ROF MILLI KYNSLÓÐA. Flaumgosar eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
Sigurbjörg Þrastardóttir. Flaumgosar. JPV útgáfa 2024.
Í nýjustu ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Flaumgosum, er að finna ljóð sem hefur yfirskriftina „þöglir göngutúrar“. Þar lýsir skáldið feðginum sem fara saman í göngutúra „sirka / einu sinni í mánuði“. Göngutúrarnir eru þöglir vegna þess að „þessi feðgin tala hvort sína tunguna“. Það er „frekar lygilegt frekar grátlegt“ að mati ljóðmælanda og það er þessi staðreynd sem er einn af meginþráðum ljóðabókarinnar, það er að segja sú staðreynd að bilið á milli kynslóða á Íslandi hefur stækkað svo mikið á síðustu hundrað árum eða svo að samskipti geta verið erfiðleikum háð. Það á ekki síst við um samskipti í gegnum tungumálið sem hefur tekið hröðum breytingum í takt við hraðfara breytingar á lifnaðarháttum, erlend áhrif, nýja tækni. Það er til að mynda „hverfandi sjens að lýsa slagviðri, fé“, segir undir lok ljóðsins – og lesandi gæti til dæmis ímyndað sér aldraðan föður úr sveit að tala um gemsa, eitt af þessum orðum sem yngri kynslóðir skilja á annan veg en þær elstu.
Síðasta ljóðlínan í þessu ljóði er náttúrulýsing sem dóttirin skilur ef til vill bara sem lýsingu á því sem fyrir augu ber en faðirinn veit hins vegar áreiðanlega að er vísun í ljóð Jónasar Hallgrímsson, „Ísland“. Einnig þarna er rof á milli reynsluheims þeirra eldri og þeirra yngri; þekking á íslenskri ljóðahefð er eitt af því sem hefur glatast svo til alveg, en slík þekking var lifandi þáttur í vitund þeirra Íslendinga sem voru fæddir um og upp úr aldamótunum nítjánhundruð. Vísunin í ljóð Jónasar lýkur líka upp einu aðal merkingarsviði bókarinnar – hafi það farið fram hjá einhverjum – því í ljóðinu er Jónas að mæra fornaldarfrægð Íslands og harma samtíma sinn og segir í lokin:
Ó, þér unglingafjöldog Íslands fullorðnu synir!Svona er feðranna frægðfallin í gleymsku og dá.
Ljóð Sigurbjargar hljómar hins vegar svona í heild:
þöglir göngutúrarþetta erfrekar lygilegt frekar grátlegtþessi feðgin tala hvort sína tungunaþöglir göngutúrarveikir kippirskrýtið og næs sirkaeinu sinni í mánuðihverfandi sjens að lýsa slagviðri, fé,leiðast til öryggiskippir í þindfannhvítir jöklanna tindar(80)
Eins og heyra má skýtur Sigurbjörg slettunum „næs“ og „sjens“ inn í ljóðmálið og það stílbragð má sjá í fleiri ljóðum. Þetta setur húmorískan blæ á mörg ljóðanna, sem kemur reyndar ekki á óvart þegar Sigurbjörg Þrastardóttir á í hlut því húmor hefur alltaf verið gildur þráður í ljóðum hennar. Víða í þeim ríflega hundrað ljóðum sem bókin samanstendur af rekst lesandi líka jöfnum höndum á nýyrði og gömul, jafnvel úrelt, orð og setur þessi blanda sérkennilegt yfirbragð á mörg ljóðanna.
Bókartitilinn, Flaumgosar, er eitt af þeim nýyrðum sem Sigurbjörg skapar í bókinni. Orðið hlýtur að vekja strax upp hugrenningatengsl við orðið glaumgosa, sem vísar til karlmanns sem stundar léttúðugt líferni. Fyrri hluti nýyrðis Sigurbjargar vísar til flaums tímans, samtímans sem virðist fljóta áfram á ógnarhraða í þeim straumi sem gjarnan er kenndur við framfarir og erfitt getur verið að henda reiður á. Við sem lifum þessa tíma erum þá flaumgosar og spyrja má hvort það sé einmitt sá flaumur sem hrífur manneskjuna með sér án þess að hún fái rönd við reist sem er helsti orsakavaldur streitu, kvíða, kulnunar og skorts á því sem kallað er núvitund og einfaldlega listin að lifa í núinu og njóta augnabliksins.
