SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn24. maí 2019

ÓHUGNAÐUR OG BRAGGABLÚS. Laufey

Elísabet Jökulsdóttir. Laufey. Reykjavík: Mál og menning 1999

Ritdómur eftir Sigríði Albertsdóttir

 

Lýstu mér. Ég er skinhoruð og rauðhærð. Ég geri allt vitlaust. Ég vil vera með. Leyfðu mér að koma. Ég fer aldrei í bað. Í eldhúsinu er vaskafat sem ég treð fótunum ofan í. Vatnið í krananum er alltaf kalt. Ég verð þreytt þegar eitthvað er alltaf. Ég drep fyrir ástina. Ég elska. Ég er að deyja úr vannæringu. Gefðu mér að borða. Gefðu mér eitthvað. Gefðu mér kjól. Viltu sjá í hverju ég er? Sérðu druslurnar sem ég er í? Þetta er kjóll af kerlingu sem dó. Bættu einhverjum við. Ég bý í bragga. Var ég búin að segja það? Sérðu braggann? Þarna kem ég út og vona að enginn sjái mig. (bls 9).

 

Á þessum orðum hefst fyrsta skáldsaga Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, Laufey, en Elísabet hefur fyrir löngu getið sér gott orð fyrir ljóð og frumlegar smásögur. Eitt af höfundareinkennum Elísabetar eru óljós mörk milli draums og veruleika og einnig snjallir, sniðugir en um leið stingandi útúrsnúningar úr lífi fólks, draumum þess, gleði, sorgum, dauða og geðveiki. Svo ekki sé minnst á hinn naíva stíl sem gæðir texta, sem á yfirborðinu virðist ósköp saklaus og sniðugur, dýpt og næmi. Elísabet er, líkt og Kristín Ómarsdóttir, þekkt fyrir að beita hinum naíva stíl af stakri snilld þannig að sársaukinn sem undir býr sker í hjartað.

Í Laufeyju fer minna fyrir naívisma en fyrr, textinn er raunsærri en áður en þó laumast inn dularfull tákn og fyrirbæri sem lesandi getur ekki alveg gert upp við sig hvort eru sprottin af sterku ímyndunarafli Laufeyjar eða til þess gerð að rugla lesanda aðeins í ríminu. Hvort heldur sem er þá er Laufey saga sem grefur sig djúpt inn í hugskotið, kannski að hluta til vegna þess að naívisminn sem alltaf hefur brugðið léttleika á alvöruþrunginn texta hefur vikið fyrir meiri alvöru og festu. Lesandanum er fyrirvaralaust skellt inn í ömurlegt umhverfi þar sem ríkir fátækt, sársauki, hungur og dauði.

Sögusvið bókarinnar er kunnuglegt: sóðalegt braggahverfi á fimmta eða sjötta áratugnum. Persónur bókarinnar minna um margt á persónurnar úr Eyjabókum Einars Kárasonar nema hvað hér eru lýsingarnar enn drungalegri. Hér gætir meira þunglyndis, meiri eymdar og meiri geðveiki. Húmorinn sem skín í gegn í sögum Einars þrátt fyrir ömurleikann er í bók Elísabetar víðs fjarri. Hún gengur nær lesandanum en Einar, segir frá rottum sem narta í kaldar tær í morgunsárið og fólki sem er matarlaust dögum saman en dregur fram lífið með því að róta í öskutunnum. Deyfð, doði og andvaraleysi einkennir „braggafólkið“ og það kippir sér varla upp við það þótt kona verði geðveik eftir ástvinamissi eða þegar lítið barn deyr í blóma lífsins.

Í þessu kalda og skeytingarlausa umhverfi elst Laufey, aðalpersóna bókarinnar, upp. Það er hún sem talar í upphafi bókar og það er hún sem með þessum orðum hrópar á hjálp. Hjálp sem enginn getur veitt henni vegna þess að í þessu umhverfi hefur enginn neitt að gefa. Hún elst upp við andlegt og líkamlegt ofbeldi og í þau fáu skipti sem faðirinn er til staðar blótar hann og ragnar og upplýsir móðurina um að hún sé aumingi. Börnin fara ekki varhluta af ofbeldinu og Laufey elst upp við að hún sé einskis virði, að hún sé hálfviti sem eigi vart skilið að lifa. Í hefndarskyni fyrir meðferð föðurins lætur mamman sársauka sinn bitna á Laufeyju. Í hvert skipti sem hún dregst á fætur fer hún að þrífa skápana, sem eru að sögn Laufeyjar, alltaf fullar af pöddum. En það er sama hversu mikið mamman þrífur, pöddurnar koma alltaf aftur. Það er táknrænt fyrir lífið sem þær lifa; skíturinn og óþverrinn fer hvergi.

