SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. ágúst 2018

VANDINN AÐ LIFA. Fórnarleikar

Álfrún Gunnlaugsdóttir. Fórnarleikar. Reykjavík: Mál og menning 2016, 216 bls.

Persónur Fórnarleika eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur hafa allar vonda stöðu í lífsins tafli. Ógæfa fjölskyldunnar viðhelst mann fram af manni, vegna skapgerðarbresta, bælingar eða misskilinna fórna.

Rithöfundurinn og friðarsinninn Magni Ríkharðs- og Regínuson hyggst rekja harmsögu ættar sinnar og skrifa það sem hann kallar hina „óskálduðu skáldsögu“ með því að nota upptökur á snældum sem móðir hans lét eftir sig. Það reynist þó flóknara en hann hélt:

„Þó að persónur í lífinu og persónur í skáldskap eigi það sammerkt að rekast hver á aðra og ef til vill kynnast, miðast sú tilviljun í skáldskapnum að settu marki. Skáldsaga stefnir ævinlega í átt að tilteknum endalokum. Samverkanin milli persóna hefur sinn tilgang, og persónur opna ekki munninn án þess að það hafi merkingu eða afleiðingu fyrir framvindu sögunnar. Þessu er auðvitað öðruvísi háttað í lífinu. Ég hafði ímyndað mér að ég gæti fyllt upp í eyðurnar milli hins raunverulega lífs og hins skapaða lífs, en reyndist erfitt, því að persóna í skáldskap verður að hafa til að bera vissa samkvæmni í hegðun og hugsun, til að tekið sé fyllsta mark á henni (198-9)…“

 

Mæðgur takast á

Allt sitt líf hefur Magni tiplað á tánum í kringum drykkfellda móður sína. Hún sneri ólétt og próflaus heim frá Spáni á dögum Francos og átti erfitt með að fóta sig í tilverunni. Móðir hennar, Arndís, er fálát og aðfinnslusöm í viðleitni sinni til að vernda dóttur sína og sjálfa sig eftir að Guðgeir, eiginmaður hennar, framdi sjálfsmorð. Samskipti mæðgnanna eru erfið og þvinguð, vonbrigðin svíða og gamall sársauki er aldrei gerður upp.

Fórnarleikar er breið, epísk ættarsaga sem nær yfir fimm kynslóðir. Sagan er margradda, sjónarhornið hjá persónunum á víxl og sögusamúðinni jafnt útdeilt en Magni hefur alla þræði í hendi sér. Atburðir og minningar úr fortíðinni lifna við og raðast í heilsteypta mynd af venjulegu fólki sem glímir við vandann að lifa. Saga Guðgeirs og Arndísar er fyrirferðarmest og áhugaverðust, hún gerist á stríðsárunum þegar erlendir straumar flæða að íslensku samfélagi sem einkennist af þröngsýni og kyrrstöðu. Það hillir undir önnur viðhorf og ný tækifæri sem kveikja von í brjósti ungu hjónanna:

 

„Fátæktin hafði verið reglan, ekki undantekningin, og það kom við auman blett í brjóstinu. Fátæktin hafði lokað svo mörgum dyrum og skilið svo fáar eftir opnar. En það hafði verið unnið að því sigggrónum höndum að gera hana burtræka svo framtíðin blasti við með alla sína möguleika og splunkunýja siðmenningu. Eyjarembingurinn færi sína leið í fylgd með þröngsýninni og sjálfumgleðinni“ (59).

 

En björtu vonirnar lognast út af þegar Guðgeir er þvingaður til að taka við fyrirtæki föður síns og Arndís er löngum þrúguð af ábyrgð, skyldum og réttlætiskennd. Ekki er annað hægt en að finna til með þessum harmrænu persónum sem fara í gegnum lífið á hnefanum og færa fórnir sem engum er þægð í.

 

Hverfulleikinn

Víða eru áhugaverðar pælingar um skáldskap í verkinu, um hið forna og þögla samkomlag höfundar og lesanda (200), um mörk veruleika og ímyndunar og um hverfulleikann; hvað er eftir þegar allir eru farnir, myndirnar fölnaðar og raddirnar þagnaðar?

 

„Skrýtið annars … rödd á spólu tengist ekki líkama, líkt og hún hafi öðlast eigið líf. Röddin varð eftir þegar líkaminn fór, og svipaður draugagangur á sér stað með ljósmyndir. Á þeim er andartakið fryst að eilífu þó að allir séu farnir, og verða þar þangað til þetta sama andartak, svipbrigðin, brosið, þurrkast endanlega út. Hið sama gildir um hljóð sem tekið er upp, að lokum verður aðeins þögnin eftir“ (11).

 

Djúp viska

Fórnarleikar er bók þrungin djúpri visku, yfir henni svífur einhvers konar æðruleysi gagnvart örlögunum og boðskapur sögunnar á erindi við okkur öll sem lesendur og manneskjur. Það er mikilvægt hverri manneskju að missa ekki sjónar af sögu sinni og minningum. Og það er engum hollt að brjótast áfram í þrjóskulegri einsemd: „Maður var aldrei búinn undir neitt, það var meinið, varð að fóta sig einn, skilja flestallt upp á eigin spýtur eins og það væri í fyrsta sinn í sögu mannkyns sem það gerðist“ (88). Erfið samskipti, þögn og tengslaleysi geta haft afleiðingar út yfir gröf og dauða.

Magni virðist ætla að skora hverfulleikann á hólm og rjúfa vítahringinn því saga hans „ber í sér frjókorn annars konar lífs“ en á sama tíma þiggur hann fórn konu sinnar. Það er því ekki mikil von til að kynslóðirnar muni nokkurn tíma læra af reynslu og mistökum annarra.

Greinin birtist áður í Kvennablaðinu, 30. nóvember 2016

 

Tengt efni