En er Sigurbjörg þá að syrgja hinu gömlu góðu daga? Má greina fortíðarþrá í þessum ljóðum? Því er ekki hægt að svara afdráttarlaust játandi, nema að hluta til. Að sjálfsögðu hafa kjör almennings á Íslandi batnað til muna á síðustu öld og enginn syrgir kulsama tíð í torfbæjum og erfiðisvinnu til sjávar og sveita. En það er hins vegar ljóst að ljóðmælanda finnst of langt gengið í lífsgæðakapphlaupinu. Sú skoðun kemur strax fram í fyrsta ljóði bókarinnar sem hefur yfirskriftina „Við erum hálsmeidd“ og hljómar þannig:
jú, við erum hálsmeidd eftir langar stöður undir súðvissum ekkertum það sítrónuhelvíti sembiði okkar viðbæsaðar eyjur eldhúsannaellegarólm hundsbit vinsældannasem yfir vofðufram með æstu tíðfljótinuvér stríðum enn við hálsmeiðsl eftir langar stöður undir súðen langar afturaftur meðæstu flotinu
Hinn skemmtilegi og nokkuð óvænti snúningur í lok ljóðsins, þegar æst tímafljótið breytist í æst flotið er gott dæmi um samslátt þess nýja og hins gamla í ljóðmáli Sigurbjargar og í mörgum fleiri ljóðum má sjá hvernig Sigurbjörg stefnir saman gömlu og nýju, fortíð og nútíð. Hún vill „færa saman skilning kynslóða með því að stefna saman einhverju sem við erum vön og öðru sem við þekkjum ekki“. Þessi orð eru tekin úr viðtali sem Kristín Heiða Kristinsdóttir tók við Sigurbjörgu og birtist í Morgunblaðinu fyrir tveimur mánuðum. Þar ítrekar Sigurbjörg jafnfram ástríðu sína fyrir tungumálinu og segir:
Í íslenskunni eru svo margir möguleikar, margt býr í málinu sjálfu sem ég vil ekki að tapist eða gleymist.Til dæmis hljómmikil gömul orð og kjarnyrt.
Með nýyrðasmíðinni vill Sigurbjörg bræða saman þessi hljómmiklu, kjarnyrtu orð við eitthvað nýtt og skapa þannig „neistaflug eða jafnvel skammhlaup“, eins og hún orðar það. Þessi aðferð Sigurbjargar er allrar athygli verð og oft verður úr eitthvað nýtt og skemmtilegt. En það verður líka að segjast að oft þarf lesandi að staldra við, lesa aftur og pæla í ljóðtextanum til að merkingin opnist og ekki er víst að hún opnist fyrir öllum. Sum ljóðanna eru ansi torráðin við fyrsta lestur og jafnvel við annan lestur og þann þriðja. Fyrir þau sem hafa gaman af ljóðalestri er þetta kannski fyrst og fremst kostur; að hægja á sér og brjóta heilann en ekki fljóta í gegnum bókinni flaumgosalega. En hætt er við að ljóðin í Flaumgosum verði ekki skilin til fulls án skýringa og er áðurnefnt viðtal við skáldið góður byrjunarreitur fyrir þá sem vilja komast alveg að inn í háræðakerfi bókarinnar, svo gripið sé til líkingar sem Sigurbjörg notaði sjálf í viðtalinu, þar sem hún segir vera að skoða háræðarnar í kjarna íslensku þjóðarinnar.
Flaumgosar er falleg bók á að líta. Hún er í fremur litlu broti, nett og fer vel í hendi, hönnuð af Höllu Siggu. Á nokkrum stöðum, á milli ljóðanna, eru blaðsíður með því sem virðast vera abstrakt teikningar, strik eða krúsídúllur. Kannski geta einhverjir lesenda greint þarna stafagerð en varla án einhverra vísbendinga. Í áðurnefndu blaðaviðtali útskýrir Sigurbjörg hvað hér er á ferðinni og að teikningarnar séu ekki valdar „af handahófi. Þær eru sóttar í handskrift, eru bútar úr flúri skrifaðra fundargerða Alþingis frá árinu 1912“. Síðan segir hún:
Mér fannst þetta tala við ljóðin og inntak þeirra, til dæmis minnir strikið á upphafssíðunni á brekku úr sveitinni. Við það að lesa fundargerðir þessara löngu horfnu skrifara, einhverra ónafngreindra náunga, þá varð okkur vel til vina. […] Alvöru lifandi fólk dró til þessara stafa og við það myndast ákveðin tengsl. Á forsíðu Flaumgosa er svo mynd dregin með handarhreyfingu í nútímanum, af Margréti H. Blöndal myndlistarkonu. Þetta er líka organísk handarhreyfing manneskju sem kallast á við flúrin fólksins frá 1912.
Það má fallast á að þetta er skemmtileg pæling og kallast á við meginþema ljóðanna sem áður var lýst. En þeim sem ekki þekkja þessa skýringu á „flúrunum“ er merkingin hulin og hætt við að þeir sjái bara strik, pár og flúr. Það kann líka að vera að eins fari við lestur sumra ljóðanna; að hugsunin að baki sé hulin og rof verði milli skálds og lesenda. Kannski verða Flaumgosar endurútgefnir í framtíðinni „með skýringum“ – líkt og Eyðiland T. S. Eliots og önnur þekkt bókmenntaverk sem ella væru lesendum sem „lokuð bók“.
Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá, rás 1, 18. des. 2024, en hér er aukið nokkuð við hann.