SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. janúar 2023

Í HÓLFUM SEM GEYMA OG LEYNA - Plómur eftir Sunnu Dís Másdóttur

Sunna Dís Másdóttir. Plómur. Mál og menning 2022, 45 bls.

 

Nýverið hlaut Sunna Dís Másdóttir Ljóðstaf Jóns úr Vör og má lesa verðlaunaljóð hennar hér. Síðastliðið haust gaf Sunna Dís út sína fyrstu ljóðabók, Plómur, en áður hafði hún gefið út nokkrar bækur með skáldakollektívinu Svikaskáldum, hópi kvenna sem skrifa og gefa út bækur saman.

Í Plómum sækir Sunna Dís í minningar sínar frá því hún bjó í Svíþjóð sem unglingur og yrkisefnið snýst framar öðru um samband hennar við nána vinkonu sem ávörpuð er í fyrsta ljóðinu sem hefur yfirskriftina „Brenna“:

 

Ég á ekki bréfin þín lengur, ég fann þau einhvern
tíma í tiltekt í skápum og skúffum, hólfum sem
geyma og leyna, ég man ekki lengur hvað stóð í
þeim og ef enginn man, gerðist þá nokkuð?

 

Ljóðið er lengra og í lok þess kemur fram að ljóðmælandi hefur brennt öll bréfin en hefur „leitað þeirra síðan“. Í þessu inngangsljóði koma strax fram þær tilfinningar sem einkenna bókina, söknuðurinn, efinn og óvissan um eðli þeirra tilfinninga sem ljóðin miðla. Vísun í hólf sem „geyma og leyna“ vekur forvitni lesanda sem langar að vita hvað gerðist þótt ljóðmælandi leiki sér með þá hugmynd að vafasamt sé að nokkuð hafi gerst „ef enginn man“. Hin dramatíska athöfn sem lýst er í lok ljóðsins, að brenna bréf frá einhverjum hjartfólgnum og sjá síðan eftir því, er einnig góður upptaktur af öðrum gildum þræði bókarinnar sem er þroskasaga ungrar stúlku með áherslu á viðkvæmasta tímabilið í lífi hverrar manneskju, unglingsárin þegar sjálfsmyndin er í mótun, kynhvötin að vakna, öryggisleysið alsráðandi og ólík hlutverk mátuð.

Næsta ljóð fjallar um slíkan hlutverkaleik og hefur yfirskriftina „Leikhús I“. Þar standa standa unglingar (að öllum líkindum) „á sviðinu / í röðinni“ með „máluð bros / æfða svipi“ en ljóðmælandi gefst upp og „smyr varalitnum á þurrt handarbakið / eins og plómusultu / á ristað brauð“. Uppgjöfinni er lýst með skemmtilegum orðaleik: „ég legg árin í bát“ og við skynjum að uppgjöf ljóðmælandi er gagnvart tilfinningum sem geymdar hafa verið í hólfum sem „geyma og leyna“ í mörg ár en skáldið er nú tilbúið að takast á við með því að leggja árar í bát og leyfa þeim að fljóta og finna sinn eigin farveg.

Yfirskrift þriðja ljóðsins vísar til tímans sem liðinn er, „Tuttugu ár“, og hér er meginatriðið dregið fram grímulaust:

 

Og enn langar mig
að vita
 
hvort þú elskaðir
mig líka
og ákvaðst það væri
ekki nóg
 
eða hvort þú elskaðir mig
ekki
nóg
 
ég þori ekki að spyrja

 

„Við mættumst í dimmunni“ segir í næsta ljóði sem ber yfirskriftina „Sænska“: „dimman" var „einskismannslandið / á milli okkar“. Dimman vekur líka hugrenningatengsl við að vera í felum; að fela tilfinningar sínar fyrir þeirri elskuðu af ótta við höfnunina en einnig að fela fyrir öðrum ást á milli aðila af sama kyni og vera sjálfur í óvissu með slíkar tilfinningar: „Þú varðst að athuga / varðst að vita // hvort það væri / bara ég / eða stelpur / almennt“ segir í upphafi ljóðsins „Eva“ og á eftir fylgir mögnuð erótísk lýsing:

