SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir 6. október 2021

HAMRABORGIN, OBAMA OG JAPANSKAR ÁLAKLÁMMYNDIR - Viðtal við Kamillu Einarsdóttur


 
Kamilla Einarsdóttir hefur verið vinsæl á samfélagsmiðlum um árabil. Fyndnar frásagnir og kómísk ummæli náðu athygli bókaútgefanda sem bað hana um að skrifa bók. Þannig varð til fyrsta skáldsaga Kamillu, Kópavogskrónika, sem kom út árið 2018. Sögunni var afar vel tekið en leikrit eftir henni var sett upp í Þjóðleikhúsinu tveimur árum síðar. Nú í haust er síðan að koma út ný skáldsaga eftir Kamillu sem ber titilinn Tilfinningar eru fyrir aumingja. Við tókum Kamillu tali og ræddum við hana um skáldskapinn, innblástur og aðdáanda hennar, Obama.
 
Hvernig bækur lestu helst?
Ég les helst skáldsögur, ljóð, sagnfræði og ævisögur. En stundum fæ ég einhverja dellu fyrir einhverju eins og úreltri læknisfræði eða gömlum Landsyfirrjettardómum. Ég veit ekki hvað ég dett í næst, kannski brúarverkfræði eða bækur um ellilífeyrisþega í Eyjaálfu. Það er svo margt til í heiminum sem ég á eftir að kynna mér.
 
 
Þar sem þú vinnur á Landsbókasafninu ertu umkringd mjög mörgum og margvíslegum bókum stóran hluta dagsins. Veitir það þér innblástur?
 Eitt það besta við að vinna á bókasafni er að hitta á hverjum degi fólk sem hefur mjög ástríðufullan áhuga á einhverju. Mér finnst botnlaus nördaskapur sjarmerandi. Bækurnar sjálfar geta líka veitt alls konar innblástur. Sumar af því þær eru svo skemmtilegar og spennandi en líka þær leiðinlegu. Það er gott að hafa þær í bland því þá er hægt að hugsa: „Jæja, úr því að þetta kom út get ég líka alveg leyft mér að skrifa einhverja ömurlega vitleysu.“
 
 
Eru einhverjir höfundar í sérstöku uppáhaldi hjá þér?
Hannes Finnsson biskup sem skrifaði bókina Mannfækkun af hallærum á Íslandi verður alltaf uppáhaldið mitt. Að skrifa bók þar sem hann fer yfir helstu hungursneyðir og hallæri á Íslandi til að hressa fólk við og sannfæra þau um að það sé alveg hægt að komast í gegnum eitthvað meira mjög slæmt finnst mér stórkostlegt.
 
Áttu þér einhverjar fyrirmyndir þegar kemur að skáldskapnum?
Þórdís Gísladóttir hefur verið mér mikil hvatning. Hún byrjaði að gefa út bækur frekar seint svona miðað við marga en hefur ekkert látið það neitt þvælast fyrir sér. Svo er hún bara svo klár og skemmtileg að ég hugsa oft um að það væri gaman að verða jafn góð í þessu og hún, sem er mjög metnaðarfullt markmið!
 
Hefur sagnfræðinámið haft einhver áhrif á ritstörfin?
Ég byrjaði í sagnfræði (en kláraði hana ekki) bara út af áhuga á alls konar sem gerðist í gamla daga en ég veit ekki hvort að námið frekar en bara þessi áhugi hafi haft nein bein áhrif. Kannski á ég samt eftir að skrifa einhverja bók um sauðfé einn daginn. Þá getum við kennt sagnfræðinni um, hún er með kindur á heilanum.
 
Þú átt sögu í bókinni Ástarsögur íslenskra kvenna. Getur þú sagt okkur frá henni og hvað kom til að þú birtir þessa sögu?
María Lilja og Rósa Björk sem söfnuðu saman sögunum í þá bók höfðu samband svo ég skrifaði fyrir þær þessa stuttu sögu. Þetta var mjög gott framtak og ánægjulegt hvað sú bók gekk vel. Hún fékk margar konur til að byrja að birta eitthvað eftir sig og ég veit um nokkrar sem hafa haldið því áfram eftir þetta sem mér finnst gaman.
 
Hvernig kom það til að þú skrifaðir Kópavogskróniku?
Hann Bjarni hjá Bjarti/Veröld hafði samband og stakk upp á því að þau myndu gefa út bók eftir mig og ég var ekkert alveg sannfærð um að það væri sérstaklega góð hugmynd en svo kíkti ég í kaffi og það var svo góður andi hjá þeim og fólk með hundana sína hjá sér á skrifstofunni og Bjarni náði að sannfæra mig um að þetta yrði allt í lagi.
Ég ákvað að prófa að skrifa eina bók svo dýrin þarna yrðu ekki leið.
 
Hvert sóttir þú innblástur við skrifin á bókinni?
Cafe Catalina í Hamraborg gæti auðveldlega verið innblástur í nítján bækur.
 
