Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir∙11. mars 2021
„EF EITTHVAÐ EITT ER LYGI GÆTI ALLT VERIÐ LYGI“ - Viðtal við Kristínu Eiríksdóttur
Kristín Eiríksdóttir er einkar fjölhæfur höfundur en hún hefur sent frá sér jafnt ljóð, smásögur, skáldsögur og leikrit. Hún er þekkt fyrir að draga upp myndrænar lýsingar auk þess sem hún leikur sér gjarnan með frásögnina og hristir upp í skynjun lesenda. Við hittum Kristínu fyrir skömmu í Veröld - húsi Vigdísar og ræddum við hana um sköpunina, lygar, tvífara og hvaðan óhugnaðurinn sem birtist í verkum hennar er sprottinn.
Hvað varstu gömul þegar þú fórst fyrst að yrkja ljóð?
Mamma gaf mér bók með auðum síðum í ellefu ára afmælisgjöf og ég tók það mjög hátíðlega, hætti ekki að yrkja í hana fyrren síðurnar kláruðust og þá fékk ég aðra. Ég skrifaði í svona bækur öll unglingsárin og mamma var mjög þolinmóður lesandi og sýndi mér líka þá virðingu að vera hreinskilin í umsögnum. Þannig skynjaði ég aldrei að ljóðin mín skiptu minna máli vegna þess að ég væri barn. Þetta var grafalvarlegt mál.
Þú hafðir birt stök ljóð áður en Kjötbærinn kom út; átti sú bók sér langan aðdraganda og hvernig gekk að fá hana útgefna?
Já, ég var svolítið lengi með hana, byrjaði á henni þegar ég bjó í Kaupmannahöfn um aldamótin en hún kom svo út hjá Bjarti haustið 2004. Gunnar Þorri Pétursson var ritstjórinn minn og það voru mikil forréttindi að hafa þau með mér, fyrst mömmu og svo Gunnari Þorra, sem kom mikið að fyrstu tveimur bókunum mínum, Kjötbænum og Húðlitri auðninni. Ritstjórn skiptir öllu máli þegar höfundar eru að byrja og allt er svo ofsalega viðkvæmt.
Þú hefur lært myndlist og bæði ljóðin þín og sögur eru oft mjög myndræn. Í sumum bókum, eins og Kjötbænum og Kok; blandast líka saman myndir og textar eftir þig. Finnst þér myndlistin nýtast þér í skrifunum?
Alveg hundrað prósent. Mér finnst líka erfitt sem lesanda þegar viss fagurfræðileg element eru sett saman á ómarkvissan hátt, þegar áferð er ekki röng á réttan hátt eða eitthvað er óvart í jólalitunum. Það er líka hjálplegt að hugsa sjónrænt og jafnvel abstrakt þegar kemur að persónusköpun. Myndlist brýtur líka öll formin undir sig og ég upplifi hana sem leiðandi og ég leita mikið þangað eftir innblæstri, bara einsog auglýsingastofur og fleiri. En þegar ég var í námi fyrir tuttugu árum síðan fannst mér sjálfsagt að hugsa um listina sem í eðli sínu anarkíska og frelsisleitandi á sama tíma og stofnanavæðingin var mjög áberandi. Þá þótti ekki endilega sjálfsagt að tala um listsköpun sem vinnu. Ekki vegna þess að það væri ekki gjaldgeng iðja heldur vegna þess að orðið vinna felur í sér tengingu við kapítal, sem listin vill vera frjáls undan. Síðan þá hefur svo margt breyst og nú er varla talað um sköpun heldur er frekar notað orðið rannsókn. Listaverk er ekki listaverk heldur afrakstur eða content og það er eitthvað þarna sem er vert að staldra við. Mig langar allavega til að halda því til streitu að tilurð listaverks er sköpunarferli, en ekki rannsóknarvinna til grundvallar afrakstri eða hvernig sem það myndi hljóma.
Fyrsta prósaverk þitt eftir að hafa sent frá þér nokkrar ljóðabækur var smásagnasafnið Doris Deyr. Þar er textinn raunsær, ólíkt ljóðunum þar sem þú gerir miklar tilraunir og meðal annars með mörk veruleika og fantasíu. Hvað kom til að þú snerir þér að raunsæinu?
