SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. nóvember 2020

„SKURÐLÆKNAR ÞRÁ AÐ PÚSLA“ - Viðtal við Sigurbjörgu Þrastardóttur

Steinunn Inga náði tali af skáldkonunni Sigurbjörgu Þrastardóttur sem nýlega sendi frá sér örsagnasafn sem heitir Mæður geimfara. Í stuttu rabbi var farið um víðan völl, meðal annars var rætt um merglausar hefðir, fjarstýringar og flóknar manneskjur og dauðann í kvenkyni.

Sigurbjörg Þrastardóttir

 

Til hamingju með nýju bókina! Mæður geimfara, er hægt að telja þær á fingrum annarrar handar? hvað eru þær margar í heiminum? Hví eru þær dregnar fram nú?

Einmitt á þessu andartaki eru þær tæknilega fáar, jú, samtals þó fleiri en maður heldur.

Eftir að bókin kom út hef ég ennfremur frétt af fjölda barna sem hyggjast leggja fyrir sig geimferðir, þannig að senn mun mæðrum geimfara snarlega fjölga! En hugsunin með titlinum er líka víðari – börn vaxa í áttir sem foreldrar sáu ekki fyrir, verða framandi, svífa burt, koma á óvart.

 

 

Formið á þessu skáldverki, örsögur, þessi magnaði kjarni í hverri sögu eða kannski kjarnaoddur? Beittar sögur og sorglegar; kaldhæðni og samlíðun hrærast í kokteil, hvað viltu segja okkur um það?

Kjarnaoddur er mjög gott orð, gefur hugboð um möguleika, sprengiefni sem býr í hlutnum … það er einmitt það sem dregur mig að svona leifturstuttum sögum þótt ég hafi ekki endilega vitað það fyrirfram. Ég leiddist bara óvart út í þetta.

Hvað réði kaflaskiptingunni í bókinni, meikar hún einhvern sens? Er eitthvað sameiginlegt innan hvers kafla?

Kaflarnir eru níu talsins og hver kafli deilir nafni með fremstu sögunni. Þannig heitir einn kaflinn til dæmis Sársaukaþröskuldar, og í þeim kafla eru bæði líkamlegir og huglægir sársaukaþröskuldar til skoðunar, sem dæmi.

Þetta er mjög vísindaleg skipting af minni hálfu, ég held að hálft sumarið hafi farið í að útfæra þessa röð, en það er í himnalagi líka að lesa sögurnar án tillits til þessa.

Sú var tíðin að fólk stóð upp til að hækka og lækka í sjónvarpinu, eins og ein persóna bendir á, saknarðu þeirra tíma? Af hverju/ekki?

Ég held að titill þeirrar sögu, Græðgi okkar í leti, lýsi tímunum sem við lifum á giska vel. Meiri parturinn af amstri okkar miðar að því að eiga fyrir uppfinningum sem auka okkur leti, markmiðið er að fjarstýra öllu. Jafnvel í tómstundum stöndum við hreyfingarlaus á rafskútum, sitjum kyrr við tölvuskjá …

Mamma hélt reyndar að sagan væri um pabba, því þegar fjarstýringar með sjónvarpi komu til sögunnar neitaði hann að kaupa slíkt húmbúkk. En þetta er tilhneiging sem gegnsýrir nú líf okkar flestra. Hámarkinu var náð þegar ég sá eitt sinn hlaupabretti líkamsræktarstöðvar færð út á stétt því það var svo sjúklega gott veður – engum datt í hug að fara einfaldlega út að hlaupa.

Ég held mjög með honum Sigurbirni, persónu sögunnar sem þú nefnir.

Talandi um tíma, saga sem heitir Hlutarins eðli, hún skorar hátt hjá mér, gamla síðpóstmódernistanum. Svo rosalega íronísk! Ég sé þennan gaur fyrir mér, hann er alltof víða. Þekkir þú hann? Er hann ekkert á undanhaldi?