 

ég var stelpuúlfurinn
með magann
fullan af steinum
heltekin af þrá
af ást af hatri af ást af hatri af löngun
til að éta þig
en hafði aldrei lært að gleypa

 

En ljóðinu lýkur á orðunum „það varst / bara þú / sagðirðu / og snerir þér undan“. Óttinn og feimnin gagnvart þessum tilfinningum kemur víða fram á sterkan hátt, nefna má ljóðið „Brunnur“: „Ég verð að leggja / lokið á / sagðir þú / aftur // lokið á / eins og ég væri brunnur sem þyrfti að byrgja“ og „Leikhús II“ sem hefst þannig: „Þú gast ekki betur // ég skil það núna // gast ekki faðmað / með fargið í fangi þér / húðin sífellt þynnri / lengur að gróa“.

Mörg falleg og mögnuð ástarljóð eru að finna í Plómum, til að mynda ljóðið „Bíó“ þar sem  skemmtilega er leikið með samsvaranir á milli þess sem gerist á hvíta tjaldinu og tilfinninga ljóðmælanda.

 

Í myrkrinu hallar þú höfði
á öxl mína
laumar fingri 
í lófa
 
umkringdar þeim 
sem ekkert vita
kúlurnar hvína hjá
á tjaldinu leiftrar blossinn
 
á eftir spyrðu:
hvað ertu að gera mér
 
og sprengjurnar falla langt 
inn í nóttina

 

Vera okkar og sjálfmynd byggir fyrst og fremst á tungumálinu, að mati margra fræðimanna sem sumir halda því jafnvel fram að ekkert sé til utan tungumálsins og annarra táknkerfa. Þótt það að flytja á milli landa og aðlaga sig að nýju samfélagi þar sem enginn þekkir mann bjóði upp á tækifæri til að prófa sig í nýju hlutverki og endurskapa sjálfið er hætt við að viðkomandi gangi á vegg, eins og lýst er mjög skemmtilega í ljóðinu „Veggur“.

 

Ég málaði herbergið mitt rautt eins og allt það
sem ég þráði að vera, eins og æpandi ferskt sár
í síðu heimsins þar sem hægt er að finna til. Ég
sagði þetta er tækifærið hér er það komið, nýr litur
nýtt herbergi nýtt tungumál, hér hlýturðu að verða
önnur en þú ert önnur en þú segist vera, önnur. Svo
missti ég málið.

 

Hið bókstaflega málleysi bætist ofan á hið tilfinningalega málleysi/kjarkleysi ljóðmælanda: „orðin ná ekki utan um okkur / ekki frekar en við / náum utan um þau “segir í ljóðinu „Fyrst“ sem endar á fallegri hendingu: „við vorum rökkurljóð / undir hlöðnum steinvegg / sem riðar til falls“.

Nokkur ljóðanna í Plómum fjalla um það að kynnast og tileinka sér nýtt tungumál („Sykur“, „Akarn“, „Veiði“) og að sjálfsögðu rímar það við að kynnast og tileinka sér tungumál ástarinnar - ekki síst þegar ástin er einnig á „öðru tungumáli“ en hinu ráðandi. 

Þótt gildasti þráður bókarinnar sé ástar- og þroskasagan sem hér hefur verið fjallað um eru einnig í henni ljóð sem tengjast ekki þeirri sögu beint, en kannski óbeint í gegnum lífsháskann sem þau miðla. Hér má nefna tvö áhrifarík ljóð um dauðann. Ljóðið  „Bambi“ lýsir því þegar ljóðmælandi gengur „í flasið á Bamba“ og stendur í köldum blóðpolli og horfir á stór og brostin augu villibráðarinnar sem stjúpfaðir hennar hefur veitt og hengt upp í bílskúrnum. Í ljóðinu „Öldur“ er hins vegar ort um vinkonu sem er „næstum drukknuð / þegar pabbi hennar stakk sér / í undirölduna“ [...] „hún komst aftur á land / ekki hann“. Atburðurinn sogar ljóðmælandi niður í svarthol, sem hún á þó „ekkert tilkall til“, eins og segir í margslunginni mynd ljóðsins.