Ég bjó í Kanada og var í mastersnámi í myndlist sem mér gekk eiginlega frekar illa með. Svo kom upp tímabil þar sem ég gat ekki teiknað, því hreyfingin sem höndin gerði var svo þreytandi, eins og hún kynni bara að gera eina línu. Við vorum bara fimm nemendur á ári og ég var mjög heppin því ég eignaðist þarna góða vini, og prófessorarnir voru mjög inspírerandi og ég er enn í sambandi við þetta fólk. En ég var samt bara ekki að blómstra. Svo var ég ferlega svefnröskuð og það er ískalt í Montréal á veturna. Á nóttunni heimsótti ég oft bensínstöð í hverfinu og svo fór ég að skrifa sögu um þessa bensínstöð og það varð fyrsti prósinn sem ég skrifaði sem ég var ánægð með. Bakvið fossinn heitir sagan. Áður hafði ég skrifað helling af prósa en mér fannst hann alltaf svo leiðinlegur að ég nennti ekki einusinni að lesa hann yfir. Of hlaðinn og óaðgengilegur en þarna fannst mér eins og ég fyndi leið inn í heim og þetta snýst svo mikið um aðgengileika; fyrir mig semsagt, þegar ég er að skrifa. Og ég hætti ekki fyrr en ég var búin með þessar sögur sem eru í Doris deyr, og þá hætti ég líka í þessu námi og er ekki með neina mastersgráðu en ég gaf út þessa bók og á góða vini í Kanada.
Þrátt fyrir að sögurnar og ljóðin séu ólík eru ákveðin þemu eða andi sem þau eiga sameiginleg. T.d. er óhugnaður gjarnan skammt undan. Það er kannski skýrara í ljóðunum, t.d. í Húðlitri auðninni og Kjötbænum. Kjötbærinn minnir á svona body-horror þar sem er mikið um lifandi kjöt, hold, einhver kjötköggulsvera með beittar tennur og auðvitað Kjötbærinn sjálfur úr holdi og beinum sem andar. En óhugnaðurinn læðist líka inn í prósann á aðeins lúmskari hátt. Þar má til dæmis nefna Sigga beinasafnara úr smásögunni „Staðsetja, útvega, flokka, raða og varðveita“. Hann stundar frekar hrollvekjandi iðju, að grafa upp bein dýra til að eignast beinagrindur og svo á hann hauskúpu úr 5 ára stúlku. Hvers vegna heldur þú að þú sækist í óhugnaðinn? Og hver er innblásturinn að þessum skrifum?
Það er margþætt en Aðalvideóleigan kemur uppí hugann og einhver svona menningarlegur staður á tíunda áratug. Síðpönkið, og transgressjón var svo mikið í tísku líka, og allur þessi David Lynch hafði líka áhrif. Ég á minningu af því að hafa horft á Fire walk with me um dag verandi svona 15 ára og reynt að fara út í sjoppu til að komast aftur inn í raunveruleikann en mér leið bara eins og maðurinn í búðinni væri karakter. Allir þurfa að finna leið til þess að lifa með hryllingi og að reyna að velja hann burt hlýtur að vera mjög erfitt. Kjötbærinn fjallar að einhverju leyti einmitt um þetta minnir mig.
Þú fjallar gjarnan um ógn og kvíða í verkunum þínum, jafnt ljóðum, frásögnum og leikritum, en líka ofbeldi og ýmis áföll. Hver er ástæðan fyrir því?
Að forðast þessi umfjöllunarefni er sömuleiðis erfitt og kannski sögn í sjálfu sér. Svo er mjög forvitnilegt hvernig orðræða um þessi efni er að þróast í samfélaginu. Fólk er orðið mjög vel að sér í greiningum og nálgunin orðin frekar klínísk. Heilt persónugallerí af narsissistum og borderlínum og ölkum og pötum og svo er hægt að raða einhverjum röskunum saman og út koma erkitýpur sem allir þekkja, Ted Bundy eða Díana prinsessa og þetta greiningartæki er mjög spennandi en skáldskapurinn verður að nota aðrar aðferðir. Í mínum huga er eitt af markmiðum hans að sporna gegn afmennskun og þá þurfa greiningar að opna gáttir þar sem eru fleiri gáttir sem opnast, frekar en að loka, einsog orð geta haft mátt til þess að gera. Þessvegna er óútreiknanleikinn svo mikilvægt hreyfiafl í lífi og listum.
