SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir21. janúar 2023

SUNNA DÍS HREPPIR LJÓÐSTAFINN Í ÁR

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2023 var afhentur í dag við hátíðlega athöfn í Salnum, Kópavogi. Handhafinn í ár er Sunna Dís Másdóttir  fyrir ljóð „Á eftir þegar þú ert búin að deyja“.

Til hamingju!

Sunna Dís er fædd árið 1983. Hún er með BA-gráðu í ensku og ritlist frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá sama skóla. Hún lauk MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands í október 2020. Hún hefur verið bókmenntagagnrýnandi í bókmenntaþættinum Kiljunni í nokkur ár.

Solveig Thoroddsen hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið „Lok vinnudags í sláturtíð“ og þriðju verðlaun hlaut Helga Ferdinandsdóttir fyrir ljóðið „Annað líf“. Alls bárust 230 ljóð í keppnina að þessu sinni.  Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Í einstaklega vel heppnuðu prósaljóði er dregin upp hárfín og áhrifarík mynd af innilegri nánd við aðstæður sem sjaldan eru í sviðsljósinu. […] sýnir á undurfallegan, nýstárlegan og eftirminnilegan hátt hvernig ástvinur lifir áfram í lífi, hjörtum og jafnvel líkama eftirlifenda eftir dauðann. Flæðandi taktur ljóðsins og myndmál lokka lesandann til að koma að því aftur og aftur og lesa margsinnis á meðan tíminn „leysist upp á tungunni...“ Dómnefndina skipuðu Kristín Svava Tómasdóttir, Anton Helgi Jónsson og Þórdís Helgadóttir (heimild rúv).

Á eftir þegar þú ert búin að deyja

Á eftir þegar þú ert búin að deyja ætla ég að taka þig með mér héðan, sveipa um þig
dimmrauða teppinu sem þú felur þig undir, hylja þig nepalskri jakuxaull og stinga
tönnunum þínum í vasann. Vatnið drýpur úr svampinum á náttborðinu. Hann er
tannholdsbleikur á hvítum pinna og þú læsir kjálkunum um hann eins og ungbarn um
móðurbrjóst þegar hann strýkst við varir þínar. Fyrsta viðbragðið er það síðasta sem
hverfur. Á eftir þegar þú ert búin að deyja förum við í sirkus og borðum kandíflos sem
límist í góminn klístrast við tannholdið spunninn sykur á pappírsvafningi, hann leysist
upp á tungunni eins og tíminn og ég rétti þér tennurnar og sé hendur þínar verða
fleygar á ný.

 

Handhafar Ljóðstafsins sl 21 ár

Fyrir réttu ári hlaut Brynja Hjálmsdóttir Ljóðstafinn fyrir ljóð sitt Þegar dagar aldrei dagar aldrei. 

Sigmar Maríusson, gullsmiður í Kópavogi, hefur verið lykilmaður í sögu Ljóðstafs Jóns úr Vör en Sigmar hefur frá upphafi keppninnar séð um að gera glæsilegan verðlaunagrip fyrir sigurskáldið og skorið út nafn þess sama skálds á lítinn silfurskjöld sem festur er á stafinn góða, sjá hér.

 

Tengt efni