SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir25. maí 2023

AÐ TÝNA TÖLUNNI. Um ELSKAN MÍN, ÉG DEY eftir Kristínu Ómarsdóttur

Kristín Ómarsdóttir. Elskan mín ég dey. Reykjavík: Mál og menning 1997

 

Á kvöldin er gott að sitja í rökkrinu með bræðrum sínum og tala um dauðann. Minnast hinna föllnu og fá sér heitt að drekka. Líta út um gluggann, annaðhvort á snjókomuna eða nætursólina, halda kannski út í garð, leggjast í lautina bakvið hús, horfa upp í loft og tala. Hver okkar verður næstur? (13).

 

Kristín Ómarsdóttir lýsti því yfir í viðtali að barnagælan Tíu litlir negrastrákar hafi verið henni innblástur við samninguna á skáldsögunni Elskan mín ég dey sem kom út árið 1997 og vakti verðskuldaða athygli. Eins og önnur verk Kristínar er þessi skáldsaga vissulega óvenjuleg þó að ekki séu uppi um hana eins skiptar skoðanir og á mörgum fyrri verkum þessa höfundar. Þótt ekki séu allir lesendur hrifnir af hinum frumlega eða „undarlega“ en fyrst og fremst persónulega stíl sem Kristín er þekkt fyrir virðist sem henni hafi tekist, í þessu verki, að hitta á einhvern tón sem heillar marga og hlaut hún fyrir verðlaun og verðlaunatilnefningar. Söguefni Kristínar hafa ekki síður þótt „undarleg“ en frásagnarháttur og stíll, að minnsta kosti í augum þess lesendahóps sem setur kröfuna um raunsæi ofar öllu. Sú krafa er krafna lífsseigust þegar bókmenntir eru annar vegar – hvað sem öllum straumum og stefnum líður – og er þá sjaldnast sett fram fylgikrafa um skilgreiningu á þessu loðna orði, raunsæi, enda líklega gjörsamlega óraunsætt að ætlast til að nokkur geti úrskýrt merkingu þess.

Varðandi „undarlegheitin“ í efniviði þessarar skáldsögu Kristínar er fyllsta ástæða til að gefa gaum að þeim textatengslum sem höfundurinn bendir okkur á og getið er um hér í upphafi. Er þessi barnagæla ekki í hæsta máta undarleg ef út í það er farið? Þar segir af tíu litlum drengjum sem týna tölunni einn af öðrum; deyja hver á fætur öðrum við mismunandi hugnanlegar og óhugnanlegar aðstæður, þar til aðeins einn er eftir til að ná sér í stelpu og hefjast handa við að fylla upp í töluna á ný. Þetta hafa foreldrar sungið yfir börnum sínum í áraraðir, flestir að ég hygg án þess að gefa mikinn gaum að innihaldi, boðskap eða áhrifum „gælunnar“ á ungviðið. Svipað ferli á sér stað í grundvallaratriðum í þessari skáldsögu Kristínar; sagan segir frá fjölskyldu einni, foreldrum og sex börnum þeirra sem smám saman týna tölunni þar til í sögulok að aðeins þrír yngstu bræðurnir eru eftir og lesandann grunar að tveir þeirra eigi jafnvel stutt eftir.

 

Ást, dauði og kynlíf

Í titli bókarinnar, Elskan mín ég dey, koma fram tveir helstu þræðirnir sem frásögnin spinnst af: ástin og dauðinn. Þetta er hin eilífa, næstum heilaga, tvennd skáldskaparins og ekki langt undan er þriðji þráðurinn – sem gerir þetta þá að heilagri þrenningu – sem nauðsynlegur er í þessa skáldskaparfléttu: kynlífið. (Benda má á að eins getur falist í titlinum vísun í kynlíf eða fullnæginguna sem oft er líkt við dauðann.) En það er hér, líkt og í öðrum verkum Kristínar Ómarsdóttur, engin venjuleg samfléttun þessara klassísku efnisþráða sem á sér stað í sögunni. Og ef út í það er farið er hér hvorki um „venjulega“ ást né „venjulegan“ dauða að ræða – og varla „venjulegt“ kynlíf. Enda væri slíkt kannski lítið frásagnarvert.