Líkaminn er oft í forgrunni í textunum þínum og stundum eru lýsingar gróteskar og hrista rækilega upp í skynjun lesandans. Til dæmis má nefna lýsingar á kynferðisafbrotum sem eru oft mjög áhrifamiklar. Kemur þetta að sjálfu sér að tala um þessi málefni á þennan hátt?
Já, ég veit ekki alveg hvað skal segja. Þetta er einhver afleiðing, persónuleg en samt líka bara almenn eða kollektíf. Svo var ég oft að hugsa um hvað fólk stýrir í raun litlu um örlög sín og þessa hamrandi endurtekningu sem óuppgert áfall býður uppá. Sálin er svo dugleg og sama hversu lasnar aðferðirnar kunna að virðast þráir hún alltaf bata. Ofbeldi er yfirleitt endurtekning og sviðsetning á einhverju úr fortíðinni, eitthvað sem lætur fólk ekki í friði og kemur upp, aftur og aftur. Það virðist ólógískt en er það samt alls ekki.
Hvað kom til að þú ákvaðst að skrifa Hvítfeld; þína fyrstu skáldsögu?
Ég var búin að skrifa mjög margar blaðsíður af Hvítfeld áður en ég vissi um hvað hún fjallaði. Það sem síðan vakti áhuga minn, og gerði að ég skrifaði hana út, var lygadæmið. Lygin er svo skemmtileg af því að allir þekkja þessa tilfinningu, að ljúga. Þetta er mjög berskjaldaður staður í raun, að standa sig að lygi, og skömm sem fylgir. Enginn er saklaus af þessu.
En það sem ég var líka að vinna með er aftengingin. Jenna Hvítfeld er algjörlega aftengd og hefur ekki mikla samkennd. Mér þykir vænt um hana en ég kynni örugglega ekki vel við hana í raunveruleikanum. Hún gæti samt heillað svona til að byrja með, en svo kæmi eitthvað sem ekki stemmir og viðbrögðin við því eru nánast líkamleg. Það er prímitíft viðbragð, einsog við svo mörgu í fari annarra, en lygar eru extra óþægilegar. Ef eitthvað eitt er lygi gæti allt verið lygi.
Þú nefnir misræmið í frásögninni og lygarnar í Hvítfeld móta frásögnina á þann hátt að skáldskapur og veruleiki renna saman í eitt og stundum er erfitt að henda reiður á hvað er satt og rétt og hvað ekki. Er þetta kannski einum þræði saga um sköpunarferlið? Og ertu jafnan mikið að velta fyrir þér sambandi veruleika og skáldskapar?
Já algjörlega. Ég hitti vinkonu mína í gær sem er rithöfundur og við vorum að ræða hvernig senur gerast stundum. Ég er kannski stopp í skrifum, svo er ég einhvers staðar að gera eitthvað alveg óviðkomandi, bara í Krónunni úti á Granda og þá gerist senan þar og ég get haldið áfram. Og þá er í raun einsog opið sé inní eitthvað, einhverja vídd og allt talar inn í þessa vídd.
Var Jenna Hvítfeld þá einhver sem þú hittir í Krónunni?
Nei, en það er samt einmitt svona dæmi. Ég bjó í mánuð á gistiheimili í Chiang Mai að skrifa og þar kynntist ég manni sem var patólógískur lygari, það var rosa magnað. Það voru engin takmörk. Hann fann alltaf út hvað fólki fannst fínt og var heimsmeistari í því. Ég kom að honum á tali við konu sem bjó á gistiheimilinu líka og hún hefur sjálfsagt haft einhvern dansáhuga vegna þess að hann var að segjast hafa dansað ballet bæði með dansflokknum í Moskvu og San Fransiskó. Hún var alveg lens. Svo hitti ég hann á markaði þarsem ég var að leita mér að sandölum og kom í ljós að hann hafa unnið náið með Jimmy Choo, alveg sérstakur skósérfræðingur á Manhattan um árabil og aðstoðaði mig við að kaupa mér flippfloppera. Ég vissi alltaf að hann var að plata en hann var samt svo sannfærandi. Þetta varð frásagnaraðferðin sem ég notaði í bókinni. Að einhverju leyti trúði ég öllu sem hann sagði, og Jennu. Ég trúði henni líka.
