SKÁLDSKAPUR EÐA MINNINGABROT? Um Arfleifð óttans
Arfleifð óttans sem út kom á dögunum er fyrsta skáldsaga Unnar Sólrúnar Bragadóttur (f. 1951) en hún hefur sent frá sér á annan tug skáldverka á íslensku og sænsku frá 1971.
Sagan gerist á síðustu öld, líklega í kringum 1960 eða þar um bil. Í upphafi hvers kafla eru margvíslegar tilvitnanir sem endurspegla tíðarandann.
Aðalsöguhetjan er Hanna, sem er utangarðs að mörgu leyti í fjölskyldunni, mögulega er hún ekki dóttir föður síns, hún stelur og lýgur, er í einhvers konar ómarkvissri uppreisn gegn ríkjandi gildum og stéttaskiptingu, hún vill ekki falla inn í hefðbundið kynhlutverk og hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli í bernsku sem rænir hana ró og svefni alla ævi. Á einu tímaplani sögunnar er Hanna komin á æskuslóðir og upplifir bernskutrámað aftur sem vonandi frelsar hana.
Saga (nafnlausrar) móður hennar er áhugaverð; saga margra kvenna áður en kvenfrelsi kom til sögunnar. Hún ólst upp hjá föðurbróður sínum og sá um öll heimilisstörf frá níu ára aldri. Giftist ung, er í ástlausu hjónabandi og þrælar alla daga, bæði heima og í frystihúsinu og hefur lagt alla sína drauma á hilluna. Húsbóndinn er á sjó, í húsinu er kalt, erfitt að þurrka föt og stígvél barnanna, vatn þarf að sækja í brunn og mataræðið er einhæft. Sorg og vanmáttur er daglegt brauð, þreyta og vonleysi hellast yfir hana en ekki dettur þeim karli hennar eða syni í hug að létta undir með henni á nokkurn hátt þar sem kynhlutverkin eru fastskorðuð á þessum tíma. Karlar eru á vertíð og lesa bók í frístundum, eru í lúðrasveit eða verkalýðsfélagi og því fær ekkert breytt. Sjálfur ólst pabbinn upp við mikla fátækt og erfiðisvinnu. Fjölskyldan flytur síðan í þéttbýlið í leit að betra lífi en þar reynist svo vera sama harkið og þrældómurinn.
Hanna hafði fengið munnhörpu og vildi gjarnan vera með í lúðrasveitinni.
„Þar eru engar stelpur“, sagði Gunni með fyrirlitningarrómi, „og ekki heldur munnhörpur. Stelpur eiga bara að hjálpa til heima.“
Hanna varð bæði sár og reið. „Hjálpaðu til sjálfur.“
Hún var dugleg á munnhörpuna og afhverju fékk hún ekki líka að spila í lúðrasveitinni. Það var óréttlátt. Þóra huggaði hana og sagði henni að hætta þess væli.
„Lærðu bara að elda mat í staðinn,“ sagði hún, „það fær Gunni ekki.“
...
Stuttu seinna þegar Gunni ætlaði að æfa sig á trompetið fann hann ekki munnstykkið. Hann leitaði alls staðar og Þóra hjálpaði honum. Hanna fylgdist þögul með leitinni og Þóra spurði hana hvort hún hafði séð munnstykkið. Hanna leit frökk á Þóru og sagði svo eftir augnablik. „Ég er stelpa og veit ekkert um munnstykki. Er það kannski grautarsleif?“
Munnstykkið fannst stuttu seinna í grautarpotti í eldhúsinu.
(72-3)
Í upphafi bókar er tekið fram að sagan sé skáldskapur í bland við minningabrot um atburði og persónur „úr eigin lífi“ en hugmyndaflugið ráði.
En það er ekki laust við að hvarfli að lesanda að sagan standi sögumanni mun nær en látið er í veðri vaka.
Kulturbolaget Odukat, AB gefur bókina út.