out of the Avant-Garde”.
[14] Susan Peck MacDonald talar um fjarveru mæðra sem hefð í skáldskap kvenna. Hún bendir á hve móðirin er oft fjarverandi eða máttlítil í skáldsögum kvenna á nítjándu öld. Hún segir að fjarvera mæðranna í skáldskap kvenna sé forsenda fyrir þroska kvenhetjanna. Dóttirin verði að öðlast fjarlægt frá móðurinni svo hún verði sterkur sjálfstæður einstaklingur en ekki of lík móður sinni. Þannig geti dótturinni, kvenhetjunni tekist að skapa sjálfa sig og „fulfill her inheritance from her mother.” Sjá Susan Peck MacDonald: „Jane Austen and the Tradition of the Absent Mother”
[14] Sjá Toril Moi, Sexual/Textual Politics, einkum kaflann „Ecriture féminine 2)”. Sjá einnig Cixous: „Coming to Writing”
[14] Cixous skilgreinir ríki gjafa sem eins konar samfélag kvenna. Ríki eignarréttarins tilheyri aftur á móti samfélagi karla. Sjá Toril Moi, Sexual/Textual Politics., kaflann „The gift and the proper”.
[14] Susan Rubin Suleiman: „Playing and Motherhood; or How to Get the Most out of the Avant-Garde.”
[14] Egils saga, 40. kafli.
Heimildir
-
Guðrún Árnadóttir frá Lundi: Dalalíf I, Æskuleikir og ástir, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1946.
-
Guðrún Árnadóttir frá Lundi: Dalalíf II, Alvara og sorgir, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1947.
-
Guðrún Árnadóttir frá Lundi: Dalalíf III, Tæpar leiðir, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1948.
-
Guðrún Árnadóttir frá Lundi: Dalalíf IV, Laun syndarinnar, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1949.
-
Guðrún Árnadóttir frá Lundi: Dalalíf V, Logn að kvöldi, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1951.
-
Helga Kress: „Dæmd til að hrekjast. Um ástina, karlveldið og kvenlega sjálfsvitund í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur”, Tímarit Máls og menningar 1/1988, bls. 55-93.
-
Hugtök og heiti í bókmenntafræði, ritstjóri Jakob Benediktsson, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Mál og menning 1983.
-
Kristeva, Julia: „Stabat Mater”, The Kristeva Reader, ritstjóri Toril Moi, Basil Blackwell 1986, bls. 160-186. Greinin birtist fyrst á frönsku í bók Kristevu Histoires d´amour 1983.
-
MacDonald, Susan Peck: „Jane Austen and the Tradition of the Absent Mother”, The Lost Tradition. Mothers and Daughters in Literature, útg. Cathy N. Davidsson og E.M. Broner, Frederick Ungar Publishing Co, New York 1980, bls. 58-69.
-
Matthías Jochumson: Ljóðmæli II, Ísafold, 1958.
-
Moi, Toril: Sexual/Textual Politics: Feminist Litarary Theory, Methuen, London, New York 1985.
-
Suleman, Susan Rubin: „Playing and Motherhood; or How to Get the Most out of the Avant-Garde”, Representation of Motherhood, Yale University Press, New Haven and London 1994, bls. 272-282.
Erindi flutt á ráðstefnu um íslenskar kvennarannsóknir sem haldin var á vegum Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla íslands, dagana 20. til 22. október 1995, og birtist í samnefndu ráðstefnuriti 1997.
Sigurrós Erlingsdóttir
Myndin af Guðrúnu er sótt á síðu Forlagsins: https://www.forlagid.is/hofundar/gudrun-fra-lundi/