SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir19. júní 2023

VÍRAÐIR OG FAGRIR. Brúðkaupsgjöf sumarsins

Brúðkaup er þemað á hátiðar-og baráttudegi íslenskra kvenna, þann 19. júní. Bók Sigurbjargar Þrastardóttur, Brúður, er til umfjöllunar.

Brúður (2010) er sjötta ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur og inniheldur „sextíu texta um giftingar“ sem eru sannarlega „víraðir og fagrir“ eins og segir á bókarkápu. Brúðkaupsþemað er gegnumgangandi og ljóðin fjalla t.d. um giftingarathafnir, veislur, brúðargjafir, ræðuhöld, brúðkaupsmyndir og brúðkaupsnótt. Persónur eins og Þrúður brúður sem er eins og trúður, Baldur og Haraldur bassaleikari birtast í svip og hverfa jafnharðan, hreifir brúðkaupsgestir eru á sínum stað og leggja sitt til málanna ásamt moldarbrúði, ísbirni og fleirum.

Brúður skiptist í þrjá hluta, ljóðin eru án titils og ótölusett, aðeins fyrsta og síðasta ljóðið bera nöfn. Fyrsta ljóðið heitir Glaumur, og snýst um ískalda og fallega mynd, og síðasta ljóðið heitir Draumur, mjúkt og fullt af efa. Langflest ljóðin eru mjög góð (t.d. á bls. 40) og myndmálið fallegt. Sigurbjörg notar mest beinar myndir og tákn eins og brúðarkjóla, silkiborða og blúndur, bera fætur, blóð og skæri. Og liturinn er í stíl við þemað: bálhvítur, drifhvítur, kremhvítur og flauelshvítur. Nýtt orð, "meyvatn", kemur fyrir, gagnsætt og fallegt orð sem bæði vísar til hugmynda um hreina mey á brúðkaupsnótt og tengist kynlífi og erótík.

Sjónarhóllinn er sannarlega femínískur í þessari bók en útgangspunkturinn er ekki sá að konan fórni frelsi sínu með því að giftast, að hjónaband séu fjötrar eða stöðnuð gamaldags stofnun. Hér er engin beiskja þrátt fyrir tvíræðan titil, bara lífsgleði, nett ofbeldi og hárfín íronía. Í bókinni er margs konar brúðarmyndum brugðið upp og víðast er gleðin við völd. Ein getur varla hamið sig þar sem hún stendur með "hnífinn í heitum lófanum, finnur hann stýra spaðanum inn í kransandi kökuna..." (21) á meðan önnur gengur inn kirkjugólfið í glansandi stígvélum með svuntu og slorugan hníf "eins og liljuvönd undir brjóstinu og syngur sjómannaslagara" (53). Brúðgumi nokkur hagræðir pungnum í smókingnum (32) og annar snýr aftur í brúðarsvítuna í leit að ummerkjum eftir nóttina (66). Beittur húmor er allsráðandi, eins og t.d í smellnu ljóði á bls. 16 og í eftirfarandi ljóði (bls. 49):

blóðrauður refill

frá bergþórshvoli

hefur verið strengdur

milli stórra stóla

nei, hér förum við ekki lengur í lyklaleikinn, góðir hálsar,

nú er það samkvæmisleikurinn geta-brúðir-hugsað

heimspekilega, þið eruð með miðana

undir diskunum og hér eru handtálgaðir

blýantar krossið

einungis

við já eða nei

Brúður er bæði frumleg og skemmtileg ljóðabók og hún er líka eiguleg í fallegu broti. Hún er uppáhaldsbrúðargjöfin næstu árin. Teikningar Bjargeyjar Ólafsdóttur eru táknrænar og gefa heildarmynd bókarinnar aukna vídd. Brúðkaupum fækkaði stórlega eftir hrun en fer fjölgandi í góðærinu svo ástin er ekkert á undanhaldi.

jú, birtan úti er langfallegust, segir

ljósmyndarinn - þetta er afar mikið tekið,

heil sería í náttúrunni, þau kinka

kolli, byrja

hún með vöndinn hann fyrir aftan og heldur

um mjaðmir hún undir sólhlífinni hann

líka bak í bak og horfa fram hún með hlaupið

að eyra hans standandi hann með skeftið

milli tannanna bæði á bekknum og kyssast

hann með vöndinn hún með riffilinn bæði á göngustígnum með börnin

hún með dósaopnarann hann í trénu með kústinn

í auganu hún í snörunni hann undir sólhlífinni hún farin

úr birtunni

(46).

 

Áður birt í Mbl 21.11.2010, hér lítillega br.

 

 

 

Tengt efni