NÍSKA OG SKEYTINGARLEYSI - Um Systu megin
Ef einhver bók gæti með rétti talist jólabók er það Systu megin, leiksaga eftir Steinunni Sigurðardóttur sem út kom 2021. Þar segir af utangarðsfólki, heimilisleysingjum, drykkjukonum og dósasöfnurum um jólaleytið. Hvar skyldi nú vera hægt fyrir þetta fólk að ná sér í ókeypis kaffibolla, komast á klósett eða ylja sér í smástund í Reykjavík í jólaösinni?
Systa er klók að bjarga sér í fátækt sinni og umkomuleysi, gera góð kaup og sýna ótrúlega nægjusemi. Meðan hún bjó heima og föður hennar naut við fór vel um þau systkinin, hana og Brósa. En Mamma er nískan uppmáluð og forn í skapi, sjálf markeruð af fátækt í hörkulegu uppeldi. Steinunn Sigurðardóttir ljær þessari brotnu fjölskyldu líf á sinn heillandi ískalda og yfirvegaða hátt. „Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn“, segir í ritdómi um bókina á skáld.is frá 2021.
„Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.“