SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. september 2024

BULLANDI KALDHÆÐIN SÝN Á ÁSTINA - Um Kópavogskróniku

Bók um líf og hugsanagang dagdrekkandi menntaskóladroppáts, misheppnaðs maka og ömurlegrar móður, þarf ekki endilega að vera niðurdrepandi þótt þar beri mest á tortímandi sjálfsmynd og niðurrifshugsunum. Í fyrstu skáldsögu Kamillu Einarsdóttur, Kópavogskróniku frá 2018, er fjallað um skuggahliðar ástarinnar, niðurlægingu, höfnun og einsemd á hressilega gráglettinn hátt. 

Vodka á Catalinu

Sagan er um unga konu sem á hrakningum sínum um viðsjálar lífsins götur virðist hafa glatað sjálfsvirðingunni og orðið bæði sár og varanleg sködduð eftir ömurleg ástarsambönd en hressir sig á Catalinu með vodka og Magic í hálfslítraglasi (87). Twitter-stíll sem minnir oft á skets í góðu uppistandi, hressilegt málfar, glymjandi mótsögn milli þess sem sagt er og sýnt og óþolandi bið eftir hvenær sögukona fær loksins nóg af rugli sýna vel að mikið býr í þessari nýju skáldkonu og verður forvitnilegt að sjá hvernig hún tekst á við form og efni í framtíðinni. Hún teymir hikandi lesanda miskunnarlaust um endasleppar gangstéttir og litförótt gatnakerfi  Smiðjuhverfisins. En af hverju er Kópavogur sögusviðið? Jú, hann er óskáldlegasti staður í heimi, eina vonin um að það breytist er Herra Hnetusmjör.

Bergstaðastræti og Fífuhvammur

Hvernig má það vera að fólk hangi í ástarsambandi sem er bara svekkelsi endalaust? Furðu margir eru í svoleiðis aðstæðum, tímabundið eða að eilífu. Fastir í sambandi sem báðir kveljast í en sækja samt í að viðhalda því angistin er betri en óvissan, vonbrigðin skárri en einsemdin. Ástin getur verið svo nærandi, falleg og góð en ástarsambandið í sögunni er álíka rómantískt og haustdagar á Snorrabraut og stinningskaldi í nóvember (18). Og það ríkir ekki jafnræði á þessum bæ, hann er Elvis í hennar augum en hún sjálf einskis virði, hún lítur á líkama sinn sem rusl sem aðrir hafa hent og annað kvenfólk er Bergstaðastræti meðan hún sjálf er Fífuhvammur. Hann er kötturinn Púki sem klappar manni aldrei til baka (121), hún er klunnalegur og áttavilltur súperman-kall í Atari 2600 leik frá 1979 (83), hún er vonlaus en hann er verðlaunatré; samanburðurinn birtist skýrt í myndmálinu, alltaf henni óhagstæður. 

Persónurnar eru nafnlausar, sögukona heitir ekkert enda er hún ekkert í eigin huga, karlarnir eru plastpokamenn; forritari, rappari eða vöðvatröll. Einn elskhuganna er tónsmiður sem óendanlega grimmur í eymd sinni og þunglyndi hefur fundið í henni undirgefið konugrey til að skeyta skapi sínu á. Þjáningum hennar er lýst með bullandi kaldhæðni sem reynist auðvitað haldlítið skjól fyrir litla egóið hennar sem engist yfir því að fá enga næringu, bara þessa hrikalegu höfnun. 

Höfnunarbakflæði

Heitust er ástin sem hún ber til svonefnds verðbréfamiðlara og blossar upp þegar hann hengir sokka á snúru og hellir upp á kaffi (en býður henni ekki), þegar hann sleikir puttana og stynur svo fallega. Alltaf passar hún sig á að segja ekki neitt sem gæti styggt hann, alltaf er hún tilbúin að ganga í augun á honum, þóknast og þiggja. Blasir við öllum að þetta er glatað samband en sá sem er ást-fanginn horfist auðvitað ekki í augu við það. Milli þeirra er svonefndur „ástleysissamningur“ því það er svo töff að vera bara bólfélagar án tilfinninga og skuldbindinga, en það veldur samt „höfnunarbakflæði þegar hún reynir að kremja það inn í sér að hún sé farin að elska hann smá (67). Það er sorglegt þegar hana langar svo að spyrja þennan gaur af hverju hann vilji aldrei gera hana glaða, heldur bara aðrar stelpur, en spyr hann aldrei því það er svo ósvalt og afhjúpandi. Hún þorir ekki að vera berskjölduð – helst vildi hún vera eins og Klingoni, kaldur, beinskeyttur og skipulagður (77), skemmtileg líking. Loksins nær hún botninum bókstaflega,  þegar hún skúrar eldhúsgólfið hjá honum í þynnkunni (120). 