Já, hann er víða, sá gaur, við þekkjum hann sennilega öll. En svo er líka spurning hversu mikið af honum er í okkur sjálfum, það er erfitt að vita hversu oft við erum að þykjast. Hann má líka eiga það, sá, að hann virðist heiðarlegur í sögunni, þannig að kannski er honum ekki alls varnað. Fólk er flókið og hreinar línur varasamar.

Tvíræðni, þú ferð listavel með hana, td í sögu sem heitir Einangrun (íslenskra) húsa. Er einsemdin botnlaus? af hverju sættum við okkur við merglausar hefðir?

Það eru margar ástæður fyrir því, vafalaust. Félagslega taumhaldið er sterkt og sennilega sterkara en við gerum okkur grein fyrir. Mér finnst þetta mjög sorglegt orðalag, merglausar hefðir, en þá er að því að gæta að það er líka undir okkur komið að fylla út í þær. Við berum jafn mikla ábyrgð á því og hitt fólkið að laga, auka eða viðhalda samskiptum, nú, eða þá að slíta, neita og breyta. Hvort tveggja krefst kjarks og framlags.

Er það galsi sem grípur þig þegar þú skrifar sögu sem heitir Á heilanum?

Kannski taminn galsi, eins konar. Það hefur reynst heilmikill samkvæmisleikur hjá fólki að lesa þá sögu, skilst mér. Sumir fara umsvifalaust að syngja.

Mynd: Zazzle.com

Hvernig hleður þú batteríin, hvert sækir þú orku og kraft til að lifa, til að iðka skáldskaparlistina?

Út í sveit, til útlanda, í annan texta, torræð söfn, skemmtilegt fólk. Ég veit ekki hvort þetta svarar báðum hlutum spurningarinnar. Ég gæti bætt við vondum sjónvarpsþáttum og löngum fjallastígum, eða kannski frekar löngum sjónvarpsþáttum og vondum fjallastígum. Ég sæki allavega ekki kraft í klukkuna.

Þú hefur nú skrifað í rúmlega 20 ár. Hvað hefur helst breyst í menningarlandslaginu síðan þú sendir frá þér fyrstu bókina, 1999? Hvernig sérðu framtíð skáldskaparins fyrir þér á Íslandi næstu 20 árin?

Það sem hefur helst breyst er að maður fær ekki lengur spurningar um hvort ljóðið sé dautt eða jafnvel hvort ljóðskáldið sé dautt, eins og var í tísku á tímabili. Nú er kraumandi stemmning í ljóðheimum, bæði yngri og eldri skáld að gera fullt spennandi.

Ef ég hugsa út í það er gaman að fá að vera með á sviði sem er svona teygjanlegt og tekur ekki mark á svartsýni. Það er nefnilega alltof oft sem tekst að tala hluti þannig niður að þeir hafa ekki lengur trú á sjálfum sér. Og já, næstu tuttugu verða æði.

Hvar ætlar þú að grípa niður næst í skáldskapnum? Streyma hugmyndir til þín? Eða eru þær lengi að gerjast? Skrifarðu á hverjum degi?

Ég reyni að hugsa á hverjum degi, svo er misjafnt hversu mikið af því ratar á blað. Kannski er best að segja að skrifin gangi í lotum. Á milli verkefna finnst mér ágætt að marínerast í öðrum heimum, til dæmis í þýðingum, ég er núna að dytta að ítalskri ljóðabók sem ég hefi nýverið þýtt, svo ég noti gamalt orðfæri. [Það er alltof fágætt að einhver segi hefi – það gerir allt svo hátíðlegt.] Svo hinkra ég eftir einhverjum sem nennir að gefa hana út.

Hvað liggur þér á hjarta - hver er tilgangur þinn með skrifunum, ef nokkur? Hvað viltu segja eða sýna lesendum þínum?

