„ENN ÓÞOLANLEGRI EN SAMKYNHNEIGT PAR“ - Um Unga manninn eftir Annie Ernaux
Ernaux, Annie. Ungi maðurinn. (Rut Ingólfsdóttir þýddi). Ugla. 2023, 31 bls.
Ungi maðurinn eftir Nóbelsverðlaunahafann Annie Ernaux heitir Le Jeune homme á frummálinu en hefur nú komið út í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur. Þetta er önnur bókin eftir Annie Ernaux sem kemur út á íslensku en sú fyrri er Staðurinn sem kom út í fyrra og einnig í þýðingu Rutar.
Ungi maðurinn kom út í fyrravor í Frakklandi. Sagan er stutt, aðeins 31 blaðsíða, svo að vel má segja að um smásögu sé að ræða en ekki er hún verri fyrir það. Nokkrar blaðsíður eru prýddar svarthvítum myndum af höfundi frá sögutímanum en sagan gerist á árunum 1998-2000.
Annie skrifar söguna árið sem hún kemur út, þ.e. í fyrra. Hún er fædd árið 1940 og er því rúmlega áttræð kona að rifja upp tíma þegar hún er tæplega sextug en þar hugsar hún aftur til þess er hún var enn yngri, allt aftur til unglingsára. Ástæðan er sú að hún á í ástarsambandi við mann sem er þrjátíu árum yngri en hún, eða eins og hún orðar það á einum stað í sögunni: „Með honum fór ég í gegnum öll aldursskeið lífsins, lífs míns.“ (bls. 17)
Annie upplifir sig unga í sambandi sínu við unga manninn, sem hún kallar A., og það rennur upp fyrir henni að það sé það eftirsóknarverða við samband við sér yngri maka, í stað þess að vera með fyrir augunum markerað andlit manns á hennar aldri sem væri stöðug áminning um hennar eigin öldrun. (bls. 22)
Parið þarf þó að mæta fordómum fólks en Annie segir augnatillit vanþóknunar hafa styrkt hana í því að fela ekki samband hennar við A. þar sem „hvaða fimmtugur karl sem er gæti sýnt sig, án þess að vekja nokkra vanþóknun, með einhverri sem greinilega var ekki dóttir hans.“ (bls. 22) Almenn viðhorf samfélagsins eru þó önnur og þegar þau finna öll augu á sér í einni gönguferðinni bendir A. henni á að þau séu „enn óþolanlegri en samkynhneigt par.“ Annie finnur þó ekki til neinnar smánar. (bls. 25)
Undir lokin eru Annie og A. á veitingastað í Madrid og þar hljómar lag sem minnir hana á afdrifaríkan atburð sem gerðist árið 1963 þegar bæði hún og þáverandi ástmaður hennar voru á svipuðum aldri og A. er núna. Hún kemst að raun um að lagið gæti aldrei haft neina aðra merkingu og þó svo að hún heyrði lagið síðar og myndi þá eftir matstaðnum með A. á móti sér myndi sú stund aldrei hafa neitt vægi annað en að „vera umgerð heiftarlegrar minningar.“ (bls. 29) Annie finnst hún tæplega geta safnað saman meiri lífsreynslu og árum án þess að finna fyrir nokkru öðru en endurtekningunni sjálfri.
Í kjölfarið er líkt og eitthvað leysist úr læðingi og Annie nær bæði að ljúka bók sem hún er með í skrifum og að slíta sambandinu við A. Hún nýtur þess að vera ein og frjáls, að skríða inn í 21. öld og á sjötugsaldurinn.
Á bakhlið bókarinnar Ungi maðurinn segir að sagan hafi vakið mikla athygli þegar hún kom út í Frakklandi og þykir hún geyma lykilinn að höfundarverki Annie Ernaux. Sagan er líka allrar athygli verð enda djúpvitur, einlæg og frökk.
Myndin af Annie Ernaux er fengin af heimasíðu hennar.