SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir26. ágúst 2018

HRINGSÓLAÐ Í BARSELÓNU

Álfrún Gunnlaugsdóttir. Rán. Reykjavík: Mál og menning 2009.

 

Rán er fimmta skáldsaga Álfrúnar Gunnlaugsdóttur (2008). Líkt og í fyrri bókum hennar er framvindan öðrum þræði tengd pælingum um frelsi, mannréttindi, frið og lýðræði. Í bakgrunni sögunnar er spænska borgarastyrjöldin sem geisaði á fjórða áratug síðustu aldar, greint er frá grimmilegum örlögum baráttumannsins Julián Grimau (90) og misjöfnu hlutskipti uppreisnarmannanna Eloy kráareiganda og vinar hans, Diego.

Líkneskjan

Rán er eldri kona, búsett í Sviss, hlutlausu landi velmegunar og auðsældar. Á leið sinni til Íslands dvelur hún örstutt í Barselónu en hún var þar námsmaður á valdatíma Francos. Stúdentaóeirðir, handtökur og pyntingar voru þá daglegt brauð. Um leið og hún rifjar upp gamla tíma reynir hún að skilja fortíð sína og kemst þá að ýmsu óþægilegu um sjálfa sig. Rán hefur lifað lengi í afneitun og lokuðum heimi en nú er loksins komið að henni að upplifa breytingar (sbr. 34) og treysta á sjálfa sig. Hún er undarlega utangátta, eins og hún hafi ekki verið þátttakandi í lífinu. Hún er í rauninni eins og „líkneskjan“ sem hún sér á ferð sinni um götur Barselónu (48), gullhúðaður látbragðsleikari sem gerir kúnstir fyrir klink, enda kemur leikur hans illa við hana. Hún hefur glutrað niður öllu sambandi við fjölskyldu og vini á Íslandi, líka við son sinn sem hún hálfnauðug skildi eftir ungan í umsjá foreldra sinna. Hún tilheyrir engum stað, engri manneskju (82). Allt sitt líf hefur hún verið eins og á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd . Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjónabandi en áttar sig nú á að það hefur verið henni dýrkeypt. Fyrrum sambýlismaður hennar frá námsárunum og barnsfaðir, Roberto, er algjör andstæða hennar, andófsmaður sem fórnaði öllu fyrir hugsjónir sínar og verið í felum allt sitt líf. Sveik hún hann eða gerði hún rétt í að koma honum sjúkum í hendur fjölskyldu hans? Elskaði hann hana í raun og veru eða var hún bara skálkaskjól, yfirvarp til að beina grunsemdum lögreglu og stjórnvalda frá honum? Spurningarnar vakna þegar minningarnar hellast yfir á gamals aldri.

Rofin tengsl

Tími og fjarlægð leika stórt hlutverk í sögunni. Rán lítur yfir lífshlaup sitt og reynir að átta sig á því hvers konar manneskja hún sé. „Svo virðist sem óbrúanlegt gap hafi myndast milli mín og stúlkunnar sem ég var“ (60). Sagan er sögð ýmist í 1. eða 3. persónu, eins og til að undirstrika þetta gap og draga fram fjarlægðina. „Hún kannast við göturnar sem leigubílstjórinn ekur eftir, en á sama tíma eru þær henni framandi. Fjarlægist, fer burt, snýr baki í, tengsl rofna, fram, horfir fram... á veginn, enginn vegur... aðeins kvíði, fjarlægist...  sig sjálfa. Eins og hún sé önnur Rán en sú sem hún taldi sig þekkja“ (224).

Ástin og hikið

Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu og ósjálfráð viðbrögð hennar við marmarastyttu af Maríu mey án jesúbarnsins í Þjóðarhöllinni endurspegla djúpstæða sektarkennd hennar. Borgarmynd Barselónu leikur stórt hlutverk í sögunni, veitingastaðir, listasöfn, sólbökuð torg og þröngar götur verða ljóslifandi.

Rán er útpæld og táknhlaðin saga, þrungin femínískum boðskap. Einstaklega vel skrifuð, af skapandi táknsæi og listfengi. Engin afgerandi svör fást í uppgjörinu en það er erfitt að fyrirgefa, bæði sjálfum sér og öðrum. Í lok sögunnar veltir Rán fyrir sér hver sé eiginlega óðurinn til lífsins þegar upp er staðið. En þá er dauðinn á næsta leiti, í líki flagarans, „tangósjarmörsins“, sem hefur elt hana um alla borgina. Glíma Ránar skilar einhvers konar sátt og skilningi og þá er betra seint en aldrei.

 

 

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu, 6. desember 2008

 

 

Tengt efni