SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. maí 2023

ÞVOTTAKONUR HEIMSINS. Um Óreiðu á striga

Listakonan Karitas Jónsdóttir (Karitas, án titils 2004) sem forðum bjó með Sigmari sjóara, átti með honum börn og buru en fórnaði ást og fjölskyldu fyrir sjálfstæði og myndlist, sneri aftur í framhaldssögunni Óreiðu á striga árið 2007. Þar heldur Kristín Marja Baldursdóttir áfram að segja frá lífshlaupi þessarar stórbrotnu konu. Bygging sagnanna er sú sama og togstreita Karitasar milli skyldu og frelsis heldur áfram.

Þegar sagan hefst er Karitas teiknikennari á Eyrarbakka og gengur fram af forpokuðum kerlingunum með háttalagi sínu. Hún kemst til Parísar, kynnist hringiðu listarinnar, fer til New York og hefur getið sér gott orð þegar hún flytur heim til Íslands eftir andlát móður sinnar. Þetta er mikil kvennasaga, eins og Kristínu Marju er lagið, um sterkar konur og sjálfstæðar. Þær eiga sér drauma, leita hamingjunnar hver með sínum hætti og eru margar velktar í lífsins ólgusjó: „...í hvert sinn sem sem konum miðar áfram í baráttunni fyrir frelsi sínu og sjálfstæði skella karlarnir á stríði til að sýna yfirburði sína. Og konurnar verða að einbeita sér að því að vernda börnin fyrir ógnum stríðsins, þær teygja sig ekki í völdin meðan börnin gráta af ótta eða hungri. Frelsi þeirra er kýlt niður í nafni móðurhlutverksins, karlinn skammtar konunni peninga og hún verður þræll hans“ (154) segir hin franska Madame sem hefur lifað tvær heimstyrjaldir.

Hjónakornin Sigmar og Karitas, sem geta hvorki verið sundur né saman, eiga margar orðasennurnar og takast á um lífsgildin. Í einni rimmunni segir Karitas: „Ég væri víst löngu orðin fræg væri ég karlmaður en í feðraveldinu hampa karlar hver öðrum og það versta er að konurnar hampa þeim líka, því ef þær færu nú að hampa hver annarri, hver ætti þá að sjá um þvotta þjóðarinnar?“ (363).

Persónurnar eru spriklandi af lífi, augljóslega fulltrúar ýmissa gilda og þjóðfélagshópa en þær eru hvorki svarthvítar né klisjulegar. Bjarghildur sveitarljómi sem flutti á mölina er andstyggðin sjálf en um leið er hún stórfyndin og örlög hennar harmræn, Sigmar stendur fyrir togaraútgerðina sem færði þjóðarbúinu auð og afl, synirnir eru karlrembur sem vilja hafa konur við eldhúsbekkinn og ásaka foreldra sína fyrir sjálfhverfu og eigingirni en Silfá litla er fulltrúi ungu kynslóðarinnar sem fer í kröfugöngu til að heimta jafnrétti og ekkert múður. Samtölin eru afar vel skrifuð, stíllinn er myndrænn og áreynslulaus, stundum er eins og maður sé að horfa á kvikmynd og stundum er eins og Salka Valka hafi stigið inn í Dalalíf.

Fjölmörg tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tákna mótlæti kvenfrelsisbaráttunnar, samstöðu kvenna og skyldurnar sem lífið skaffar þeim. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið hafi verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár. Óreiða á striga er stórskemmtileg kvennasaga, mögnuð samfélagslýsing og saga allra þvottakvenna heimsins.

 

Áður birt í Mbl 23.11.2007

Tengt efni