Í miðju frásagnarinnar er fjölskylda ein af landsbyggðinni: mamma, pabbi, tvær dætur og fjórir synir. Það er næstyngsti sonurinn, Högni, sem er sögumaður og segir hann lesandanum frá nokkrum afdrifaríkum síðsumarsdögum í lífi (og dauða) fjölskyldunnar þegar hann sjálfur var sextán ára. Þegar frásögn hans hefst hefur móðirin, Svanhvít, verið dáin í tíu ár, elsta systirin, Ólöf sáluga, í sex ár og Jóhanna, yngri systirin, hefur framið sjálfsmorð þá um nóttina. Eftir lifa. auk sögumanns. faðirinn, Árni, og bræðurnir Þórður, Einar og Máni. Sögusviðið er að mestu leyti bundið við heimili fjölskyldunnar og nánasta umhverfi þess en þó færist sjónarhornið upp til himna í nokkrum köflum, þar sem hinir látnu stytta sér stundirnar í himnaríki á ýmsan máta og fylgjast með því sem gerist á jörðu niðri. Frásögnin hefst á fallega saman settri málsgrein sem ber í sér kjarna allrar sögunnar: „Í heimi náttúrunnar greina menn sig frá trjám og blómum sem vaxa og dafna í hljóði og falla í þögn. En ef grannt er skoðað er vegur alls sem lifir kannski bara einn.“ Eftir kynningu á fjölskyldunni og lýsingu á samtali bræðranna, sem snýst um kynþroska, karlmennsku og kynlíf, er lík Jóhönnu systur þeirra borið í hús af björgunarsveitarmönnum sem fundu hana í fjöru: „Jóhanna var lögð á gamla verkfærabekkinn hans pabba. Plastið utan um hana flettist í sundur einsog eldhúsdúkur. Nakinn líkami hennar, skreyttur þara og sandi, birtist okkur einsog borðbúnaður og krásir“ (16). Bræðurnir hefjast handa við að „gera að“ líki systur sinnar og er því lýst í smáatriðum hvernig þeir þvo líkið, þurrka það og bera á það krem, greiða hárið, lakka neglur, mála andlitið, klæða það og skreyta með skartgripum. Þeir nostra við lík systur sinnar þar til hún er „ferðbúin“. Þótt þessi ítarlega lýsing hafi óhjákvæmilega gróteska drætti til að bera er hún í grundvallaratriðum ljóðræn og falleg. Slík blanda, það er blanda ljóðrænu og grótesku hefur reyndar einkennt ritstíl Kristínar Ómarsdóttur allt frá hennar fyrstu verkum. En í Elskan mín ég dey mætast ljóðrænan og gróteskan í hárfínu jafnvægi í tungumáli sem er í senn hrífandi og hrollvekjandi en fer aldrei yfir strikið. Það einkenni sem hvað oftast hefur verið bent á í stíl Kristínar, barnaleg beiting orða og setninga (naívismi) er greinilega víkjandi og við hefur tekið fágaðri og margslungnari beiting tungumálsins.

Ekki hafa bræðurnir fyrr komið líki systur sinnar fyrir í svefnpoka inni í stofu en Einar hefur upp raust sína: „Mig langar í kynlíf. Mig langar að finna lykt af gúmmíi og kynlífi. Ég hef ekki fengið þessa tilfinningu lengi, ég hélt að ég væri alveg búinn, endir, engin löngun eftir, ekki neitt, en núna vaknar það. Skrítið. Ég er átján ára“ (7). Hér verður návist dauðans nokkurs konar turn on og ítrekuð eru tengsl kynlífsins og dauðans, upphafsins og endisins, hringrásar lífsins:

 

„Ég mundi gera hvaðeina ófrískt núna afþví hvernig mér líður. Ég mundi gera grasið ófrískt. Ég mundi gera þig ófrískan,“ sagði Einar og horfði á mig. „Ég mundi gera ... eldgamla konu ófríska afþví það er eitthvað mjög mikið á seyði.“

  „Frjósemin og dauðinn haldast oft í hendur,“ sagði ég. (29)

 

Frjósemin er reyndar mjög afgerandi þáttur í dauða Jóhönnu því í ljós kemur að hún var ófrísk þegar hún fyrirfór sér og eins og hún útskýrir fyrir móður sinni á himnum þá virðist óttinn við að viðurkenna það fyrir pabba sínum hafa ráðið úrslitum um þá ákvörðun hennar að drekkja sér.