Það er svo margt sem mig langar að sýna og segja og finn ekki betri aðferð til þess en ljóð og þess lags skrif – svo margt sem varðar líðan manneskjunnar, aðstæður hennar, innra líf, sambúðina við skrokkinn, samkomulag við aðra, einsemd, ófarir og hvar á ég eiginlega að hætta hérna … Svo er talsvert af pólitík líka, en það er öðruvísi, ég er ekki aðdáandi bókmenntaverka sem boða rétttrúnað, það má hins vegar gera heilmikið með því að afhjúpa þversagnir eða benda á flækjur. Öðruvísi raddir. Mér finnst pólitík reyndar ómögulegt orð í samhengi við bókmenntir … hvað væri betra, sjónarhorn, sanngirni, samspil krafta, nei, ekki heldur … kannski bara fjöl-skylda, í merkingunni að það sé skylda manns að skoða hið fjölbreytta og fjölþætta.

Hryggdýr (2019) er ein af mínum uppáhaldsljóðabókum, skáldskapur þinn verður bara betri og betri. Hví?

Þetta þykir mér nú vænt um að heyra, æðislega vænt reyndar, því stundum finnst manni eins og maður sé nú bara að tala út yfir tóma mörkina – þess vegna er gaman að hitta á einhvern sem fylgist með skrefunum. Ég veit ekkert um hvort þetta eru framfarir, en einhver skref hlýtur maður að taka ef maður hefur úthald, lykillinn þar er líklega að hafa ekki of miklar áhyggjur af vinsældatölum, halda bara sínu striki og þá þumlungast þetta svona áfram. Mér finnst ég hafa ríkar skyldur við verkin og reyni að sinna þeim.

Tungumálið, þú hefur það algjörlega á valdi þínu, hvernig nærðu tökum á því? Pælir þú í sambandi valds og tungumáls, er það hlutverk skálds?

Ég hugsa ekki um vald og tungumál á meðan ég skrifa, nema að því leyti að mér finnst ég vera á valdi tungumálsins, það er sjórinn sem maður svamlar í. Og þótt ég búi til orð, þá er það að vissu leyti með leyfi tungumálsins, það leggur upp verkfærin. Mér finnst vera óútskýranlegt afl eða orka í móðurmálinu, ekki bara okkar máli, heldur hvers og eins, og jú, það er sannarlega dýnamík á báða bóga þegar því er beitt. Líklega er vald og texti ótæmandi umræðuefni, ekki síst fyrir fræðinga. Kannski liggja skuggar af því einhvers staðar í undirvitundinni.

Flugbeitt og hæðin er sagan sem gerist á Skrifstofu flóttamiðstöðvarinnar (84-5), hvað viltu segja okkur um hana? Brenna heimsmálin á þér? Loftslagsmál, flóttamenn, fasismi?

Ég vísa í það sem ég sagði áðan, að mér finnst skemmtilegra að koma bakdyramegin að slíkum efnum, en maður hlýtur alltaf að vera nátengdur því vistkerfi og samfélagi sem maður hrærist í hverju sinni, bæði hið ytra og innra.

Á hvaða tungumálum er dauðinn kvenkyns? Alveg er það mögnuð saga, á bls 136…

Ég get nefnt ítölsku, frönsku, spænsku, pólsku og króatísku, svona svo nokkur dæmi séu nefnd. Sjónarhorn og upplifanir geta verið ólík milli tungumála, það er gott að minna sig á það, og það er leyfilegt að lesa í það þá merkingu sem maður kýs. En vara sig um leið á því að telja að eitt sé betra en annað. Það er almennt séð hægt að læra mjög margt af hugmyndaheimi annarra – það setur annan blæ á svo marga hluti að ímynda sér að dauðinn sé kvenkyns. Og að skurðlæknar þrái að púsla. Og að fólk geti heitið Tungl.

 

Ljósmynd af Sigurbjörgu fengin frá Forlaginu

 

 

 

 

Tengt efni