SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Álfrún Gunnlaugsdóttir

Álfrún Gunnlaugsdóttir er fædd í Reykjavík 18. mars 1938.

Álfrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt síðan í bókmenntafræði- og heimspekinám til Katalóníu á Spáni. Hún lauk Lic. en fil. y en letras-prófi frá Universidad de Barcelona árið 1965 og Dr. Phil.-prófi frá Universidad Autónoma de Barcelona árið 1970. Álfrún vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966-70.  Ritgerðin ber titilinn Tristán en el Norte og kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar árið 1978. 

Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77 og var hún fyrsta konan sem ráðin var í fasta stöðu hjá heimspekideild háskólans. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum. Á haustmisseri 2002 gegndi hún einnig stöðu skorarformanns við bókmennta- og málvísindaskor heimspekideildar HÍ.

Álfrún sendi frá sér átta skáldverk, fyrst smásagnasafnið Af manna völdum. Tilbrigði við stef 1982 og síðan hafa komið út eftir hana sjö skáldsögur.

Álfrún hlaut bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir aðra bók sína, skáldsöguna Þel. Þrisvar hafa skáldsögur hennar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: HringsólHvatt að rúnum og Yfir Ebrofljótið. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 sem og skáldsagan Rán árið 2008.

Álfrún þýddi eina skáldsögu úr spænsku og einnig skrifaði hún greinar í fræðirit og tímarit. Verk eftir hana hafa verið þýdd á erlend tungumál.

Álfrún hlaut heiðursdoktorsnafnbót við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 1. desember 2010 og hún var heiðruð með Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi 1. janúar 2018. 

Álfrún lést í Reykjavík 15. september 2021.

Ritaskrá

  • 2019  La Saga de Tristán e Iseo (fræðirit)
  • 2016  Fórnarleikar
  • 2012  Siglingin um síkin
  • 2008  Rán
  • 2001  Yfir Ebrofljótið
  • 1993  Hvatt að rúnum
  • 1987  Hringsól
  • 1984  Þel
  • 1982  Af manna völdum: Tilbrigði um stef
  • 1878  Tristán en el Norte (fræðirit)

 

Um verk Álfrúnar:

  • 2010  Rúnir: Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur (ritstj. Guðni Elísson)

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2018  Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu
  • 2010  Heiðursdoktor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands
  • 1985  Bókmenntaverðlaun DV fyrir Þel 

 

Tilnefningar

  • 2008  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Rán
  • 2003  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Yfir Ebrofljótið
  • 2001  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Yfir Ebrofljótið
  • 1995  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Hvatt að rúnum
  • 1991  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Hringsól

 

Þýðingar

Þýðingar á verkum Álfrúnar 

  • 2003  Im Vertrauen (Andreas Vollmer þýddi á þýsku)
  • 2001  Över Ebrofloden (Inge Knudsson þýddi á sænsku)
  • 1996  Errances (Régis Boyer þýddi á frönsku)
  • 1994  Samtal i enrum (Inge Knudsson þýddi á sænsku)
  • 1992  Strejf (Keld Gall Jørgensen þýddi á dönsku)
  • 1990  Irrfärd (Inger Pálsson þýddi á sænsku)

 

Þýðingar eftir Álfrúnu

  • 2004  Yerma: Harmljóð í þremur þáttum og sex atriðum eftir Federico García Lorca (með Margréti Jónsdóttur)
  • 1986  Sálumessa yfir spænskum sveitamanni eftir Ramón J. Sender

Tengt efni