Kópavogurinn og Hamraborgin eru miðlæg í bókinni, líkt og titillinn kannski gefur til kynna, hvers vegna þessir staðir?
Ég byrjaði að hanga í Kópavogi því ég var í ástarsorg. Í þannig ástandi er ekkert gaman að vera í Reykjavík. Þar er alltof margt tengt einhverjum minningum. Þá er svo gott að skipta alveg um umhverfi. En ég á ekki mikla peninga og er ekki með bílpróf svo þegar ég lagði upp með að stinga af komst ég ekki lengra en upp í Kópavog.
 
Ég fann fljótt að það er mjög gott að vera í Kópavogi svolítið blúsuð á því. Þó það væri ekki nema bara vegna þess að gangstéttirnar og skipulagið þar eru svo flókið að það þýðir ekkert að vera að velta sér upp úr einhverri eymd, þar fer öll orkan í að reyna að rata og verða helst ekki fyrir bíl á meðan.
 
Þú varst líka með leiðsögn/göngu um Hamraborgina í sumar, hvers vegna er þessi staður þér svona hugleikinn?
 Þessir labbitúrar með fólk um Hamraborg hafa nú eiginlega bara verið smá grín enda veit ég varla hvort það sé hægt að segja að ég viti endilega svo mikið um þennan stað. En mér finnst mjög gaman að sýna fólki Hamraborg því það er allt til alls þarna fyrir fullkomin dag. Það er hægt að fara í lautarferð í undirgöngunum, hægt að kaupa sér blómvönd og kíkja í ljós. Fá sér svo beinagrindatattú og kíkja svo út að borða og fá sér nokkra bjóra á Catalinu. Þessi staður er algjör ævintýraperla.
 
Varstu með einhvern ákveðinn lesendahóp í huga þegar þú skrifaðir Kópavogskróniku?
Ég reyndi helst að hugsa ekki of mikið um það, bjóst svona hálfvegis við að það myndi enginn nenna að lesa þetta sem er að mörgu leyti bara best, þá er þetta minna stressandi.
 
Þú beitir óspart íróníu og háði, af hverju ferðu þá leið?
 Það er örugglega hægt að finna einhverjar hræðilega sorglegar ástæður fyrir því. En mér finnst líka einfaldlega skemmtilegra að grínast bara eitthvað þegar ég segi frá. Það gerir allt bærilegra.
 
Þú fékkst Rauðu hrafnsfjöðrina, verðlaun fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins 2018. Kom það þér á óvart?
 Ég sat ekki við símann og beið eftir að Lestr­ar­fé­lag­ið Krummi, sem veitir Rauðu hrafnsfjöðrina, hefði samband. Það var samt gaman fyrir mig að fá þessi verðlaun. Fullt af mjög kúl fólki eins og Elísabet Jökuls og Sjón og svona búið að fá þau á undan mér svo þetta var bara skemmtilegur heiður.
 
Sumir tala um hversu erfitt þeim finnist að skrifa kynlífslýsingar. Nú skrifar þú mjög hispurslaust, er það þér eiginlegt?
 Fólk hefur samt fundið út úr því öldum saman, enda er kynlíf eitthvað sem flestir hafa upplifað og þess vegna finnst mér og mörgum öðrum ekkert mál að minnast á það. Mér finnst erfitt að skrifa um hluti sem ég hef enga reynslu af eða þykir ekkert sérstaklega geðfellt. Ég gæti til dæmis illa skrifað rómantíska bók um fólk sem heldur lífi í sambandinu sínu með að endurleika senur úr japönskum álaklámmyndum. Mér þykir svo vænt um dýr og hef litla sem enga reynslu af rómantík svo ég yrði í miklu basli með að skrifa þannig bók.
 
Hvernig var að fylgjast með bókinni verða að leiksýningu?
Þegar Ilmur og Silja höfðu samband og sögðust vilja gera leikrit varð ég alveg steinhissa en var mjög til í að hitta þær því mér finnst þær svo spennandi og kúl. Þær buðu mér að vera eins mikið með og ég vildi en ég hafði engan áhuga á að þvælast of mikið fyrir. Ég treysti þeim fullkomlega til að gera þetta vel og var bara spennt að sjá hvernig þær myndu vinna upp úr þessu.
 
Það er mikill heiður að verkið manns verði innblástur að nýju listaverki og ég er ennþá djúpt snortin yfir því að Þjóðleikhúsið hafi gert leikrit úr þessari bók.
 
