SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir30. nóvember 2023

MIKILVÆGT AÐ VERNDA GÖMUL HÚS

Auður Þórhallsdóttir. Miðbæjarrottan: Húsin í bænum Reykjavík: Skriða 2023

 

Út er komin framhaldssaga um Rannveigu miðbæjarrottu eftir Auði Þórhallsdóttur. Sagan heitir Húsin í bænum. Bókaútgáfan Skriða á Patreksfirði gefur bókina út. Auður semur textann og teiknar myndirnar.

Auður hefur skrifað og myndlýst nokkrar barnabækur. Fyrsta bók hennar um Rannveigu, Miðbæjarrottan: borgarsaga, fjallar um leit hennar að frænku sinni en er jafnframt fróðlegt ferðalag um styttur Reykjavíkur með femínískum undirtón.

Í fyrra kom út önnur bók um Rannveigu: Þetta kemur allt með kalda vatninu, en þar er rakin saga vatns og skólps í borginni. Sagt er frá vatnsberum og brunnum, þvottakonum, koppum og kömrum og frá rottunum sem lifa sínu lífi í felum í undirheimum.

Í nýju bókinni, Húsin í bænum, er ýmsar mýtur afbyggðar, s.s. að sveitalíf sé fegurra en borgarlíf og að kettir og rottur séu óvinir. Rannveig og rottuvinkonur hennar þekkja borgina út og inn og leiða Fjalar, hinn fúla fjóskött, í allan sannleika um sögu og fegurð húsanna í Reykjavík. Sagt er m.a. frá Fálkahúsinu, Alþingisgarðinum og Listasafni Einars Jónssonar með nýju og skemmtilegu sjónarhorni. Teikningar Auðar eru bæði líflegar og sniðugar. Eftir kynnisferð með rottunum sér Fjalar nú borgarlandslagið og húsin í bænum í nýju ljósi. Í bókinni er kort sem sýnir leiðir á þá staði sem nefndir eru í bókinni.

Þetta er fræðandi saga með skemmtilegum myndum og léttum húmor og hentar vel fyrir stálpaða lesendur. Boðskapurinn er alveg skýr og kemur fram í hugleiðingum í bókarlok: mikilvægt er að vernda gömul hús til að sjá og skilja sögu okkar og menningu.

 

Tengt efni