Í Elín, ýmislegt leikur þú þér líka með frásögnina en þá með hliðsjón af minninu eða gleymskunni. Hvernig kom það til?
Ég hugsa stundum um þá bók einsog einhvern sem hefur beinbrotnað ítrekað en aldrei leitað til læknis heldur greru beinin öll skökk og það er alveg hægt að komast áfram en samt kannski bara á olnboganum eða mjöðminni og það hefur vanist einsog allt venst. Og ég var líka að hugsa um skynjunina í þunglyndi eða bara í sorg. Það er ekki talað mikið um ofskynjanir í sambandi við þunglyndi en því fylgja miklar ranghugmyndir og saga sem er sögð í miklu þunglyndi er gerólík sögu sem er sögð á góðum degi. Það eru tvær ólíkar sögur.
Hluti af sögunni Elín, ýmislegt birtist fyrst sem smásaga í TMM. Hvers vegna ákvaðstu að halda sögunni áfram?
Ég var langt komin með aðra sögu en svo ruddist þessi framfyrir og ég skrifaði hana frekar hratt, hélt lengi að hún væri smásaga, svo löng smásaga og svo varð úr þessi skáldsaga. En mér fannst einsog þetta væri rödd Elínar sem vildi komast að og það er alltaf þannig, visst stjórnleysi og mikilvægt að vera ekki að plana of mikið og ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera.
Þú vinnur dálítið með tvífara á skemmtilegan hátt; t.d. Elínu og Ellen í Elínu ýmislegt og Kötu og Kalvin í Kjötbænum; hvers vegna? Er eitthvað sem heillar þig við tvífaraminnið?
Uppáhaldsbókin mín þegar ég var barn er trílógían um Húgó og Jósefínu eftir Marie Gripe og ég er oft að vinna eitthvað tengt þeirri bók grunar mig. Ég skynjaði held ég Húgó sem birtingarmynd á Jósefínu, eða leynda þrá hennar eftir að vera Húgó. Þannig held ég að Ellen standi fyrir eitthvað í sálarlífi Elínar, og Kalvin fyrir eitthvað í sálarlífi Kötu.
Þegar þú hlaust Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Elínu, ýmislegt, sagðir þú:
„og mig langar að þakka ykkur fyrir að hlusta
en mig langar líka til þess að hvetja ykkur
til að hlusta ennþá meira
hlusta í algerri þögn“
Finnst þér fólk ekki nógu duglegt við að hlusta og taka eftir í samfélaginu?
Ég var að hugsa um mömmu þegar ég skrifaði þetta. Hún var svo góður hlustandi, sem ég held að feli í sér að búa til hlutlaust rými innra með sér fyrir aðra og að komplexarnir þvælist ekki alltaf fyrir skilningnum. Að hlusta í þögn semsagt. Þannig gat mamma hlustað og ég var að þakka henni fyrir það.
Hvernig kviknaði hugmyndin að Kærastinn er rjóður?
Ég var mikið að hugsa um varnarhætti og kerfi innra með fólki sem kviknar á í nánum samskiptum. Aftenging, írónía, þunglyndi, þráhyggja og uppgjöf. Svo var ég frekar meðvitað að vinna með játningaljóðið og þetta nána rými sem hægt er að búa til. Játning hljómar einsog andstæðan við varnarhátt en játningastíll er auðvitað einsog hver önnur aðferð í skriftum. Eða Einlægni er aðferð, einsog Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld sagði einusinni í viðtali.
Hvernig kom þessi skemmtilegi titill til sögunnar?
Ég veit það ekki. Hann er rosa sniðugur. Þetta er kannski eina bókin mín sem ég hef verið alveg ánægð með titilinn á.
Kápan er líka frábær.
Takk fyrir það. Ljósmyndin er verk eftir Sigurð Unnar Birgisson sem er einmitt með sýningu á ljósmyndasafninu í Grófinni núna. Ég mæli með henni, og facebook síðunni hans: Passamyndir.
