Jóna Guðbjörg Torfadóttir
Jóna Guðbjörg Torfadóttir fæddist árið 1969 og er uppalin í Reykjavík.
Jóna hefur ort ljóð og samið sögur frá því hún man eftir sér og sömuleiðis hefur hún aðeins fengist við þýðingar og samningu námsefnis og fræðigreina. Greinin „Gunnhildur and the male whores" birtist rafrænt á vefsíðu háskólans í Tübingen árið 2002 og „Í orðastað Alfífu" birtist í Skírni tveimur árum síðar.
Stöku ljóð hafa birst eftir Jónu á prenti, m.a. í samstarfi við ljóðahópinn Ísabrot sem gaf út Fley og fagrar árar 2001 og Fley og fleiri árar 2002. Afrakstur frá þessum tíma birtist síðan í ljóðabókinni Ég fór hvergi - sjálfhverf ljóð sem hún gaf út sjálf árið 2012. Sama ár stofnaði Jóna ljóðahópinn Tásurnar og gaf hann út ljóðabók á rafrænu formi árið 2014 og í prentuðu upplagi árið 2019. Árið 2014 kom einnig út ljósmyndabókin Hnýsni - að tjaldabaki listamanna í takmörkuðu upplagi, sem geymir ljósmyndir Ásgeirs Ásgeirssonar (Geirix) en þar á Jóna nokkrar ljóðrænar línur.
Árið 2014 gaf bókaforlagið Sæmundur út Orkneyskar þjóðsögur, í tíu ára gamalli þýðingu Jónu, og ári síðar sá Sæmundur einnig um útgáfu á barnabókinni Ævintýragarðinum - þar sem Ása, Signý og Helga koma hvergi við sögu. Þá birtist námsefnið Flísar, örsögur um siðferðileg álitamál, á Skólavefnum árið 2015 og ári síðar varð það aðgengilegt á Framhaldsskóli.is.
Nú síðast sendi Jóna frá sér Metsölubókina: Brodda árið 2021 sem geymir feminísk ljóð.
Ritaskrá
- 2021 Metsölubókin: Broddar
- 2019 Tásurnar (ásamt Ágústi Ásgeirssyni og Jóhanni G. Thorarensen)
- 2015 Ævintýragarðurinn: þar sem Ása, Signý og Helga koma hvergi við sögu
- 2012 Ég fór hvergi: sjálfhverf ljóð
Jóna hefur einnig skrifað greinar og kennsluefni.
Þýðingar
- 2014 Orkneyskar þjóðsögur - Tom Muir safnaði.
Heimasíða
jonatorfa@gmail.com