SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir10. október 2024

HINSEGIN SÝNILEIKI - Um Ljósbrot

Skáldsagan Ljósbrot hittir vel á lesendur nú þegar nýbúið er að kjósa forseta Íslands því hún fjallar öðrum þræði um forsetaframboð. En höfundur hefur sagt í viðtali að hugmyndin að bókinni hafi kviknað löngu fyrir forsetakosningarnar sl sumar. Og meginþemað er samkynhneigðar ástir. Samnefnd bíómynd sem verið er að sýna þessa dagana tengist bókinni ekkert!

Önnur aðalpersóna bókarinnar er Kolbrún sem fer í framboðsslag. Hún er frama- og fjölskyldukona með stóra drauma en tilveran snýst á hvolf þegar hún verður skyndilega hugfangin af konu og stefnir þar með öllu í voða. Hin aðalpersónan er Dóra sem elst upp við drykkju föður síns og fálæti móðurinnar og leitar huggunar hjá bestu vinkonunni en brátt kviknar ást á milli þeirra tveggja - ást sem Dóra er hvorki tilbúin til að gangast við né opinbera. Það er óvenjulegt við bókina Ljósbrot að ástir aðalpersónanna eru lesbískar. Ekki veitir af að sýna þannig söguheim líka í íslenskum bókmenntum - þar sem fyndni homminn og trukkalessan eru víðast heldur einsleitar persónur í aukahlutverkum. Það vantar tillfinnanlega meira af fjölbreytileika, ást og umburðarlyndi í þennan heim.

Sagan rennur vel og er þægileg aflestrar, sjónarhornið er til skiptis hjá Kolbrúnu og Dóru sem báðar standa í ströngu.  Sviðsetningar sem snúast um brasið við framboðið eru sannfærandi, teymið í kringum Kolbrúnu er á fullu að framleiða auglýsingar og hanna ímynd til að veiða atkvæði.  Katla heitir konan sem heillar Kolbrúnu. Hún sér um samfélagsmiðlana í framboðsteyminu, löngu komin út, hvílir sátt í sínu skinni. Orka og sjálfsöryggi geisla af henni. Orð hennar endurspegla skynsemi og fordómaleysi:

„Það besta sem ég hef gert var að koma út og ég myndi aldrei breyta því. Ég elska að vera lesbía,“ bætti hún við og brosið færðist yfir andlitið. Það var eitthvað við þetta orð sem sló Kolbrúnu út af laginu. Lesbía. Hún vissi að það var ekki skammaryrði og að það ætti ekki að vekja hjá henni nein sérstök viðbrögð. En hún gat ekki varist þeirri tilfinningu. Eins og þetta orð hefði einhverja stærri og meiri merkingu en flest önnur orð. Að minnsta kosti þegar það kom af vörum Kötlu.“ (69).

Sagan af Dóru og afneitun hennar á eigin tilfinningum er sögð af nærfærni og skilningi á feluleik og togstreitu við að koma út úr skápnum með tilfinningar sínar og kynhneigð. Það er mikið frelsi fólgið í því að hætta feluleik og sjálfshatri og losna við skömmina en það er stórt skref og ekki auðvelt. Unglingar t.d. ættu að geta haft mikið gagn af sögunni og speglað sig í aðstæðum.

„Dóra fann hvernig kökkur fór að myndast í hálsinum. Hún vildi að sjálfsögðu líka vera með Önnu. Tilfinningarnar sem hún fann voru ólíkar öllu sem hún hafði fundið áður. Svona átti henni að líða. En hún vissi samt að þetta væri rangt. Að minnsta kosti fyrir sumum. Þar á meðal foreldrum hennar. Hún hafði heyrt niðrandi tal um samkynhneigða heima hjá sér frá því hún mundi eftir sér. Hún hafði eflaust látið slík orð falla á einhverjum tímapunkti og í því fólst kannski mesta skömmin. Hún samsamaði sig heldur ekki með neinum samkynhneigðum konum. Konum sem voru lesbíur. Henni fannst orðið nánast skítugt. En Önnu virtist ekki líða eins. Hún virtist ekki vitund hrædd við að fólk vissi af þeim tveimur“ (112).

Ingileif Friðriksdóttir hefur áður sent frá sér barnabækur ásamt konu sinni um Úlf og Ylfu. Hún hlaut Uppreisnarverðlaunin 2023 fyrir að auka sýnileika hinsegin fólks í samfélaginu.. Það gerir hún svo sannarlega með þessari bók og því ber að fagna. 

 

 

Tengt efni