AÐ UPPSKERA FALLEGT OG GOTT LÍF - Um Þræði sem fléttast
Elínborg Angantýsdóttir, Ella, gaf út bók á eigin kostnað árið 2022, sem hún nefndi Þræðir í lífi Bertu. Sagan hefst um 1960 þegar Berta er lítil stelpa í sveitinni. Margar persónur koma við sögu og fylgst er með þeim og fjölskyldum þeirra í gleði og sorg, sigrum og vonbrigðum.
Nú er komið sjálfstætt framhald fyrri bókar og heitir Þræðir sem fléttast. Sagan hefst árið 1988. Berta og co halda áfram með lífið, hún elur upp syni sína og finnur ástina sem var nær en hún hélt, sama hendir Karólínu vinkonu hennar og Hall frænda.
Halla Sól tekur upp á að rekja þráð sem liggur til afans sem enginn þekkti, vanrækt barn fær skjól hjá fjölskyldunni og amman deyr södd lífdaga. Þettta og margt fleira drífur á dagana og öllu er lýst af einlægni, væntumþykju og virðingu fyrir persónunum og aðstæðum þeirra á ylhýru máli.
Í upphafi bókarinnar ávarpar sögumaður lesendur og ekki er annað að sjá en sagan sé byggð á sönnum atburðum með skáletruðum innskotum höfundar við frásögnina. Þetta er ljúf lesning þótt fjallað sé um sorgir og áföll, sveitalíf og samfélag á 9. áratug síðustu aldar þegar enn voru skrifuð bréf og farið á æfingar í Þjóðdansafélaginu; allt er þetta ljóslifandi.
„Hér hef ég skrifað af einlægni um líf mitt og fólksins sem mér þykir vænt um. Um þræðina sem við búum til með því að vera þau sem við erum og gera það sem við gerum. Stundum flétta örlögin lífsþræðina okkar saman, eins og af hreinni tilviljun, en stundum tökum við líka stjórnina í eigin hendur og oftar en ekki uppskerum við fallegt og gott líf. Líf sem er þess virði að því sé lifað og er gaman að segja frá“ segir Ella í bókarlok.