Laufey er „auminginn“ í skólanum. Hún er lögð í einelti og með tímanum fer hún að trúa skilaboðum umhverfisins og laumast meðfram veggjum. Og þótt hún vilji helst dvelja inni við í eigin draumaheimi rekur mamman hana út með Eygló Línu, systurina sem er algjör andstæða Laufeyjar. Hún er gullinhærð og falleg og nýtur aðdáunar allra, öfugt við Laufeyju sem hatar hana fyrir vikið, og gerir henni allt til miska. Hún þarf stöðugt að vera að passa af því að mamman er svo „veik“ og tímann nýtir hún til að hræða Eygló Línu sem mest hún má. Með þessu athæfi hlýtur Laufey aðeins enn meiri skammir því Eygló Lína flýr vælandi í mömmufang og eftir situr Laufey enn bitrari en fyrr.

Höfundur dregur upp sérkennilega mynd af Laufeyju. Annars vegar sér lesandinn stelpu með augum „allra hinna“, ömurlegan vanskapning sem skakklappast um hverfið og virðist hvorki vita í þennan heim né annan. Hins vegar sér lesandinn inn í huga Laufeyjar sem er bæði frjór og skapandi. Sú mynd sem þar birtist er reyndar nístandi því Laufey er bæði reið og beisk og hefnir sín í huganum á Eygló og fleirum. Það er hinsvegar raunsætt því hvar geta „yfirgefin“ börn hefnt sín ef ekki í huganum? En þrátt fyrir skapandi hugsanir er Laufey svo skemmd af aðstæðum sínum að lesandi áttar sig á að hún muni aldrei komast af. Hún leikur sér að því að fylla fólk ógeði, borðar t.d. rottu og lætur halann dingla út um munnvikin. Og hún er svo full af reiði að eftir barnamessur fer hún niður í fjöru, rífur Jesúmyndirnar í tætlur, hrækir á þær og lætur hafið síðan taka þær. Lífið hefur kennt henni að það er enginn sem gætir hennar, síst af öllu Jesú sem er aðeins fjarlæg skuggamynd af öllu því fagra sem Laufey fær aldrei að upplifa. Hún og Jesú eiga að vísu píslargönguna sameiginlega en Laufeyjar verður aldrei minnst á spjöldum sögunnar. Hún er aðeins saklaust peð í aumu tafli heimsins.

Þegar Laufeyju líður sem verst treður hún flugum undir augnlokin sem er tákn fyrir það að hún vill ekki horfast í augu við sitt ömurlega hlutskipti. Og hún reynir sem mest hún getur að halda því sem hún kallar Hörkuaumingjann í skefjum. Hún segir:

 

Veistu hvað ég kalla hana? Þessa sem notar augun í mér? Hörkuaumingjann. Hún er aumingi sem þolir ekki hörku svo ég skil varla hvernig hún getur verið til. Einhvern daginn sting ég úr mér augum frekar en að leyfa henni að nota mín augu. Hún fær ekki einu sinni ekkasog þegar hún grætur, tárin leka bara niður eins og klístraðir regndropar niður rúðu og stundum þegar hún reynir að troðast í gegn með tárin set ég dauðar flugur undir augnlokin. Ef það dugar ekki geri ég allt stíft. Ég get gert allt stíft. Líka hjartað. (bls. 16).

 

Hörkuauminginn er tákn sorgar og sársauka, þeirrar tilfinningar sem fær manneskjuna til að gráta þegar eitthvað bjátar á. En í umhverfi Laufeyjar er ekki pláss fyrir „aumingja“. Þar ráða harkan og lögmál frumskógarins ríkjum. Það eru hinsvegar yfirlýsingar Laufeyjar í þessum anda, ásamt ákalli hennar um hjálp hér og þar í bókinni, sem afhjúpa stúlkuna og sýna að hún er einungis viðkvæm barnssál sem þarfnast fyrst og fremst ástar og umhyggju. Til þess að lifa af verður hún samt að vera hörð og útiloka særindin hvað sem tautar og raular. Hörkuauminginn sýnir einnig að Laufey er á mörkum heilbrigði og geðveiki. Hún er margklofin og horfir á hluta af sjálfri sér utan frá.

Það er fleira en harkan sem heldur í henni lífsneistanum: ást hennar á Þ., sætasta stráknum í bekknum. Hana dreymir um að kynnast honum nánar og telur sér trú um að hann sé stöðugt að fylgjast með henni, að hann sé skotinn í henni og vilji henni eitthvað gott. Það er að hluta til rétt því Þ. er stöðugt að fylgjast með Laufeyju, en ekki af ást heldur innibyrgðu hatri sem þau tvö eiga sameiginlegt.

