„ÉG ER BARA SVO FYNDIN!· - Viðtal við Elísabetu Jökulsdóttur
Elísabet Kristín Jökulsdóttir er þekkt fyrir hispurlausan og frjóan skáldskap. Hún er einkar fjölhæf en hún hefur skrifað jafnt ljóð, smásögur, örsögur, skáldsögur, ævisögu, nóvellur og leikrit auk þess sem hún hefur í gegnum tíðina sýnt ótal gjörninga og staðið fyrir allskyns uppákomum meðal annars ráðstefnu um ástina. Taka má undir með Soffíu Auði Birgisdóttur sem sagði í grein sinni um skáldskap Elísabetar að „með skrifum sínum um líkamann, kynverund kvenna, sálræna og líkamlega kynjabaráttu, hef[ði] hún varpað nýju ljósi á þær skorður sem kvenhlutverkið hef[ði] sett konum.“ Við ræddum við Elísabetu um skáldskapinn, kvenlíkamann og töfraheim hennar.
Hefurðu alltaf haft þörf fyrir að yrkja? Manstu eftir fyrsta ljóðinu sem þú ortir?
Hef verið að yrkja frá unglingsaldri og fyrstu alvöru ljóðin hétu Drangavík á Ströndum sem er um eyðibýli. Það gefur vísbendingu um að ég sé alltaf að yrkja um eyðibýli, yfirgefnar persónur eða hugmyndir, að minnsta kosti mun síðasta ljóð mitt verða um eyðibýli! Hitt ljóðið heitir Ófeigsfjörður. Ég byrjaði að yrkja fyrir alvöru þegar ég kom norður á Strandir.
Bókartitlarnir þínir eru einatt mjög eftirminnilegir og sumir býsna óvenjulegir; eins og t.d. Rúm eru hættuleg og Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu; áttu auðvelt með að finna titla?
Mér finnst gaman að finna titla og á oft erfitt með að velja á milli titla. Titill er einskonar kjarni sögunnar svo það er gaman og nauðsynlegt að finna kjarnann.
Það er forvitnilegt að sögurnar í Galdrabók Ellu Stínu eru 52 talsins eins og spil í spilastokk; en eins og allir vita geta spilin verið göldrótt rétt eins og skáldskapurinn. Var þessi sagnafjöldi úthugsaður?
Já, þetta var úthugsað og uppröðun í Lúðrasveitinni var einsog í konfektkassa!
Sumar örsagnanna byrja á orðunum „Einu sinni“ sem minnir á ævintýri eða sögur handa börnum en umfjöllunarefnið er ekki alltaf sérlega barnvænt. Hvers vegna kýstu að nýta þér þessa frásagnaraðferð og varstu að reyna að miðla einhverju ákveðnu með henni?
Góður punktur, hafði ekki hugsað útí þetta, en barnið sem er sögumaður hefur lent í stríði eða þeas. banvænu en ekki barnvænu heimili alkóhólismans og þess vegna er sýn þess á heiminn dökk og með svörtum húmor. Kannski hefur bernskan glatast á einhvern hátt eða er í þann veginn að glatast. Kannski hafa sögurnar bjargað bernskunni. Allavega er ég enn að segja ElluStínusögur.
Ella Stína er einhvers konar bernskusjálf ekki satt? Hvers vegna koma bernskan og Ella Stína svo mikið við sögu í verkum þínum?
Af því að sumuleyti tapaði ég bernskunni og breyttist í illgjarnan harðstjóra á daginn og lítinn hræðslupúka á nóttunni, ég segi frá sjálfsfróun 8 ára stúlku í Heilræði lásasmiðsins þarsem hún er stödd í fullorðinsheimi. Heilræði lásasmiðsins er lykilverk mitt. Ella Stína endurheimti bernsku sína – en þaðan kemur uppspretta sjálfsins og skáldskaparins – með því að segja og semja sögur. Og tileinka sér aftur hugsunarhátt barnsins.
Aftur bendi ég á lykilverk mitt Heilræði lásasmiðsins þarsem þessu er gert skil í heilum kafla. En það tók mig langan tíma að uppgötva að töfraheimurinn var líka hættulegur og þá gat ég byrjað að skapa úr honum, og þegar ásóknin í skjólið verður svo mikið að geðveikin tekur við eða jafnvel bara skapgerðarbrestir einsog harðstjórn, óheiðarleiki. Tengsl töfraheimsins við skáldskapinn og raunveruleikann eru kannski hin sömu, og þó töfrarnir breytast í raunveruleikann og þar kemur kannski skáldskapurinn til bjargar, til að greina á milli og skapa úr þessum furðulega heimi.
Þú hefur ekki veigrað þér við að nýta þér eigin reynslu í skáldskapinn; lítur þú á einhvern hátt á skriftir sem sjálfsþerapíu?
Ég lít á sjálfsþerapíu sem sjálfsþerapíu og skriftir sem skriftir. Ég skrifa um mig einsog ég skrifa um aðra. Ég er frekar að skapa mig uppá nýtt með skriftunum, eða bara segja mína sögu af því að sagan mín er merkileg og á erindi.
Aprílsólarkuldi er mögnuð bók. Þú hefur sagt hana byggja á tímabili úr þinni eigin ævi en þú kýst að breyta nöfnum á persónunum. Hvers vegna fórstu þá leið?
Til að sjá hlutina í öðru ljósi.