 

Pabbi og Jóhanna

Samband Jóhönnu og föðurins er flókið og frásögnin bæði gefur í skyn og dregur úr grun um sifjaspell. Jóhanna virðist bæði elska og óttast pabba sinn sem aftur virðist bæði hafa verið háður henni eins og barn og kúgað hana. Hann hefur til dæmis bannað henni að fara í ferðlög, hún hefur aldrei verið burtu af heimilinu yfir nótt áður en hún deyr nítján ára gömul. Hún virðist háð athygli hans, fyllist örvæntingu ef hann tekur ekki eftir henni og hælir henni (20) og þegar hún hefur samfarir við aðkomustrák á sumardaginn fyrsta (og verður barnshafandi) fyllist hún svo mikilli sektarkennd að hún leggur fæð á strákinn og finnst hún hafa svikið föður sinn:

 

Aldrei framar hitti hún elskhuga sinn. Ef það hefði gerst, ef hann hefði reynt að nálgast hana, hefði hún myrt hann [...] Jóhönnu þóttu þetta vera svik við pabba. Hún vildi ekki að pabbi þyrfti að horfa upp á ásigkomulag sitt og þegar svo var komið buðust engin ógrynni af lausnum. (68)

 

Ekki er liðinn nema rúmur sólarhringur frá dauða Jóhönnu þegar faðirinn bindur enda á líf sitt með því að gleypa banvænan skammt af pillum. Lýsingin á viðbrögðum Jóhönnu (á himnum) sýna glöggt hvernig frásögnin bæði gefur í skyn og afneitar sifjaspelli:

 

„Mamma,“ segir Jóhanna, „ég hefði ekki drepið mig hefði ég vitað að pabbi mundi herma eftir mér. Nú lætur hann líta út fyrir að um samantekin ráð hafi verið að ræða. Búandi til einhverja svaka ástarsögu um okkur. Hvað heldurðu að Hulda haldi? Auðvitað að við pabbi höfum verið saman þegar við drepum okkur með stuttu millibili og ég ófrísk? Mamma, finnst þér þetta ekki unfair?“ (77)

 

Er dóttirin hér að lýsa réttlátri reiði yfir hugsanlegum misskilningi eða er þetta tilraun hennar til að fela sannleikann fyrir mömmu? Samtal þeirra mæðgnanna heldur áfram í sama dúr og Jóhanna verður æ hysterískari og æstari yfir væntanlegri komu föður síns til himna: „Og ekki þori ég að hitta pabba nú fremur en fyrri daginn, ófrísk og svona. Þegar maður er óléttur vill maður vera í friði með mömmu sinni! En þá þarf hann að koma og skemma allt!“ (78). Síðar þegar hún ítrekar „afbrýðisemi“ pabba síns og óttann við viðbrögð hans yfir óléttunni og móðir hennar dregur orð hennar í efa, reiðist hún mömmu: „Þú hefur ekki verið heima í tíu ár. Þú veist ekkert hvernig þetta er búið að vera“ (82). Hér virðist ekki langsótt að álíta að dóttirin sé að reyna að segja móður sinni eitthvað um leið og hún reynir að hylma yfir það sama.

 

Pabbi og mamma

Lýsingin á föðurnum styður reyndar grun um eitthvað óeðlilegt í fari hans og háttalagi. Og ekki síst hvernig hjónabandi hans og Svanhvítar var háttað. Árna er lýst sem veiklunduðum en kúgandi föður. Hann stjórnar börnum sínum og annast heimilið „frá sófa sem stóð á milli borðstofunnar og stofunnar sem sneri að útidyrunum“ (7). Hann er nær alltaf sýndur í láréttri stellingu, liggjandi í sófanum undir hekluðu teppi, oftar en ekki hálfvolandi eða grátandi yfir dauða Jóhönnu eða eigin aumingjaskap. Vel er hægt að tala um umsnúning hefðar í lýsingunni á pabbanum, hann er hér í hefðbundinni, en ýktri, kvenlegri stöðu: útafliggjandi og aumur. Þetta kemur síðan enn betur í ljós borið saman við mynd móðurinnar, Svanhvítar, á himnum þar sem hún geislar af glæsileika og reisn:

 

