SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir28. júlí 2021

„ÍMYNDUNARVEIKUR BOÐBERI SANNLEIKANS“ - Um Kristínu Eiríksdóttur

Kristín Eiríksdóttir hefur getið af sér gott orð sem ljóðskáld en einnig fengist við leikritun, smásagna- og skáldsagnagerð. Leikrit hennar hafa verið sett á svið Þjóðleikhússins og Borgarleikhússins og hún hefur sent frá sér smásagnasafnið Doris Deyr (2010), skáldsögurnar Hvítfeld (2012) og Elín, ýmislegt (2017) og m.a. ljóðabækurnar, Kok (2014) og Kærastinn er rjóður (2019).
 
Fyrsta verk Kristínar, Kjötbærinn (2004), er óvenjulegt en bókin er nokkurn veginn á mörkum þess að vera ljóðabók og skáldsaga. Textinn er í prósaformi en tungumálið ljóðrænt, t.d. er mikið um endurtekningar, greinarmerki eru notuð á óhefðbundin hátt og merkingin súrrealísk.
 
Táknin augljós. Standlampinn skíðlogar. Krydd þekur eldhúsgólf. Útvarpið kveikir á sjálfu sér og surgar. Loftljós blikka. Rafmagnið verður sýnilegt, örmjóir þræðir neons hlykkjast um herbergið. Ein smáauglýsingin í blaðinu er í þrívíð:
Kjörbærinn óskar eftir eldsálum. (10)
 
 
Í viðtali við tímaritið Veru [1] stingur höfundurinn upp á að kalla verkið „punktaskáldsögu“ vegna tengsla þess við skandinavíska formið punktroman. Punktroman, eða punktaskáldsagan, er mun styttri en hefðbundin skáldsaga og framvinda sagnanna ekki jafn skýr. Punktaskáldsagan einkennist af miklum eyðum og þar af leiðandi tekur lesandinn sjálfur stóran þátt í merkingarsköpuninni. [2]
 
Óhefðbundin framvinda og eyður einkenna Kjötbæinn en sagan hverfist um Kötu og nöturlegt líf hennar. Hún býr ásamt kærasta sínum Kalvin í blokkaríbúð á efstu hæð en samband þeirra er við það að fjara út. Kata er vansæl, hana dreymir illa í svefni sem vöku og getur ekki hugsað sér að fara út úr íbúðinni. Þrátt fyrir að um frásögn sé að ræða getur hver síða í verkinu staðið ein og sér, sem stakt ljóð – sem brot úr lífi Kötu eða einhvers konar stemningslýsing. Það er ákveðin framvinda en þó er ekki um hefðbundna línulega frásögn að ræða svo það skiptir ekki höfuðmáli í hvaða röð síðurnar eru lesnar. Teikningar Kristínar endurspegla það því myndirnar skírskota í ákveðna hluta textans en eru þó fæstar staðsettar við textann sem þær vísa í. Nokkuð erfitt er að endursegja söguna því lesendur þurfa að fylla í eyður á milli síðna. Mörgum spurningum er ósvarað og þar af leiðandi er sagan afar opin fyrir túlkunum.
 
Andrúmsloftið í verkinu er óhugnanlegt og í raun mætti flokka Kjötbæinn sem hrollvekju. Blóð, innyfli, vopn og dauði eru áberandi og höfundur sækir m.a. innblástur í myndmál dauðarokks, líkt og eftirfarandi dæmi ber vitni: „Beinagrindin þeysist staurblind á baki skepnunnar heldur þéttingstaki brennandi beinstúfum í hnakkafeldinn logandi.“ (12)
 
Leiðir höfundarins til að skapa óhugnað má einnig tengja við það sem Freud fjallar um í greininni „Das Unheimliche” (e. „The Uncanny“) [3] eða ókennileikann. Samkvæmt Freud getur ókennileikinn birst á ýmsan hátt en meginhugmyndin er sú að eitthvað kunnuglegt geti verið framandi á sama tíma og þannig vakið óhug eða ókennileika. Freud fjallar sérstaklega um hvernig ókennileikinn birtist í skáldskap en það gerist t.d. þegar yfirnáttúrulegar verur eða yfirnáttúrulegir atburðir koma fyrir í heimi sem lýtur sömu lögmálum og raunveruleikinn. Lesandinn á ekki von á neinu yfirnáttúrulegu í raunsæisskáldskap og því verður upplifunin ólík því að lesa t.d. ævintýri.
 
