SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. apríl 2024

HAMFARIR Í BÓKMENNTUM OG LISTUM: FYRSTA HULDURITIÐ

Auður Aðalsteinsdóttir, Hamfarir í bókmenntum og listum, Reykjavík: Háskólaútgáfan, Hulda – Náttúruhugvísindasetur 2023, 329 bls.

 

Rétt fyrir síðustu jól kom út fræðiritið Hamfarir í bókmenntum og listum eftir Auði Aðalsteinsdóttur bókmenntafræðing. Bókin er sú fyrsta í nýrri röð fræðirita sem hefur yfirskriftina Huldurit. Að ritröðinni stendur náttúruhugvísindasetrið Hulda, sem er rannsóknasetur Háskóla Íslands sem nýlega var hleypt af stokkunum í Mývatnssveit, og Svartárkot menning og náttúra, sem er alþjóðlegt rannsókna- og fræðslusetur í Svartárkoti í Bárðardal. Þessi tvö setur hafa skapað sér samstarfsvettvang þar sem „brýr og brúarsmíði [eru] í fyrirrúmi, ekki aðeins milli fræðigreina heldur einnig milli fræða og almennings með áherslu á samtal og samvinnu“, eins og fram kemur í formála bókarinnar (9).

Það kann að vera að orðið „náttúruhugvísindi“ láti ókunnuglega í eyrum einhverra hlustenda en hér er verið að tala um rannsóknasvið sem er í örum vexti og felur í sér „að stundaðar eru hugvísindalega rannsóknar á náttúrunni, svo sem á sviði heimspeki, bókmennta, sögu og menningarfræði, þar sem þverfagleg samvinna við náttúru- og félagsvísindi er höfð að leiðarljósi“ (10). Í formála er vísað í orð rithöfundarins Siri Hustvedt sem „er ein þeirra sem reynt hefur að brúa bilið milli hinna ýmsu sviða tilverunnar, ekki síst „gjá gagnkvæms skilningsleysis“ sem oft er talin vera milli náttúruvísindafólks og bókmenntafólks“ (8).

Fullyrða má að drifkrafturinn á bak við þetta fræðasvið sé sú umhverfisvá sem steðjar að íbúum jarðar í kjölfar hamfarahlýnunar; sú staðreynd að mannkynið hefur með lifnaðarháttum sínum og ekki síst kapítalisminn með vægðarlausum iðnaði og fíkn í gróða sett svo mikið mark á lífríkið að vandséð er hvernig vinda megi ofan af afleiðingum þess. Í því sambandi er talað um „mannöld (e. Anthropocene), þ.e. jarðskeið þar sem maðurinn er orðið það afl sem hefur mest áhrif á náttúru Jarðar“ (17).

Í inngangi bókar sinnar skrifar Auður: „Því miður virðist maðurinn sem jarðsögulegt afl stefna helst í þá átt að tortíma sjálfum sér. Ein tilraun til að spyrna gegn þeim örlögum er að færa manninn úr miðju heimsmyndarinnar svo við verðum meðvitaðri um stóra samhengið“ (17). Sjá má ýmsar vísbendingar um slíkar tilfærslur meðal almennings, ekki síst yngri kynslóða, svo sem aukin áhersla á náttúruvernd, dýravernd og grænmetisfæði, svo fátt eitt sé nefnt. En það er líka staðreynd að almenningur má sín lítils gagnvart auðhringjum og stórfyrirtækjum og sá vanmáttur kemur mjög skýrt fram í bókmenntum þar sem tekist er á við þessi mál út frá fjölbreytilegum sjónarhornum.

Auður Aðalsteinsdóttir skrifar í inngangi bókarinnar: „Í nútímabókmenntum nota höfundar eyðileggingaröfl af ýmsu tagi til að skapa aðstæður til að kanna mannseðlið og möguleika mannkyns á annars konar veruleika. Hvernig bregðast manneskjur til dæmis við yfirvofandi útrýmingu mannkyns? Og hvers konar samfélag væri hægt að byggja á rústum okkar siðmenningar?“ (13) og síðar bendir hún að hamfarir séu „gjarnan notaðar til að marka vendipunkt í sögufléttu. Náttúruhamfarir eru þó oftar notaðar á táknrænan hátt í skáldskap, til að endurspegla og undirstrika ýmiss konar sálfræðilegt og samfélagslegt tráma“ (14) og bendir Auður í framhaldinu á skáldsöguna Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir eftir Sigríði Hagalín sem kom út 2020.

Auður skiptir bókinni í þrjá meginkafla sem hafa yfirskriftirnar: MÓÐUHARÐINDI SAMTÍMANS, ÓRÉTTLÆTI VALDSINS og PÓSTHÚMANÍSKIR DRAUMAR og vísa kaflaheitin í þá þrjá meginþræði sem hún greinir á þessu bókmennta- og fræðasviði. Á undan köflunum þremur fer ítarlegur og efnismikill inngangur þar sem Auður gerir grein fyrir helstu kenningum og áherslum í fræðunum. Inngangurinn gæti kannski reynst lesendum seigur undir tönn því þar er farið um nokkuð víðan völl og margir fræðimenn nefndir til sögu. Auður nefndi sjálf í viðtali hér á rás 1 að fræðasviðið væri í örum vexti; að það væru sífellt að koma út nýjar og nýjar bækur og henni hefði því verið nokkur vandi á höndum þegar kom að því að takmarka efni bókarinnar og sjást þess merki í innganginum. Þeim lesendum sem vilja ná utan um þessi fræði ráðlegg ég að endurlesa innganginn þegar þeir hafa lesið meginkaflana þrjá. Ég hygg að flestir geti lesið meginkaflana sér til gagns og gamans því þar eru mörg nýleg íslensk bókmenntaverk tekin til skoðunar og þau greind með aðferðum vistrýni, auk þess sem Auður greinir íslensk myndlistarverk sem tengjast þessari umræðu með einum eða öðrum hætti.

