SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. desember 2023

TÝNDAR DÆTUR – OG MÆÐUR

Hanna Óladóttir. Bakland. Mál og menning 2023.

 

Í þriðju ljóðabók Hönnu Óladóttur, Baklandi, hittir lesandinn fyrir þrjár Maríur: Kristínu Maríu, Maríu Esperönzu og Maríu Karítas. Þær koma úr mismunandi aðstæðum og eiga ólíka fortíð að baki en allar eiga þær dætur sem hafa leiðst út í fíkniefnaneyslu og eru í lífshættu; hafa gengið:

 

inn
í frumskóginn
 
forvitnar
um leyndardóma hans
 

eins og lýst er í ljóðinu „áhætta“. Stúlkurnar „klappa rándýrunum / leyfa þeim / að narta í sig // fara inn í myrkviðinn // heillaðar // alveg sama / þótt þær rati ekki / til baka“. En mæðrunum er ekki sama, þær vilja bjarga dætrum sínum úr myrkviðunum og gegnum það markmið kynnast þær, nauðugar:

 

 
þrjár Maríur
 
höfum í upphafi
ímugust hver á annarri
 
snýst seinna yfir í fáleika
 
neyðumst loks
til að játast
örlögunum

 

Í öðru ljóði lýsir ein þeirra stöðunni þannig: „sit nú uppi / með þessar mæður / sem ég á ekkert / sameiginlegt með / nema það augljósa“.

Baklandi er skipt niður í fjóra númeraða hluta en á undan fyrsta hluta fara fjögur ljóð þar sem aðstæður eru kynntar á knappan hátt, til að mynda í titilljóðinu:

 

þau finnast
illa til reika
 
ekki öll
opinberlega týnd
 
sum
hlaupa
í hlýjan faðm
skelfingu lostinna foreldra
 
önnur
fá ekki
einu sinni
kaldar kveðjur

 

Í fyrstu þremur hlutunum er lesandinn kynntur fyrir mæðrunum og fortíð hverrar og einnar. Fyrst er ort um Kristínu Maríu sem hefur alist upp við óöryggi, vanrækslu og drykkjuskap. Ljóðið „hátíð barnanna“ kristallar þetta á óvægin hátt þegar lítil stúlka hlustar „á jólin / hringd inn / í skreytta / stofuna / teygaði angan / steikurinnar / [drekkur í sig] / glitrandi jólaljósin“, þar sem hún situr „úti í rólu / nágrannans / berfætt / í skónum og / alltof / litlum / sparikjól“ og lætur sig dreyma „um gleðileg jól“. Kristín Marja er einstæð móðir Veru sem er ein af týndu börnunum.

Annar hluti segir frá Maríu Esperönzu sem er einstæð móðir í nýju landi; var „kona / á flótta / undan // fátækt / ofbeldi / fordómum“ sem reynist vera þrenning sem hún hittir aftur fyrir í nýja landinu. Hér yrkir Hanna meðal annars um fordóma og útlendingaandúð á Íslandi og um kvenfyrirlitningu og kúgun í fjarlægu kaþólsku landi. Brugðið er upp myndum af misbeitingu valds í báðum löndum, sem alltaf er óþolandi hvort sem það er vald sem felst í því að hafa „stimpilforráð // með örlög fólks / í hendi sér“ eða vald sem felst í líkamlegum yfirburðum og hrottaskap. Í ljóðinu „sjálfsmynd“ lýsir María Esperanza stöðu sinni í nýju landi og nýju tungumáli og spyr:

 

hvað varð um hæfileikana
menntunina
kímnigáfuna
 
hvað varð um mig?
 
ég er týnd í
framburði
beygingum
setningaskipan
 
löngum samsettum orðum

 

Dóttir hennar, Díana, er ekki síður týnd í nýju landi þar sem hún kærir sig ekki um að vera, vill ekki læra málið, eignast enga vini og ásakar móður sína „á hverjum degi“ – líkt og hún sjálf.