Hún er hávaxnari en aðrir í salnum. Hún gengur reist með mjúkum axlahreyfingum í enda salarins, að eilífðardjúkboxinu. Allir gestir salarins líta upp og fylgjast með hverri hreyfingu hennar því í himnaríki hefur enginn annað eins göngulag og hún. [...] Efri hluti líkama hennar hreyfist kynþokkafullt með mjúkum hreyfingum neðri hlutans. [...] Svart hárið nær niður á mitti og er haldið aftur með silfurlitaðri spöng með hjartamynstri ... Augnlok hennar og augabrúnir eru kopargræn. Guð lokar augunum vegna þess að hann tárast. (80-81)

 

Athyglisverða mótmynd af föðurnum má sjá skömmu síðar í lýsingunni á líki hans sem synir hans hafa lokið við að leggja til og snyrta:

 

Það var ekki lélegt að sjá pabba í straujuðum náttfötum, í hreinum sokkum og nýjum inniskóm. Nýklipptan og náfölan með sínar eldrauðu varir. Hendurnar skreyttar gullhringjum svo glampaði á þá og lesgleraugun. Hann hafði yngst. Hann var orðinn einn af okkur. En það hafði hann alla tíð þráð. (85-86)

 

Faðirinn hefur umbreyst í náttfataklætt barn, með kvenlega drætti (með eldrauðar varir og skreyttur gullhringjum) á meðan móðirin heillar Guð svo með kynþokka sínum að hann tárast.

En móðirin hefur ekki alltaf verið jafn glæsileg og hún er á himnum. Á jörðu niðri lifði hún lífi sem hún sætti sig ekki við: sex barna móðir fyrir þrítugt, þunglynd húsmóðir bundin búi, bónda og börnum sem ekki fullnægðu lífsþrá hennar og bældum löngunum. Þessu lýsir hún best sjálf (eða rödd hennar af segulbandi) í lok bókarinnar: „Mig langar til að tala um löngu og dimmu eilífu regndagana þegar ég geng í hringina sem mér voru ætlaðir, úr forstofu fram í eldhús þaðan inn í stofu og aftur inn í eldhús á meðan stelpurnar berjast við regnið úti við dyrnar og skuggarnir fá óskir sínar uppfylltar“ (205). Skuggarnir tóku um síðir völdin í lífi móðurinnar sem endaði líf sitt í þorpi sem hún „festist í vegna greddu“ (100). Lýsing móðurinnar á sjálfri sér ungri minnir einna helst á lýsingu á frjósemisgyðju:

 

„Mér þótti ægilega gaman að fá náttúru og var þakklát Guði ...“

  Mamma gýtur augunum til dyranna bakvið barborðið.

  „... fyrir það. Ég var í himnasælu.“

[...] „Ég var stolt af líkama mínum [...] Ég naut hvers augnabliks þegar brjóst mín stækkuðu. Á hverjum degi þótti mér gaman að vakna afþví ég var komin með brjóst. Á daginn laumaðist ég tilþess að snerta þau. Kannski bara með olnboganum ef ég vann húsverk og rak síðan fingurna í geirvörturnar við og við. Ég hlakkaði til að skríða yfir tilvonandi mann minn og láta brjóstin strjúkast laust framan í hann. Og þrýsta þeim seinna að honum og biðja hann um að segja aftur og aftur hvað þau væru æðisleg. En hvað um það. Kynlíf breytir heiminum.“ (99)

 

Það er kynhvötin/greddan sem leiðir þau Árna og Svanhvíti saman: „Það leið ekki á löngu þar til í lífi mínu birtist strákur sem hafði sömu áhugamál og ég. Hann tignaði brjóst mín og í sameiningu tignuðum við þau“ (100). Svanhvít er aðeins sextán ára þegar hún „fylgdi eftir tilfinningum sínum eftir óljósum vegi sem seinna kom í ljós að var ekki vegur heldur síki“ (101).

Lýsingin á því hvernig hjónaband Svanhvítar og Árna fer í hundana er hrollvekjandi: hún leggst í rúmið á efri hæðinni, lokar að sér og étur pillur, hann leggst í sófann á neðri hæðinni og lokar skilningarvitunum. Vera má að hreinlætisæði bræðranna, sem er sí-ítrekað í gegnum alla frásögnina, sé afrakstur þess að horfa upp á móður sína liggjandi í eigin svita og saur eftir margra daga vímu. En hvað sem á gengur er það ljóst að það er alltaf faðirinn sem er veikari aðilinn og móðirin hefur töglin og hagldirnar í samskiptum þeirra: „Pabbi fór að brynna músum og mamma huggaði hann með söng. Svona var þetta og svona hefði þetta haldið áfram að vera ef mamma hefði ekki dáið“ (151).