Þótt erfitt sé að staðhæfa að heimurinn í Kjötbænum lúti lögmálum veruleikans er þar margt kunnuglegt og hversdagslegt. Síða 13 hefst t.d. á raunsærri lýsingu á blokkinni en svo birtist allt í einu „skratti sem sendir illsku yfir til [parsins] með sérstökum rafeindabúnaði“. (13) Eitt meginatriðið varðandi ókennileikann samkvæmt Freud er þegar heimilið verður ókennilegt eða fjandsamlegt og það má auðveldlega heimfæra upp á blokkaríbúðina. Það er ekki aðeins nágrannaskrattinn sem gerir heimili Kötu fjandsamlegt heldur birtist þar m.a. óvelkomið innyfli sem talar við hana og húsgögnin og íbúðin sjálf virðast lifna við og ógna henni:
 
Herbergið er ferhyrnt en ekki lifrin rauða sem skríður um það, andar og talar, felur sig í dagsljósinu en kemur fram á nóttunni og talar til mín. Ég svara henni ekki í von um að hún fari. Hún segir undarlega hluti um verksmiðju byggða úr kjöti og beinum sem lítur út einsog hús en þegar inn er komið er hvorki tími né rúm, fjarlægðin er endalaus. Þar eru fleiri af hennar tagi, fleiri en mig gæti órað fyrir. (31)
 
Bleikur veggurinn byrjar alltíeinu að bylgjast allur og mér sýnist manneskja vera að troða sér í gegnum hann til mín. Sólin skín innum götin á lakinu og býr til litla flekki á vegginn. Alltíeinu bráðnar hann einsog lavalampi og það skýst útúr honum manneskjulaga klumpur, bleikur með tifandi ljósflekkjum. (16)
 
Þessi dæmi eru jafnframt súrrealísk enda súrrealisminn kannski skýrasta einkenni Kjötbæjarins. Í „Stefnuyfirlýsingu súrrealismans (1924)“ leggur einn helsti kennismiður stefnunnar, André Breton, áherslu á að til að skapa áhrifaríka mynd þurfi að tengja tvo ólíka veruleika og vitnar í því samhengi í Pierre Reverdy:
 
[Myndin] getur ekki sprottið af viðlíkingu, heldur aðeins af tengingu milli tveggja veruleika sem eru meira eða minna fjarlægir.
Því fjarskeyttara og skarpara samband þeirra tveggja veruleika sem tengjast er, þeim mun sterkari verður myndin – þeim mun meiri tilfinningaþrótti og skáldlegum veruleika mun hún búa yfir [4]
 
Líkindin við ókennileikann eru augljós, þ.e. tveimur ólíkum heimum eða veruleikum er blandað saman, en markmið súrrealista var þó víðara en að skapa ókennilega tilfinningu (og ókennileikinn þarf ekki endilega að vera til staðar þó svo hann sé það í Kjötbænum).
 
Í greininni „Við ysta myrkur. Forboðnir listar í ljóðum eftir Sjón“ lýsir Guðni Elísson markmiðum súrrealismans með því að vísa í fræðikonuna Jacqueline Chénieux-Gendron:
 
Að hennar mati vantreystir súrrealisminn öllum fastmótuðum tilraunum til þess að koma reglu á heiminn, öllu skipulagi í tíma og rúmi, og hvers kyns merkingarþrunginni flokkunarfræði. [...] Tilgangurinn er því í senn að loka merkingarklisjur úti og skapa aðstæður fyrir uppljómun, eða annars konar skilning en lesandinn á að venjast [...] [5]
 
Þessi lýsing á vel við um Kjötbæinn sem er uppfullur af undrum sem skapa aðstæður fyrir uppljómun hjá lesandanum. Í verkinu er rökhyggjan eða skynsemishyggjan, sem er ráðandi í okkar samfélagi, sífellt afbyggð en það kallast á við vantraust súrrealismans á tilraunum til að koma reglu á heiminn. Í Kjötbænum er t.d. „hvorki tími né rúm, fjarlægðin endalaus“ (31) og Kata sjálf segist vera „ímyndunarveikur sendiboði sannleikans“. (13) Út frá rökhyggju eru sannleikur og ímyndun andstæður og setningin þar með mótsögn, en í raun leggur hún áherslu á hversu afstæður sannleikurinn er og afbyggir þar með hina ríkjandi rökhyggju. Í eftirfarandi orðum Kötu kemur einnig fram gagnrýni á hið röklega:
 
Það er sólstingur ærandi fer aldrei kom aldrei heilahristingur óráð minnisleysi þau gleyma að svona fæddist ég halda að ég geti svarað spurningum byggðum á rökfræði sem er ekki mín að skilja það fer alveg með mig og enginn sér gegnum húðina nema þú Kalvin. (38)
 
