Kristín Marja Baldursdóttir
Kristín Marja Baldursdóttir fæddist í Hafnarfirði 21. janúar 1949.
Kristín Marja lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands og B.A.-prófi í þýsku og íslensku frá Háskóla Íslands. Hún starfaði bæði sem kennari og blaðamaður í Reykjavík áður en hún gaf út fyrstu skáldsögu sína, Mávahlátur, árið 1995. Sagan var sett upp á stóra sviði Borgarleikhússins og eftir henni gerði Ágúst Guðmundsson samnefnda kvikmynd 2001 sem hlaut fjölda verðlauna á Eddu-hátíðinni sama ár. Síðari skáldsögur Kristínar Marju hafa sömuleiðis notið geysimikillar hylli, ekki síst tveggja bóka stórvirkið um listakonuna Karitas; Karitas án titils og Óreiða á striga.
Kristín Marja hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Þá var bókin Karitas án titils tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Kristín Marja var útnefnd leikskáld Borgarleikhússins leikárið 2012-2013 og 2014 var frumsýnt þar leikrit hennar Ferjan í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur. Leikverkið segir sögu fimm íslenskra kvenna og þriggja karla sem lenda saman á bát á leið heim til Íslands. Þegar fólkið kemur um borð kemur í ljós að ýmislegt er öðruvísi en búist var við. Konunum er troðið saman í litla káetu á meðan karlmennirnir fá aðstöðu á rúmgóðum bar þar sem þeir spila tónlist og skemmta sér. Eftir nokkrar vangaveltur ákveða konurnar að taka málin í sínar hendur og óvænt atburðarás hefst.
Eftir sýningu Ferjunnar sneri Kristín Marja sér aftur að skáldsagnaskrifum og einnig sendi hún frá sér greinasafn með yfirskriftinni Frelsun heimsins árið 2019.
Bækur Kristínar Marju hafa verið þýddar og gefnar út á Norðurlöndunum, í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi og víðar erlendis við miklar vinsældir.
Ritaskrá
- 2024 Ég færi þér fjöll
- 2020 Gata mæðranna
- 2019 Frelsun heimsins (greinasafn)
- 2016 Svartalogn
- 2014 Ferjan (leikrit)
- 2012 Kantata
- 2009 Karlsvagninn
- 2007 Óreiða á striga
- 2004 Karitas, án titils
- 2001 Kvöldljósin eru kveikt
- 2000 Mynd af konu: Vilborg Dagbjartsdóttir
- 1999 Kular að degi
- 1997 Hús úr húsi
- 1995 Mávahlátur
Verðlaun og viðurkenningar
- 2012 Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir framlag til íslenskra bókmennta
- 2011 Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
- 2010 Viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins
- 2008 Fjöruverðlaunin fyrir Karítas, án titils og Óreiða á striga
Tilnefningar
- 2008 Til Menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir Karítas, án titils og Óreiða á striga
- 2006 Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Karítas, án titils
Þýðingar
- 2022 Karitas untitled (Philip Roughton þýddi á ensku)
- 2020 A sirályok kacagása (Veress Kata þýddi á ungversku)
- 2018 Das Echo dieser Tage (Tina Flecken þýddi á þýsku)
- 2017 Buz Ressami: Karitas ( Sevgi Tuncay þýddi á tyrknesku)
- 2017 Havblik (Rolf Stavnem þýddi á dönsku)
- 2016 Karitas: ruðuleiki á lørifti (Gunvør Balle þýddi á færeysku)
- 2015 Karitas við ongum heiti (Gunvør Balle þýddi á færeysku)
- 2015 Sommerreigen (Tina Flecken þýddi á þýsku)
- 2015 Køligt daggry (Kim Lembek þýddi á dönsku)
- 2014 Kantate (Tone Myklebost þýddi á norsku)
- 2014 Kantate (Nanna Kalkar þýddi á dönsku)
- 2014 Smejata na galebíte (Borjana Mojsovska þýddi á makedónísku)
- 2014 La pintora de hielo (Enrique Bernárdez þýddi á spænsku)
- 2013 Fra hus til hus (Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir þýddi á dönsku)
- 2013 Karitas: kaos på lerre (Ine Camilla Bjørnsten og Inge Ulrik Gundersen þýddu á norsku)
- 2012 Karitas (Ine Camilla Bjørnsten og Inge Ulrik Gundersen þýddu á norsku)
- 2011 Karitas - livre 2: l'art de la vie (Henrý Kiljan Albansson þýddi á frönsku)
- 2011 Chaos sur la toile (Henrý Kiljan Albansson þýddi á frönsku)
- 2011 Sterneneis (Ursula Giger þýddi á þýsku)
- 2011 Karlsvognen (Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir þýddi á dönsku)
- 2010 Hart van vuur en ijs (Marcel Otten þýddi á hollensku)
- 2010 Il sorriso dei gabbiani (Silvia Cosimini þýddi á ítölsku)
- 2010 Jeg er Freya (Ellen Karine Berg þýddi á norsku)
- 2009 Die Farben Der Insel (Coletta Bürling þýddi á þýsku)
- 2008 Karitas : kaos på lærred (Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir þýddi á dönsku)
- 2007 Karitas uden titel (Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir þýddi á dönsku)
- 2006 Måkelatter (Ellen Karine Berg þýddi á norsku)
- 2006 Mistsluier (Marcel Otten þýddi á hollensku)
- 2005 Måsernes skratt (Inge Knutsson þýddi á sænsku)
- 2004 Hinter fremden Türen (Coletta Bürling og Kerstin Bürling þýddu á þýsku)
- 2004 De lach van de meeuw (Paula Vermeyden þýddi á hollensku)
- 2003 Mågelatter (Áslaug Th. Rögnvaldsdóttir þýddi á dönsku)
- 2002 Kühl graut der Morgen (Coletta Bürling þýddi á þýsku)
- 2001 Möwengelächter (Coletta Bürling og Renate Einarsson þýddu á þýsku)