 

Heimur strákanna

Þegar þessi bakgrunnur systkinanna sex hefur verið kynntur koma ýmis „undarlegheit“ í háttalagi þeirra og samskiptum minna á óvart en áður. Þar sem systurnar Ólöf og Jóhanna eru báðar dánar snemma í bókinni hnitast frásögnin að mestu leyti í kringum bræðurna og samskipti þeirra. Þeir eru á aldrinum 15 til 20 ára og mikið af hugsunum þeirra og samtölum snúast um kynlíf, eins og áður er fram komið, og ekki síður um kroppinn. Allir eru bræðurnir uppteknir af kroppnum á sér, á mismunandi hátt. Hinn elsti, Þórður, er stór og karlmannlegur og stoltur af loðinni bringu sinni. En þessi stælti og umhyggjusami ungi maður deyr (af óþekktri ástæðu) skömmu á eftir föður sínum og systur og líffæri hans eru tekin til brúks í aðra líkama. Síðasta myndin af Þórði sem dregin er upp í bókinni er af slöppum, líffæralausum búk hans sem hangir á öxlum tveggja af „vitringunum“.

Einar, sá næsti í röðinni, virðist haldinn kroppsfóbíu (sem kannski á rætur að rekja til vistar hans í sveittu og skítugu fangi móðurinnar sem læsti hann inni með sér í meira en sólarhring í einni vímunni) og á hugsanlega í vandræðum með að skilgreina kynhneigð sína. Hann rakar af sér nær öll líkamshárin og særir líkama sinn litlum skurðum og brunasárum. „Ég vil vera hreinn. Alveg stórkostlega hreinn. Hár eru sóðaleg“ (45), segir hann um leið og hann rakar á sér bringuna og upphugsar tæki til að pynta konur með kynferðislega. Einar virðist hafa þá áráttu að ganga um nakinn eða á nærbuxunum (sem pirrar Högna ósegjanlega) og vafamál er hvort hann laðast meira að Ingólfi, nýjum vini sínum, eða Margréti, hjúkrunarkonu sem hann segist vera orðinn ástfanginn af seint í sögu. Sú „ást“ virðist þó öllu fremur vera árátta til að gera konuna ófríska (sbr. greddu hans eftir að þeir bræður „gerðu að“ líki systur sinnar).

Máni, yngsti bróðirinn, er sá eini sem er kynferðislega virkur (svo um munar) á þeim dögum sem frásögnin nær yfir. Hann nær sér í kærustu, Huldu, þau eru meira og minna í samförum í nokkra daga þar til hann bindur hana og keflar í rúminu (af óútskýrðum ástæðum) og þar kafnar hún skömmu síðar. Hér er aftur kynlíf og dauði í órjúfanlegri einingu. Þetta hliðarplott er með því óhugnanlegasta í bókinni og maður veltir fyrir sér hvort í persónu Mána felist hinn hreinræktaði „sækópati“. (Hér má einnig hafa í huga framkomu hans við afgreiðslukonuna í sjoppunni undir lok sögunnar.) Vafalaust væri hægt að rekja siðblint og glæpsamlegt eðli Mána til hinnar fjarverandi móður og vanhæfa föður – ef maður væri á þeim buxunum.

Högni, sögumaðurinn sjálfur, er uppáhald móður sinnar sem reynir eins og hún getur að beita áhrifum sínum á himnum til þess að koma honum í framhaldsnám á jörðu! Högni er tilfinninganæmastur bræðranna, samkvæmt orðum móður hans, og hann er – líkt og þeir allir – afar upptekinn af því að halda sér hreinum (enda var það ein af óskum móður hans: „vertu hreinn og láttu engan bilbug á þér finna“ (53)). Ein leið til að túlka þessa sífelldu hreinlætisumræðu er að hún vísi til „óhreinindanna“ sem bræðurnir ólust upp við. Kropps-angist þeirra gæti einnig tengst þeim gruni um sifjaspell sem textinn vekur og rætt var hér að framan.