Í Kærastinn er rjóður snýrðu skemmtilega upp á ljóðahefðina því í ljóðunum birtist karlinn sem tákn en ekki konan eins og gjarnan er vaninn.
Já einmitt. Það er svo alvanalegt fyrir konur að lesa um kyn sitt sem táknmynd fyrir líðan höfunda. Auðvitað er allt sem stendur skrifað einhversskonar tákn en þetta hefur að gera með sögumannsröddina. Fólk er svo vant að hliðra sér sem menningarneytendur og tileinka sér visst sjónarhorn og þetta hefur svo margvísleg áhrif inní menninguna. Eitt sem kemur mér til hugar er að miðað við bakslagið sem kom eftir #metoo, mætti velta því upp hvort almennt sé fólki tamara að finna til samkenndar með þeim sem er ráðandi. Sögulega er það einmitt sá sem hefur valdið sem segir frá, í öllum skilningi, og þarmeð kannski auðveldara að sjá einsog hann sér, skilja einsog hann skilur. Þetta er áhugvert finnst mér í ljósi þess að börn samsama sig yfirleitt með þeim sem verður undir og hafa sterka réttlætiskennd. Ég veit ekki hversvegna þau áratugum síðar eru viss um að þolandi hljóti að vera að skrökva til að fá peninga eða athygli. Eitthvað hefur gengið á.
Þú hefur ort ljóð, samið leikrit, skrifað smásögur og skáldsögur; finnst þér mikill munur á því að skrifa ólíkar tegundir texta?
Einhver kynni að segja að hvert form kræfi höfund um ólíka tækni. Tóneyra skipti þá til dæmis máli við ljóðaskriftir og til þess að skrifa sannfærandi díalóg þyrfti höfundur að hafa sans fyrir drama. Að hafa yfirsjón í langri skáldsögu væri einhver alveg spes eiginleiki og forsenda í sjálfu sér. En það er samt ekki þannig vegna þess að framúrskarandi ljóð kann að vera rammfalskt og plott getur svo hæglega eyðilagt góða sögu. Formin hafa öll verið sprengd upp fyrir löngu og það er gott að hafa útgangspunkturinn þar. En mér finnst gaman og gott að flakka á milli og blanda saman aðferðum.
Hvernig kom það til að þú fórst að semja leikrit?
Eftir að ég gaf út Doris deyr hafði Tinna Gunnlaugsdóttir samband við mig. Hún las kannski eitthvað þar sem henni fannst leikbært og ég kann henni alltaf miklar þakkir fyrir að hafa tékkað á mér. Við Karí Ósk Grétudóttir vorum þá farnar að leggja drög að leikriti og úr varð að við skrifuðum Karma fyrir fugla fyrir Þjóðleikhúsið þarsem Tinna var þá leikhússtjóri.
Þegar þú hefur skrifað leikrit hefur þú þá verið með í æfingarferlinu eða mætir þú kannski bara spennt á frumsýningu?
Það fer mjög mikið eftir leikstjóra og stemmingu. Ég hef verið svo heppin að fá að vinna með Kristínu Jóhannesdóttur í tvígang og í bæði skiptin bauð hún mig alveg velkomna í ferlið. Fyrst mig og Karí þegar hún setti upp Karma fyrir fugla og svo aftur núna þegar ég þýddi Ein komst undan eftir Charyl Churchill, en Kristín leikstýrir því verki og verður það frumsýnt í Borgarleikhúsinu í janúar 2022. Kristín hefur haft alveg ómæld áhrif á mig og ég dáist mjög að henni og öllu því sem hún gerir.
Hvað er á döfinni hjá þér?
Ég ætlaði að vera með skáldsögu í ár en svo sneri hún þannig uppá sig að ég neyddist til að fresta og hún kemur ekki fyrren 2022. Ég er búin að vera mjög lengi að vinna í þessari sögu og hún er mikið ólíkindatól, en það er góð tilfinning að vera komin svona langt og að vera ekki á hundavaði. Ég hlakka til að skila henni til ritstjórans eftir jól.
Við þökkum Kristínu kærlega fyrir áhugavert spjall og hlökkum mikið til næsta árs þegar ný skáldsaga eftir hana lítur dagsins ljós og leikritið Ein komst undan verður frumsýnt.