Þ. og Laufey eru af gjörólíkum uppruna. Laufey er fátæk, smáð og fyrirlitin en Þ. er af ríku fólki kominn. Hann fær allt upp í hendurnar, peninga, föt og græjur en ekki það sem máli skiptir - ást og umhyggju. Þetta tvennt sameinar þessar gjörólíku manneskjur Laufeyju og Þ.; hatur á þeim sem ólu þau en sinna þeim ekkert. Og birtingarmáti hatursins er svipaður, beinist að einni manneskju sem þau vilja allt hið versta. Hatur Laufeyjar beinist að Eygló Línu en hatur Þ. að Laufeyju. Það sem skiptir hinsvegar meginmáli er að hatur Laufeyjar er yfirborðslegt en í gegnum það fær hún útrás fyrir innibyrgða sorg . Hatur Þ. er hinsvegar úthugsað, þrælskipulagt og mengað af hugarfari þess siðspillta. Þótt hugur Laufeyjar sé fullur af hrikalegum hugsunum er hún svo saklaus að hún gæti tæpast raungert þær nema í huganum. Þ. er hinsvegar truflaður náungi sem svífst einskis og má rekja truflun hans til sömu einangrunar og Laufey býr við þótt í annarri mynd sé. Hann hefur veraldlegu gæðin sín megin en ást og umhyggja foreldranna er víðs fjarri. Þau eru innilokuð í heimi ástleysis og sinnuleysis, fara í skyldubíltúra við og við til að „skemmta“ syninum sem upphugsar djöfulleg ráðabrugg á meðan. Áformum Þ. fær lesandinn að kynnast snemma í bókinni og þær hugleiðingar eru hrikalegri en orð fá lýst. Laufey kvelur systur sína í þeim tilgangi að hefna sín á mömmu en þær pyntingar eru barnaleikur í samanburði við hugsanir Þ. Hans áform eru til þess gerð að hefna skilningsleysis foreldranna en þau eru öllu viðbjóðslegri og miskunnarlausari en vanmáttugar tilraunir Laufeyjar.

Höfundur færir sjónarhornið til skiptis frá Þ. til Laufeyjar. Laufey er sakleysinginn sem þrátt fyrir allt trúir á ást Þ. en hann er alvarlega siðblindur og þráir að pynta, særa, meiða eða drepa. Lesandinn sér til skiptis inn í huga þessara tveggja persóna og það er óhugnanlegt að fylgjast með því hvernig málin þróast.

Að Þ. skuli ekki heita neinu ákveðnu nafni vekur upp ákveðnar hugleiðingar. Hann er sá sem stingur, þ.e. þorn eða þyrnir, eitthvað sem meiðir og veldur sársauka svo úr blæðir. Nafnið Laufey er hinsvegar tákn vorsins, nýútsprunginna laufa, vona og drauma. Þegar andstæðurnar, sakleysi og grimmd, rekast á, myndast kaos sem enginn mannlegur máttur fær við ráðið.

Í tengslum við ólíkar aðstæður og hugarheim þessara tveggja persóna byggir höfundur upp magnaða spennu og gefur ekki þumlung eftir. Lesandinn velkist í vafa um hvort Þ. takist ætlunarverk sitt eða ekki. Og niðurstaðan er allt í senn óhugnanleg, sár og bitur.

Laufey er margslungin bók sem túlka má á ótal vegu eins og gjarnt er um góðar bókmenntir. Hana má túlka sem varnaðarorð til okkar nútímamanna sem gleymum okkur í erli dagsins og hlúum ekki að því sem dýrmætast er: börnunum sem erfa eiga landið. Einnig gæti verið um paródíu á ríkidæmi að ræða og jafnframt felur sagan í sér aðvörunarorð til nútímamanna sem horfa með hryllingi á fréttir sem boða hörmungar heimsins en snúa sér síðan á hina hliðina eins og segir í ljóðinu Liðsinni eftir Þorstein frá Hamri:

 

Blöð og útvarp flytja okkur fregnir
af þjóðamorðunum
og nú ber öllum skylda til hluttekningar:
 
svo við rífum úr okkur hjörtun,
hengjum þau utan á okkur
eins og heiðursmerki
og reikum úti góða stund
 
áður en við leggjumst til svefns
á afglöpum okkar
og snúum okkur heilir og óskiptir
að draumlífinu.

 

Laufey hverfist einmitt um þetta þema: hluttekningarleysið í hluttekningunni. Þetta er bók sem leitast við að rífa lesendur upp úr sinnuleysi og líta sér nær. Hún er kuldaleg, sár og óhugnanleg en vegna þess hve vel hún er skrifuð neyðir hún lesanda til að horfast í augu við eigið sjálf og taka afstöðu. Viljum við horfa framhjá einelti, skorti, fátækt, grimmd, morðum og sársauka eða viljum við vera manneskjur til að takast á við óhugnaðinn og mæta honum að því marki sem okkur er fært? Laufey þvingar lesanda til þess að taka afstöðu hvort sem honum líkar betur eða verr og það er einmitt það sem góðar bókmenntir eiga að gera.

Ritdómurinn birtist fyrst í Tímartiti máls og menningar, 2. hefti 2000

 

 

Tengt efni