Þar sem ástin er hötuð

Biturrar kaldhæðni gætir víða í textanum og skýlir sársauka sem djúpt er á: „Undarlegast var að hitta forritarann sem bjó í Kársnesinu og bauð mér oft í heimsókn. Hann talaði nokkur evrópsk tungumál auk C og Python, en á engu þeirra gat hann sagt mér hvort hann vildi mig“ (61). Töffaraskapurinn er allsráðandi og breitt yfir kvölina með stælum: „Það er eiginlega alltaf betra að fá sér kanilviskí sem bragðast eins og jólasveinn hafi brundað upp í mann en að vera að velta sér upp úr tilfinningum“ (108). Atburðarásin er endalaus lúppa hugsana og grátbroslegra athafna við að ná athygli og ástum manns sem vill hana ekki og hún er sjálf margsinnis búin að loka á. Það er eitthvað hrífandi við það hvernig textinn snýst upp í undarlega andhverfu eða mótsögn þegar lýst er sársauka sem má ekki sýna, ást sem má ekki orða, tilfinningar sem má ekki hafa, þörf sem ekki má minnast á. Kópavogskrónika er ástarsaga þar sem ástin er hötuð, tilfinningar eru hallærislegar og slepjulegar, nánd skelfir og traust er ekki til. 

Sagan er skrifuð til dóttur sem var lítið barn þegar sambandið við verðbréfamiðlarann ómótstæðilega er í algleymingi en kemur annars lítið við sögu. Í síðasta kaflanum þegar dóttin er ávörpuð á ný, var ég búin að steingleyma því að sagan væri skrifuð til hennar. Ramminn gerir kannski ekki sérlega mikið fyrir söguna nema þá til að sýna að móðurinni er varla viðbjargandi, að eigin mati að minnsta kosti. Í eftirfarandi heilræði hennar fléttast saman sinnuleysi og kaldhæðni en það er reyndar nokkuð til í þessu góða uppeldisráði: „Ef þú eignast barn, gefðu því nógu margar Astrid Lindgren bækur, kenndu því að smyrja sér samloku og leyfðu því svo bara að finna út úr restinni“ (47). 

Rómantískt æði

Það er langþráð að heyra rödd skynseminnar undir lokin í sögunni: „Lagskonan tók aldrei undir svona óra hjá mér. Spurði svona bara í gamni hvort mér væri ekki ljóst að hugmyndir um rómantík og góð sambönd væru samsæri feðraveldisins til að búa til bljúga og viljuga kynlífs- og heimilisstarfaþræla. Sýndi mér svo hvað heimilisþrífandi, rassamyndatakandi botox konum væri mikið hampað í fjölmiðlum… „Dísess, ertu enn að spá í hann? Hvað sérðu eiginlega við hann? Er hann ekki alltaf bara leiðinlegur við þig?“ (110). Þið, sem eigið svona vinkonur, munuð ekki glepjast af rómantísku æði, ekki lenda í ruglinu og til hamingju með það!

„Elsku Kópavogur með allar sínar óskiljanlegu gangstéttir sem byrja og enda út í bláinn. Elsku Byko með alla sína ullarsokka fyrir fólk sem notar skó númer 50“ (97-8): þetta er sagan  þín, þetta er sagan um lífið í Smáralind og á Smiðjuvegi, á dekkjaverkstæðinu í Digranesi og í apótekinu þar sem treoið fæst. Í Kópavogum heimsins er óforbetranlegt fólk sem lætur sig dreyma um ást og rómantík en raunveruleikinn rekst oft harkalega á við drauminn, eins og sjá má af þessum línum, sem gætu verið tíst eða ljóð eða hvort tveggja: „Get ég ekki labbað á einhvern með fullt fangið af blöðum? Við tínum þau upp saman og lífið verður dans á rósum…?“ (100).

 

Áður í Víðsjá, 16. janúar 2019

 

Tengt efni