AFLEIÐINGAR KYNFERÐISOFBELDIS
Þórdís Þúfa, Þín eru sárin, Þúfan 2024, 264 bls.
Ung kona, Laufey, verður fyrir árás að næturlagi á Klambratúni þar sem hún er við einhvers konar persónulega helgiathöfn að raða steinum inni í rjóðri og er með sextán mánaða dóttur sína með í för. Barnið er vakandi, situr uppi í vagni og verður vitni að árásinni sem felur í sér grófa og ofbeldisfulla tilraun til nauðgunar. Frásögnin snýst um eftirköst árásarinnar, um líðan Laufeyjar sem lengst af telur sjálfri sér trú um að hún hafi fulla stjórn á málum, þurfi ekki faglega hjálp, geti sjálf unnið úr þeim tilfinningum sem hún þarf að glíma við eftir atburðinn. Í ljós kemur að þar skjátlast henni hrapalega og frásögnin lýsir í raun hægu en öruggu niðurbroti hennar í kjölfar atburðarins. Þó virðist hún ekki átta sig á því sjálf, jafnvel þótt hún geti varla fest svefn sólahringum saman, sé úrvinda og taugatrekkt.
Bókin skiptist í þrjá hluta sem nefnast HENDINGUR (9-102), SKILNINGSLEIT (105-199) og Í BATA (203-264). Það er þó varla hægt að segja að frásögnin sýni það ferli sem fram kemur í þessum yfirskriftum og alls ekki ljóst að fullkominn bati hafi átt sér stað í bókarlok. Nýyrðið hendingur vísar til atburðarins, árásarinnar sjálfrar. Laufey á bágt með að skilja ástæðuna fyrir því að þetta kemur fyrir hana því hún trúir því að allt eigi sér skýringar, orsök og afleiðingar. Í upphafi frásagnarinnar kemur fram að hún hefur fyrir árásina stundað mikla sjálfsvinnu og hún lýsir þannig:
Mér fannst ég hafa gert mitt allra besta til að eiga áhyggjulaust og ánægjulegt líf. Ég taldi mig hafa unnið úr öllum fortíðarmeinum, losað mig við allt úrelt og komið jafnvægi á öll samskipti. Ég hafði aldrei vandað mig eins mikið í daglegu lífi og undanfarna mánuði […] Ekkert var eftir óuppgert að mínu viti og mér leið yndislega, allt var svo hreint. (9)
Af þessum sökum kemur árásin Laufeyju í opna skjöldu, það er eins og hún trúi því að með sjálfsvinnu og ákveðnu hugsanaferli geti hún haft fullkomna stjórn á lífi sínu og aðstæðum. Þessi hugsanavilla veldur henni miklum þjáningum og kallar fram ranghugmyndir þegar hún reynir að finna orsökina fyrir því að hún varð fyrir árásinni. Hún telur sér jafnvel trú um að rangt matarræði eigi þar hlut að máli. Þetta er sá þáttur í persónuleika Laufeyjar sem einna erfiðast er að skilja og tengist líka ýmsu öðru sem kenna má við persónuleg trúarbrögð Laufeyjar, hún lýtur leiðsögn innri raddar sem hún kallar Maríuröddina og hlýðir henni í einu og öllu, jafnvel þótt leiðsögnin virðist oft leiða hana út í að gera hluti sem eru fáránlegir, eða eins og segir í bókinni:
Mörg skrefin voru átakanleg í framkvæmd. En alltaf lenti ég með báða fætur á jörðinni, sífellt áttvísari og æðrulausari gagnvart áliti annarra á mér. Og við lok hvers ferlis upplifði ég alltaf þakklæti og aukið traust, gagnvart Maríuröddinni og lífinu almennt.
Smám saman dró úr því að röddin beindi mér að umturnandi eða vandræðalegum aðgerðum, hamagangurinn sjatnaði og lífið varð leikandi ljúft, ekkert vesen. (11)
Laufey notar líka Maríuröddina sem afsökun fyrir eigin gjörðum, eins og þegar hún segir: „ég hefði aldrei farið svona seint út með Veru nema af því mér var sagt að gera það. Maríuröddin sagði mér það. Hún ýtti mér út í þetta.“ (16)
Vera er hin unga dóttir Laufeyjar, barnsfaðirinn heitir Finnur en þau búa ekki saman því þau vilja vera „utan við normið“ eins og þar segir. Finnur er þó alltaf til staðar fyrir Laufeyju og dóttur þeirra, kemur þegar á hann er kallað og aðstoðar eftir megni, annars er lögð fremur lítil rækt við persónusköpun hans í bókinni og er hann því fremur óljós sem karakter.
