ÞRÆÐIR Í VEGGTEPPI LÍFSINS - Vængjuð spor eftir Oddnýju Sen
Árið 2003 kom út merk, söguleg skáldsaga sem ber heitið Vængjuð spor. Saga Sigríðar Jóhannesdóttur Hansen. Höfundurinn er Oddný Sen. Í viðtali í Fréttablaðinu 14. október 2003 segir Oddný m.a.:
„Bókin fjallar um formóður mína, Sigríði Jóhannesdóttur Hansen, sem var uppi á 19. öld,“ segir Oddný Sen rithöfundur, sem nú hefur sent frá sér nýja skáldsögu, Vængjuð spor. Bókin kom í búðir undir lok þessarar viku. „Þetta er ástar- og örlagasaga og í henni blandast saman fátækt og ríkidæmi,“ segir Oddný, en Sigríður var alin upp á efnaheimili í Hafnarfirði á árunum 1844-1860, giftist ríkum manni á Akranesi, eignaðist fjögur börn með honum og missti tvö þeirra. Síðar gerðist hún saumakona í Reykjavík í kringum 1868 og bjó við mikla fátækt og skort þar til hún fékk starf sem saumakona á heimili fyrsta kaupmannsins á Akranesi, Þorsteins Guðmundssonar. Ekki vænkaðist hagur Sigríðar við það. Hún eignaðist barn með Þorsteini sem var rangfeðrað og var annar vinnumaður látinn gangast við barninu. Hún lést svo úr sulti 39 ára gömul eftir að hafa alið tvíbura á Akranesi eftir vinnumann í grenndinni. Hálfbræður hennar úr Hafnarfirði lögðu af stað með mat til hennar en náðu ekki í tæka tíð.“
Kristín Heiða Kristinsdóttir fjallaði um bókina í Mbl. 22. desember 2003:
„Nei, þær voru ekki öfundsverðar konurnar sem uppi voru hér í fátæktinni á nítjándu öldinni, og það á sérstaklega við um þær sem misstigu sig eða viku út af vegi dyggðarinnar. Þetta kemur glögglega í ljós við lestur Vængjaðra spora, sögu Sigríðar Jóhannesdóttur Hansen. Sigríður þessi er formóðir höfundarins, Oddnýjar Sen, sem velur þá leið í frásögninni að láta unga nútímakonu, nöfnu Sigríðar og afkomanda, segja frá formóður sinni í sögulegri skáldsögu og gefur lesandanum um leið innsýn í líf nútímakonunnar. Þannig fléttar hún saman örlögum tveggja kvenna á tveimur ólíkum tímum, kvenna sem eiga meira sameiginlegt en ætla má við fyrstu sýn, því margt kallast á í örlögum þeirra og þær þurfa að takast á við svipaða hluti.
Oddný styðst við sögulegar staðreyndir en saumar í götin með skáldskap og fléttar inn í frásögnina tilvitnunum í kvikmyndir. Þessi aðferð gengur vel upp og opnar fyrir hugrenningatengsl lesandans í hinar ýmsu áttir. Oddný hefur greinilega grúskað heilmikið í fjölbreyttum heimildum frá þessum tíma og það skilar sér í lifandi frásögn þar sem ýmis smáatriði hversdagsleikans flytja lesandann aftur í tímann. Þetta er mikil kvennasaga, hér spretta fram margar og ólíkar konur en minna fer fyrir karlpeningnum, nema þá þeim sem eru örlagavaldar í lífi kvennanna.
Saga nítjándu aldar konunnar Sigríðar Jóhannesdóttur, er mikil örlaga- og harmsaga m.a vegna þess að „skapferli hennar og siðvenjur Íslendinga nítjándu aldar áttu enga samleið“. (bls. 224). Hún fór ótroðnar slóðir og galt það dýru verði. En saga hennar er fyrst og fremst saga þeirra fjölmörgu kvenna sem þurftu að þola þrengingar og niðurlægingu á þessum tíma, bæði vegna fátæktar en ekki síður vegna þess að þær voru konur og allt þeirra líf og barna þeirra var komið undir karlmönnum. Þær höfðu lítið val og engar getnaðarvarnir til að stjórna þungunum sínum, sem oft og tíðum settu stórt strik í reikninginn.
Kaflarnir um Sigríði Jóhannesdóttur bera heiti árstíða og kallast það á við stöðu hennar og líðan hverju sinni: Sumarið felur í sér farsæla barnæsku og velsæld en svo haustar að þegar hún er send að heiman í dapra vist. Aftur vorar þegar ástin kemur í spilið og hún giftist og gerist húsfreyja á stórbýli. Svo haustar aftur í lífi hennar þegar hún missir börnin sín og skilur við manninn og loks leggst veturinn að með fullum þunga þegar kemur að köldum endalokunum. Öllum nútímadekruðum er hollt að lesa sögu Sigríðanna og skoða þræðina í veggteppi lífs þeirra.“