SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 9. apríl 2019

EINFALDLEIKI OG KYRRÐ. Ljóðsótt

Berglind Gunnarsdóttir. Ljóðsótt. Reykjavík: Blekbyttan 1986, 55 bls.

 

Ritdómur eftir Vigdísi Grímsdóttir:

Margir leita kyrrðar afþvíað hún er fágæt og afþvíað í henni er friður. Af sömu ástæðu leitar fólk einfaldleikans í þessum nútíma sem duflar við dauða hluti og lítilsilgda, hampar háreysti og yfirdrepsskap. Berglind Gunnarsdóttir gaf út sína fyrstu bók Ljóð fyrir lífi 1983. Í henni var auðvelt að greina þann einfaldleika og þá kyrrð sem ég tel vera aðaleinkenni þessarar seinni bókar hennar. Það lætur ekkert mörgum að segja langa sögu í fáum orðum, lætur fáum að segja af einlægni og hispursleysi frá ótta sínum og vonum, menn klæða gjarna orð sín hæðni og klóra um leið yfirborðinu. Berglind gerir það ekki.

Í bókinni tekst hún á við yrkisefni sem margar konur hafa áður tekist á við, margar hverjar á svipaðan hátt. Ramminn er hér sá sami, umgjörðin, efnistökin eru sérstæð, skýr. Þetta kemur t.d. vel fram í ljóðunum Tímarnir og börnin, Móðurást og Ljóð fyrir lífi. Síðastnefnda ljóðið ber ekki aðeins nafn fyrri bókar hennar heldur tengist inní hana, helst í hendur við ljóðið Söknuður sem þar er að fínna. Traust handtak. Góð ljóð.

Bókin skiptist annars í sex hluta. Fyrsti hlutinn Úr stöðumæli ljóðsins finnst mér skemmtilegur. Berglind fjallar þar um ljóðið og mikilvægi þess. Skáldin gera það gjarna. Í inngangsorðum kaflans setur hún samasemmerki á milli barns og ljóðs. Trúverðug tenging. Þriðji hluti bókarinnar er um ástina og hvort hún sé í raun lygi og blekking. Hún er það í þessum ljóðum en án hennar samt myrkur og tóm. Auðn. Í fjórða hluta bókarinnar eru mörg athyglisverð ljóð og leikur við form. Mér fannst ljóðin Hann kemur og ljóðið til skáldsins Dans í d moll segja mér langa sögu. Og ekki segja ljóðin Kveðja og Dior minna. Í Dior er sögð gömul saga en því miður sífellt ný. Þar segir svo:

 

dragðu fjöður yfir hrukkurnar
angistarfullan þyrniskóginn
umhverfis augu þín
rúnir lífsins ristar þér
að óleik

 

Vel dregin mynd, ein af mörgum í bókinni. Og í fimmta hlutanum Úr myndabókinni er ömurleg staðfesting þessarar firringar sem sprettur af sömu rótum. Lokahluti bókarinnar heitir Elegia. Um hann á ég fá orð. Þarna er eitt ljóð og undir mikið efni; lífið sjálft. Dúndur flott ljóð. Þessi bók geymir margt. Ég hef tæpt á fáu, valið og hafnað og vil enda þessa umsögn á fyrsta ljóði bókar sem fyrir mér dýpkar við hvern lestur.

 

Ljóð
 
megi ljóðið vekja
gleði auka reiði
dapurleik veita
huggun
og
þú skalt
lesa það aftur
og aftur því allar
kenndir nærast af lífs
hvötinni og hið eina vonda
er tómið
er dauðinn.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 15. nóvember 1986.

 

Tengt efni