Þú hefur markvisst fjallað um konur, kvenlíkamann og ýmis tabú þeim tengdum í verkum þínum allt frá upphafi ferils. Hefur það alltaf verið þér eiginlegt og varstu meðvitað að reyna að hrista upp í skynjun lesenda?
Einsog ég tapaði bernskunni þá tapaði ég líkama mínum. Kannski snýst minn skáldskapur um endurheimt. Ásta Sigurðardóttir hefur haft mikil áhrif á mig að því leyti að þora að segja “sannleikann” og hrista upp í lesandanum þótt ég geri það ekki meðvitað, frekar af einlægni.
Að sama leyti fjallar þú um ýmsar sterkar tilfinningar og tiltekna líðan eins og sektarkennd og skömm.
Það er það sama, ég glataði sakleysi mínu og endurheimti það ekki fyrren í áfengismeðferð og síðan hef ég verið að gera sektarkennd og skömm skil. Mamma skammaði mig mikið þegar ég var lítil og orðin “skammastþín” urðu einskonar mantra í uppeldi mínu. Ég vissi þó aldrei hvað það þýddi, hún hefði eins getað sagt hókuspókus. En ég fylltist samt af sektar kennd á unga aldri og fannst allt vera mér að kenna, að mömmu liði illa og að pabbi drykki. Það gaf mér mikil “völd”. Þannig leikur sektarkenndin tveimur skjöldum einsog flest í þessum heimi nema ástin, ástin til barna, barnabarna og tengdabarni, þar er ástin fölskvalaus. En kannski hef ég með skriftunum verið að endurheimta sakleysi mitt.
Ástin og ástarþráin hafa verið miðlæg yrkisefni í verkum þínum en þú hefur dregið upp ólíkar birtingarmyndir hennar. Þú hefur einnig staðið fyrir ástarráðstefnu. Hvers vegna heldur þú að ástin sé þér svona hugleikinn?
Af því að ástin er opnun. Ég var orðin svo lokuð, aftur kem ég að endurheimt. En ég er algjör ástarvitleysingur og veit ekkert um ástin. Ástin snýst soldið um að gefa eftir og ég á erfitt með að gefa eftir nema fyrir skáldskapnum. Um leið og ég gef eftir og viðurkenni ást mína fyrir einhverjum manni flýr hann langar leiðir. Ástin er líka fyndin sem er skyld því að gefa eftir. Ástin opinberar fíflið í okkur sem ég hef átt erfitt með að viðurkenna. Kannski er þetta endurheimt fíflsins. Ég var oft svo alvarleg og hef tilhneigingu til þess.
Ástin og náttúran eru gjarnan samofin í skáldskap þínum. Hvers vegna?
Tja. Ástin og náttúran er einsog skáldskapurinn, eitthvað sem ég skil ekki alveg en er samt alltaf að skilja betur með aldrinum. Ég bara elska náttúruna, þar afhjúpast ég einsog í ástinni. Svo er það bara fegurðin, - og útivistin. Og spurning um uppruna, ég er gerð úr náttúrunni, kannski soldið klisjukennt en ástin birtir svo oft mynd af því hvernig okkur líður og þá er auðvelt að taka myndir úr náttúrunni. Fólk skilur myndmál náttúrunnar. Þetta er þó að breytast. Þórdís Helgadóttir hefur komið með nýtt myndmál náttúrunnar.
Þú hefur bæði gefið út bækur sjálf og hjá forlagi. Finnst þér vera mikill munur á þessu tvennu?
Það er hvorutveggja nauðsynlegt, ég held að það sé hverjum höfundi hollt að gefa út amk. eina bók sjálfur tilað sjá uppruna bókarinnar, gera sér ferð í prentsmiðju. Það er líka að ég fæ oft betri tengingu við lesendur en að vísu fékk ég svo mikið af bréfum þegar ég gaf út Aprílsólarkulda að þar var líka um þessa tengingu að ræða. Og hjá Forlagi hefur þú líka ákveðið skjól sem er nauðsynlegt hverjum höfundi. Forlagið hefur verið mjög gott við mig og veitt mér öryggi og velvild.
Blóðuga kanínan, leikrit eftir þig, verður frumsýnt í Tjarnarbíó í janúar á næsta ári. Getur þú sagt okkur frá þessu leikriti? Um hvað er það og átti það sér langan aðdraganda?
Blóðuga kanínan er skrifað 2010 og fannst á gömlu bókasafni. Það er einsog konar svört kómedía af leikriti sem heitir Mundu töfrana og ég hef verið að skrifa í 20 ár. Það fjallar um áföll, barnið í okkur og alla hina partana sem taka stjórnina þegar áfall skellur á. En það er einsog spurt var um hér að ofan að töfraheimurinn getur orðið grimmur og hættulegur.
Dísa rekur veitingahús, það er stríð, mér er gjarnt á að nota absurd og súrealisma í verkum mínum og var kannski orðin svolítið stöðnuð í því, þangað til ég skrifaði Heilræði lásasmiðsins sem er fullkomlega raunsæislegt verk. Blóðuga kanínan er að mörgu leyti táknheimur einsog sprettur upp við áföll. Þá getur verirð of hættulegt að nefna hlutina sínum “réttu” nöfnum. En ég lít á súrealisma samt sem fullgildan raunveruleikaheim. Dísa er að gera upp áfall og allskonar undarlegar verur heimsækja hana. Þær knýja áfram framvinduna.