Í fyrsta hluta bókarinnar er frásögnin fremur hæg og á köflum ofur nákvæm. Lýst er í smáatriðum því sem Laufey tekur sér fyrir hendur fyrstu daga eftir árásina og samtölum hennar við Finn. Stundum reynir þessi ofurnákvæmni og smáatriðalýsing á þolinmæði lesanda því oft er hér um að ræða atriði sem skipta engu máli fyrir framvindu frásagnarinnar. Hér er eitt dæmi af mörgum:
„Ég ætla að hringja í Ásgeir leigusala í dag eða á morgun og láta hann vita að við flytjum um þessi mánaðamót, ég var hvort eð er búin að segja honum að það væri mjög líklegt. Og við fáum lyklana að Tjarnarstíg á laugardaginn, ég sagðist myndu hitta Kristján þar klukkan fjögur. Laugardagurinn er tuttugasti og sjötti, ekki satt?“
„Jú, það passar. Ættum við þá að reyna að flytja um helgina?“
„Nei, þá eru flutningabílarnir svo dýrir. Gerum þetta frekar á virkum degi, á þriðjudaginn eða fimmtudaginn þegar ég er í fríi. Annað hvort tuttugasta og níunda eða þrítugasta og fyrsta.“ (21)
Laufey reynir að viðhalda sinni venjulegu rútínu eftir árásina og finnst hún vera sterk og í góðu jafnvægi. Tveimur dögum síðar er hún mætt í vinnuna, tilvitnun: „Það bítur greinilega ekkert á mig, hugsaði ég og glotti hreykin með sjálfri mér. Flestar konur lægju örugglega grenjandi í rúminu núna, en ekki ég“ (24). En þetta er blekking, henni líður illa, hún er sífellt á varðbergi, tekst ekki að sofna á næturnar og þjáist af höfuðverk. Eftir þrjá daga ákveður hún að leita til lögreglu, sem hún hafði ekki ætlað sér í fyrstu, og í gegnum skýrslutöku lögreglu fær lesandinn nákvæma lýsingu á árásinni og árásarmanninum.
Í öðrum hluta bókarinnar, sem hefur yfirskriftina Skilningsleit, kynnist Laufey annarri konu sem var nauðgað og heimsækir hana. Hún sýnir Laufeyju ljósmynd af nauðgaranum og hún sannfærist um að það sé sá sami og réðst á hana. Þrátt fyrir að hafa hlotið dóm gengur hann enn laus og hér er fjallað um getuleysi réttarkerfisins til að taka á nauðgunarmálum. Laufey ákveður því að fremur en vísa lögreglu á manninn skuli hún taka málin í sínar eigin hendur, sem hún gerir með nafnlausum bréfasendingum til mannsins, sem eiga að gera honum ljóst að með honum sé fylgst og honum ráðlagt að bæta ráð sitt.
Stór hluti þessa kafla flest í að lýsa annarri nauðgun sem Laufey var fyrir þegar hún var sautján ára og þar kemur einnig fram hversu ráðalaust kerfið er að taka á svona ofbeldismálum en í því tilviki var nauðgaranum sleppt úr fangelsi vegna geðrænna vandamála.
Þrátt fyrir góðan ásetning og sjálfsvinnu batnar ekki andlega líðan Laufeyjar, hún tekst enn á við ótta og svefnleysi, brestur stundum „í grát, af óþreyju og örvæntingu en þó umframt allt af sturlaðri þreytunni“ (183) og fyrir kemur að hana langar að deyja.
Síðasti hluti bókarinnar nefnist Í bata. Það er þó alls ekki ljóst af frásögninni að Laufey sé raunverulega í bata, enn marka eftirköst árásarinnar alla hennar tilveru. Óvæntur snúningur á frásögninni verður þegar hún sér árásarmann sinn í matvörubúð og áttar sig á að hann er ekki sá sem hún hafði haldið eftir fund sinn með hinni konunni sem hafði verið nauðgað. Laufey hefur verið að senda bréf til allt annars manns. Hvort í þessum mistökum sé fólgin vísbending um að ekki sé alltaf hægt að reiða sig á eigin ákvarðanir og gjörðir er þó ekki ljóst.
Á baksíðu bókarinnar segir að Þín eru sárin sé „einlæg og ögrandi saga þar sem höfundur fjallar um eldfimt málefni af áræðni og hispursleysi“. Ég get tekið undir að frásögnin sé einlæg en er ekki alveg viss um í hverju ögrunin er fólgin. Einnig set ég spurningamerki við þá fullyrðingu að málefnið sé eldfimt eða erum við ekki komin yfir það að umræða um nauðgun og afleiðingar hennar sé eitthvað sem ekki megi ræða á opinberum vettvangi? Skáldsaga Þórdísar Þúfu fjallar fyrst og fremst um alvarlegar sálrænar afleiðingar hrottalegrar árásar og sem slík er hún áhrifrík og gott innlegg inn í umræðu um kynferðisofbeldi. Ofurnákvæmni frásagnarstílsins gerir lesturinn þó langdreginn á köflum og lesandinn saknar þess ljóðræna stíls sem Þórdís hefur áður sýnt að hún hefur á valdi sínu.
Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á rás 1, 25. nóvember 2024