SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. desember 2022

FERÐALAG SÓLRÚNAR

Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Sólrún - saga um ferðalag. Bjartur 2020, 146 bls.

Í sumar sendi Sigurlín Bjarney Gísladóttir frá sér stutta skáldsögu, eða nóvellu, sem ber nafn aðalpersónu sinnar: Sólrún - saga um ferðalag. Sólrún er öldruð kona sem býr í „öryggisíbúð fyrir aldraða“ sem hún skilur ekkert í að hún þurfi að búa í. Strax í upphafi frásagnarinnar, sem lögð er í munn Sólrúnar sjálfrar, er vakinn grunur um að hún eigi við elliglöp að stríða. Fyrsta setningin hefst á orðunum: „Mig rámaði í það að hafa liðið vel hér í þessari íbúð þó að hún væri agnarsmá“ og í framhaldinu kemur skýrt fram að margt í hennar lífi er á fallanda fæti, hún er hætt að nenna fara í sturtu, hætt að elda mat og hún er einmana:

 

Dagarnir voru hver öðrum líkir og liðu áfram eins og seigfljótandi kvoða. Ég var farin að bíða eftir því að fá að deyja. Dætur mínar, barnabörn og barnabarnabörnin heimsóttu mig öðru hverju, og þegar þau voru farin verkjaði mig bókstaflega af einmanakennd. (7)

 

Eftir að Sólrún hefur misst besta félaga sinn á elliheimilinu, Birnu, virðist lífið tilgangslaust og „flóttaþörfin þakti húðina eins og sólbruni“ (13). Sólrún og Birna verða ástfangnar á elliheimilinu og sofa alltaf í sama rúmi, þrátt fyrir að starfsfólkið reyni sem það getur til að koma í veg fyrir það. Hér má sjá ádeilu á sjálfsákvörðunarrétt aldraðra sem vistaðir eru á stofnun um leið og ástarsamband kvennanna tveggja er eitt af þeim atriðum sem koma á óvart í frásögninni og snúa upp á hana – en margir slíkir snúningar eru á frásögninni sem gerir lesturinn spennandi og hvetur til endurlesturs.

Eins og segir á baksíðu bókarinnar ákveður gamla konan, Sólrún „að láta sig hverfa úr þjónustuíbúð fyrir aldraða og leggur af stað í ferðalag á puttanum. Förinni er heitið í Mývatnssveit en þangað á hún brýnt erindi." Lesandi verður síðan sjálfur að komast að raun um hvert erindi Sólrúnar er. Þessi lýsing kann að vekja hugrenningatengsl við kvikmynd Friðriks Þórs Börn náttúrunnar og höfundur gerir sér vel grein fyrir því og tekst á við þann samanburð í bókinni:

 

„Ef ég mætti giska þá myndi ég segja að þú hafir flúið af ellismellaheimilinu um miðja nótt með aleiguna í töskunni. Ekki slæm hugmynd. Svolítið eins og í Börnum náttúrunnar.“ Ég þekkti vel bíómyndina og fannst það fyrir neðan mína virðingu að vera líkt við fólkið sem þar var á ferð. Það stal og staulaðist um eins og fúin gamalmenni.“ (40-41)

 

Klausan sýnir líka að Sólrún upplifir sjálfa sig ekki sem fúið gamalmenni þótt margt í frásögninni bendi til þess að einmitt sú sé raunin. Og hún berst á móti skilgreiningunni „of gömul“ þegar unga konan sem tók hana upp í bíl sinn og giskað á að hún hefði „flúið af ellismellaheimilinu“ spyr hvort hún sé „ekki orðin of gömul til að standa í svona ferðalagi“ (41):

 

„Of gömul? Nei, alls ekki. Það skal ég segja þér, unga kona. Ég er orðin þreytt og leið á því að vera of þetta og of hitt: of ung, of gömul, of hress, of alvarleg, of mikið máluð, of feit, of hávær, of mjó, of stressuð. Ég er ekki orðin of gömul og ég er ekki orðin of neitt, fjandakornið.“ (41)

