LJÓS LÍFSINS OG SKUGGAR
Gerður Kristný: Jarðljós. Mál og menning 2024.
Jarðljós er tíunda ljóðabók Gerðar Kristnýjar en hún kvaddi sér fyrst hljóðs fyrir þrjátíu árum með Ísfrétt. Á milli þessa tveggja ljóðabóka liggur farsæll og fjölbreytilegur ferill markaður margs konar verkum en það er í ljóðunum sem list Gerðar rís hæst og varla þarf að hafa mörg orð um stöðu hennar í íslenskri samtímaljóðlist; flestum er ljóst að hún stendur þar í fremstu röð.
Jarðljós skiptist í fimm ótitlaða hluta með mismörgum ljóðum, stundum má sjá þematíska þræði binda ljóð hvers hluta saman en sum ljóðanna standa stök og vel fyrir sínu. Bókin hefst á minningarljóði til unglingsstúlku sem tók eigið líf fyrir örfáum árum og sver bæði efniviður og ljóðmálið sig í ætt við önnur ljóð þessa skálds sem ort eru af svipuðu tilefni, sér í lagi á ljóðabálkinn Sálumessu (2018). Í fleiri ljóðum minnist höfundur kvenna og örlaga þeirra enda hefur það yrkisefni leitað mjög á skáldið. Gerður Kristný yrkir til að mynda um Evu Braun, eiginkonu Hitlers, um myndhöggvarann Nínu Sæm og verk hennar, Hafmeyjuna, um Rannveigu, móður Gunnars Hámundarsonar, og um Hel og Skaða úr norrænni goðafræði. Annar hluti bókarinnar hefst síðan á ljóði um aðra unglingsstúlku sem varð fyrir hrottalegri árás hermanna í Reykjavík árið 1945. „Ljóð um stúlku“ og önnur ljóð þessa hluta tengjast öll stríði á einn eða annan hátt. Óvænt vending á því þema er ljóðið „Sundlaug Akureyrar“ þar sem:
Konaní afgreiðslunniskilur hvert orðHún sér viðþátíð og þolfalliheggur viðtengingarháttí herðar niður
Ljóðmælandi ályktar að sé stríð afgreiðslukonunnar „mælt í málfræði“ hafi það „staðið of lengi“. En það eru stærri og mikilvægari stríð sem helst leita á Gerði; vísað er til seinni heimstyrjaldarinnar og Hiroshima, sem og til yfirstandandi þjóðarmorðs í Palestínu, skilji ég ljóðið „Ákvæðaljóð“ rétt, en þar yrkir Gerður um vin sinn:
Nú lýturland þittóvininumHann eyðiröllu fögruleggur undir sigrústirnar og rykiðeymdina og óttann
Í fyrrnefndu ljóði um Steinunni, stúlkuna sem hermennirnir réðust á þegar hún var á leiðinni heim úr Austurbæjarskóla, er þess minnst að:
Herinnreisti braggalagði vegiog flugvöllí mýrinni miðrien líka barn í gröfina
Með snilldarlegu myndmáli sem á yfirborðinu vísar til flugvallarins í mýrinni er komið á framfæri undirtexta sem kann að vekja upp mynd af hrottalegri nauðgun:
Flugbrautirnareins og ókindhefði rist upp landiðmeð hvössum klóm
Glæpamál þetta var þaggað niður á sínum tíma en með ljóðinu hefur Gerður Kristný reist „minningarmark / um myrta stúlku“, líkt og hrafnarnir í ljóðinu gera með laupi sínum á þaki skólans.
Þriðji hluti Jarðljóss hefst á ljóðinu „Háaleiti“ og hefur að geyma æskuminningu um ör á hvirfli vinkonu. Vinkonan hefur þagað um þann örlagaríka viðburð sem ljóðið greinir frá, enda segir í síðasta erindinu:
Ör sýnaað það sé sagaað segjaen baraef maður vill
Titill ljóðsins vísar til hverfisins sem Gerður Kristný ólst upp í og í þessum bókahluta yrkir hún um ýmis kennimerki í 101 Reykjavík svo sem Austurbæjarskóla, Hallgrímskirkju, Spítalastíg, Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands. Sum þessara ljóða minna á (og eru kannski vísun í) ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur úr Klukkan í turninum (1992) og líkt og Vilborg gerir í þeirri bók býður Gerður Kristný upp á snjalla og ögrandi nýja túlkun á lykilatriði í Njálu í ljóðinu um Rannveigu, sem finna er í fjórða hluta bókarinnar, þar segir meðal annars:
Hvergi er sagtvið hvern þú talarÞú gætir hafasnúist á sveifmeð tengdadótturinni […]
Í ljóðabókinni Sálumessu vísar Gerður Kristný á nokkrum stöðum í morðmálið á Sjöundá þar sem sakborningarnir, Steinunn og Bjarni, voru dæmd til dauða. Þar hugsar hún til Steinunnar, sem lést í varðhaldi og var dysjuð á Skólavörðuholti, en hér fær Bjarni rödd í löngu ljóði sem hefur yfirskriftina „Bölbæn“. Í ljóðinu fáum við innsýn í hugsanir Bjarna þar sem hann er fangi á skipsfjöl á leið til Noregs þar sem dauðadómnum skal fullnægt, en þar má meðal annars lesa:
Þjóð mínlítilsigld og langrækinvíkur sér undansvo hún sjái ekkihvar hönd mín er höggvinhöfuð skorðað á stöng
Í ljóðinu fléttast saman flókin þemu á borð við ást og söknuð, fátækt og morðæði, illsku og ótta, refsingu og dauða og hér tekst Gerði Kristnýju líkt og svo oft áður að segja mikla sögu í meitluðu áhrifaríku ljóðmáli. Það má telja merkilega tilviljun að rödd Bjarna fær einnig að hljóma í öðru nýtútkomnu verki, bókinni Dauðadómurinn eftir Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing þar sem hún leitast líkt og Gerður Kristný við að draga upp aðra mynd en frá sjónarhorni yfirvalda.
Í lokahluta Jarðljóss bregður Gerður Kristný á leik með biblíusögur á snilldarlegan hátt þar sem hún mátar frásagnir af fæðingu Krists, kraftaverkum hans, dauða og upprisu, við líf og dauða í íslenskri sveit. En það er fleira en biblíusögur undir hér og meistaratök Gerðar Kristnýjar felast ekki síst í hvernig hún vefur þær saman við íslenskan veruleika og íslensk minni með vísunum í þjóðsögur, ljóð og sagnir. Þessi ljóð mætti gjarnan lesa upp í kirkjum landsins á aðventunni. „Um stundarsakir / lögum við okkur / að ljósinu“ segir í ljóðinu „Blíða“ sem finna má í þessum lokahluta og segja má að andstæðan ljós og myrkur sé rauði þráður ljóðabókarinnar. Þótt titillinn vísi til jarðarinnar er það ekki síður himnaljósið og ljósið innra með manneskjunni sem ort er um – í bland við myrkrið sem verður á vegi okkar allra, beint og óbeint, í náttúru, mannlífi og mannshuga.
Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði, 2024.