SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. desember 2024

FRELSUÐ Í HELGRI SÁTT - Þín eru sárín eftir Þórdísi Þúfu

Laufey hefur loksins púslað lífi sínu saman, unnið úr áföllum og náð að tengjast fólki á ný. Hún hefur eignast barn með fyrirmyndarkærastanum sínum, er að skrifa skáldsögu og allt leikur í lyndi. Hún heyrir að vísu raddir og ruggar sér í takt við þær og sér allskonar undarlegar tengingar, t.d. í tölustöfum, sem styðja þær hugmyndir hennar að ekkert sé í rauninni tilviljun. Svokölluð Maríurödd er hennar leiðarljós, sem hingað til hefur stýrt henni í gegnum lífið til hins betra.

Þetta er staðan í upphafi nýrrar bókar Þórdísar Þúfu með þeim fallega titli, Þín eru sárin. En kvöld eitt er ráðist á Laufeyju á Klambratúni og reynt að nauðga henni. Það er áfall ofan á öll áföll lífsins sem Laufey taldi sig vera búna að vinna í og hreinsa út.  Var þá ekkert að marka Maríuröddina? Er kona aldrei óhult? Og sektarkenndin fer strax að naga, hvað var hún að þvælast úti um kvöld?

Laufey fer fyrst formlegar leiðir til að ná fram réttlæti, leitar til lögreglu sem hefur mestan áhuga á af hverju hún hafi verið með barnið úti svona seint um kvöld og sigar á hana barnaverndaryfirvöldum. En síðan tekur hún málin í sínar hendur og það á mjög óvenjulegan hátt en ekki óskeikulan. Í því ferli áttar hún sig m.a. á því hversu víða er að finna konur sem hafa orðið fyrir  kynferðisofbeldi.

Smátt og smátt fer ofbeldið að hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Laufey getur ekki gengið til náða nema loka gluggum og athuga hvort útidyrnar séu örugglega læstar. Óttast að mæta nauðgaranum í hverfinu, nær ekki að sofa, brestur í grát, fær þrálátan höfuðverk, taugarnar nötra, augun verða sár af andvökum. Hún hélt að hún gæti komist í gegnum þetta ein en verður að horfast í augu við að það er ekki hægt. Leitað er óhefðbundinna leiða til að vinna úr áfallinu: „Auðvitað var ég örugg - ég sem var búin að hreinsa allt svo vel orkulega og vandaði mig svo mikið í daglegu lífi... einkum í ljósi þess að ég var búin að átta mig á hvað árásin þýddi og fyrir vikið hætt að borða hveitimat“ (189-190). Ef það á að vera kaldhæðni í þessari málsgrein er erfitt að koma auga á hana. 

Þetta er ekki skáldsaga. Þarna eru persónur, hversdagsleg samtöl og einfaldur söguþráður, langar lýsingar á hvunndagslegri iðju eins og flutningum og samskiptum við leigusala en engin skáldleg tilþrif eins og ljóðræna, tvíræðni eða myndmál. Raunsæisleg frásögnin gæti eins verið úr dagbók eða endurminningum. Er þetta skáldævisaga, er Þórdís sjálf Laufey? Svo mun vera en það er ekkert sem lesandinn hefur endilega upplýsingar um. En eflaust hefur það verið heilandi ferli að skrifa um þessa erfiðu reynslu og mögulega geta þorlendur kynferðisofbeldis samsamað sig við lýsingar á hvernig afleiðingarnar birtast þótt sagan færi hvorki frið né málalok.

Bestu kaflarnir eru þegar Laufey horfir til unglingsáranna. En á heildina litið eru of margir lausir endar og persónurnar tilþrifalausar og fljótandi. Undir það síðasta er Laufey að skoða táknrænar tölur og dagsetningar og reikna út að árásin hafi ómeðvitað orðið efniviður skáldsögu hennar og leyst hana undan áfallinu. Síðasti hluti bókarinnar heitir Bati  og Laufey segist þar hafa náð að „hnoða“ úr skelfilegum atburði eitthvað fallegt til að ylja sér við um leið og hún segist vera „frelsuð í helgri sátt.“ Þótt síðasti kaflinn innihaldi ljóðið Lausn, virðist Laufey enn vera að leita að svörum.

Tengt efni