 
 
 
Aðspurð segist Kristín ekki hafa skrifað meðvitað súrrealískt en hugmyndir hennar og markmið eiga margt sameiginlegt með stefnu súrrealistanna. Þegar hún er beðin um, í viðtali, að einfalda víddaflakk Kötu er hún treg til og segir: „Eru flestir hlutir ekki nógu einfaldir? Þurfum við að leitast að því að einfalda allt annað?“ [6] Þessi afstaða rímar við vantraust súrrealistanna á tilraunir til að koma reglu á heiminn og markmið þeirra að loka á merkingarklisjur. Í viðtalinu gagnrýnir Kristín jafnframt rökhyggjuna og segir: „Rök eru persónuleg, ekki sameiginleg. Bókin fjallar að vissu leyti um það.“ [7]
 
Þótt Kristín vilji ekki gefa mikið upp um sinn skilning á verkinu tekur hún fram að Kjörbærinn sé ævintýri og segir að við megum ekki dæma Kötu út frá okkar félagslega raunveruleika. [8] Þetta tengist sjálfsagt afstöðu hennar til rökhyggjunnar en er samt sem áður athyglisvert í ljósi þess hve opið verkið er. Líkt og áður sagði skiptast á hversdagslegar og ævintýralegar lýsingar á söguheiminum svo ekki er hægt að greina Kjötbæinn sem hefðbundið ævintýri. Gagnrýnendur hafa sumir túlkað söguna á raunsæjan hátt og ef til vill er slík túlkun jafn réttmæt og sá skilningur sem Kristín vill að lesendur leggi í söguna. Það er einfaldlega óljóst hvað er að eiga sér stað í verkinu.
 
Hugtak Todorovs, hið fantasíska (e. the fantastic), á betur við um verkið og þau áhrif sem það hefur á lesandann en ævintýri. Hið fantasíska er ekki óskylt ókennileikanum og felur í sér að ævintýralegar verur komi fyrir eða yfirnáttúrulegir hlutir gerist í söguheimi sem lýtur sömu lögmálum og raunveruleikinn, en jafnframt að vafi leiki á því hvort hinir yfirnáttúrulegu atburðir eigi sér í raun stað eða hvort persónan sem upplifir þá misskynji einfaldlega veruleika sinn. [9] Það er sem sagt vafinn sem veldur því að lesandinn upplifir hið fantasíska. Í Kjötbænum er sjónarhornið alltaf hjá Kötu og lesandinn veit ekki hvort frásögn hennar sé sönn eða hvort hún sé „veruleikafirrt“ líkt og hún segir Kalvin telja:
 
Dæmi um hvernig leikið er með hið fantasíska er einnig að teikningarnar í verkinu eru raunsæjar á meðan textinn sem þær tengjast er oft ævintýralegur. Teikningarnar styðja þá hina raunsæislegu túlkun en niðurstaðan er sú að ekkert ótvírætt svar er gefið um hvort hinir ævintýralegu atburðir eigi sér stað í raun og veru og sá vafi veldur því að lesandinn skynjar hið fantasíska í verkinu.
 
 
Helga Jónsdóttir
 
 
 
Tilvísanir
 
[1] Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, „Kjötbær Kristínar“, Vera 23(4): 31-34, bls. 34
 
[2] Bibliotekarstudentens nettleksikon om litteratur og medier, 2020, „Punktroman“, vefslóð: https://www.litteraturogmedieleksikon.no/ skoðað 26.7.2021
 
[3] Freud, Sigmund, „The Uncanny“, The Uncanny, New York: Penguin Books, 2003, bls. 123-162
 
[4] Breton, André, „Stefnuyfirlýsing súrrealismans“, Yfirlýsingar: Evrópska framúrstefnan, þýð. Benedikt Hjartarson, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2001, bls. 413
 
[5] Guðni Elísson, „Við ysta myrkur. Forboðnir listar í ljóðum eftir Sjón“, Ritið 11(2): 53-72, bls. 71
 
[6] Vísir, 12.11. 2004, „Þetta gerist allt í hausnum á mér“, vefslóð: http://www.visir.is/thetta-gerist-allt-i-hausnum-a-mer/article/2004411120324, skoðað 26.7.2021
 
[7] Sama heimild
 
[8] Sbr. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, „Kjötbær Kristínar“, Vera 23(4): 31-34, bls. 34
 
[9] Todorov, Tzvetan, The Fantastic: A Structural Approach to a Literary Genre, ensk þýð. Richard Howard, Ithaca: Cornell University Press, 1973, bls. 25
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Tengt efni