SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 6. apríl 2018

SKIPT UM SÝLINDER MEÐ KÖLDU BLÓÐI. Enginn dans við Ufsaklett

 

Elísabet Kristín Jökulsdóttir á að baki langan feril sem ljóðskáld og rithöfundur og hefur ort um ást og geðveiki á einstaklega einlægan og berorðan hátt. Ekki hefur hún notið stórra styrkja eða fyrirgreiðslna við skáldskapariðkun sína og jafnvel gefið bækur sínar út sjálf. Málþing um Elísabetu Jökulsdóttur verður haldið í Gunnarshúsi 22. apríl nk. í tilefni af því að skáldkonan verður sextug.

Elísabet hlaut Fjöruverðlaunin 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014). Í ljóðabókinni lýsir hún ástarsambandi við ofbeldismann með beinskeyttum myndum og skýru myndmáli, allt frá spennuþrungnu tilhugalífi til heiftarlegra sambandsslita. Hún birtist berskjölduð og nakin í ljóðum sínum, innan um naívar og blautar píkuteikningar sem endurspegla heita ástarþrána, greddu og losta sem oft er ruglað saman við ástina sjálfa. Upphafsljóð bókarinnar, „Alvörukonan“, sýnir eðlislæga löngun eftir því að vera elskaður eins og maður er, sem stangast harkalega á við þá staðalmynd sem fólki hættir til að spegla sig í og birtist í háhælaskónum, meikinu og korselettinu sem karlinn færir konunni áður en hún veit af. Viðvörunarljósin fara að blikka en eru hunsuð og fyrr en varir er karlinn fluttur inn.

Fljótlega fer að bera á hnökrum í sambúðinni en þroskað fólk í nýju ástarsambandi vill láta hlutina ganga vel, ekki ergja sig á smáatriðum, ekki gera sömu mistökin aftur og lætur því ýmislegt yfir sig ganga. Ástin er djúp og sjóðheit, eins og sést t.d. í fallegu ljóði sem heitir „Kærastinn minn“ (21) og lýsir brynju sem karlinn hefur komið sér upp til að komast hjá sársauka í lífinu. Stundum er gaman hjá skötuhjúunum en oft er rifist og stundum slegist, mestmegnis einkennist sambandið af gagnkvæmum leiðindum og endalausum vonbrigðum.

Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).

Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:

 

KAFFISKVETTAN
 
Hann skvetti framan í mig kaffi
einhverra hluta vegna stend ég
við kústaskápinn og ég stend þar
þangað til ég er búin að fá vitið aftur
og nú er þetta búið
fyrst þetta er byrjað
því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi
það verður bara meira næst
og ég ætla ekki að bíða eftir því
svo ég opna skápinn
tek út kústinn
og flýg burt.
(62)

 

Ritdómurinn birtist áður 29. mars 2015 í Kvennablaðinu

 

 

 

Tengt efni