SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir28. nóvember 2024

SAMKENND

Var að lesa ljóðabókina hennar Gerðar Kristný ,,Jarðljós".

Fyrsta hugsunin um ljóðin voru á þessa leið, bókin er full af samkennd og hlýju. Ég fann góða strauma og vellíðan við lesturinn.  Samkenndin er vanmetin nú á tímum einstaklingshyggunnar. Hugsum ekki bara um okkur sjálf, heldur setjum okkur í spor annarra.

Gerður fer með lesandann vítt og breytt um fortíðina. Úr þjóðsögum má lesa margt á milli lína.

Hendur
Gest ber að
á báti
siglir beitivind
að landi
 
Valbrá skyggir
vanga
visin hönd
stingst úr ermi
 
Álfar lögðu
á hann bölvun
þá barn í reifum
 
Kemur nú maður
eftir fjörunni
og tekur
höndina veiku
í sínar
magnar henni mátt
 
Vindar kyrrast
sjór leggst dauður
 
Gesturinn tálgar
fugla úr fjörusteinum
á meðan hann
bíður byrjar
 
Þegar hann siglir
á braut
vakna fuglarnir
og fljúgja úr höndum hans 
 

Hér er ort um fatlaðan einstakling. Eru fatlaðir einstaklingar enn í dag að berjast fyrir réttlæti, þó svo að í mannréttindalögunum sé þau skilgreind sem eitt af margbreytileika hversdagsins? 

Bókin gæti líka verið ágætis gagn og ítarefni með sögukennslunni, þar sem staðreyndir sögunnar ráða ríkjum og samkenndin er víðs fjarri. Kennum samkennd, láta nemendur læra að bera virðingu fyrir fólki um leið og staðreyndir eru þuldar upp.

Ljóð um stúlku er átakanleg frétt um unga stúlku sem myrt var af hermönnum á stríðsárunum, hún var á leið heim úr skólanum.

Ljóðið um Hel og ljóðið um Skaða úr norrænu goðafræðinnni, bætir heilmiklu við feminíska hugsun og svo mætti áfram telja. 

Ljóðið um Háskólann er fullt af hlýju og virðingu. Þekkingin sem þar er kennd færir okkur frelsi, því má ekki gleyma.

Háskólinn rís
upp af hæðinni
 
virki byggt úr
þeirra bjargföstu trú
að vernda skuli
allt sem gott er 
og satt
 
mýri
murtu
viðtengingarhátt
 
Bílastæðin
bogadreginn síki
 
Hið vonda hörfar
á vindubrúnni
óttast að vera
barið með bók
 
Á kvöldin
lýsa kastarar
upp virkisvegginn
 
Birtast þá menn
á múrnum
sem risar
 
Þannig er Háskólinn
 
stækkar okkur
svo við megum
vernda allt sem gott er
og satt
 
siði
sögu
vörumerkjastjórnun

 

Og nú er bókin tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og það er vel.

Kveðja

Magnea

 

 

Tengt efni