 
Gætir þú kannski hugsað þér að skrifa leikrit í framtíðinni?
Áður en ég kynntist vinnunni í kringum Kópavogskróniku í leikhúsinu hefði ég sagt nei en eftir að hafa séð hvernig samvinna alls konar fólks í að búa til spennandi leikmynd og ljós og hljóð og hvernig leikarar blása lífi í karaktera og allt svoleiðis er ég miklu spenntari fyrir meiri svona vinnu.
Eins og bara á fyrsta samlestrinum þegar ég heyrði Sigríði Sunnu Reynisdóttur lýsa hugmyndum sínum um leikmyndina þá hugsaði ég: „Æ, æ, æ, þetta hljómar nú bara eins og hún sé kannski ekki með öllum mjalla“ því ég bara gat ekki séð þetta fyrir mér en svo seinna þegar ég sá það sem hún bjó til þá bara gapti ég og ég skil ennþá ekki hvernig það er hægt að vera svona klár eins og hún. Ég væri til í að vera bara að sópa áhorfendapallana þarna í sjálfboðavinnu til að geta fylgst með því hvernig hún býr til list.
 
 
Stefnir þú að því að gefa eitthvað út á næstunni og ef svo er hverslags efni megum við eiga von á frá þér?
 Það er að koma út önnur skáldsaga núna fljótlega sem heitir Tilfinningar eru fyrir aumingja. Hún er um vinahóp, fólk um fertugt sem er komið með smá leið á því að það hefur eignilega ekkert að tala um nema drenið sitt og þannig fasteignaviðhald svo það ákveður að stofna þungarokkshljómsveit. Samt veit það eiginlega ekkert um metaltónlist og kann ekki einu sinni neitt voðalega mikið á hljóðfæri. Í leiðinni fjallar bókin um leit aðalsöguhetjunnar að ástinni.
 
Svo langar mig að klára eina bók af smásögum og jafnvel að prófa að skrifa eitthvað sem er ekki bók.
 
 Áttu mikið af efni í skúffunni sem þú hefur enn ekki gefið út?
 Ég ligg ekkert á möppum sem hafa legið á mér eins og einhver mara. Ég er miklu spenntari fyrir því sem ég á eftir að skrifa en því sem ég er búin með nú þegar.
 
Hvernig finnst þér fyrir unga og nýja höfunda að koma sér á framfæri?
Ég hef ekki reynslu af því að vera sérstaklega ungur höfundur en þekki það að vera ný í bransanum og ég hef ekki yfir neinu að kvarta. Mér finnst allir svo elskulegir og hjálpsamir. Við erum svo fá hérna á Íslandi að það þekkja allir alla og blessunarlega flestir mjög til í að hjálpast að við þetta allt saman.
 
Þú ert líka virk á samfélagsmiðlum og skrif þín þar vekja oft mikla lukku. Hvort kanntu betur við Twitter eða Facebook og hvers vegna?
Mér finnst þetta vera frekar ólíkir miðlar. Sumt passar betur á öðrum staðnum, eins og það passar stundum betur að senda email en að senda messenger skilaboð. Annars reyni ég að pæla ekkert of mikið í samfélagsmiðlum, þeir geta gert okkur alveg rugluð. Það hentar mér alla vega best að umgangast þá bara af temmilegu kæruleysi.
 
Er Obama enn að fylgja þér á Twitter?
 Já og ég veit ekki ennþá af hverju ég og nokkrir aðrir Íslendingar lentum á followlistanum hans. En hann er kannski sérstakur áhugamaður um íslenskan bömmer og hvað fólk er að segja um Vikan með Gísla Marteini, hver veit.
 
Þú stýrðir umræðum á Bókmenntahátíð sem var haldin hátíðleg um daginn, hvernig var það?
 Bókmenntahátíðir eru svo skemmtilegar. Bókalestur og -skrif eru yfir það heila frekar einmanaleg áhugamál svo það er alltaf algjört æði að fá að hanga með öðrum sem hafa áhuga á þessu svo ég varð mjög glöð þegar þau hjá Bókmenntahátíð í Reykjavík buðu mér að vera með í ár. Ég fékk að spjalla við Maríu Elísabetu Bragadóttur, Þórarinn Eldjárn og Joachim Schmidt sem var mikill heiður fyrir mig og eitthvað sem ég væri til í að endurtaka í hverri viku.
Eina sem ég var spæld yfir var að fá ekki í leiðinni boð á Bessastaði því mig langar svo að athuga hvort ég geti fundið gröfina hennar Apolloniu Schwarzkopf en það mission verður bara að bíða betri tíma.
 
Eru orðin spennt fyrir jólabókaflóðinu? Og eru kannski strax einhverjar bækur komnar á leslistann?
Ég er mjög spennt fyrir nýju skáldsögunni eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur systur mína sem heitir „Guð leitar að Salóme“. Svo eru Auður Jónsdóttir og Fríða Ísberg og fullt fullt af öðrum spennandi rithöfundum að gefa út skáldsögur sem ég get ekki beðið eftir að leggjast yfir. Allar þessar nýju bækur eru það besta til að lifa af skammdegið.
 
Hvað er á döfinni hjá þér fyrir utan að fylgja eftir væntanlegri skáldsögu?
Vonandi bara að lesa og skrifa meira og hitta stundum sæt dýr sem er gaman að klappa. Þá verður lífið gott.
 
Við þökkum Kamillu fyrir spjallið og hlökkum til að lesa nýju skáldsöguna sem er væntanleg á næstu vikum.

 

Tengt efni