Í fyrsta kaflanum, MÓÐUHARÐINDUM SAMTÍMANS, er meðal annars fjallað um samband náttúruhamfara og áfalla og litið til hamfara á borð við snjóflóð, aurskriður og eldgos og vísað til bæði bókmenntaverka og kvikmynda. Hér eru til dæmis nefnd verk eftir Vigdísi Grímsdóttur, Gyrði Elíasson, Svövu Jakobsdóttur, Jónas Reyni Gunnarsson, Ófeig Sigurðsson, Eirík Guðmundsson, Sölva Björn Sigurðsson, Rögnu Sigurðardóttur, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Hauk Ingvarsson og Bergsvein Birgisson. Ég nefni þessi nöfn til að draga fram að umræða Auðar Aðalsteinsdóttur tengist fyrst og fremst samtímaverkum, sem er fremur sjaldgæft að sjá í fræðiritum á sviði bókmennta því flestir fræðimenn kjósa meiri fjarlægð á viðfangsefni sín. Að mínu mati er þetta hins vegar einn af helstu kostum bókar Auðar, hvernig umræðan snýst um bókmenntir dagsins í dag, þótt líka verði að taka fram að hún tengir við eldri bókmenntir og túlkar þær í ljósi nýrra fræða.

Kaflinn MÓÐUHARÐINDI SAMTÍMANS skiptist í fjóra hluta þar sem rýnt er í tiltekið viðfangsefni í hverjum hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um tengsl manna við tré og skóga og þar eru ýmis skrif Gyrðis Elíassonar í brennidepli, auk skáldsögu Jónasar Reynis Gunnarssonar, Dauði skógar (2020). Annar hluti hefur yfirskriftina „Að sjá ekki út úr augunum“ og þar er rýnt í bókmenntaverk sem sum hver hafa sterk tengsl við Hrunið og eiga það sameiginlegt að „blinda, öskumökkur eða þoka“ koma við sögu. Hér tekur Auður líka til greiningar sjónvarpsþáttaröðina Kötlu, eftir Sigurjón Kjartansson og Baltasar Kormák, og sú greining heldur áfram í þriðja hluta þar sem fjallað er um „vistuppvakninga“. Síðasti hluti kaflans fjallar um áfallatungumál og vikið hvorutveggja að einstaklingsáföllum og sameiginlegum menningarlegum áföllum.

Í öðrum kafla, ÓRÉTTLÆTI VALDSINS, er fjallað um greiningu á rótum margþætts umhverfisvanda samtímans eins og hann birtist í bókmenntum og myndlist. Þar beinast spjótin að samtvinnuðum óréttlátum valdakerfum eins og nýlendustefnu, kapítalisma, feðraveldi og tegundarhyggju. Hér eru m.a. tekin til umfjöllunar verk eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, Bergsvein Birgisson, Svövu Jakobsdóttur og Hauk Ingvarsson. Kynntar eru til sögunnar spennandi fræðikenningar, eins og reyndar er gert í gegnum alla bókina, og koma við sögu vofufræði, vistfemíniskar gyðjur og hinsegin fantasíur – svo fátt eitt sé nefnt.

Þriðji og síðasti kaflinn ber, eins og áður sagi yfirskriftina PÓSTHÚMANÍSKIR DRAUMAR og þar er greining á myndlist fyrirferðameiri en í fyrri köflunum. Auður grein þar verk eftir Önnu Jóa, Hrafnhildi Arnardóttur, Þórdísi Aðalsteinsdóttur, Siggu Björg og Þóru Pétursdóttur og tengir við fræðin, sem og við bókmenntaverk.

Í lokaorðum sínum veltir Auður fyrir sér hvernig fræðimenn, listamenn og rithöfundar geti horft á þennan nýja veruleika sem við stöndum frammi fyrir á tímum hamfarahlýnunar. Þetta er mjög áhugaverður lokakafli, ekki síst því að í honum heldur Auður á lofti „fagurfræði margbreytileikans“. Hún bendir á að grundvallarlögmál vistkerfa sé líffræðilegur fjölbreytileiki og leggur til að við lítum á vistkerfi bókmennta út frá því sjónarmiði. Í því felst að í stað þess að einblína á hvað er best og stærst og mest, í staðinn fyrir að einblína á stigveldi í bókmennta- og listumfjöllun, ættum við fremur að spá í fjölbreytileika og tengingar á milli verka. Við mættum hafa í huga að samspil og víxlhæði hins stærsta og hins minnsta er flókið og breytilegt. Í vistkerfinu skipa allir þættir máli, allt þrífst í samvinnu og samspili. Þetta er róttæk sýn á bókmennta- og listumfjöllun og allrar athygli verð.

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, 26. mars 2024

 

Tengt efni