 

„Leiðin til Mývatnssveitar er hreyfing í gegnum landslag, í gegnum mannlíf“ segir á einum stað (16-17) en lýsingin á ferðalagi Sólrúnar er einnig frásögn af innra ferðalagi hennar um eigin ævi, upprifjun sem byggð er á minningum sem eru gloppóttar. Og stundum á Sólrún erfitt með að henda reiður á tímanum, hann virðist leysast upp og fortíð og nútíð skarast í sífellu. Oft skilur Sólrún ekki hvernig tíminn líður, hún missir jafnvel úr margar klukkustundir án þess að geta áttað sig á hvernig það gerðist: „Ég rankaði við mér og gat ekki betur séð en að stóri vísirinn á úrinu mínu hefði hlaupið nokkra hringi, þetta var undarlegt“ (35). Margir undarlegir atburðir tengjast þessu tímarugli og víða virðast skil á milli lifandi og dauðra einnig mást út. Slíkir snúningar á frásögninni eru spennandi og kveikja hugsanir um veruleikaskilning Sólrúnar - og lesandans.

Sigurlín Bjarney skrifar vandaðan texta og hún hefur gott vald á að segja mikið í fáum orðum. Eftirfarandi klausa er til að mynda frábær samantekt á lífi (margra) kvenna:

 

Fyrir mörgum árum hafði ég komið berrössuð og öskrandi inn í þennan heim. Mér leið ekki eins og ég væri orðin gömul, það var eins og fertugsaldurinn væri minn andlegi aldur. Í raun hafði fátt breyst. Ég hafði alltaf verið ýmist með kvef og slen eða fyrirtíðarspennu eða túrverki og svo kom breytingarskeiðið í öllu sínu veldi og þegar það virtist yfirstaðið tóku óþægindi og alls konar verkir við. Tvisvar hafði ég fengið krabbamein í annað brjóstið sem var að lokum fjarlægt. Vinstri mjöðm var slitin og ég var orðin leið á að hanga á biðlista fyrir aðgerð. Verkirnir komu í veg fyrir að ég gæti sinnt almennum heimilisstörfum og mig minnti að einn læknir hefði talað um minnisleysi en ég kannaðist ekki við það. Í gegnum tíðina höfðu læknar haldið ýmsu fram sem ekki stóðst, þegar ég var komin yfir fimmtugt hættu þeir að taka mark á mér, sama hvað ég reyndi. Hvert nýtt ár virtist fær mér nýja starfsstétt sem heyrði ekki í mér. (11-12)

 

Aðeins síðar segir: "Mývatnssveitin kallar á mig og ég fylgi, hlýði þessu ágenga kalli. Ég hef komist þetta langt, lifað árstíðaskipti, hrakninga, sjávarföll, skriður og útsog. Blöðrubólgur, taugaspennu, umbreytingar, sársauka, missi og sorg. Ég kveiki í innyflum mínum, byrja upp á nýtt […]“ (17).

Sólrún kemst á áfangastað sinn með hjálp góðra manna þótt ferðalagið reynist erfitt á ýmsan hátt, hún þarf til dæmis að glíma við stöðuga þörf til að pissa og aðra líkamlega skavanka sem fylgja ellinni. Sigurlín Bjarney vefur saman raunsæislegum lýsingum á líkamlegum hindrunum, frásögn af sorgum og áföllum sem manneskjur þurfa að glíma við á langri ævi og ljóðrænum landslagslýsingum. Inn í frásögnina fléttast einnig fjölskyldu- og ástarsögur. Útkoman er einkar áhugaverð skáldsaga sem er enn ein rósin í hnappagat þessa höfundar. Hún hefur áður gefið út margar flottar ljóðabækur og fyrir tveimur árum sendi hún frá sér hina frábæru ljóðabók Undrarýmið sem hlaut tilnefningu til ljóðabókaverðlaunanna Maístjörnunnar. Það verður gaman að sjá hvar Sigurlín Bjarney ber niður næst.

 

 

 

 

 

Tengt efni