Af síðustu tveimur ljóðum bókarinnar er að skilja að endurfundir á milli ljóðmælanda og hinnar nánu vinkonu hafi átt sér stað mörgum árum síðar og ljóðmælanda „langar til að standa upp og öskra / sannleikann að henni // ef ég bara vissi / hver hann er“. Næsta ljóð - lokaljóð bókarinnar ber yfirskriftina „Ekkert“:

 

Við sögðum ekkert
aldrei framar
 
eins og ekkert hefði gerst 
og kannski gerðist ekkert
kannski gerðist ekkert mánuðum saman
ár eftir ár hélt ekkert
 
áfram að gerast
 
ég sagði aldrei neitt
ég brenndi öll bréfin
það stóð ekkert í þeim
 
og kannski stendur ekkert
hér

 

Ekki skal tekið undir það að „ekkert“ standi í ljóðabók Sunnu Dísar, Plómur. Þvert á móti miðlar bókin djúpum hugleiðingum í gegnum áhrifrík ljóð um viðkvæmasta tímabilið í lífi hverrar manneskju, þroskaárin þegar sjálfið er í mótun og tilfinningar hráar og auðsæranlegar. 

Titill ljóðabókarinnar Plómur er opinn til túlkunar. Plómur koma fyrir í þremur ljóðum („Plómur I“, „Mold“ og „Plómur II“), plómutré kemur fyrir í einu ljóði („Fasani“) og „plómusulta“ í öðru („Leikhús I“). Ef til vill má skilja plómuna sem tákn fyrir sjálf ljóðmælanda. Í ljóðinu „Plómur I“ segir „enginn vill óþroskaðar plómur“ en í „Plómur II“ er tenging á milli plómu og konu dregin upp á yfirborðið:

 

Plómukjarinn er heili
undir púðurhúð
sætu kjöti
 
sem loðir við hann
límist
við fellingar og rifur
felur sig í skorunum 
dísætur síætur
 
plómukjarninn er gömul kona
man allt
sem gerðist
eða ekki

 

Í ljóðinu „Mold“ er hins vegar lýst hrúgu af rotnandi plómum: „Skinnið slappt og þrútið, fínlega púðrað eins og vel snyrt lík.“ Plómurnar rotna „þar til ekkert var eftir nema slímugir steinarnir“ og kann að vera að að plómurnar tákni því ástarsambandið sem átti sinn feril. Það er líka spurning hvort ekki megi túlka plómuna sem tákn fyrir kynhvötina, en þegar plóma er skorin í sundur vekur hún hugrenningartengsl við kynfæri konu.

Þá er plóman dimmrauð að utan, líkt og bókarkápan, en aldinsárið ljóst og mjúkt, eins og kannski má segja um innihald bókarinnar. Rauði liturinn kemur víða fyrir í ljóðunum, sem og sár af ýmsu tagi. Veggurinn sem ljóðmælandi málar rauðan er „eins og æpandi ferskt sár“ og í ljóði sem ber titilinn „Sár“ myndar nafn „rist í fjöl“ „fimm sár í viðnum“. Í ljóðinu „Eldhús“ ristir frjóið sárrauðar rúnir / á bert bakið“ þegar ljóðmælandi leggst í grasið á Jónsmessu. Í ljóðinu „Líflína II“ er upplýst að „systralag sársaukans“ sé „skárri kostur / en þögnin“. Kannski má segja að í fyrstu ljóðabók sinni rjúfi Sunna Dís þögnina með sterkum og áhrifaríkum ljóðum.

Tengt efni