Í þriðja hluta hittum við fyrir mömmu Freyju, „hrokafulla lögfræðinginn“ Maríu Karítas. Hún „gerði allt rétt / giftist æskuástinni / menntaði [sig] / byggði upp starfsframa / varð sjálfstæð“ og þegar óskabarið fæddist var „lífið fullkomið“. En „hvað gerðist svo?“ Eiginmaðurinn fékk sér „yngra módel“ og þegar Freyja er unglingur stendur móðirin „stjörf / á miðju stofugólfinu“, horfir á fréttir um hörmungar í heimsmálum og meðtekur „fjórðu frétt“, sína eigin „stórfrétt“: „faraldur í neyslu / aldrei fleiri barna leitað“.

Ljóðin í Baklandi sýna að börn í neyslu koma úr ólíkum aðstæðum, frá mismunandi heimilum og enginn er óhultur fyrir vá fíkniefnanna. Hér eru dregnar upp áhrifaríkar myndir af örvæntingu mæðranna sem glíma við þennan vágest um leið og þær glíma við sjálfsásökun og sektarkennd um leið og þær reyna að halda andlitinu og standast óraunhæfar kröfur sem samfélagið gerir til kvenna og mæðra. Þegar mæðurnar hittast af tilviljun í matvörubúðum, á lögreglustöðinni, á sjúkrahúsum, líður þeim illa og álykta að þær eigi „ekkert / sameiginlegt […] / nema það augljósa“. Það kemur þó að því að þær fara saman á kaffihús:

 

allar í vörn
fullar ásökunar
reiði
í garð
hver annarrar
dætra okkar
dætra hinna
sjálfra okkar
kerfisins
óréttlæti heimsins

 

Í fjórða og síðasta hluta bókarinnar er athyglinni beint að dætrunum og þar er meðal annars að finna þrjú af bestu ljóðum bókarinnar sem sett eru fram í formi fréttatilkynninga þar sem lýst er eftir stúlkunum þremur. Öll hefjast ljóðin á orðunum „lýst er eftir“, síðan kemur útlitslýsing og þessi fyrri hluti ljóðanna ætti að vera flestum kunnugur úr fréttum. En í síðari hluta ljóðanna er frábær snúningur á þurrlegum tilkynningum þar sem persónuleika og áhugamálum hverrar stúlku er lýst á eftir setningunni: „þau sem geta gefið upplýsingar um hana / ættu að hafa í huga að:

 

Freyja er mjög músíkölsk
lærði í mörg ár á fiðlu
stundaði ballett
er nokkuð góður teiknari
ágætur námsmaður
er þrjósk og full af mótþróa
 
[Díana] er salsadansari
syngur eins og engill
finnst gaman að elda
elskar dýr og átti einu sinni hundinn Míó
saknar vina sinna
tungumálsins
tónlistarinnar
veðráttunnar
er hvatvís orkubolti
 
Vera var lestrarhestur
æfði sund
passaði börn
var hlédræg en glöð
hafði áhyggjur af náttúrunni
er einræn og kvíðafull
eftir áralangt einelti

 

Öll enda þessi ljóð á orðunum „er reið / er týnd“.

Í lokahlutanum er einnig ort um móðurástina, sem „vellur“, „kraumar“ og „brýst fram“ og baráttuþrekið sem gerir mæðurnar að „valkyrjum í vígahug“, eins og lýst er á frábæran hátt í ljóðinu „norður-valkyrjan“. Björgun dætranna er fyrir öllu og í lokaljóði bókarinnar er því lýst hvernig mæðurnar fara í hús og finna þær „liggjandi / hreyfingarlausar / í skítugu fleti // þrjá granna líkama“. Í ljóðinu „kannski“ er velt upp þeirri spurningu hvort mæðurnar verði áfram í sambandi „þegar öllu þessu er lokið“ og neyðin tengir þær ekki lengur saman.

Bakland segir áhrifaríka sögu og efninu er komið til skila á hugvitsamlegan hátt. Ljóðmál Hönnu Óladóttur er skýrt og vafningalaust, hún notar ekki flókið myndmál heldur yrkir á einföldu og skýru máli. Bakland er þriðja ljóðabók hennar, 2019 gaf hún út Stökkbrigði og 2021 Kona fer í gönguferð. Allar bækur Hönnu eiga rætur í sjálfsævisögulegri reynslu sem hún miðlar á hreinskilin og áhrifaríkan hátt.

 

Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði, 2023.

Tengt efni