En Högni er líka von fjölskyldunnar. Hann er sá sem móðirin bindur von sína við, hann er sá sem lesandinn trúir að muni lifa af – grunur um endalok Einars og Mána er sterkur – hann er sá af „negrastráknum tíu“ sem hlýtur að ná sér í stelpu og stækka fjölskylduna á ný. Enda lýkur bókinni á því að sápukúla frá himnum nálgast hann í þann mund sem hann er að sofna og slík himnasending hefur mikla gæfu í för með sér fyrir þann sem fyrir verður „sérstaklega ef það gerist á meðan sá heppni sefur“ (181).

Bræðurnir velta að sjálfsögðu einnig fyrir sér líkama stelpna og viðhorfum þeirra til stráka og kynlífs. Ég bendi til dæmis á umræðuna um stelpur, kynlíf og hreinlæti á blaðsíðu 30 og skemmtilega umræðu er að finna um lík og líkama á blaðsíðum 172 og 173 þar sem renna saman í eina heild dauðinn og æxlunin, tíðablóð kvenna og blóð úr bringusári karlmanns.

 

Leiðarstef og lokaorð

Ég hef hér að ofan reynt að lýsa í grófum dráttum þeim meginmunstrum sem Kristín Ómarsdóttir dregur upp í flókinni úrvinnslu á klassískum söguefnum: ástinni, dauðanum og kynlífinu. Kristín segir á fagran, ljóðrænan máta sögu með hrollvekjandi undirtóni. Þetta er saga af fjölskyldu sem hefur beðið sálrænt og tilfinningalegt skipbrot og afleiðingar þess afhjúpast smám saman í rás frásagnarinnar. En þetta er ekki eina saga bókarinnar, í henni eru nefnilega margar vistarverur sem hver um sig býður upp á langa greiningu. Ég hef til að mynda ekkert rætt hið athyglisverða himnaríki sem lýst er í bókinni en sé sú himnavist sem okkar bíður eitthvað lík því sem þar er lýst er engu að kvíða.

Þótt þessum söguþræði sem ég hef gert að umtalsefni (og vel má kalla aðalsöguþráð bókarinnar) sé miðlað í gegnum hefðbundinn sögumann sem segir frá í fyrstu persónu er frásögnin að öðru leyti fráleitt hefðbundin – enda hefði þá verið um meiri háttar breytingu hjá þessum höfundi að ræða. Bókin er samsett af fjölmörgum köflum og kaflabrotum og þótt sjónarhornið sé að mestu leyti hjá Högna er frásögn hans oft rofin. Í slíkum rofum fá aðrar persónur orðið, á himni og jörðu. Við fáum til að mynda texta sem kominn er úr skáldsögu skrifandi engils; við fáum að heyra rödd móðurinnar af segulbandi sem systurnar tóku upp áður en hún dó, o.s.frv. Hver kafli og hvert kaflabrot hefur fyrirsögn sem lesandinn getur ráðið í og látið víkka út merkingarsvið textans ef svo býður við að horfa. Fyrirsagnirnar eru kapítuli útaf fyrir sig og það sama má segja um ótal orðatiltæki, setningar og klisjur um dauðann sem finna má í gegnum alla frásögnina. Þannig er sífellt í frásögninni ítrekað grundvallarþema hennar: „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska.“ „Eins dauði er annars brauð.“ „Tíminn græðir öll sár.“ „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“ Slíkum setningum er stráð um textann og einnig má benda á „grafskriftirnar“ sem bræðurnir finna upp á til að setja á legsteina hinna ýmsu fjölskyldumeðlima, dauðra og lifandi. Segja má að slíkar setningar sem tengjast dauðanum á einn eða annan hátt séu í hlutverki leiðarstefs sögunnar, spunnið út úr titlinum Elskan mín ég dey. Þessi skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur er endalaus brunnur hugleiðinga og pælinga, svo er efniviður hennar ríkur og djúpur. Síðast en ekki síst er ástæða til að ítreka hversu mikla lestrarnautn má hafa af þessum texta því aldrei áður hefur Kristín sýnt slík tök á skáldskaparmáli sem hún gerir í þessari bók.

 

Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 2. hefti 1998

 

 

 

 

Tengt efni