SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þórunn Elfa Magnúsdóttir

Þórunn Elfa Magnúsdóttir fæddist 20. júlí árið 1910 í Reykjavík.

Þórunn Elfa ólst upp fyrstu árin í mikilli fátækt með foreldrum sínum, Margréti Magnúsdóttur og Magnúsi Magnússyni, ásamt systkinum. Sjö ára gömul fór hún í fóstur til móðursystur sinnar, Marenar, og eiginmanns hennar, Einars Sigurðssonar, sem bjuggu að Klifshaga í Axarfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Þar bjó hún fram til fjórtán ára aldurs en þá flutti hún aftur til Reykjavíkur með fósturforeldrum sínum.

Þórunn Elfa nam tvo vetur í lýðskóla Ásgríms Magnússonar í Reykjavík og sótti einnig einkatíma og námskeið í Noregi á árunum 1933-1936.

Þórunn Elfa giftist Jóni Þórðarsyni, rithöfundi og kennara, árið 1941. Þau eignuðust þrjú börn: Önnu Margréti, Magnús Þór, betur þekktur sem Megas, og Einar Má. Þórunn og Jón skildu árið 1966.

Þórunn Elfa fékkst við ýmislegt samhliða skrifunum. Hún samdi og annaðist flutning útvarpsefnis um hálfrar aldar skeið, vann fyrir hannyrðaverslun við að teikna mynstur og prjónaði lopafatnað til útflutnings. Þá starfaði hún fyrir Kvenréttindafélag Íslands og Rithöfundasamband Íslands auk þess að vera í söngkór og leikfélagi.

Þórunn Elfa var mjög afkastamikill rithöfundur. Hún var um tvítugt þegar fyrstu sögur hennar komu út, Dætur Reykjavíkur, og eru þær ennfremur með fyrstu Reykjavíkursögunum í íslenskum bókmenntum.

Þórunn Elfa skrifaði fjölda skáldsagna, fyrir bæði börn og fullorðna, smásögur, ljóð og leikrit ásamt því að fást við greinaskrif í blöð og tímarit og þýðingar. Hvöss samfélagsgagnrýni og umfjöllun um hlutskipti kvenna og jafnrétti einkennir mjög skrif Þórunnar Elfu.

Þórunn Elfa lést í Reykjavík árið 1995.

 


Ritaskrá

  • 1985  Á leikvelli lífsins
  • 1981  Hver var frú Bergsson?
  • 1979  Vorið hlær (Dætur Reykjavíkur)
  • 1977  Frá Skólavörðustíg að Skógum í Öxarfirði, endurminningar
  • 1976  Elfarniður, ljóð
  • 1968  Kóngur vill sigla
  • 1966  Miðnætursónatan
  • 1964  Í skugga valsins
  • 1963  Anna Rós
  • 1958  Frostnótt í maí
  • 1957  Litla stúlkan á snjólandinu
  • 1957  Fossinn
  • 1957  Eldliljan
  • 1954  Sambýlisfólk
  • 1953  Dísa Mjöll
  • 1949  Í biðsal hjónabandsins
  • 1947  Snorrabraut 7
  • 1946  Lilli í sumarleyfi
  • 1944  Evudætur
  • 1941-1943  Draumur um ljósaland I-II
  • 1938  Líf annarra
  • 1937  Að sólbakka
  • 1938  Dætur Reykjavíkur III
  • 1934  Dætur Reykjavíkur II
  • 1933  Dætur Reykjavíkur I

 

Óútgefin og ódagsett leikhandrit, í safni Listaháskóla Íslands

  • Marika Brennar
  • Sverðið (eftir skáldsögunni Dísa Mjöll)
  • Ljósaskipti

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1973  Verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins
  • 1962  Verðlaun úr verðlaunasamkeppni Ríkisútvarpsins fyrir minningaþátt

 

Tengt efni